Er nóg til af skóflum?

Er nóg til af skóflum?

Jesús var góður verkalýðsforingi. Réttlæti var ofarlega í huga hans. Hann beitti sér gegn mansali síns tíma. Kvenmannskaup var ekki til í orðaforða hans. Hann var jafnréttis sinni. Allir skyldu fá sömu laun, jafnvel þótt vinnutíminn væri misjafn. Hann hefði ugglaust lagt áherslu á fækkun vinnustunda í viku hverri og fagnað því að hvíldartími yrði festur í reglugerð. Hann hefði einnig fagnað öllum tæknframförunum sem hafa gert líf verkafólks léttari.



Það var komið haust og lítill snáði var rétt nýbyrjaður í leikskóla.  Einn haustdag fór hann með pabba sínum í sund og þeir feðgar hittu þar fyrir ungan mann, móðurbróður litla snáðans. Frændinn var einnig staddur á nokkrum vegamótum í lífinu, nýinnritaður í Háskólann þar sem hann hugðist nema hagfræði.  Pabbinn og frændinn tóku tal saman en drengurinn lagði við hlustir eftir sínu eyra.  Pabbinn spurði hvernig frændanum líkaði veran í þessari háborg þekkingarinnar. Frændinn lét vel af sér og svo ræddu þeir málin áfram.  Drengurinn stóð þögull hjá en þegar færi gafst blandaði hann sér í umræðuna og spurði frænda sinn hvort hann væri líka byrjaður í skóla. Frændinn játaði því. Og þá kom spurningin sem brann á vörum unga drengsins:   ,,Í Háskóla !  Og er til nóg af skóflum þar?“

Er nóg til af skóflum er ákaflega góð og gild grundvallarspurning á baráttudegi verkalýðsins 1 maí þegar við söfnumst hér saman í Hafnarfjarðarkirkju Og hvað er líkt með hagfræði og skóflu? Það er líka góð og gild spurning í þessu samhengi, svona eftir á á að hyggja. Já,  bragð er að þá barnið finnur. Okkur vinnst aldrei vel ef við höfum ekki réttu verkfærin í höndunum og við þurfum að hafa nóg af þeim. Og þau þurfa að vera í lagi. Fiskvinnslukonan þarf að hafa góðan vel brýndan flökunarhníf í höndum til að geta flakað fiskinn. Tréskaftið þarf að vera vel fest við skófluna til að verkamaðurinn geti mokað með henni svo vel sé.

Stærstu framfarirnar eru oftsinnis fólgnar í því að gera mönnum störfin léttari, t.d. með tækninni, réttu verkfærin auka afköstin og skilvirknina og bæta hag einstaklinga og þjóða. Og síðan veldur hver á heldur.  Rafvirkinn nýtir sér rafmagns borvélina út í æsar og margvísleg skrúfjárn sem henta hverju sinni  Húsasmiðurinn nýtir sér góðan efnivið til að smíða úr og beitir hallamáli  og nú síðast lasertæknina til að starf sitt verði hornrétt.  Og enginn er húsasmiður nema hann eigi góðan hamar og noti viðeigandi saum sem hæfir verkefninu.

Fiskvinnuslukonum í vinnsluhúsum hefur ugglaust fækkað mikið á síðustu árum í kjjölfar tæknibyltingarinnar í sjávarútvegi sem með nýjum tækjum hafa gert flestar konurnar að óþarfa vinnukröftum. Þökk sé Marel og fleiri fyrirtækjum í tæknigeiranum. Þeim hefur líka fækkað verkamönnunum með malarskóflurnar vegna tilkomu stórvirkari tækja sem hafa komið til á síðustu áratugum sem hafa aukið afköstin til muna. Og með nýrri tækni er unnt að reisa byggingar á methraða í stað hraða snigilsins eins og áður var.  Það hefur ugglaust komið niður á gæðunum í einhverjum tilvikum eins og við höfum heyrt um.

