Kyrrðardagar er samvera fólks sem vill leita Guðs í kyrrð. Oftast eru kyrrðardagar ein helgi, en þó geta kyrrðardagar verið allt að viku og jafnvel tíu dögum. Oftast er dvalið utan skarkala borgarinnar, en þó geta kyrrðardagar verið t.d. einn dagur í safnaðarheimili eða kirkju bæði í borg og sveit. Á kyrrðardögum talar fólk ekki saman, slekkur gjarnan á símum sínum og reynir að vera ekki á samskiptamiðlum.
Í Þýskalandi þar sem kyrrðardagahefðin er mjög sterk eru yfir 500 kyrrðarsetur, en hér á Íslandi eigum við ekki neitt sérstakt kyrrðarsetur, því miður. Langflestir kyrrðardagar á Íslandi hafa verið í Skálholti, sem er einstakur staður til að dvelja á í kyrrð, í útiveru og við helgihald. Á kyrrðardögum er gott að hafa Biblíuna við hendina, blaða í henni og lesa orð sér til uppbyggingar.
Þegar ég hef leitt kyrrðardaga nota ég Biblíuna mikið við íhuganir, sem eru nokkrum sinnum yfir daginn. Mér finnst gott að nota orð úr Davíðssálmum til að kyrra hugann eins og t.d. orð úr 37 sálmi: “Ver hljóð frammi fyrir Guði og vona á hann” eða eins og segir í sumum erlendum þýðingum: “Vertu hljóð frammi fyrir Guði og dokaðu við!
Ein elstu íhugunarorð kristninnar eru hin svokallaða Jesúbæn eða bæn hjartans:
Jesús Kristur, Guðs sonur – miskunna þú mér.
Í Markúsarguðspjalli er okkur sögð sagan af því þegar Bartímeus, blindur beiningamaður, sat við veginn er Jesús fór framhjá og hann hrópaði:
“Sonur Davíðs, Jesús, miskunna þú mér!” Jesús læknaði Bartímeus og sagði við hann: “Far þú, trú þín hefur bjargað þér.” (Mark. 10.46-52). Auk þess að íhuga einstök vers Biblíunnar hef ég oft notað biblíusögur á kyrrðardögum. Þá les ég söguna og læt svo fólk taka þátt í sögunni og lifa sig inn í ákveðnar persónur hennar. Allt þetta er gert í kyrrð og með lokuð augun svo einbeitingin verði betri.
Á Hólum í Hjaltadal höfum við lengi látið okkur dreyma um að halda kyrrðardaga, en af því hefur því miður ekki orðið enn. Nú stendur til að hafa kyrrðardaga á þessum fornhelga stað síðustu helgina í apríl. Hefjast þeir á föstudaginn 24. apríl kl. 18:00 og verða fram yfir hádegi sunnudaginn 26. apríl. Góður og sérstklega hollur matur verður á boðstólum allan tímann og gisting í uppá búnum rúmum. Þau sem vilja taka þátt í kyrrðardögum á þessum einstaka stað er velkomið að hafa samband við mig á netfangið holabiskup@kirkjan.is. Auk þess sem Hólar eru helgur staður, þá er náttúrufegurð þar einstök og gönguleiðir um skóginn hjálpa til við að íhuga lífið og tilveru okkar í sköpun Guðs.