Yfirskrift þessa pistils er hin sama og alþjóðlegs átaks sem nú stendur yfir gegn kynbundnu ofbeldi. Þessi orð eru til áminningar um að það eru skýr tengsl á milli ofbeldis sem konur eru beittar og heilsu þeirra og mannréttinda.
Sú staðreynd er sár að heimilið sem við gjarnan viljum líta á sem griðarstað fjölskyldunnar er hættulegasti staðurinn fyrir konur sem sæta ofbeldi. Á okkar litla landi hafa yfir 6000 konur leitað á náðir Kvennaathvarfsins síðastliðin 20 ár. Það er skuggalega há tala. Þarna komum við illa út þegar reiknað er útfrá höfðatölu, sem við svo oft vísum til þegar við viljum gera hlut okkar sem veglegastan. Í þessu samhengi verðum við niðurlút. Að baki þessara yfir sexþúsunda tilfella eru einstaklingar, konur í sárri neyð.
Hvað hefur kirkjan að segja við þessar konur? Hvað leggur kirkjan að mörkum til að vinna gegn kynbundnu ofbeldi?
Þjóðkirkjan er aðili að Lútherska heimsambandinu. Innan þess er starfandi deild sem heitir WICAS, skammstöfun sem á íslensku útleggst: Konur í kirkju og samfélagi. Undirrituð er fulltrúi Þjóðkirkjunnar í þessu starfi og var kosin formaður Norðurlandadeildarinnar frá síðustu áramótum til þriggja ára. Þesssi deild hefur það hlutverk að konur allstaðar að í heiminum fái tækifæri til að deila reynslu og læra hver af annari í þeim aðstæðum sem þær finna sig í . Eitt megináhersluefnið á þessum vettvangi undanfarin ár hefur einmitt verið að skoða og bregðast við því alvarlega vandamáli sem kynbundið ofbeldi er allstaðar í heiminum. Því miður einnig innan kirkjunnar. Við viljum ekki loka augunum fyrir vandamálinu og snúa okkur í aðra átt. Við viljum viðurkenna vandann og leggja okkar að mörkum til að grípa til aðgerða.
Við leitum í smiðju frelsarans, Jesú Krists. Hvernig brást hann við? Hann mætti konum með nýjum og óþekktum þætti í hans samtíð og samfélagi. Hann mætti konum sem jafningjum. Hann mætti konum með virðingu og sá veðmætin sem reynsla þeirra og hæfileikar fólu í sér fyrir samfélagið. Við fáum að heyra að þegar kona verður fyrir þeirri niðurlægingu og þjáningu sem ofbeldi fylgir þá þjáist Guð einnig. Það er ekki aðeins verið að lítilsvirða konuna heldur einnig þau gildi sem kirkjan okkar stendur fyrir og þá um leið Guð og mannkynið allt.
Fulltrúar Lútherskra kvenna allstaðar að út heiminum hittust á fundi í Chennai á Indlandi 22.-27. nóvember sl. Það var mikilvæg reynsla og lærdómsrík að hitta þessar konur. Heyra sögur þeirra, fá að segja frá kirkjunni okkar og samfélaginu með áherslu á stöðu kvenna. Sameiginlegur ljótur blettur allra þessara kirkna og samfélaga er kynbundið ofbeldi.
Lútherska heimssambandið gaf út skýrslu sem ber yfirskriftina: Kirkjur segja nei við ofbeldi gegn konum. Það er gleðilegt að kirkjan þori að horfast í augu við vandann með útgáfunni, þó tilefnið sé sorgleg staðreynd. Nú hefur skýrslan verið þýdd á fleiri tungumál en nokkurt annað plagg á vegum Lútherska heimssambandisins og enn er verið að þýða hana og endurútgefa, en hún kom fyrst út árið 2001. Skýrslan sem slík er auðvitað einungis tæki til að hjálpa okkur að sjá ofbeldið og benda á leiðir til aðgerða. Hér á landi var unfangsmikil kynning og fræðsla fyrir presta og djákna í öllum prófastdæmum sem dr. Sólveig Anna Bóasdóttir sá um , en hún er sérfræðingur á þessu sviði. Það er skylda okkar sem kirkju og einstaklinga að vera vakandi fyrir lífi og líðan hvers annars. Rödd kirkjunnar þarf að heyrast og vera hluti af átakinu sem stendur yfir 25. nóvember til 10. desember. Mest um vert er þó að við höldum vöku okkar 365 daga ársins og einum degi betur á hlaupári.
Tökum ábyrgð á samferðafólki okkar mótmælum ofbeldi í hvaða mynd sem það kann að birtast og segjum nei við ofbeldi gegn konum.