Á komandi ári, 2017, verða þau tímamót að 500 ár eru síðan siðbót Marteins Lúther hófst með þeim áhrifamikla gjörningi að guðfræðingurinn festi 95 gagnrýnar tesur á kirkjudyr dómkirkjunnar í Wittenberg. Fáir hugmyndasmiðir hafa haft meiri áhrif á sögu Vesturlanda, en sú siðbreyting sem hann hrinti af stað markaði upphaf þeirrar samfélagsgerðar sem við þekkjum í vestrænum samfélögum. Mótmælendahreyfingin í sínum margvíslegu myndum leiddi af sér hugmyndir um hinn almenna prestdóm, lagði grundvöllinn að hugmyndum okkar um ríkisvald og hagkerfi og sjálfstæði vísindasamfélags háskólanna til gagnrýnna rannsókna.
Jafn í Evrópu, sem og í bandaríkjunum, er að finna um þessar mundir mikla grósku í háskólasamfélögum og kirkjum, siðbreytingunni til heiðurs og hvert ritið á fætur öðru er helgað siðbreytingarrannsóknum. Sú gróska nær langt útfyrir svið guðfræði og teygir anga sína til allra sviða hug- og félagsvísinda, enda gætir áhrifa hreyfingarinnar á öllum sviðum í samfélagsgerð okkar.
Lúther lagði grunninn að Biblíusýn mótmælenda, en hann lagði áherslu á lestur ritningarinnar í gagnrýni á hið umfangsmikla kenningakerfi kaþólsku miðaldarkirkjunnar. Áhersla hans á ritninguna eina, sola scripturum, fólst þó ekki í biblíulegri bókstafshyggju, eins og hefur einkennt fúndamentalískar hreyfingar 19. og 20. aldar, heldur tilraun til að lesa úr Biblíunni ,,kjarna fagnaðarerindi” með því að skoða þær á frummálinu og með gagnrýnum augum. Þannig líkti Lúther regluritasafni kristinna manna við jötu sem geymir frelsaran Krist en á meðal hálmsins í jötunni var að hans áliti ýmislegt hismi sem gjarnan mætti henda, jafnvel heilum ritum.
Biblíurýni nútímans á rætur að rekja til hugmynda Lúthers og í þeirri rýni eru trúarlegir textar skoðaðir á frummálum sínum og í samhengi við það samfélag sem þeir eru sprottnir úr. Mótmælendaguðfræðingar hafa frá upphafi átt í erfiðleikum með kraftaverkasögur guðspjallanna og sérílagi hugmyndir um illa anda og hafa á víxl skýrt þær sem afleifð liðins tíma eða hreinsað guðspjöllin af slíkum sögum, eins og frjálslyndir guðfræðingar 19. aldar gerðu óhikað.
Guðspjall dagsins úr Lúkasarguðspjalli er ein slíkra frásagna sem ýmist hefur verið talin tilheyra fornri heimsmynd eða hreinsuð burt frá dögum Lúther og þó siðbótarmennirnir hafi ekki hafnað tilvist djöfulsins höfðu þeir óbeit á hræðsluáróðri á grundvelli andatrúar, sem Lúther hafði sjálfur reynslu af.
Sé litið lengra aftur má finna þess merki strax ritunartíma Nýja testamentisin að kraftarverkafrásögur hafi ekki verið lesnar bókstaflega og jafnvel í textunum guðspjallanna sjálfra ber slíkrar túlkunar við. Kraftaverk Jóhannesarguðspjalls þjóna þannig sem líkingar í meðförum höfundar en hafa hvergi gildi sem kraftaverk í sjálfu sér.
Í guðspjalli dagsins er frásögn af andasæringu Jesú sett í það samhengi að atburðurinn varpi ljósi á eðli góðs og ills í mannlegri tilveru. Þar segir frá illum anda sem bundið hafði tungu manns og þegar Jesús hafði rekið andann á brott losnaði um tungu mannsins og hann hóf að mæla. Jesús er í kjölfarið ásakaður um að tilheyra sjálfur illum öndum en hann bendir á rökleysu þess að hið illa sé sjálfu sér sundurþykkt.
Í stað þess að lesa þessa frásögn bókstaflega, sem átök Jesú við eiginlegar andaverur eða skýra hann á grundvelli geðsjúkdóma eins og oft er gert, er vert að setja þessa frásögn í samhengi við þann tíðaranda sem andsetur okkur á hverjum tíma. Það tímabil sem við nú lifum er lengsta friðarskeið í sögu Norður-Evrópu frá fornöld en það er fljótgleymt að sá friður er reistur á rústum öfgahugmynda sem nær grandaði mannkyninu öllu og leiddi af sér ólýsanlegar hörmungar.
