Ég rakst á auglýsingu í Dagskrá vikunnar um daginn sem vakti athygli mína. Yfirskrift auglýsingarinnar var Náttúrulega Ísland og þarna var heilsíðu mynd af ungri nakinni stúlku sem skýldi nekt sinni að nokkru leyti með rauðri, forlátri tösku. Reyndar var stúlkan ekki alveg nakin því að á fótunum bar hún rauða skó í stíl við töskuna. Spurningin sem vaknaði hjá mér var, hvað er hér verið að selja? Er það taskan? Eru það skórnir? Er það eitthvað í sambandi við náttúru Íslands? Undirskrift auglýsingarinnar var: “Íslensk náttúra prýðir okkar hönnun”. Ég gekk út frá því að verið væri að auglýsa eitthvað náttúrulegt. Spurningin var bara hvað. Ef það var taskan og skórnir þá voru þeir væntanlega úr skinni af einhverju íslensku dýri. Kannski Seli (það er voða náttúrulegt). Ef það var stúlkan þá var það líklega nekt hennar sem átti að vera náttúruleg. Ég gat reyndar ekki ímyndað mér hversvegna ætti að vera að auglýsa stúlkuna. Varla var hún til sölu. Það er jú ólöglegt að selja fólk.
Að öllu gamni slepptu þá geri ég ráð fyrir því að hér hafi verið að auglýsa tösku og skó úr skinni af íslensku náttúrulegu dýri og að nekt stúlkunnar hafi átt að skírskota til náttúrunnar. Léttklæddar konur eru enn mikið notaðar til þess að auglýsa hinar ýmsu vörur. Léttklæddir karlar sjást aftur á móti sjaldan í auglýsingum. Algengt er að konur auglýsi bíla og annað “karlmannlegt” dót. Um daginn sá ég auglýsingu þar sem hálfnakin kona var sýnd liggjandi á stól með opna buxnaklauf. Þar var verið að auglýsa ónefnda hárgreiðslustofu sem samkvæmt auglýsingunni bauð upp á meira en bara klippingu. Ekki kom fram hvað þetta meira var en þar sem höfuð konunnar var ekki sýnt, heldur aðeins líkami hennar í ögrandi stellingu þá geri ég ráð fyrir að þessi hárgreiðslustofa bjóði upp á einhverja þjónustu kvenna sem ekki er hægt að nefna í auglýsingu. Þessi auglýsing var sýnd í bíóhúsi hér á höfuðborgarsvæðinu á undan kvikmynd sem ekki var bönnuð börnum.
Reyndar hef ég enga trú á að bílasölur, hárgreiðslustofur, tískuverslanir eða önnur fyrirtæki sem nýta sér nekt kvenna til að auglýsa vörur sínar, séu í raun að auglýsa nokkuð annað en vöruna. En af einhverjum ástæðum hefur þetta fólk ekki meiri trú á vörum sínum eða þjónustu en svo að þau verða að leggjast svo lágt að sýna hálf bera kroppa ungra stúlkna til þess að gera vörur sínar meira aðlaðandi. Það má reyndar deila um hversu aðlaðandi þetta er en einhver áhrif hljóta þessar auglýsingar að hafa því lítið hefur breyst í þessum efnum á undanförnum árum.
Hver er markhópur þessara auglýsenda? Eru það konur eða karlar? Eða bæði? Ég veit í það minnsta að ég færi ekki að kaupa þessa annars fallegu rauðu tösku eftir að hafa séð þessa auglýsingu. Þetta var ósköp falleg stúlka sem auglýsti hana og líkami hennar óaðfinnandi að því er virtist en ég get ekki séð hversvegna það ætti að fá mig til að langa í tösku. Kannski var þessi auglýsing hugsuð fyrir karlmenn. Ég á samt erfitt með að skilja hversvegna manninum mínum ætti frekar að langa til að gefa mér tösku sem notuð hefur verið til að skýla nekt nýfermdrar stúlku. Ekki trúir fólk því að karlar séu svona miklir asnar að þeir geti ekki fallið fyrir fallegri vöru eða góðri þjónustu nema að þeir séu lokkaðir með nekt kvenna. Hvað varðar hárgreiðslustofu – auglýsinguna þá get ég ekki fyrir mitt litla líf ímyndað mér hver markhópur hennar var. Nema kannski ef vera kynni að starfsfólkið á hárgreiðslustofunni séu hauslausar, hálfberar konur með opnar buxnaklaufar og karlmenn asnar. Að sjálfsögðu eru karlmenn ekki meiri asnar en konur. Aftur á móti er verið að gera lítið úr bæði körlum og konum með auglýsingum af þessu tagi. Við erum vissulega Guðs góða sköpun og voðalega náttúruleg þegar við erum á Evuklæðunum einum saman. Það er nú samt þannig að við erum löngu búin að missa sakleysi okkar og göngum ekki um nakin lengur. Því getur nekt í röngu samhengi verið jafn ónáttúruleg og nekt í réttu samhengi getur verið náttúruleg. Nekt er yfirleitt falleg og oft náttúruleg og Guð elskar okkur hvernig sem við lítum út en við erum ekki sköpuð til þess að nota nekt okkar til þess að lokka fólk til innkaupa og við erum ekki sköpuð til þess að nota nekt ungra stúlkna til þess að gera lítið úr heilabúum karla.