25Á þeim tíma tók Jesús svo til orða: „Ég vegsama þig, faðir, Drottinn himins og jarðar, að þú hefur hulið þetta spekingum og hyggindamönnum en opinberað það smælingjum. 26Já, faðir, svo var þér þóknanlegt. 27Allt hefur faðir minn falið mér og enginn þekkir soninn nema faðirinn, né þekkir nokkur föðurinn nema sonurinn og sá er sonurinn vill opinbera hann. 28Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin, og ég mun veita yður hvíld. 29Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. 30Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt.“ Matt.11.25-30.
Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Jesús talar um vandamál hyggindamannanna og spekinganna í guðspjalli dagsins, vanda menntafólks þess tíma sem bundið var klafa regluverksins í gyðingdómnum.
Við þekkjum orðið ok í íslenskri málhefð. Það merkir klafi eða helsi, það sem erfitt er að bera og losna undan. Við getum notað orðið byrði sem kemst næst málnotkun okkar í dag. Allir vita hvað byrði er. Þegar ég ferðaðist um Kenía forðum þá sá ég alls staðar fólk sem gekk með vegunum. Það bar sinn mat, vatn, hríslur og eigur sínar og fór sína leið. Ég spurði mig stundum að því hvert allt þetta fólk væri að fara? Ég talað um það við fermingarbörnin nýlega að konur í Afríku sæju um að sækja vatn langar leiðir fyrir fjölskylduna. Það er algengt að þær beri þrjá 5 lítra vatnsbrúsa frá vatnsbóli til heimilis síns.
Jesús sakaði menntafólk síns tíma, prestana, faríseana og fræðimennina um að setja óþarfa byrðar á fólk sem höfðu kúgandi áhrif á það. Þessi klafi birtist ekki síst í regluverki gyðingdómsins. Þar sem gyðingur mátti t.d. ekki banda flugu í burtu sem lenti á nefi hans eða höfði á hvíldardegi.Hann varð að bíða þar til flugan færi sína leið. Þetta reglugerðarverk kom einnig í veg fyrir að unnt væri að hjálpa fólki með ýmsum hætti á þessum degi. Jesú benti á þessa annmarka þegar hann læknaði lamaðan mann á hvíldardegi. Með þessu gaf hann þau skilaboð að kærleikurinn væri fremst allra boðorða og að enginn ætti þess vegna að láta hjá líða að hjálpa einstaklingi í nauð þótt hvíldardagur væri.
Jesús hvatti jafnvel almenning til þess að kasta af sér byrði nýlenduherranna því að enginn ætti að vera íþyngjandi herra þeirra á meðal. Þess í stað ætti fólkið að vera hvers annars þjónar í kærleika. Nýlenduherrarnir á þessum tíma voru Rómverjar sem settur miklar skattbyrðar á almenning og sölsuðu undir sig lönd og eignir og verðmæti.
Jesús talaði ekki aðeins um það ok sem aðrir setja okkur á herðar. Hann talaði einnig um það ok og byrðar sem við setjum sjálf á okkar herðar sem hafa íþyngjandi áhrif á þreytta líkama okkar og sálir.
Þegar ríki ungi maðurinn kom til Jesú og steig niður úr gljáfægðum hestvagni sínum þá spurði hann Jesú: ,,Hvað á ég að gera til þess að eignast eilíft líf?” Jesús sagði honum að fjarlægja byrði ríkidæmisins, selja eigur sínar og taka upp annað líferni því að sín byrði væri létt í samanburði við þá byrði sem ríki ungi maðurinn bæri. Vissulega væri nauðsynlegt að eiga peninga en þá ætti að nýta í þágu alls samfélagsins í stað þess að þeir söfnuðust á fáar hendur
Hann var byltingarmaður sinnar samtíðar, velti um steinum og réðst að kýli samfélagsins. Hann tók sér stöðu með almenningi, ekki síst smælingjunum, gegn valdhöfum landsins. Hann sagði að virða bæri valdhafana sem færu eftir settum leikreglum en hann beindi spjótum sínum gegn hvers kyns valdníðslu og spillingu sem kæmi niður á almenningi. Hann var málsvari réttlætis og mannúðar og kærleika og átti þá ósk heitasta að samfélagið efldist af sönnum dyggðum, trú, von og kærleika.
Orð Jesú í guðspjallinu eiga enn við í dag. Almenningur á Íslandi er saklaus af þeim skuldaklafa sem á eftir að íþyngja þjóðinni um langt skeið. Við þurfum að bera byrðar sem óráðsía hyggindamanna og spekinga fjármálageira samtímans leiddi af sér. Það er alls ekki réttlátt og við köllum eftir réttlæti. Mun færri krónur eru í buddunni um mánaðamótin vegna hækkana á öllum sviðum. Almenningi svíður undan auknum álögum en ég þakka Guði fyrir að við búum við gott heilbrigðiskerfi, betra en margar aðrar þjóðir og gott menntakerfi. Við erum rík af náttúruauðlindum sem ber að nýta með skynsömum hætti í þágu þjóðarinnar.
Það er ekki allt svart framundan. Það er ekki dauði og djöfull í hverju horni. Við verðum að horfa bjartsýn til framtíðar. Það veltur allt á því að okkur auðnist það með heilbrigðum hætti.
