Lesendum fyrra pistils undir þessari fyrirsögn kann að finnast að
höfundi hafi þar tekist bærilega að mála skratta á vegg. Svo má vel
vera. Verra væri ef einhverjum fyndist hann væna heimili landsins, skóla
og jafnvel þjóðkirkjuna um að hafa hlaupist undan skyldum sínum eða
mistekist það hlutverk að veita æsku landsins þá trúarlegu mótun sem er
forsenda fyrir lífrænum tengslum þjóðkirkju og þjóðar í framtíðinni. En
hér er því haldið fram að framtíð þjóðkirkjuskipanarinnar hvílir öðru
fremur á tengslum kirkjunnar við þjóðina, þ.e. fólkið í landinu. Hér er
ekki litið svo á þverrandi trúarmótun sé sprottin af mistökum eða
vanrækslu. Þvert á móti stöndum við hér frammi fyrir afleiðingum
róttækra trúarfélagslegra breytinga sem gengið hafa yfir Vesturlönd á
undangengum tveimur til þremur öldum. Þær voru vissulega síðar á
ferðinni hér en víðast annars staðar en vindur nú fram af því meiri
hraða.
Frá trúarmenningu til einstaklingshyggju
Fram til 1874 var það borgaraleg skylda Íslendinga að tilheyra lúthersku
kirkjunni og ala börn sín upp í samræmi við kenningu hennar. Þetta
leiddi til þess að hér var við lýði trúarmenning af líku tagi og í
mörgum ríkjum múslima nú á dögum. Trúin var hvarvetna sýnileg í opinberu
rými, vald foreldra yfir börnum var ríkt t.a.m. hvað varðaði makaval,
öll börn voru skírð og fermd, hjónavígslur voru allar kirkjulegar sem og
útfarir og gert var ráð fyrir að allir fullveðja einstaklingar væru
reglulega til altaris. Mikil festa ríkti á þessu ytrabyrði trúarinnar
enda var til þess ætlast að hún efldi samstöðu og samhyggju í
samfélaginu sem og hlýðni við yfirvöld. Af þessum aðstæðum verður aftur á
móti ekki dregin sú ályktun að allir hafi verið trúaðir, ekki hafi gætt
efasemda og að samsömun allra við kirkjuna og trúna hafi rist mjög
djúpt þótt svo væri vissulega um suma þá eins og nú.
Nú á dögum víkur öðru vísi við. Með stjórnarskránni 1874 var innleitt hér trúfrelsi og í kjölfarið tók trúarhugsunin að breytast. Áherslan færðist frá lögboðinni samstöðu og samsömun með kirkjunni til sannfæringar og samvisku einstaklingsins. Í stað trúarmenningarinnar kom trúarleg einstaklingshyggja. Nú ræður afstaða hvers og eins því hvort viðkomandi ber börn sín til skírnar, fermist kirkjulega eða borgaralega eða gengur í kirkjulegt að borgaralegt hjónaband o.s.frv.
Margir innan kirkjunnar virðast oft sakna trúarmenningarinnar gömlu. En er ekki í raun um mikla framför að ræða þó ekki væri nema út frá lúthersku sjónarhorni? Hvort er meira í anda siðbótarinnar: trúarmenning eða upplýst val á grundvelli eigin sannfæringar?
Kirkju- og heimilisguðrækni
Í samfélagi fyrri alda fór trúariðkunin fram á tveimur sviðum: heimafyrir og í kirkjunni.
Frá örófi alda var kristin trú samfélagsskapandi afl. Það að vera kristinn var að iðka trú sína í samfélagi við aðra, tilheyra hinum tilbiðjandi og lofsyngjandi söfnuði og taka þátt í hinni sameiginlegu guðsþjónustu hans. Þess vegna var kirkjuguðrækni undir forystu prests víðast hvar þungamiðja kristnihalds.
Hér háttaði öðru vísi til en víðast hvar annars staðar. Íslendingar voru fáir í stóru og strjálbýlu landi þar sem samgönur voru örðugar. Kirkjur voru að vísu margar og sóknir og prestaköll smá. Samt var víða torsótt að sækja kirkju og var brugðist við því með eins konar fulltrúakerfi. Einn eða tveir karlar af hverjum bæ, húsbóndinn og hugsanlega annar lykilkarlmaður á heimilinu, fóru til messu og endursögðu svo predikunina þegar heim var komið. Konur og börn fóru á hinn bóginn ekki til kirkju nema endrum og sinnum og þá helst á sumrin.
Af þessum sökum skipti heimilisguðræknin gríðarmiklu máli hér og myndaði í raun uppistöðu íslensks kristnihalds. Hún fólst í húslestri: upplestri á hugvekju eða predikun, bæn og sálmasöng. Húslesturinn var því guðsþjónusta í einfaldari mynd.
Hrun heimilisguðrækninnar
Með auknu trúarlegu frjálsræði á 19. öld, fólksflutningum úr sveit í
þéttbýli og breyttum heimilisháttum og fölskyldulífi hrundi
heimilisguðræknin. Hún féll ekki að breyttum aðstæðum. Í staðinn kom
útvarpsguðsþjónustan, bænir með börnum fyrir svefninn auk persónulegs
trúarlífs þeirra sem þannig voru sinnaðir.
