Ég ætla að tala um engla hér í kvöld, af því að englar eru víðar en þig grunar en fyrst ætla ég að segja þér dálitla sögu úr minni eigin fjölskyldu. Þannig var að þegar elstu systkini mín fjögur voru lítil en þau eru öll fædd á fimm árum var mömmu og pabba eitt sinn boðið í kvöldverð og gistingu að Möðruvöllum í Hörgárdal til séra Þórhalls heitins Höskuldssonar og konu hans Þóru Steinunnar Gísladóttur, þá bjuggu foreldrar mínir í Laufási og var góð vinátta og samgangur á milli þessara fjölskyldna sem heimsóttu gjarnan hvor aðra og nutu þess að spjalla á meðan börnin léku sér í annari hvorri sveitasælunni. Það ríkti því mikil eftivænting og gleði meðal barna og fullorðinna þegar fjölskyldan ók frá Laufási áleiðis að Mörðuvöllum þetta kalda og snjóþunga vetrarkvöld því enda þótt lífið í Laufási væri harla gott þá þurfa víst allir á tilbreytingu að halda jafnt ungir sem aldnir. Það var heldur ekki eins og matarboðunum hafi rignt yfir þessa sex manna matglöðu fjölskyldu . Á þessum tíma var nú talsvert meira ferðalag að fara milli bæja að ég tali nú ekki um hreppa en um síðir renndi þó Laufásfjölskyldan í hlað á Möðruvöllum þar sem henni var tekið með kostum og kynjum. Þegar kvöldverði var lokið og börnin komin í ból og fullorðna fólkið sest niður í rólegheitum að spjalla, fór pabbi að hegða sér heldur undarlega, út af honum spratt kaldur sviti og hann varð um leið allur hinn órólegasta, dró sig í hlé úr umræðunum og stundi að lokum upp þeirri stemmningsfargandi yfirlýsingu að hann yrði að komast heim hið fyrsta. Mamma horfði náttúrulega á manninn eins og hann væri ekki með öllum mjalla og reyndi svo með sinni vestfirsku festu sem minnir um margt á fjöllin í Arnarfirði, að koma vitinu fyrir karlinn. En pabbi var þrár í hógværðinni og til þess að gera langa sögu stutta þá sat Laufásfjölskyldan innan skamms í Zítróenbílnum seint um kvöld á leið heim í hosiló, aftur í lá undrandi , syfjaður barnaskari en frammí sátu órólegur fjölskyldufaðir og yfirgengin húsfreyja og þögnin skar í eyru eins og bitlaust vopn. Þegar heim var komið voru börnin lögð í rúm en um það bil sem presthjónin hugðust setjast niður til að fara í gegnum þessa undarlegu atburðarrás var bankað að dyrum. Fyrir utan stóðu þrír blóðugir og þrekaðir menn sem báðu um skjól með máttlausri röddu, þeir höfðu velt bíl sínum við Fnjóskárbrúna og gengið rúma tvo kílómetra að Laufási, slasaðir og illa klæddir í köldu náttmyrkrinu. Það er skemmst frá því að segja að þeir voru hýstir um nóttina og fengu viðeigandi aðhlynningu. Og satt best að segja vill maður síður hugsa þá hugsun til enda hvað hefði orðið ef enginn hefði verið heima í Laufási því þegar þangað er komið er enn um kílómeters vegalengd á næsta bæ og ekki víst að mennirnir hefðu haft sig alla leið þangað. Og af hverju er ég að segja þér þessa sögu? Jú af því að ég ætla að tala um engla í kvöld. Hvað eru englar? Algeng skýring er að þeir séu sendiboðar Guðs og þegar ég segi þeir þá fylgi ég bara almennum íslenskum málvenjum því ef það er einhvers staðar jafnrétti kynjanna þá hygg ég að það sé helst á vinnumarkaði englanna eða í englabransanum. Sendiboðar Guðs er býsna góð skýring en líka rödd Guðs, að englar séu rödd Guðs, ég trúi því a.m.k, ég held nefnilega að líkurnar á að englar séu vængjaðar verur í ofþyngd með geislabaug og rjóðar kinnar séu álíka miklar og að Jesús hafi litið út eins og norrænn félagsráðgjafi með gamalt permanent og heiðblá augu, maður sem var fæddur við Miðjarðarhafið þar sem flestir menn eru nokkuð dökkir yfirlitum. Ég held að englar séu rödd Guðs innra með þér, röddin sem vísar þér veginn og jafnvel stundum gegn almennri skynsemi. Hugsaðu þér að í sjálfu jólaguðspjallinu taka allar aðal persónurnar mark á þessari rödd og það er þess vegna sem barnið lifir af í annars ógnvænlegum aðstæðum. Í fyrsta lagi tekur María mark á