Spennuþrungin veisla

Spennuþrungin veisla

Hvernig er það heima hjá mér og þér? Hafa allir rými? Er leyfilegt að gera mistök? Er óhætt að segja hvernig manni líður eða má e.t.v. bara segja hvernig manni gengur?
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
26. september 2010
Flokkar

Í dag gefur guðspjallið okkur tilefni til að skyggnast óboðin inn í veislu þar sem aðeins útvöldum er boðið. Eitt augnablik fáum við að vera fluga á vegg, eins og maður gæti stundum óskað sér þegar reikna má með tíðindum. Og hér er það raunar frelsarinn sjálfur sem tekur að sér að innleiða óvænta atburðarás því ljóst er að hann notaði ekki alltaf viðurkennda frasa í kokteilboðunum og fór ekki hefðbundnar leiðir því hann hafði meiri áhuga á inntaki mannlegra samskipta en umbúðum þeirra.

Sagan byrjar svona: „Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.”  (Textann má finna í heild sinni í Lúkasarguðspjalli 14.1-14)

Við fáum að vita að Jesús er staddur inni á heimili, undir þaki einhvers tiltekins einstaklings, og ljóst er að loft er læviblandið, “...höfðu þeir gætur á honum” skrifar Lúkas. Maður spyr sig ósjálfrátt hvort þetta hafi þá e.t.v. ekki verið fyrsta og eina boðið þar sem Jesús þótt grunsamlegur eða óþægilegur gestur.

Og enn segir: „Þá var þar frammi fyrir honum maður einn vatnssjúkur. Jesús tók þá til máls og sagði við lögvitringana og faríseana:  ’Er leyfilegt að lækna á hvídardegi eða ekki?’  Þeir þögðu við.”  - Þögn og totryggni.    “Þeir þögðu við.  En hann tók á honum, læknaði hann og lét hann fara.  Og Jesús mælti við þá:  ‘Nú á einhver ykkar asna eða naut, sem fellur í brunn, mun hann ekki óðara draga það upp, þótt hvíldardagur sé?’  Þeir gátu engu svarað þessu.”  -  Þögn og tortryggni og líka vandræðagangur því fólk vissi að hann sagði satt.  “Þeir gátu engu svarað þessu.”  Enginn þorði að tjá sig.  Ekki var rými fyrir sjálfstæða hugsun. Hér voru vörslumenn kerfisins saman komnir.  Samkvæmt trúarkerfinu átti ekki að vinna neitt verk á hvíldardegi og enginn af þeim gestum sem þarna voru saman komnir treystu sér til að horfa á þennan vatnssjúka mann, sem stóð í neyð sinni frammi fyrir Jesú. Í staðinn horfðu þeir á kerfið sitt, öryggið sitt. Þeir höfðu augun á goggunarröðinni sem þeir voru með í og höfðu haft mikið fyrir að vinna sig upp eftir henni. Þess vegna gat enginn talað heldur.  -  Þögn, totryggni, vandræðagangur og  líka ótti.  - Þannig var ástandið undir þessu þaki, í þessu fína boði höfðingjans.

“Jesús gaf því gætur, hvernig þeir, sem boðnir voru, völdu sér hefðarsætin.” segir í sögunni.  Já, þarna í þessum mannfagnaði var aldeilis ekki hver sótraftur á sjó dreginn.  Þetta var sko almennilegt fólk.  Boðskortið í þessa veislu var merki, tákn um það að vera eitthvað í samfélaginu. Og sem fólk er að leggjast að borðum, eins og tíðkaðist nú þar og þá, gerist það að menn hefja kurteislegar stimpingar um bestu sætin.  Ég veit ekki nákvæmlega hver reglan var, það skiptir ekki máli hún var bara einhvern vegin og sum sætin þóttu fínni en önnur.   - “’Þegar einhver býður þér til brúðkaups...’ mælti Jesús og talaði yfir allan veislusalinn, ‘Þegar einhver býður þér til brúðkaups...’ -  allir gestirnir höfðu nú lent einhversstaðar misánægðir með sætin sín, og allir sperrtu eyrun, áhugasamir að heyra hvað þessi undarlegi kennimaður sem faríseinn hafði boðið hefði fram að færa..  Upphafsorðin virkuðu spennandi, hann var að byrja að tala um brúðkaup, öllum þykir gaman að slíku. ‘Þegar einhver býður þér til brúðkaups... þá set þig ekki í hefðarsæti.’  Menn lyftu augnbrúnum, en Jesús endurgalt áhorfið með brosi.  “Svo getur farið að manni  þér fremri að virðingu sé boðið, og sá komi, er ykkur bauð, og segi við þig:  ‘Þoka fyrir manni þessum.’  Þá verður þú með kinnroða að taka ysta sæti.”  