Kirkjuguðræknin tók ekki við sem hryggjarstykki trúariðkunarinnar þegar heimilisguðræknin lét undan. Fólk var ekki vant að sækja kirkju þegar fulltrúakerfinu sleppti og guðsþjónustur héldu áfram að vera stopular í hverri og einni. Kirkjan aðlagaði sig heldur ekki búsetubreytingunum fyrr en seint og um síðir. Víða átti fólk í nýju þéttbýli t.d. sókn að kirkju úti í sveit og kirkjan nam víða ekki land í nýja samfélaginu fyrr en eftir langan tíma. Svo var margt til að keppa við kirkjuna í stopulum frístundum fólks um helgar.
Þessi breyting varð dýrkeypt fyrir trúarlífið í landinu og skapaði trúarlegt tómarúm sem mótar aðstæður enn í dag.
Engar trúarvakningar
Eitt af einkennum íslensks trúarlífs er að hér urðu ekki trúarvakningar
af því tagi sem víða gengu yfir á 18. og 19. öld. Þetta stafaði ugglaust
mikið til af íslenska dreifbýlinu en vakningar eru fyrst og fremst
þéttbýlisfyrirbæri. Þegar vakningar og endurreisnarhreyfingar hófust hér
voru þær fyrst og fremst veraldlegar, bindindisvakningar,
félagsmálavakningar og þjóðernisvakning sem allar lögðu mikið til
þjóðbyggingarinnar á 19. og 20. öld.
Margt og misjafnt má vissulega segja um trúarvakningar. Þær geta leitt til að sumir telja sig réttlátari og betri en aðra og ýtt þar með undir seinnitímaútgáfu af faríseismanum um daga Krists. Þær klufu kirkjusöfnuðinn líka oft í trúarelítu og svo „hina hálfvolgu“ og loks unnu þær stundum gegn hinni rótgrónu trúariðkun, bæði kirkjuguðrækninni og heimilisguðrækninni, með því að bjóða upp á þriðja kostinn: trúariðkun í „samfélagi heilagra“.
Þegar vel tókst til — þegar fylgjendur vakninganna lokuðu sig ekki af í eigin horni og kirkjan bar gæfu til að mæta vakningunni af opnum huga í stað þess að skynja hana sem ögrun og ógn — brúuðu vakningarnar bilið milli nútíðar og fortíðar. Þegar sú var raunin ferjuðu þær trúariðkunina frá bændasamfélaginu til þéttbýlissamfélagsins og frá trúarmenningunni til trúarlegra einstaklingshyggju dagsins í dag.
„Krítískur massi“
Þar sem vakningar og kirkjan unnu saman sköpuðu vakningarnar það sem oft
er nefnt virkur og „krítískur massi“. Með því er átt við hóp fólks sem
vill og getur spurt gagnrýninna spurninga, bent á ágalla og stöðnun,
keyrt starf af ýmsu tagi upp úr hefðbundnum hjólförum og bryddað upp á
nýjungum. Benda má á eina slíka vakningu hér í seinnitíð en hún varð
1986 í kjölfar þess að Hallgrímskirkja var vígð og ávöxta hennar nýtur
enn. Vakningar þurfa ekki alltaf að vera háværar fjöldahreyfingar.
Hér skal þeirri tilgátu varpað fram að sú kreppa sem margt bendir til að muni segja til sín við næstu kynslóðaskipti hvað varðar samband kirkju og þjóðar (sjá Þjóðkirkja á þröskuldi I) eigi sér einkum tvær skýringar: Gamalgróna veikleika íslenskrar kirkjuguðrækni sem ollu því að hún var þess ekki umkomin að taka við af heimilisguðrækninni sem burðarás trúarlífsins í landinu og skort á „krítískum massa“, þ.e. fjöldahreyfingu með bakgrunn í hollum, kirkjulegum, vakningum.
Rúsína í pylsuenda
Hér hefur verið dregin upp fremur dökk mynd af þróun íslenskrar kristni á
síðari tímum. Það er þó ekki ástæða til að láta hugfallast. Í raun og
veru má benda á margar jákvæðar breytingar á síðustu áratugum.
Safnaðarstarf í landinu hefur t.d. aldrei verið fjölbreyttara en nú
gerist á ýmsum stöðum. Þátttaka í kvöldmáltíðinni hefur aldrei verið
meiri eftir að hún hætti að vera lagaskylda. Nýjar stéttir kirkjulegra
starfsmanna hafa komið til sögunnar svo sem djáknar, starfsmenn í barna-
og æskulýðsstarfi. Aldrei hafa fleiri tekið þátt í starfi kirkjunnar af
fúsum og frjálsum vilja Margt bendir til að snúa megi vörn í sókn ef
vel verður á spilum haldið. — Þjóðkirkjan verður þó að ástunda virkari
sjálfsgagnrýni og hefja markvissara þróunarstarf ef nýta á sóknarfærin.