þessari rödd þegar engillinn tjáir henni að hún muni fæða frelsara mannkyns í heiminn, út frá þeim tíðaranda og viðmiðum sem þá giltu var hreint út sagt fáránlegt af Maríu að hlýða þessari rödd og þessum skilaboðum þar sem hún var föstnuð manni sem hún hafði enn ekki sængað hjá og í veru sinni, var hún eins valdalaus einstaklingur og hugsast gat, kornung fátæk stúlka, hálfgerður unglingur sem hafði ekkert með sér til að rugga báti samfélagsins, annað en þessa rödd sem hún hlýddi, og Guði sé lof fyrir það, að hún skyldi ekki í örvæntingu leita leiða til að hreinlega koma sér út úr þessum fyrirsjáanlegu vandræðum, já að hún skyldi ekki bara reyna að eyða þessu barni,hefurðu hugsað út í það. Í öðru lagi er það Jósep sem hlýðir þessari rödd, og það oftar en tvisvar, fyrst þegar engillinn, rödd Guðs biður hann að treysta orðum Maríu um að hún beri mannssoninn undir belti og svo þegar hann vaknar upp um miðja nótt og flýr með Maríu og ungbarnið til Eygyptalans rétt í þann mund sem hermenn Heródesar voru lagðir af stað til að drepa barnið. Í þriðja lagi eru það fjárhirðarnir, við skulum gera okkur grein fyrir því að þeir tilheyrðu þjóðfélagshópi sem fáir tóku mark á eða létu sig skipta, það voru kannski helst kindurnar sem báru virðingu fyrir þeim, og í ljósi þess hvaða stöðu þeir höfðu var það mikið lán að þeir skyldu hlýða röddinni sem talaði til þeirra og tjáði þeim að frelsari þeirra væri fæddur, þeir voru fyrstu fulltrúar minnihlutahópa og kúgaðra sem Jesús í raun vitjaði á jaðrinum og dró inn í samfélagið og þeim var fyrstum falið að bera út boðskapinn, það er mjög mikilvæg staðreynd í sögunni og segir okkur allt um tilgang Guðsríkis á jörðu. Í fjórða og síðasta lagi voru það vitringarnir sem hlýddu rödd engilsins eftir að hafa litið frelsarann augum í fjárhúskofa, já þegar þeir tóku ákvörðun um að snúa ekki aftur til hallarinnar og tjá Heródesi hvar barnið væri að finna eins og hann hafði beðið þá.
Það er raunar aðeins ein persóna í þessari sögu sem heyrir aldrei neina rödd nema sína eigin og það er einmitt Heródes.
Veistu að þú sem situr hér á kirkjubekknum í kvöld hefur oft heyrt rödd engilsins, hvernig var það annars þegar þú ákvaðst þvert á skoðanir annara að fara með veika barnið þitt upp á sjúkrahús af því að eitthvað sagði þér að það mætti ekki bíða, geturðu ímyndað þér hvað ég hef heyrt margar mæður lýsa slíkri reynslu á foreldramorgnum í kirkjunni? Og hvernig var það þegar þú hittir fyrst maka þinn og eitthvað sagði þér að þetta væri manneskjan sem þú ættir að eyða lífinu með, jafnvel þó þú hafir kannski verið búin að sjá fyrir þér eitthvað annað. Og hvernig var það þegar þú ákvaðst skyndilega að hætta í öruggri og góðri vinnu til að fara í nám eða aðra vinnu og allir í kringum þig drógu úr hugmyndinni og töldu þig brjálaða, en þú vissir að þetta þyrfti að gerast, að þetta væri hið rétta á þeim tíma. Hugsaðu þér að mikilvægasti atburður lífsins varð að veruleika vegna þess að fólk hlustaði á rödd engilsins og treysti henni, það voru engir klækir né samráðsfundir í gangi heldur virk hlustun á röddina sem býr í sérhverri sál vilji maður hlusta. Útvarpsmaðurinn ástsæli Jónas heitinn Jónasson svaraði því svo til í sínu hinsta útvarpsviðtali sem Ævar Kjartansson tók hver kúnstin væri við að vera góður spyrill, að það væri að hlusta. Horfa í augu fólks og hlusta. Í því er fólginn mikill sannleikur, við þurfum að kunna að hlusta og ekki síst í þögninni þar sem rödd engilsins hljómar svo sterkt já eins og á Betlehemsvöllum forðum þar sem fjárhirðarnir sátu í næturkyrrðinni. Þegar þú tekur á móti Jesúbarninu í kvöld skaltu muna að það ber með sér röddina sem þú heyrir í trú, Guð gefi þér æðruleysi til að fylgja þeirri rödd hvar sem þú ert staddur í lífinu. Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda,svo semvar í upphafi er ogverður um aldir alda. Amen.