Um það leyti sem fyrri heimsstyrjöldin hófst  kom faðir sextán ára syni sínum í skipsrúm á síldarbáti sem lagði upp frá Siglufirði. Unga manninum sem nú myndi reyndar vera skilgreindur sem barn þótti starfið krefjandi og erfitt. Og ég ætla bara að halda áfram að tala um barnið í þessu samhengi.

Síldin var veidd í nót. Annar endi nótarinnar var festur í skipið en róið með hinn endann kringum síldartorfuna þar til komið var aftur að skipinu. Síðan þurfti að herpa nótina saman að neðan svo síldin slyppi ekki. Ef síldin stakk sér áður en búið var að loka nótinni að neðan var allt til einskis og ekki um annað að gera en að taka nótina upp aftur að reyna á ný.

Ef allt gekk að óskum, þurfti að háfa síldina og moka henni upp í skipið með höndum. Síðan var siglt í land þar sem barnið og aðrir í áhöfninni skipuðu sjálf upp. Svo var siglt út aftur. Það var afar vont að lenda á útsiglingarvaktinni, því þá fékk barnið ekkert að sofa áður en komið var á miðin og leikurinn hófst á ný.

Þrjátíu og sex tíma vökur voru algengar. Eitt sinn er langt var liðið á slíka vöku spurði barnið bátsmanninn, sem var hans næsti yfirmaður; hvernig maður eiginlega ætti að halda þetta út í tíu tíma í viðbót? Hann vitnaði síðar oft í svarið sem hann taldi bera vott um afburða skynsemi yfirvegun og karlmennsku: „Ekki hugsa um hvernig þú heldur út næstu tíu tímana, hugsaðu um hvernig þú heldur út næsta klukkutímann, og ef það er of langt  hugsaðu þá um hvernig þú heldur út næsta korterið, eða fimm mínúturnar , eða mínútuna.“

Að síldarsumrinu loknu kom barnið heim með fullar hendur fjár, enda hafði það  verið á næst aflahæsta skipi flotans það árið. Ekki hlaut það mikla samúð hjá föður sínum þegar það fór að segja frávinnuhörku og vökulengd; — „Öllu má nú nafn gefa Daddi minn“ sagði gamli maðurinn „eitt sumar á síld í rjómalogni."

Þegar hér var komið sögunni þótti barninu tilhlýðilegt að taka fram, að ekki hafi nú alltaf verið eintóm blíða um sumarið, t.d. hafi skipsbáturinn eitt sinn brotnað við skipshliðina í hávaðaroki

En faðir barnsins hélt því fram og talaði af óumdeilanlegri reynslu að það þýddi ekki að láta menn vinna meira en níutíu til hundrað tíma í einu, því þá færu þeir að sofna ofan í fiskkösina, meðan þeir væru í aðgerð.

Það þótti ekki hæfa konum að vinna til sjós hér áður fyrr, þær áttu að sjá um heimilið og barnauppeldið meðan fyrirvinnurnar sóttu gullið í greipar ægis. En það virðist hafa þótt við hæfi að senda börn til sjós til að stunda erfiðis vinnu við hættulegar aðstæður þar sem skilin milli feigs og ófeigs voru stutt.

Oft urðu konurnar  ekkjur og börnin föðurlaus í kjölfar sjóslysa. Hvað var þá til ráða þegar fyrirvinnan var horfin í djúpið?  Þá var treyst á samhjálpina þar sem reynt var eftir föngum að létta undir með þeim sem áttu erfitt og börnunum var oftar en ekki komið fyrir hjá vandalausum.

Nú vinna sjálfsagt margar konur til sjós til jafns við karlana og þeim fjölgar konunum sem stunda iðnnám og atvinnu í greinum þar sem karlar voru einráðir.

