Mér þykir einkar lærdómsríkt að lifa þessa daga. Ég átta mig á því núna þegar allt er einhvern veginn í uppnámi í umhverfinu, ýmis kennileiti samfélagsins sem eitt sinn voru bara á sínum stað, eins og forsetaembætið, Alþingi, bankakerfið og jafvel kirkjan eru á floti í hugum fólks og það er líkt og hinn óskráði sáttmáli sem gerir okkur að þjóð sé orðinn býsna óljós í vitund margra, - þá átta ég mig á því að lífið hefur nú líkast til bara farið um mann mjúkum höndum fram til þessa og e.t.v. er mál að vakna til lífsins og hleypa að sér nýjum hugsunum, skoða nýjar lausnir.
Síðustu daga hef ég af ýmsum ástæðum verið að rannsaka reiðina í mínu eigin hjarta alveg sérstaklega. Ég hef mínar ástæður til þess eins og hver annar. Reiði berst líka úr öllum áttum núna og maður er sífellt að skynja reiðibylgjur frá fólki.
Þá gerist það að textar þessa fjórða sunnudags eftir páska fjalla einmitt um reiðina og ráð Guðs við henni. Alltaf skal blessuð ritningin vera manni sama furðan.
Pistillinn kemur úr Jakobsbréfi og byrjar svona: „Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að, frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né flöktandi skuggar. Hann er ávallt hinn sami. Hann ákvað að láta orð sannleikans vekja okkur til lífs til þess að við skyldum vera frumgróði sköpunar hans.”
- Ég veit að svona texti er mörgum torskilinn en hér er m.a. að segja að allt sem er gott og fullkomið í lífinu sé gjöf frá Guði sem alltaf er hinn sami. Já, þótt allt sé á hvínandi ferð og kennileiti tilverunnar fljóti fyrir augum okkar þá breytist ekki Guð né haggast og hann vill vekja okkur til lífs með orði sínu.
Svo heldur postulinn áfram og gefur hollráð: „Vitið þetta, elskuð systkin. Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði. Því að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er í augum Guðs. Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði er frelsað getur sálir ykkar.” (Jak 1.17-21)
Hér fæ ég það góða ráð að hlusta vel. Vera með vakandi eyru, íhuga það sem ég verð áskynja og reyna að skilja það áður en ég byrjar að blaðra. Bjarni, vertu “fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.” Þessu vil ég taka við. Ef ég er fljótur til að tala þá er ég líklegur til þess að tala í reiði og slíkt er ekki einkamál mín sjálfs. Reiði er ekki öll eins. Til er réttlát reiði, holl reiði, frelsandi reiði jafnvel heilög reiði en öll er hún vandmeðfarin og stundum er hún bara eyðileggjandi og heimsk.
Af hverju voru ekki fleiri þátttakendur í 1. maí hátíðarhöldunum en raun bar vitni í góðviðrinu í gær? Við vitum það vel. Við erum þreytt á að vera reið, þreytt á því að láta gremjuna sameina okkur, enda þótt hún geri það. Þess venga var bara ekki stemmning fyrir fjöldagöngum. Við verðum að viðurkenna að það er leið og dösuð þjóð sem gengur inn í birtu vorsins að þessu sinni. Leið og dösuð þjóð. Hlustaðu í því ljósi á orð dagsins frá Esekíel spámanni. Það er Guð sem hefur orðið:
„Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.” (Esk 36.26-28)
Er til eitthvað svona? Getur þjóð eignast nýtt hjarta þegar allt er orðið steinrunnið í gremju? Getur þjóð eignast nýjan anda svo að hún fari að réttum boðum, haldi reglur og framfylgi þeim? Er það sjens? Getur það gerst að þjóðfélag finni samhljóm í einum anda þegar svo margt sem hún hélt að væri ekta hefur reynst vera fals og hún stendur með ekkert í höndum nema kolsvarta rannsóknarskýrslu?
