Gvendarlækur

Gvendarlækur

Nema hvað að á þessum slóðum átti biskupinn að hafa vígt lítinn læk og fylgdi það sögunni að í kjölfarið megnaði sprænan að renna sína leið niður dalinn hvernig sem viðraði, hvort heldur gerðu frosthörkur að vetrarlagi eða langvinnir þurrkar. Gvendarlækur, lagði hvorki né þvarr.

Einu sinni var ég á ferð með gönguhópi vestur í Önundarfirði. Með í för var leiðsögumaður sem glæddi umhverfið enn meira lífi með sögum og sögnum. Á þessari för komum við að læk í Valþjófsdal í sunnanverðum firðinum. ,,Þetta er Gvendarlækur,” sagði sá kunnugi. Þarna á hinn frómi biskup Guðmundur góði Arason að hafa verði á ferð á sínum tíma og eins og hans var von og vísa þá vígði hann eitt og annað sem á vegi hans varð. Já, hann var ekki aðeins þekktur fyrir umhyggju í garð fátækra, heldur þótti hann liðtækur við að helga náttúrufyrirbæri.

Helgað vatnið Þekkt er sagan úr Drangey þar sem hann stenkti vígðu vatni á hlíðar og kletta, þar til rödd kom úr einum hamrinum og bað hann að láta ógert að vígja þenna hluta eyjunnar, því ,,einhvers staðar þurfa vondir að vera”. Guðmundur á að hafa orðið við óskum verunnar og heitir sú hlíð nú, Heiðnaberg.

Nema hvað að á þessum slóðum átti biskupinn að hafa vígt lítinn læk og fylgdi það sögunni að í kjölfarið megnaði sprænan að renna sína leið niður dalinn hvernig sem viðraði, hvort heldur gerðu frosthörkur að vetrarlagi eða langvinnir þurrkar. Gvendarlækur, lagði hvorki né þvarr.

Ekki þekki ég jarðfræðina að baki fyrirbærinu en sagan er góð. Fyrst og fremst eru það tengslin við hið heilaga inngrip sem eiga að hafa haft slík áhrif á rennandi vatnið. Mátturinn leynist hið innra og utanaðkomandi þættir stýra því hvorki né buga. Hið helgaða sinnir tilgangi sínum og köllun.

Fyrir vikið verður Gvendarlækur mönnum og málleysingjum til mest gagns þegar annað vatn getur ekki lengur runnið. Auðvitað þarf ekki að leita langt yfir skammt að slíku vatni. Við Reykvíkingar drekkum vatnið úr Gvendarbrunni en að baki búa einnig helgisagnir því vatn úr Gvendarbrunnum á að hafa búið yfir lækningarmætti.

Já, af þessum undrum biskupsins hafa menn heyrt í gegnum aldirnar og vafalítið hefur einhver tengt sögurnar við eigin kynni af vígðu vatni. Við eigum sitthvað sameiginlegt með vatninu sem kennt er við Guðmund góða.

Vetur í hjartanu Í skírninni eru kristnir menn helgaðir Guði og fá í vöggugjöf ef svo má segja dýrmætan boðskap, um kærleika til handa náunga okkar, virðingu fyrir því sem verðmætt er og kröfu um að koma þeim til aðstoðar sem stendur höllum fæti og þarf á liði okkar að halda. Í nýlegri könnun kom fram að aðeins helmingur þjóðarinnar kvaðst vera trúaður. En skyldu allir deila sömu mynd af því hvað er að vera trúaður? Hefur tíðarandinn birt okkur framandlega mynd af trúnni sem er í raun öndverð þeirri sem Kristur boðaði?

Þeir sem játast Kristi þurfa einmitt að gæta sín á þeim flokkadráttum sem gjarnan einkenna umræðuna um trúmál á okkar dögum. Þessi boðskapur snertir á kjarna kristinnar trúar og rétt eins og lækurinn sem átti að hafa fengið þessa merkilegu vígslu, eigum við ekki að láta hinar ytri aðstæður stjórna okkur í hvívetna. Nei, þvert á móti verður það hlutskipti hvers og eins sem tekur sína vígslu alvarlega að sinna þeirri köllun sem hann er skírður til, ekki aðeins í góðu árferði heldur, já og enn frekar þegar aðstæður eru erfiðar. Þá sem aldrei fyrr er rétt að hugleiða það hvað það er sem býr í hjarta okkar. Erum við tilbúin að elska náungann eins og sjálfa okkur - eða fer um okkur eins og þeim sem enga sérstöðu hefur og lætur undan hinum ytri áhrifaþáttum?

Já, ,,stundum verður vetur, veröld hjartans í,” yrkir Sigurbjörn Einarsson og sannarlega má yfirfæra það vetrarríki sem stundum ríkir í náttúrunni við það þegar öfl haturs og ótta taka völdin og vilja festa hjörtun í klakabönd.

