Jesús er hér og talar til okkar! Hann mætir okkur í orði og máltíðarborði, nærir hugi okkar og hjörtu, fyllir sálirnar gleði. Við höfum gengið til fundar við hann sem er skapari himins og jarðar, eilífur Guð á himnum, Guð sem hefur vitjað okkar sem byggjum þessa undursamlegu jörð.
Hún er máttug upplifunin sem sálmaskáldið varð fyrir og lesin var í lexíu dagsins. Skáldið horfir á himinn og stjörnur og verður agndofa yfir fegurðinni og ekki síst yfir því að Guð skuli yfirhöfuð vitja okkar smárra manna. Og meira en það. Hann hefur lagt allt að fótum okkar. Við erum samverkamenn Guðs, sitjum á valdastólum í lífinu sama hvaða starfi við gegnum og verðum að lúta verkstjórn hans ef ekki á að fara illa í málefnum heimsins.
Mikilvægt hlutverk
Þessi texti er undursamleg lofgjörð sem um leið birtir gríðarlega ábyrgð mannsins gagnvart sköpuninni, lífríkinu, mannlífinu og öllu því undri sem maðurinn er umvafinn í þessu lífi og við köllum umhverfi. Umhverfi er ekki aðeins ósnortnar víðáttur hálendisins, hafdjúpin og fiskimiðin, heldur líka mannlífið. Hvernig vegnar okkur í því verki öllu að skapa hér gott og fagurt mannlíf? Við hrósum okkur gjarnan af velmegun en á hvers kostnað er hún? Að stórum hluta til er hún á kostnað lífríkisins og svo er hún líka á kostnað siðvitsins, í það minnsta í sumum tilvikum. Hvar endar allt þetta neysluæði? „Elskið ekki heiminn, ekki heldur þá hluti, sem í heiminum eru. Sá sem elskar heiminn, á ekki í sér kærleika til föðurins. Því að allt það, sem í heiminum er, fýsn holdsins og fýsn augnanna og auðæfa-oflæti, það er ekki frá föðurnum, heldur er það frá heiminum. Og heimurinn fyrirferst og fýsn hans, en sá, sem gjörir Guðs vilja, varir að eilífu.“ (1Jóh 2.15-17). Tökum eftir þessu orði í 1. Jóhannesarbréfi: auðæfa-oflæti. Erum við Íslendingar sekir um það? Við komumst ekki nær Guði með auknum hagvexti en við getum hins vegar nýtt hagvöxtinn til góðra verka sé hann vel fenginn og ekki á kostnað komandi kynslóða. Við getum ennfremur notað hagvöxtinn til að jafna kjörin og bæta um leið kjör kvenna.
Okkur er vandi á höndum í ráðsmennskunni. Bandaríkst söngvaskáld orti texta sem lýsir síðustu 7 dögum jarðar sem maðurinn hefur eyðilagt:
Andsköpun
Að lokum var maðurinn á góðri leið með að eyðileggja himneska jörðina. Jörðin var undursamlega fögur þar til maðurinn fór um hana höndum sínum.Og maðurinn sagði, verði myrkur, og það varð myrkur. Maðurinn sagði að myrkrið væri gott og kallaði það - öryggi. Og það varð ekkert kvöld og enginn morgunn á sjöunda degi fyrir endalokin.
Maðurinn sagði, verði ríkisstjórnir til að skipa okkur í sveitir og flokka og stjórna okkur í eigin myrkri. Verði leiðtogar til að leiða okkur í myrkrinu svo að við þekkjum óvini okkar. Og það varð enginn morgunn á sjötta degi fyrir endalokin.
Þá sagði maðurinn, komum okkur upp herjum til að hafa hemil á líkama og sál fólksins og til að útbreiða myrkrið um alla jörðina. Sköpum eldflaugar og sprengjur sem drepa fljótar og öruggar og úr meiri fjarlægð því við verðum að verja öryggi okkar. Og það varð enginn morgunn á fimmta degi fyrir endalokin.
Og þá sagði maðurinn, ferðumst til tunglsins, plánetnanna og stjarnanna, því við veðum að færa út kvíar öryggis okkar – á meðan fólk deyr úr hungri á jörðu teygjum við okkur til stjarnanna – og það varð enginn morgunn á fjórða degi fyrir endalokin.
Þá sagði maðurinn, sköpum okkur eigin flóttaleið. Fáum okkur fíkniefni og örvandi lyf, gleðipillur og róandi, kókaín og krakk - og hvað þetta heitir nú allt – því raunveruleikinn ógnar okkur og truflar öryggistilfinningu okkar. Og það varð enginn morgunn á þriðja degi fyrir endalokin.
Og maðurinn sagði, sköpum okkur Guð í okkar eigin mynd svo að einhver annar guð fari nú ekki að keppa við okkur. Segjum að Guð hugsi eins og við hugsum, hati eins og við hötum, drepi eins og við drepum. Og það varð enginn morgunn á öðrum degi fyrir endalokin.
Og á síðasta degi varð mikill hávaði á yfirborði jarðar og síðan varð grafarþögn. Sótsvört jörðin hvildi sig á tilbeiðslu hins sanna Guðs.
Og Hann sá allt það sem maðurinn hafði skapað. Og það ríkti djúp þögn yfir rjúkandi auðninni.
Og Guð grét.
Söngtexti eftir Bandaríkjamanninn Bernard Backman af plötunni Portrait of Man, Mandala Productions, St. Paul, Min., 1969. Tilvitnunin tekin úr bók eftir Hans-Ruedi Weber, Living in the Image of Christ, WCC Publications, Geneva, 1986, s.13n.