Það er mjög merkilegt til þess að hugsa að Gamla Testamenntið sem m.a. inniheldur rit Esekíels spámanns er í eðli sínu ekkert annað en rannsóknarskýrsla. Þetta ritsafn var tekið saman í stórborginni Babýloníu um 600 árum fyrir Krist eftir að samfélag Hebreanna hafði ekki bara hrunið heldur hafði stór hluti þjóðarinnar verið herleiddur frá Júda, helgidómurinn í Jerúsalem lagður í rúst og allt var í kalda koli. Við vitum ekki hverjir sátu í nefndinni sem safnaði saman sögnum og minnum þjóðarinnar og raðaði þeim saman í þetta bókasafn, en ljóst er að tilgangurinn var sama knýjandi spurningin og rak okkur í það að stofnsetja rannsóknarnefnd Alþingis. Hvernig gat það gerst sem orðið er? er hin stóra spurning Gamla Testamenntisins rétt eins og rannsóknarskýrslunnar okkar. Hvernig gat heilt þóðfélag farið á hliðina með þeim hætti sem við blasir? Og það merkilega er að svörin eru hliðstæð. Eitt þema gengur í gegnum GT líkt og viðlag sem m.a. birtist í þessum orðum úr 5. Mósebók: „Þegar þú hefur hrist ávextina af ólífutrjám þínum skaltu ekki gera eftirleit í greinum trjánna. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá.” (5. Mós 24.20)
Fyrstu fimm bindi þessarar fornu rannsóknarskýrslu eru lögbækur, viðmið hins rétta siðar. Þar eru boðorðin tíu og ótal aðrar frásagnir sem sumar eru okkur fjarlægar sökum forneskju, en þar er sagan um Babelsturninn sem við skiljum svo fjarska vel í dag og líka sagan um gullkálfinn og þar er ítrekað lögð áhersla á rétt hins snauða og varnarlausa í landinu: „Þegar þú hefur hrist ávextina af ólífutrjám þínum skaltu ekki gera eftirleit í greinum trjánna. Það sem eftir er mega aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan fá.” Þetta heitir velferðarkerfi! Aðkomumaðurinn, munaðarleysinginn og ekkjan eru fulltrúar þeirra sem ekki hafa tengslanet en eiga samt að njóta mannréttinda. Það er ekki allt á floti. Sumir þættir veruleikans eru bjargfastir, t.d. mannréttindi og gildi almennrar velferðar.
Þess má og til gamans geta að í þriðja hefti þessarar fornu skýrslu er því líka staðfastlega slegið föstu að ekki sé hægt að eiga land: „Ekki má selja land fyrir fullt og allt því að ég á landið. Þið eruð aðeins aðkomumenn og leiguliðar hjá mér.” segir Guð. (3. Mósebók 25:23) Margt fleira mætti tína til sem varðar Hrunadans mannlegs samfélags og nefnt er til sögunnar þegar saga Ísraelsþjóðar er rakin í hverri bókinni af annarri og því lýst sem gott var og rétt og eins því sem ekki var samkvæmt bestu vitund í lífi og sögu þjóðarinnar. Bók Esekíels spámanns er þarna haldið til haga ásamt öðru þar sem hún er skráð í aðdragandanum að falli Jerúsalem og herleiðingunni þaðan og þegar þessu er öllu safnað saman hafa orð spámannsins þegar ræst: „Þú borg, sem úthellir blóði á strætum þínum, tími reikningsskilanna kemur. Þú gerðir þér skurðgoð sem þú saurgast af, þú ert sek vegna blóðsins sem þú hefur úthellt og saurguð vegna skurðgoðanna sem þú gerðir. Dagar þínir eru taldir, ár þín eru á enda. Þess vegna hef ég látið aðrar þjóðir hlæja að þér og gert þig að athlægi um öll lönd. Bæði þeir sem búa nærri þér og þeir sem búa þér fjarri hlæja að þér því að mannorð þitt er flekkað, svo róstusöm sem þú ert. Höfðingjar Ísraels, sem bjuggu í þér, treystu allir á mátt sinn til að úthella blóði. Faðir og móðir eru fyrirlitin í þér og þeir sem leita hælis beittir ofbeldi innan múra þinna, ekkjan og munaðarleysinginn kúguð í þér. Þú fyrirlítur það sem mér er heilagt [...]Ég slæ saman höndum mínum vegna okurgróðans sem þú hefur aflað þér.” (Esekíel 22.3-8,13)
Skapast einhver hugrenningatengsl hérna? „Faðir og móðir eru fyrirlitin í þér og þeir sem leita hælis beittir ofbeldi innan múra þinna, ekkjan og munaðarleysinginn kúguð í þér. Þú fyrirlítur það sem mér er heilagt [...]Ég slæ saman höndum mínum vegna okurgróðans sem þú hefur aflað þér.”
Bók Esekíels spámanns fjallar svo að öðru leyti um uppbyggingu Jerúsalemborgar, musterisins og þar með samfélagsins eftir hið herfilega hrun og eyðileggingu en kjarni þess loforðs sem hér er gefið, forsenda og farvegur hinna nýju tíma sem Guð lofar er fólginn í orðunum sem flutt voru og tilheyra textum dagsins. Hlustum aftur á þau orð og spyrjum okkur hvort eitthvað svona geti í raun gerst hjá okkar reiðu og leiðu þjóð:
„Ég mun gefa ykkur nýtt hjarta og leggja ykkur nýjan anda í brjóst. Ég mun taka steinhjartað úr líkama ykkar og gefa ykkur hjarta af holdi. Ég mun leggja ykkur anda minn í brjóst svo að þið farið að boðum mínum og haldið reglur mínar og framfylgið þeim. Þið skuluð búa í landinu sem ég gaf feðrum ykkar og þið skuluð vera mín þjóð og ég skal vera Guð ykkar.”
Amen.