Ég velti því fyrir mér hvort laga-og reglugerðarverkið sem við búum við geti náð utan um vandann sem þjóðin stendur frammi fyrir þannig að réttlætið nái fram að ganga? Ég vona að svo verði. Í ljós hefur komið að stefnuskrár stjórnmálaflokka hafa verið af þverbrotnar af valdaklíkum í flokkunum til þess að hygla þeim sem hafa safnað sér auði á undanförnum árum. Heiðarlegt fólk í þessum flokkum má sín lítils gegn þeim sem auðinn eiga sem reyna nú að tryggja sér stöður í valdapíramída þjóðfélagsins. Sumir eru beinlínis lagðir í einelti fyrir að voga sér að vera málsvarar réttlætis á þessum endurreisnartímum þegar kallað er eftir auknu gegnsæi og upplýsingaflæði til almennings. Margt er enn á huldu því að sumt þolir ekki að líta dagsins ljós. Þess vegna reyna nú nokkrir valdhafar í krafti auðs að þagga niður það sem er óþægilegt afspurnar. Það er eins og það megi ekki spyrja gagnrýninna spurninga. Hvað hafa menn að fela? Það þarf að velta við þessum steinum og ráðast gegn kýlum samfélagsins og hreinsa þau með öllum hugsanlegum meðulum, ekki síst meðulum kirkjunnar, iðrun og fyrirgefningu, sáttfýsi með skilningi, trú, von og kærleika. Falleg orð af vörum mínum en þau þurfa að heyrast í samskiptum almennings og þeirra sem komu þjóðinni á hvolf. Vissulega getur þjóðkirkjan komið að málum í þeirri sáttargjörð sem þarf að eiga sér stað í þjóðfélaginu en þjóðkirkjan nýtur þrátt fyrir allt trausts hjá meirihluta þjóðarinnar.
Í gær var haldinn þjóðfundur í Laugardalshöll í Reykjavík. Um 1500 manns var boðið með úrtaki úr þjóðskrá. Um er að ræða frábæra hugmynd og framtak sem vakti athygli út fyrir landsteinana. Þarna kom grasrótin saman og skiptist á skoðunum um það sem mestu varðar fyrir íslenska þjóð til framtíðar litið. Allir fengu að tjá sig sem er mjög mikilvægt að mínu mati. Þarna voru þöggunartilburðir ekki leyfðir. Í fréttum gærkvöldsins var sagt frá helstu niðurstöðum. Ég tók eftir orðinu ,,Heiðarleiki” á skjánum. Maður að nafni Carlyle sagði eitt sinn: ,,Temdu þér sjálfum heiðarleika og þá ertu öruggur um að það er þó einum þorparanum færra í veröldinni”. Og forseti Bandaríkjanna Georg Washington sagði: ;,Heiðarleikinn er ekki aðeins besta heldur eina rétta pólitíkin”.
Þjóðin þarf á öflugum heiðarlegum leiðtoga að halda sem leitt getur hana út úr þrælahúsi skuldaklafans. Sá leiðtogi verður að njóta óskoraðs traust þjóðarinnar. Hann er ekki að finna sem stendur í hópi stjórnmálamanna sem njóta lítils trausts hjá þjóðinni. Mér finnst mikilvægt að það sé einstaklingur sem njóti virðingar og trausts og sýni með dagfari sínu að hann hafi kristnar dyggðir í heiðri, t.d. kærleika, hógværð og lítillæti.
Það er svo auðvelt að falla í þá gryfju að skara eld að eigin köku og verja stöður sínar í samfélagspíramídanum hvað sem það kostar. Það er líka svo auðvelt að dæma aðra í stað þess að líta í eigin barm. Það er mun erfiðara en þarft verkefni fyrir marga nú um stundir, ekki síst þann sem hér mælir.
Syndin er lævís og lipur og hún hreiðrar um sig í hugskotum heiðarlegasta fólks. Þess vegna er mikilvægt að horfa daglega til frelsarans Jesú krists sem sigraði synd og dauða og gaf okkur von því að hjá honum er fyrirgefningu að fá, ekki síst í heilögu altarissakramenti sem okkur gefst tækifæri til að meðtaka í messunni í dag. Jesús hefur gefið okkur skynsemi, vit og vilja, hendur og fætur, ,,til að leysa fjötra rangsleitninnar, láta rakna bönd oksins, gefa frjálsa hina hrjáðu og sundurbrjóta sérhvert ok”. (Jes:.58.6 )
Það er mikilvægt að lifa í kristinni von sem heiðarlegt kristið fólk og hvíla í Guði eins og sagt er um þá sem gefa sér tíma í dagsins önn til að láta uppbyggjast af orði Guðs með bæn og beiðni, ásamt þakkargjörð. Í þessu er fólgið frelsi kristins fólks. Það er engum gert að gerast kristinn. Það er ekkert ánauðarok þar á ferðinni heldur tilboð sem tekur öllum tilboðum fram.
Í dag sem fyrr segir Jesús við okkur hvert og eitt: ,,Komið til mín, öll þér sem erfiðið og þunga eruð hlaðin og ég mun veita yður hvíld. Takið á yður mitt ok og lærið af mér því að ég er hógvær og af hjarta lítillátur og þá munuð þér finna hvíld sálum yðar. Því að mitt ok er ljúft og byrði mín létt”. Amen.