Við erum samverkafólk Guðs, ráðsmenn, ábyrgar manneskjur sem þurfa að stana honum skil á öllu. Hvernig vegnar okkur í því verki?
Á morgun eru liðin 30 ár frá hinum eftirminnilega kvennafrídegi og konur ætla að halda upp á hann og minna á aðstæður sínar og órétt sem þær eru enn beittar sem þjóðfélagshópur. „Kannski ættum við á þessum degi – sem kirkja og afl í samfélaginu – að játa syndir okkar gagnvart helmingi mannkynsins, konum“ (ÓJ).
Karlmennska og kvennabarátta
Í pistli dagsins erum við hvött til að vera karlmannleg og styrk. Er Guð að gera grín að okkur daginn fyrir kvennafrídaginn! Nei, við eigum að vera karlmannleg og styrk, bæði karlar og konur. Var ekki Bergþóra drengur góður? Og eiga karlar ekki líka að rækta með sér mýkt og hlýju sem eru eiginleikar oft eignaðir konum einum? Mýktin er gríðarlega sterk afl. Gleymum því ekki. Og gleymum því ekki heldur að í pistlinum þar sem talað er um karlmennsku og styrk er líka sagt þetta: „Allt sé hjá yður sé í kærleika gjört.“ Karlmennska og kærleikur, kvenleg mýkt og miskunn, eru eiginleikar sem við búum öll yfir. Ræktum þá með okkur og heimurinn verður betri.
Stjórnunarfræði í safnaðarstarfi
Guðspjallið gefur okkur leiðbeiningar um uppgjör í söfnuðinum, um það hvernig fólk á að bera sig að þegar einhver hefur gert á hluta þess. Á skal að ósi stemma, segir máltækið. Ef einhver hefur misgert við þig skaltu fara beint til gerandans og tala við hann undir fjögur augu. Ef hann lætur sér segjast hefur þú unnið bróður þinn, segir þar. En láti hann sér ekki segjast skaltu kalla til vitni. Dugi það ekki til á að segja samfélaginu öllu frá, söfnuðinum og dugi það ekki skal gera hinn seka rækann úr hópnum. Þetta eru alvarlegar og hastarlegar aðgerðir, í það minnsta á þriðja stigi deilunnar. Á tímum frumkirkjunnar var samfélagið fólki allt og samstaða fólksins í óvinveittu umhverfi skipti öllu máli. Þá urðu allir að vera saman með heilum huga og af einlægu hjarta og sál. Samfélag trúaðra leið engum óheilindi og misgerðir. Við beitum þessari reglu ekki lengur innan kirkjunnar en hún kann að vera í fullu gildi innan fyrirtækja. Mér kæmi ekki á óvart að álíka ferli sé t.d. kennt innan stjórnunarfræðinnar.
Ef þessu ákvæði væri nú beitt gagnvart körlum í kirkjunni og þeir stæðu bara fastir fyrir og könnuðumst ekkert við að hafa staðið í vegi fyrir konum í gegnum aldirnar, þá mætti með réttu reka þá flesta úr kirkjunni. Nei, við beitum ekki slíkum sektaríönskum aðferðum. Kirkjan okkar er opið samfélag, ekki sértrúarhópur, sem skiptir fólki í bása eftir því hvort það er sammála eða ósammála. Slík hugsun má ekki ná tökum á kirkjunni. Álíka hugsun nær af og til tökum á félagsheildum eins og t.d. stjórnmálaflokkum sem líta á alla sem óvini sem ekki eru hundrað prósent sammála í öllum málum. Slíkt er heimskulegt og hættulegt um leið.
Öll á sama báti og við sama borð
Söfnuður kristinna manna er og verður samfélag syndugs fólks, breyskra einstaklinga sem eiga allt sitt undir náð Guðs og miskunn. Þess vegna er miskunnarbænin þrítekin í hverri messu, þessi máttugu, en um leið auðmjúku, orð Bartímeusar blinda, sem hrópaði til Jesú. Við þörfnumst Jesú til að komast af í þessu lífi og til að finna rétta leið í samskiptum okkar við aðra einstaklinga og í samskiptum karla og kvennna. Okkur hefur ekki enn tekist að ná jafnréttishugsun Jesú Krists. Hann var langt á undan sinni samtíð og reyndar öllum tímum. Hann er hér og á erindi við okkur, hann sem skapaði himinhvolf og stjörnuskara, sem sálmaskáldið horfði hugfanginn á, hann sem skapaði okkur og setti okkur yfir sköpun sína.
Ábyrgð okkar er mikil. En gleymum samt aldrei þeirri staðreynd að traust hans á okkur er gríðarlegt! Guð treystir okkur, hann hefur trú á manninum, á konum og körlum, sem byggja þennan heim. Sá Guð sem allt elskar, sá Guð sem í innsta eðli sínu er kærleikur, vakir yfir okkur í hverju skrefi og þráir það eitt að við lifum í kærleika og sátt sem ein fjölskylda í heimi Guðs.
Gæfan mesta
Jesús er hér samkvæmt fyrirheiti sínu. Hann er hér mitt á meðal okkar. Birtist í orði og máltíðarborði, snertir hug og hjarta, leggur kraft sinn, hugsjónir, elsku og eilífð á tungu okkar í heilagri máltíð. Hann er hér og við erum hér, sameinuð á leyndardómsfullan hátt í samfélagi við hinn upprisna frelsara sem vinnur stöðugt að því að leysa þennan heim úr viðjum forgengileikans. Já, kæru systkin, við erum í spennandi hlutverki og starfi og höfum besta húsbónda sem fyrir finnst.
Það er gæfa okkar og gleði, eilíf gæfa og gleði! Amen.