Guðspjall: Lúk. 2.1-14
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og megi friður frelsarans finna sér leið að hjarta sérhvers manns sem mál mitt heyrir.
Guðfræðingurinn Sören Kirkegaard segir um bænina. “Er bæn mín varð æ innilegri og hugheilli þá hafði ég sifellt minna að segja. Loks þagnaði ég með öllu. Ég varð það sem er algjör andstæða máls, ég varð hlustandi. Ég hélt fyrst að það að biðja sé að tala. En ég lærði að það að biðja er ekki aðeins að þegja heldur að hlusta. Þannig er það. Að biðja er ekki að hlusta á sjálfan sig tala. Að biðja er að verða hljóður og bíða uns hinn biðjandi Guð heyrir”.
Það er mikil speki í þessum orðum Sörens fólgin. Bænin er vináttusamfélag þar sem sá sem biður leitast við að tengjast Guði og færast honum nær, elska hann meir. Að vera í návist Guðs og hlusta á hann og rækta samneytið við hann eins og við góðan vin og hjartfólginn. Að geta sagt þrátt fyrir alla ósigra og mótlæti. Ég hlaut ekki það sem ég bað um en ég hlaut það sem ég þráði, því Guð heyrði andvarpið að baki bænum mínum og óskum.
Stormar hafi nætt um okkur íslendinga að undanförnu með margvíslegum búsifjum til sjávar og sveita. Mér kemur í hug að við þurfum af þeim sökum að vera duglegri að biðja fyrir þeim sem mætt hefur á af völdum þessara náttúruhamfara og jafnframt að þakka Guði fyrir forsjón hans t.d. þegar ungi maðurinn og hundurinn hans voru heimtir úr helju úr beljandi straumnum í Eyjafjarðarsveit fyrir stuttu síðan. Það getur enginn sett sig í spor þeirra nema sá sem reynt hefur á eigin skinni. En við sem ekki þekkjum þessa lífsreynslu getum vissulega miðlað nærveru okkar með þeim sem reynt hafa og sýnt þeim samhug í orði og verki.
Þegar á reynir standa íslendingar saman sem einn maður og leitast við að snúa högum þeirra við sem orðið hafa fyrir búsifjum af völdum náttúruhamfara. Það er alltaf sárt fyrir bóndann að horfa á eftir gripum sínum í forina og sjá eigur sínar eyðileggjast að stórum hluta. Það er hins vegar hægt að bæta hluti en mannslíf er ekki hægt að bæta. Þrátt fyrir að nautgripir hafi farist þá fæddist naut á einu bænum í veðurhamnum sem gefið var nafnið Hamfaranaut.
Ég finn til samúðar með fjölskyldu danska varðskipsmannsins sem týndi lífi sínu við björgunaraðgerðir við Sandgerði. Hann ásamt félögum sínum sýndu þar einstakt hugrekki við mjög erfiðar aðstæður.
Íslenskar björgunarsveitir leggja sig jafnan í hættu þegar náttúran sýnir á sér klærnar. Slíkt kallar stundum á óbætanlegar fórnir en fyrir vikið verður oft á tíðum fleiri mannslífum bjargað sem er sérstaklega þakkarvert. Biðjum fyrir björgunarsveitunum okkar, að Guði megi gefa öllu því góða fólki visku á hverjum tíma og hugrekki til að takast á við erfiðar kringumstæður. Við vitum aldrei hvenær við þurfum sjálf á hjálp að halda á vegferð okkar. Það er ekki hægt að segja að fólkið sem skipar björgunarsveitirnar séu andlega fátækt þegar það leggur líf sitt í hættu við að bjarga fólki og eignum þess. Með verkum sínum og fórnfúsu starfi leitast það við að hlúa að sálarheill, velfarnaði og velferð vegfarenda hér á landi.
Á þessari nóttu gefst okkur kostur á því að tala við Guð og þakka honum fyrir gjöfina sem tekur öllum gjöfum fram, soninn hans eingetna sem fæddist inn í veraldlegt allsleysi en naut ríkulegra gjafa Maríu og Jósefs, umvefjandi faðms þeirra, hlýju og kærleika sem þau voru svo rík af. Það er því ekki heldur hægt að segja að þau hafi verið andlega fátæk.
Skilyrðislaus kærleikur er mesta gjöf sem við getum gefið hvort öðru þegar allt leikur í lyndi og einnig þegar stormar stríða allt um kring og erfiðleikar steðja að, ekki síst gagnvart börnum okkar.