Feðraveldi fyrri tíma sem enn eimir af, byggði á því að ýmsir hópar voru taldir óæðri ríkjandi valdastétt karlmanna, konur og börn voru talin skörinni lægra hér áður fyrr. Enn neðar voru þrælar og útskúfaðir eða þurfamenn og ómagar svo litið sé til nánasta umhverfis í tíma og rúmi.

Enn hafa konur ekki náð fullkomnu jafnræði á við karla þrátt fyrir óttvíræðan lagalegan rétt. Þess sér stað í launum eins og við vitum.   Kvenmannskaup var lengi við lýði hér á landi og er kannski enn þótt hljótt fari á stundum.

Eitt sinn varð vatnstjón úti á landi sem tryggingarnar áttu að bæta og hjálpsamir sveitungar lögðu lið. Sá sem varð fyrir tjóninu sendi reiking í þeirra nafni til kaupfélagsins sem vakti yfir öllum þáttum mannlegs lífs í sveitinni. Greiðslan barst skilvíslega og var upphæðin skammarlega lág.  Þegar spurt var út í upphæðina þá sagði fulltrúi kaupfélagsins. ,,Jú, sjáðu til, við erum vön að borga mönnum kvenmannskaup fyrir svona björgunaraðgerðir.“

Það er óttinn og fáfræðin sem ala af sér fordóma og þröngsýni gagnvart öllum þeim sem standa utan við okkar litla og takmarkaða heim. Þetta er kannski hluti vandans sem verkalýðurinn glímir við í dag.  Konur eiga að hafa sömu laun fyrir sömu vinnu og karlar. Það kallast jafnrétti. Að virða sinn eigin arf og lífssýn er forsenda þess að við getum nálgast aðra af sömu virðingu. Og verður er verkamaðurinn launa sinna, hvert svo sem starf hans er. Við fordæmum hvers kyns mansal þar sem verkamaðurinn er þræll húsbónda síns og nýtur engra réttinda. Það þarf að taka fast á slíkum málum og tilkynna grun um slíkt til lögreglu tafarlaust.

Vinnan er mörgum erfið og þungbær. Þungbærari er þó hversdagur þess sem ekkert hefur við að vera, ekkert hefur að að hverfa til að fylla tíma sinn innihaldi og merkingu.  Kristin trú sér vinnuna sem gjöf og köllun til að láta gott af sér leiða. Öll mannleg viðfangsefni geta verið liður í því að gera jörðina betri og lífvænlegri, að bæta og efla lífið, okkur sjálfum og náunganum til góðs og gæfu og komandi kynslóðum til hagsbóta.

Ég heyrði af bónda í Húnavatnssýslu sem kallaður var Guðmundur góði. Hann var svo góður fjárhirðir að hann gekk á undan með góðu fordæmi og þekkti nöfn allra kinda í fjárhópnum og gætti þess að engin þeirra færi sér að voða eða týndist. Þegar þurfti að koma hópnum á hús þá kallaði hann hátt og all lengi svo bergmálaði í fjöllunum og fyrr en varði skiluðu kindurnar sér af fjalli í heimahaga allt íinn í fjárhúsið þar sem Guðmundur góði tók á móti þeim með brosi á vör. Kindurnar þekktu rödd vinar síns sem hafði reglulega gefið þeim á garðann í fjárhúsinu.

Ég hygg að Jesú hafi líkt sjálfum sér við góðan hirði vegna þess að allir samtímamenn hans vissu hvaða mann fjárhirðar höfðu að geyma og að þeir ynnu uppbyggileg störf náunganum til gagns og lífinu til bóta. Svo þekkti Jesús líka spádómsbók Esekíels en hann var ábyrgur fyrir trúarlífi safnaðarins í útlegðinni í Babylon.Í ritinu eru að finna myndrænar frásagnir, t.d. af góða fjárhirðinum eins og við heyrðum áðan þegar lesið var úr bók Esekíels. Þar segir Drottinn Guð:,,Nú ætla ég sjálfur að leita sauða minna og líta eftir þeim.....Ég mun sjálfur halda mínu fé til beitar í góðu haglendi....Ég mun leita þess semvillist og sækja hið hrakta, binda um hið limlesta og styrkja hið veikburða.“