Slíkar öfgar fengu hljómgrunn meðal annars sökum ranglátrar skiptingar á veraldlegum gæðum og vegna þess að valdshafar fengu óáreittir að beita fyrir sig trúarhefðir minnihlutahópa sem skálkaskjól. Kunnugleg stef í okkar samtíma.
Þegar litið er til baka mátti öllum vera ljós veruleikafirring einræðisherra 20. aldar en dómurinn fellur á fjöldann sem kaus að þegja, andsetinn af ótta við ofbeldið. Þegar einstaklingar eða hópar risu upp og hristu af sér þagnarandann voru þeir jafnharðan barðir niður með þeim ásökunum að þeir væru í slagtogi með óvininum.
Þegar Jesús hefur borið af sér þær sakir að hann sé í liði með Beelsebúl sjálfum eru dregnar upp öflugar líkingar sem varða valdajafnvægi samfélaga. Þar segir: ,,Þegar sterkur maður, alvopnaður, varðveitir hús sitt, þá er allt í friði sem hann á en ráðist annar honum sterkari á hann og sigri hann tekur sá alvæpni hans er hann treysti á og skiptir herfanginu. Hver sem er ekki með mér er á móti mér, og hver sem safnar ekki saman með mér, hann sundurdreifir.”
Kjarnorkukapphlaup kalda stríðsins var réttlætt með nákvæmlega slíkum rökum, að friður heimsbyggðarinnar byggði á því að eitt stórveldi hefði í hendi sér nægilegt vopnabúr til að granda heimsbyggðinni margfallt. Það er mildi að kapphlaupið hafi ekki leitt til heimsstyrjaldar en vígbúnaðarkeppni stórvelda er langt frá því lokið. Friður sem byggir á hernaðarkapphlaupi er óhjákvæmilega tímabundinn og við munum ekki upplifa varanlegan frið fyrr en samfélög finna aðra leiðir til að varðveita friðinn en með alvæpni.
Þá er dregin upp viðvörun um að þegar hugmyndir eða andar eru látnar óáreittar munu þeir finna sér heimili. ,,Þegar óhreinn andi fer út af manni reikar hann um eyðihrjóstur og leitar hælis. Og er hann finnur það ekki segir hann: Ég vil hverfa aftur í hús mitt, þaðan sem ég fór. Og er hann kemur og finnur það sópað og prýtt fer hann og tekur með sér sjö aðra anda sér verri og þeir fara inn og setjast þar að og verður svo hlutur þess manns verri eftir en áður.”
Við lifum á víðsjárverðum tímum og eina leiðin áfram er að horfast í augu við söguna. Siðbreytingarhreyfingin hafði slík áhrif á samfélag okkar að henni ber að fagna og hana ber að gagnrýna. 500 ára afmæli siðbreytingarinnar er kjörið tækifæri til þess. Með anda siðbótarinnar og nýrri biblíutúlkun leystist úr læðingi sá kraftur sem mótað hefur samfélag mótmælenda allar götur síðan, en samtímis varð til sökudólgur í samfélagi gyðinga. Gyðingahatur Evrópu fékk að vera óáreitt eins og illur andi sem ráfaði um eyðihrjóstur þar til hann fann loks heimili í öfgastefnum einræðisherra.
Tímarnir hafa breyst og samfélögin með en mannlegt eðli hefur haldist óbreytt frá því guðspjöllin voru skrifuð. Jesús opinberaði í þjónustu sinni að valdajafnvægi með alvæpni verður alltaf raskað og benti á blóraböggla í gyðinglegu samfélagi með því að gera Samverja að hetjum í sögum sínum með sláandi hætti. Það er öfugsnúið að hægt hafi verið að snúa guðspjöllunum upp á andskotann með því að réttlæta gyðingahatur á grundvelli þeirra en við erum sem samfélag langt frá því vaxin upp úr þeirri andúðarmenningu sem þau opinbera.
Á tímum þar sem öfgaraddir fá hljómgrunn og andúð í garð trúarhefða og minnihlutahópa fær að vera óáreitt, er það einungis tímaspursmál það til það mun leiða til skelfingar. Það hefur sagan ítrekað kennt okkur. Vestrænt samfélag er farsælasta menningarskeið mannkynssögunnar en líkt og önnur stórveldi byggir það á valdaójafnvægi, misskiptingu, andúðarmenningu og fórnarlömbum. Það er andsetið.
Með þjónustu við hina undurokuðu gaf Jesús okkur fordæmi um aðra leið, þá leið að leggja niður vopnin og velja elsku í stað andúðar. Guðspjallamaðurinn gefur konu einni úr mannfjöldanum orðið og segir „Sæll er sá kviður er þig bar og þau brjóst er þú mylktir”.
Því svarar Jesús til: „Já, því sælir eru þeir sem heyra Guðs orð og varðveita það.“