Nokkur umræða hefur verið um veraldlega fátækt barna á Íslandi. Við höfum heyrt um ótrúlegan fjölda barna hér landi sem búa við erfið kjör vegna fátæktar. Ég tek undir umræðu um að þetta sé þjóðarskömm hér í landi allsnægtanna. Þessu þarf að breyta með samvinnu sveitarfélaga, fyrirtækja og ríkisvaldsins. Þjóðin verður að sameinast um að útrýma veraldlegri fátækt barna hvað sem það kostar.
Ég hef þó meiri áhyggjur af því að siðferðisþrek þjóðarinnar virðist fara þverrandi. Þess má víða sjá dæmi. Hraðakstur og neysla áfengis og fíkniefna hefur valdið fleiri dauðaslysum þetta árið í umferðinni en undangengin ár. Það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið hefur dottið ofan í hann. En því miður höfum við tilhneigingu til að lagfæra fúið spýtnabrakið á brunnlokinu í stað þess að skipta um það. Ég vona að strangari viðurlög við hraðakstri fækki umferðarslysum. Ég efast þó um að það nægi eins og dæmin sanna þegar. Ég tel að fyrst og fremst þurfi virðing að koma til. Virðing fyrir lífi og limum annarra. Það læra börnin sem fyrir þeim er haft er góð áminning til okkar allra í þessu sambandi. Ábyrgð okkar foreldranna er mikil og ekki heiglum hent að vera foreldri í þessu hraða neyslusamfélagi með kröfum sínum og freistingum.
Hjónabandið á undir högg að sækja í stormviðrum neysusamfélagsins, ekki síst vegna þess að annað hvort hjóna eða bæði rjúfa hjúskaparsáttmála sinn, jafnvel með samþykki hvors annars. Hugsanleg vanlíðan foreldranna skilar sér í hegðun barnanna sem líða fyrir hegðun foreldra sinna sem eiga að vera fyrirmyndirnar.
Hjón mega ekki missa sjónar á því sem gefur hjónabandinu gildi sem er hið góða, fagra og fullkomna. Fyrirmyndin er Jesús Kristur og samband hans við kirkju sína en kirkjan erum við sjálf sem lútum við jötu lága hér á jólanótt. Jesús dró boðorðin 10 saman í tvöfalda kærleiksboðorðinu þar sem hann leggur áherslu á að við elskum Guð og náungann eins og okkur sjálf með öllu því jákvæða og góða sem prýðir okkur. Ef við náum að halda þetta boðorð þá erum við rík andlega þrátt fyrir allar ágjafirnar sem við kunnum að verða fyrir í lífinu. Það skilar sér síðan í bættri geðheilsu okkar og framkomu okkar við bróður okkar og systur í Drottni Jesú Kristi sem er maki okkar og börn, sem og náunginn þó að hann búi í fjarlægri heimsálfu.
Á ég að gæta bróður míns og systur? Vissulega!. Það þarf virðingu fyrir mannslífum til, einnig virðingu fyrir sjálfum sér, maka sínum, hjónabandinu og sáttmála þess og börnum þessa lands.
Okkur eykst siðferðisþróttur á vegferð okkar ef við gleymum ekki að staldra við og hvíla okkur í lífsgæðakapphlaupinu á stundum og íhuga stöðu okkar frammi fyrir almættinu og náunganum, fyrirgefa og þiggja fyrirgefningu. Já, gleymum ekki valdi fyrirgefningarinnar og endurleysandi krafti hennar fyrir sál og líkama. Þá verðum við nefnilega vör við það að yfir okkur vakir hulin hönd sem vitjar okkar í mannlegri englismynd sem sýnir okkur skilyrðislausan kærleika. Þetta er kristindómurinn. Þetta er það sem skiptir öllu máli. Þetta er besta gjöfin sem við getum gefið foreldrum okkar, ættingum, vinum og samferðafólki nær og fjær sem á allt.
Þjóðverjinn Joseph Mohr sem á einn sálm í sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar samdi eitt sinn annan sálm við lagið sem sálmurinn Heims um ból er sungið við. Hann hljóðar svo í þýðingu Sigurjóns Guðjónssonar:
Hljóða nótt, heilaga nótt. Værð á fold, vaka tvö Jósep og María jötuna við, jól eru komin með himneskan frið. :/:Fætt er hið blessaða barn. :/:
Hljóða nótt, heilaga nótt. Hirðum fyrst heyrin kunn gleðirík, fagnandi engilsins orð, ómfögur berast frá himni á storð: :/: Fæddur er frelsari þinn. :/: Hljóða nótt, heilaga nótt. Sonur guðs signir jörð. Myrkrið það hopar við hækkandi dag hvarvetna sungið er gleðinnar lag: :/: Kristur er kominn í heim. :/: Joseph Mohr – Sigurjón Guðjónsson
Friður Guðs sem er æðri öllum skilningi varðveiti hjörtu okkar og hugsanir í Kristi Jesú Drottni vorum. Amen