Ég býst við því að hér hafi ýmir hlegið og litið glaðhalkkalegir á næsta mann og viljað gera gott úr þessu, í þeirri von að ræðan yrði nú ekki lengri, því Jesús hafði einmitt komið beint inn á það svið þar sem ótti veislugesta var sterkastur. Hann hafði minnst berum orðum á goggunarröðina sem allir voru að pukrast með og kvelja sig yfir. En Jesús hafði ekki lokið máli sínu:  “Far þú heldur, er þér er boðið, og set þig í ysta sæti, svo að sá sem bauð þér segi við þig, þegar hann kemur: ‘Vinur, flyt þig hærra upp!’ Mun þér þá virðing veitast frammi fyrir öllum, er sitja til borðs með þér.  Því að hver sem upp hefur sjálfan sig, mun auðmýktur verða, en sá sem auðmýkir sjálfan sig, mun upp hafinn verða.”

Hér hafa veislugestir klappað markvisst í þeirri von að þessari óvenjulegu tækifærisræðu væri lokið. Og ég ímynda mér að gestgjafinn hafi viljað slétta svolítið yfir þetta. ‘Hemm, hemm,... við þökkum kærlega fyrir áhugaverða ræðu, en kæru vinir hér erum við komin til að lyfta glösum!  Og við skulum skála fyrir síðasta ræðumanni, þetta voru þörf orð, orð í tíma töluð....”  ‘Þegar þú heldur miðdegisverð..’  heyrðist þá þróttmikil rödd meistarans segja.  ‘Hamingjan góða, byrjar hann aftur!’ heyrist einhver hvísla. Menn líta til gestgjafans sem enn heldur kurteisisbrosinu, en gefur með líkamsstellingu sinni til kynna að nú sé meira en nóg komið. ‘Þegar þú heldur miðdegisverð, eða kvöldverð, bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum.’ 

Jæja. Nú var ekki lengur hægt að fela vandræðin.  Enginn með lágmarks greind gat horft framhjá því að Jesús var beinlínis að tala um þessa veislu, þessa gesti. Hann horfði áfram stíft á gestgjafa sinn: ‘Bjóð þá hvorki vinum þínum né bræðrum, ættingjum né ríkum nágrönnum. Þeir bjóða þér aftur og þú færð endurgjald. Þegar þú gjörir veislu, þá bjóð þú fátækum og örkumla, höltum og blindum, og munt þú sæll verða, því þeir geta ekki endurgoldið þér, en þú færð það endurgoldið í upprisu réttlátra.’

Mér finnst svo gaman að lesa það að í 15. versinu segir svo í beinu framhaldi:  “Þegar einn þeirra, er að borði sátu, heyrði þetta, sagði hann við Jesú:  ‘Sæll er sá, er neytir brauðs í Guðs ríki.’” Sæll er sá, er neytir brauðs í Guðs ríki.  Hvað þýðir það?  Það merkir ekkert. Þetta er bara svona dæmigerð kokteilboða setning opin í báða enda. Eins og einn góður Vestmannaeyingur hafði jafnan á orði ef eitthvað var vandræðalegt og skipta þurfti um umræðuefni hið snarasta þá sagði hann:  ‘Þær hafa það gott rollurnar í Hrauney!’ 

Hvað var Jesús eiginlega að meina með því að drepa svona í þessu partýi?  Hvað gekk honum til? 

Eitt af því sem hann örugglega var að gera, var það að hann vildi vekja þennan ágæta gestgjafa sinn til umhugsunar um sitt eigið húsbóndavald.    Hann vildi hvetja hann til að skoða hvernig hann þróaði sitt eigið heimilislíf. Þögn, totryggni, vandræðagangur og ótti blasti við augum Jesú. ‘Þú mótar andrúmsloftið hér, húsbóndi góður,’ var hann að segja.  ‘Hér undir þínu glæsta þaki er ekki pláss fyrir fólk. Hvorki fyrir gesti þína, sem troðast hver um annan, þótt fermetrafjöldinn sé yfrið nægur.  Né heldur fyrir þennan vatnssjúka mann, sem ekki mátti fá bót meina sinna í friði fyrir þér og þessu fólki sem þú velur í kringum þig. Gáðu að því til hvers heimili þitt er.’ Eitthvað í þessa veru trúi ég að Jesús hafi viljað tala við þennan höfðingja í flokki farísea.