Og postulinn Pétur minnir okkur á eftirfarandi í pistli dagsins. ,,Þið voruð sem villuráfandi sauðir en nú hafið þið snúið ykkur til hans sem er hirðir og biskup sálna ykkar.“

Að hætti góða hirðisins þá lagði Jesús líf sitt í sölurnar fyrir okkur, sauði sína, galt fyrir það með lífi sínu en Guði þóknaðist að endurvekja hann svo við mættum lifa fyrir hann í trú, von og kærleika. Þess vegna er kirkjan til, söfnuður Krists á jörðu. Þess vegna söfnumst við saman hér í Hafnarfjarðarkirkju á degi verkalýðsins til þess að tilbiðja hann í anda og sannleika.

Og hann þekkir okkur hvert og eitt með nafni og við þekkjum hann. Hann sýndi með lífi sínu að hann leitaði að þeim týnda, sótti hinn hrakta, batt um hinn limlesta og styrkti hinn veikburða. Jesú stóð aldrei hjá og horfði á. Hann greip til sinna ráða og hjálpaði þeim sem á vegi hans urðu.

Jesús var góður verkalýðsforingi.  Réttlæti var ofarlega í huga hans. Hann beitti sér gegn mansali síns tíma.       Kvenmannskaup var ekki til í orðaforða hans. Hann var jafnréttis sinni. Allir skyldu fá sömu laun, jafnvel þótt vinnutíminn væri misjafn. Hann hefði ugglaust lagt áherslu á fækkun vinnustunda í viku hverri og fagnað því að hvíldartími yrði festur í reglugerð. Hann hefði einnig fagnað öllum tæknframförunum sem hafa gert líf verkafólks léttari.

Hann hefði ugglaust svarað því til að það væri nóg til af alls kyns skóflum og verkfærum í háskóla lífsins. Þær ættu að nota til að bæta lífið með stuðningi hans. Verður er verkamaðurinn launa sinna, sagði hann með ýmsum hætti.

Hann blessaði börnin og hvatti samferðafólk sitt til að leyfa börnunum að koma til sín og vera börn. Hann hefði örugglega brosað með okkur að spurning u snáðans í heita pottinum sem spurði hvort skóflur væru í háskólanum?

Litli snáðinn hefur örugglega haft einhver kynni af sandkassanum í leikskólanum. En þar lærði hann ásamt okkur mest af því sem við í raun og veru þurfum að vita um það hvernig við eigum að lifa, hvað okkur ber að gera og hvernig við eigum að vera.  Í háskólanum var lífsviskan kannski ekki hátt skrifuð en þarna, í sandkassnum var hún efst.  Og þetta er það sem við lærðum þar

Gefðu öðrum með þér. Vertu sanngjörn, Ekki lemja aðra. Taktu ekki það sem þú átt ekki. Biðstu fyrirgefningar ef þú gerir á hluta einhvers.  Brauðsneið og nýmjólk gerir þér gott Gleymdu ekki að læra og hjálpa til. Farðu snemma að sofa.

Allt sem maður þurfti að vita var þarna. Gullna reglan og kærleiksboðið, vistfræðin og fleira.  Og hvaða lífsregla er betri þegar maður fer út á lífsins vegu en þessi: ,, Gætið ykkar á umferðinni, haldist í hendur og passið hvert annað.“ Hér er siðfræði kristninnar í hnotskurn. Það virðist einfalt en það er ósköp erfitt í alvöru hins fullorðna lífs.

Verkafólk . Til hamingju með daginn. Gangið á Guðs vegum. Jesús er góður hirðir. Hann þekkir okkur öll með nafni og vill gefa okkur gott líf með sér. Amen


Esk  34. 11-16,31

1 Pét. 2. 21-25

Jóh. 10. 11-16