„Jólin eru fjölskylduhátíð,“, segir afinn um leið og hann ber í borðið svo allt leikur á reiðiskjálfi. Barnið sem situr með móður sinni og móðurforeldrum við jólamatinn á aðfangadagskvöld á meðan útvarpsguðsþjónustan ómar í bakgrunni og kertaljósin varpa mildum ljóma um herbergið, horfir á afann háværa og upplifir greinilega angist og hræðslu.
Móðirin og amman sitja samanhnipraðar og láta æsinginn í kallinum líða hjá, á meðan hann lýsir skoðunum sínum á framgöngu hins illa heimsveldis, sem nú sé farið að drepa börn, með því að hella á þau napalmi og kveikja svo í þeim. Við sjáum í augum barnsins að það er allt annað en hátíð í faðmi ástríkrar fjölskyldu sem það upplifir á þessari fjölskylduhátíð.
Við sjáum þrjár kynslóðir sem hafa með ofbeldi og yfirgangi eiginmanns, föður og afa, kreppst og dofnað. Við sjáum hvernig móðirin hundskammar barnið og þvingar hugsjónum sínum með offorsi á það, þegar það seinna um kvöldið tjáir óskina um leikfangalest í jólagjöf, en það samræmdist ekki pólitískum skoðunum mömmunar á því hvað er gott og rétt í heiminum.
Þetta er svipmynd af bernskujólum Georgs Bjarnfreðarsonar eins og hana er að finna í kvikmyndinni Bjarnfreðarson sem fjallar um Georg Bjarnfreðarson og félaga hans Ólaf Ragnar Hannesson og Daníel Sævarsson.
Þeir sem hafa fylgst með þeim félögum í sjónvarpsþáttunum um næturvaktina, dagvaktina og fangavaktina, vita hvaða mann Georg hefur að geyma. Hann er óþolandi í stjórnsemi sinni og besservisserahætti sínum, fullur yfirlætis og hroka því hann veit alltaf best – hann er jú með FIMM háskólapróf. FIMM. Hann nýtur engra eðlilegra samskipta eða tengsla við fólk og kemur sér alls staðar út úr húsi. Sambönd hans við þá sem af einhverjum ástæðum ílengjast í návist hans byggjast á meðvirkni og misnotkun.
Sjónvarpsþættir um vaktirnar og kvikmyndin sem fylgdi í kjölfarið hafa notið fádæma vinsælda hér á landi. Með kvikmyndinni lýkur þessari stórsögu um þremenningana, sögu um íslenskt samfélag. Þegar horft er yfir þáttaraðirnar þrjár og kvikmyndina kemur í ljós einn meginþráður sem er spunninn frá upphafi til enda: Samskipti foreldra og barna. Markaleysi og vandamál foreldranna koma niður á börnum og um það hvernig börnin feta í fótspor foreldranna. Þremenningarnir eru börn sem fengu ekki að vera börn.
Georg er sonur hugsjónakonunnar sem hefur staðið í harðri réttindabaráttu alla sína ævi og boðið karlaveldinu byrginn. Hún er einstæð móðir og er stolt af því að hafa komið syni sínum ein til manns. Sósíalisminn er hennar heimspeki og Svíþjóð Olafs Palme hennar fyrirheitna land.
Daníel er læknissonurinn sem kemur úr borgaralegu umhverfi efnaðrar fjölskyldu sem stundar iðjusemi og kaupir listaverk en hefur ekkert pláss fyrir börnin til að fylgja sínum eigin draumum og verða það sem þau vilja sjálf.
Ólafur Ragnar er sonur svikahrappsins og smákrimmans sem er alltaf að reyna fyrir sér í nýjum og nýjum bissniss sem fer beint á hausinn. Hann er gagnrýnislausi smákapítalistinn, innblásinn af dægurmenningunni, sem nær aldrei flugi en dregur fjölskyldu og vini með sér í fallinu.
Þessi persónuflóra er áminning til samfélagsins og foreldranna um hættur í samskiptum foreldra og barna. Hún er ákæra á hendur þeim sem ekki standa sig. Sem slík er hún afar beitt og er enginn þjóðfélagshópur undanskilinn.
Hér kvikna líka spurningar um hvaða ljósi þættirnir og myndin varpar á samskipti kynjanna og hvernig þætti karla og kvenna er gerð skil. Aðalpersónur og þær sem njóta flestra blæbrigða og nosturs í persónusköpun eru karlar – en hlutverk þeirra kvenna sem koma fyrir í sögunni er nær alltaf bundið við framvindu sögunnar sem slíkrar og í neikvæða átt frekar en hitt. Í því má sjá áminningu um ójafnan hlut karla og kvenna í samfélagslegri umræðu.
Bjarnfreðarson er þroskasaga. Við vitum orðið heilmikið um þremenningana og höfum fengið dýpri sýn á sögu þeirra, hvers vegna þeir eru eins og þeir eru, hvers vegna þeir flækjast í samskipti sem eru meðvirk og niðurbrjótandi og hvers vegna þeim tekst aldrei að vera eins og fullorðið, myndugt fólk, sem stendur vörð um reisn sína og misnotar ekki aðra heldur sýnir þeim virðingu og tillitssemi. Allir þrír breytast og þroskast í framvindu sögunnar. Ekki síst Georg. Það er magnað að upplifa hvernig aðstandendum myndarinnar tekst að láta áhorfandann fá samúð með og finna til í hjartanu yfir þessari persónu sem er líklega mest óþolandi og fáránlegasta persóna íslenskrar kvikmyndasögu – og þótt víðar væri leitað.
Samúð áhorfandans með Georg kviknar ekki síst í því að þegar hann hefur áttað sig á því hvers eðlis samband hans við Bjarnfreði er háttað. Þá gengur hann í sjálfan sig og gerir upp við kreppuna sem hann hefur lifað við alla tíð. Hann finnur barnið í sér aftur, í gjöfunum sem teknar voru frá honum og hann fékk aldrei að taka utan af og leika sér með, og í sambandinu við föðurinn sem honum var meinað að þekkja.
Sjónvarpsvaktirnar þrjár og bíómyndin Bjarnfreðarson varpar upp mynd af íslensku samfélagi með því að beina athyglinni að samskiptum foreldra og barna. Þannig vekur sagan okkur til umhugsunar um hvernig við erum sem þjóð. Sem slík er hún vel þess virði að við horfum og hlustum og að við tökum þeirri áskorun sem sagan geymir.