Sú mynd hefur blasað við okkur undanafarið, ekki síst í óttanum gagnvart íbúum á Vesturlöndum sem eiga sér rætur í öðrum heimshlutum. Víða í borgum Evrópu hafa samtök á borð við, Pedita efnt til mótmæla gagnvart því sem þeir segja að ógni kristinni menningu og kristnum gildum í álfunni. En þar sem göngumenn örkuðu framhjá kirkjum og helgidómum kirkjunnar, var þar slökkt á öllum ljósum - prestar og kirkjuráðendur sýndu með því vanþóknun sína á þessu framferði. Því fátt er eins andkristið eins og andúðin gagnvart útlendingnum og þeim sem stendur á jaðri samfélags. Ógnin af göngumönnum var meiri en sú sem stafaði af múslímum og öðrum trúarhópum. Já, það er svo brýnt að missa ekki sjónar á markmiðum sínum þótt hið ytra andi köldum vindum. Staðfesta

Það er þessi staðfesta kristinna manna sem er til umfjöllunar í guðspjalli dagisns. Þar er vatnið vissulega áberandi - lækingarlind sem býr yfir undraverðum krafti. Einhvers konar Gvendarbrunnur í landi Ísraels. Liður í gamalli heimsmynd segir nútímamaðurinn og jú, það má til sanns vegar færa að kraftaverkastaðir eru ekki merktir inn á landakortið hérlendis og hafa ekki verið hluti af trúarlífi Íslendinga allt frá siðaskiptum. Sagan af heimsókn Jesú til Betesta, þar sem vatnið átti að vera gætt slíkum kröftum að veikir fengu lækningu verður að einhverju öðru og meiru en sögu af lækningarlind. Sjálf lindin verður aukaatriði í frásögninni. Athyglin beinist að manninum sem hafði svo lengi mátt búa við hina alvarlegu fötln.

Í þrjátíu og átta ár hafði hann setið við bakka lindarinnar og beðið eftir að hún gáraðist, en jafnan var einhver á undan honum ofan í vatnið, svo enn mátti hann bíða. Þrjátíu og átta ár beið hann við brunninn, þar til hann varð á vegi Jesú frá Nasaret. Þetta er ekki lítill tími og skyldi enginn draga dul á þolinmæði vesalings mannsins og óbilandi von um að lækningu væri að finna í lindinni. Eða hvað? Var vonin kannske að baki eftir allan þennan tíma? Er bið sem þessi líkleg til þess að blása mönnum í brjóst kraft og von?   Inn í þessar aðstæður kemur Kristur og spyr: „Viltu verða heill?" Maðurinn játti því og fékk þá boð um að rísa á fætur og ganga af stað.   Merkileg þessi spurning, og færir athygli okkar frá þessari lækningu sem Kristur veitir og að sjálfum sjúklingnum. Skyndilega hefur þessi lamaði maður eigin örlög í sínum höndum. Það er hann sem tekur ákvörðunina. Væri einhver von til þess að hann svaraði spurningunni neitandi?

Heilindi

“Viltu verða heill? þessa spurningu hefur Kristur borið fyrir mannkyn aldir og árþúsundir. Lækningin sem Kristur býður kalla kristnir menn náð. Hún er lífgefandi, hún opnar augu okkar fyrir Guði, hún veitir okkur styrk og mátt og frelsi rétt eins og þegar styrkur veitist máttlausum líkama. Hún býður okkur inn í kærleika Guðs, opnar fyrir okkur þær dyr sem liggja inn í eilíft líf. Hún bindur ekki manninn með reglum eða fyrirmælum, setur engin skilyrði um þekkingu, kunnáttu, virðingu, trú, litarhátt eða hvern þann annan mælikvarða sem menn setja á meðbræður sína. Sá sem tekur á móti náð Guðs er ekki bundinn slíku, hann er frjáls undan slíkum reglum.

Heilsan sem Kristur talar um er ekki eingöngu líkamleg. Heilsubrunnurinn sem hið vígða skírnarvatn er, miðar enn fremur að því að við hugleiðum stöðu okkar og hlutverk. Þar verður heilsan nátengd því sem við getum kallað heilindi, það að vera heil manneskja en ekki sundurtætt í fjandskap og tortryggni gagnvart náunganum. Í guðspjallinu birtist þessi hugsun þegar trúarleiðtogarnir líta framhjá kærleiksverkinu, lækningunni sjálfri og einblína á hina formlegu þætti - að Jesús skyldi hafa læknað á hvíldardegi. Sú afstaða birtist okkur á öllum tímum, þar sem ekki er spurt um þau kærleiksverk sem ber að vinna. Aðeins óttinn við hið framandlega og því sem kann að ógna ríkjandi gildum.

Og þá verður spurningin um heilindi og staðfestu enn sterkari. Hún minnir okkur á hvað það er að vera kristin manneskja. Því má líkja við læk sem rennur sína leið þegar allt annað vatn er þorrið eða bundið í klakabönd.

Svarið við spurningu Krists er í raun sú trúarjátning, sem mestu máli skiptir. Já, játning sem rýfur fjötra og minnir okkur á það hvað það í rauninni er að fylla raðir kristinna manna. Hún er ekki nákvæm útlistun á niðurstöðum fornra kirkjuþinga heldur sú grundvallarspurning að við erum tilbúin að leitast við að vera heil, vera heilbrgð, sönn, lifa því lífi sem við teljum mannsæmandi og ákjósanlegt?