Hann heldur því fram í einu rita sinna hann Gunnar Hersveinn heimspekingur að enginn verði fullþroska manneskja fyrr en hann stígi fram og leggi öðrum lið. Það er nefnilega ekkert merkilegt að leggja sjálfum sér og sínum lið. Það þarf meira til þess að stíga út fyrir einkarammann og sjálfhverfuna. Hið kristna siðferði snýst um það að ná að stíga út fyrir einkarammann og leggja ókunnum lið. „Þótt þér elskið þá sem yður elska, hver laun eigið þér fyrir það?” spyr einmitt Jesús í fjallræðunni. (Matt.5)

Heimili!  Það er stundum sagt í svona hátíðarræðum sem fjalla um allt og ekkert að heimilið sé hornsteinn samfélagsins. En það eru ekki marklaus orð.  Hugsaðu andartak um þeitt eigið bernskuheimili.  Bernskuheimili þitt. Um leið og ég segi bernskuheimili þitt þá erum við öll horfin héðan í huganum, sum okkar komin vestur á firði önnur suður með sjó eða inní eitthvert hverfi á höfuðborgarsvæðinu, og hvað munum við?  Við munum andrúmsloftið! Andrúmsloft bernskuheimilisins er okkur minnistætt.  Einstaka atburðir kunna að vera í móðu, jafnvel andlitum ástvina getur verið erfitt að ná fram í vitundina, af því við þekkjum þau í svo margvíslegu samhengi, en andrúmsloftið er eitthvað eitt. Andrúmsloft bernskuheimilisins umlykur alla æskuvitund okkar. Það er tilfinningin sem fylgir þér alla ævi, vitundin um það að vera upp vaxinn út úr einhverju. Og allar minningar þínar,  sjálfsmynd persónu þinnar, viðbrögð þín við öðru fólki í daglegu lífi, - allt er það í nánum tengslum við þetta andrúmsloft sem þú mótaðir ekki, bjóst ekki til og barst ekki ábyrgð á. 

Eru þetta ekki raunveruleg völd? Hefur eitthvað annað í lífi þínu mótað þig meira en þín eigin bernskuveröld?  Hefur nokkur önnur stofnun í samfélaginu haft afdrifaríkari áhrif á líf þitt? Ég er ekki viss um að þú munir hver var forsætisráðherra þegar þú varst átta ára, en þú manst hvar þú sast við eldhúsborðið og hvernig þér leið að sitja þar. 

“Hvíldardag nokkurn kom Jesús í hús eins af höfðingjum farísea til máltíðar, og höfðu þeir gætur á honum.” - Það er eitt að vera staddur á hlutlausum stað, kaffihúsi eða úti á torgi, og annað að vera undir þaki einhvers. Það er þessi staðsetning atburðarins sem gefur honum margfalt vægi. Það sem gerist inni á heimilum er miklu þýðingarmeira, en það sem gerist á hlutlausum svæðum. Heimili er valdastofnun. Hin raunverulegu áhrif þín og mín á mannkynssöguna liggja ekki í neinu sem við segjum eða gerum hér í þessu húsi eða í öðrum húsum úti í bæ, veistu það?  Raunveruleg völd okkar allra eru inni á heimili okkar sjálfra. Það andrúmsloft sem við mótum í samskiptum við ástvini, þau gildi sem við sköpum undir okkar eigin þaki, það er það sem telur. 

Sagan af tækifærisræðum Jesú í veislu höfðingjans, varpar ljósi á þetta.  Hver ertu?  Þú ert sá sem þú ert heima hjá þér. Þar getur þú ekki logið. 

Hugsum okkur nú öll eitt augnablik heim að okkar eigin kvöldverðarborði. Hvernig andrúmsloft ríkir þar? Væri óþægilegt að fá Jesú í dinner? Þyrftum við að hafa gætur á honum eða kannski frekar á okkur sjálfum? Undir þaki höfðingjans rýkti þögn, totryggni, vandræðagangur og ótti.  Þar var ekki rúmt um neinn, samt skorti ekki húsnæði.  – Hvernig er það heima hjá mér og þér? Hafa allir rými? Er leyfilegt að gera mistök? Er óhætt að segja hvernig manni líður eða má e.t.v. bara segja hvernig manni gengur?

Ég hvet sjálfa(n) mig og okkur öll til þess að spyrja okkur sjálf þegar við sitjum til borðs í kvöld: hvernig andrúmsloft móta ég á heimili mínu?

Amen.