[audio:http://tru.is/hljod/2009-05-03-hraedslan-og-ottinn.mp3]
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig. Í húsi föður míns eru margar vistarverur. Væri ekki svo hefði ég þá sagt yður að ég færi burt að búa yður stað? Þegar ég er farinn burt og hef búið yður stað kem ég aftur og tek yður til mín svo að þér séuð einnig þar sem ég er. Veginn þangað sem ég fer þekkið þér.“Tómas segir við hann: „Drottinn, við vitum ekki hvert þú ferð, hvernig getum við þá þekkt veginn?“
Jesús segir við hann: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið. Enginn kemur til föðurins nema fyrir mig. Ef þér hafið þekkt mig munuð þér og þekkja föður minn. Héðan af þekkið þér hann og hafið séð hann.“
Filippus segir við hann: „Drottinn, sýn þú okkur föðurinn. Það nægir okkur.“
Jesús svaraði: „Ég hef verið með yður allan þennan tíma og þú þekkir mig ekki, Filippus? Sá sem hefur séð mig hefur séð föðurinn. Hvernig segir þú þá: Sýn þú oss föðurinn? Trúir þú ekki að ég er í föðurnum og faðirinn í mér? Það sem ég segi við yður eru ekki mín orð. Faðirinn, sem í mér er, vinnur sín verk. Trúið mér að ég er í föðurnum og faðirinn í mér. Ef þér trúið ekki orðum mínum trúið þá vegna sjálfra verkanna. Jóh 14.1-11
Ég er hræddur. Það er að koma svínaflensa. Og hún gæti orðið mjög skæð og við vitum ekki hvernig þetta verður.
Ég er hræddur. Það er víst kominn tími á Kötlugos. Og þegar það gerist þá verða miklar hamfarir. Það gæti orðið stórflóð. Og öskufallið, ja, það gæti ...
Ég er hræddur. Það er kannski von á öðru efnahagshruni.Og hvað verður þá? Meira atvinnuleysi. Meiri óvissa. Meiri vandi ...
Ég er hræddur. Ofbeldið í samfélaginu virðist vera að aukast. Fréttir bárust af hrottalegri líkamsárás um daginn. Það var líka framið vopnað rán. Fólki er hótað ...
Ég er hræddur.
* * *
Kæri söfnuður. Það er margt að hræðast í dag. Flensur og náttúruhamfarir, efnahagshrun og ofbeldi eru bara nokkur dæmi um það.
Ég hef reyndar áhyggjur af einu til viðbótar:
Óttanum sjálfum. Af andrúmslofti óttans og af orðræðu óttans.
Við getum nefnilega undirbúið okkur vel fyrir flensur og eldgos og jafnvel efnahagshrun. Við eigum viðbragðaáætlanir fyrir hamfarir af ýmsum toga og þar sem slíkar áætlanir eru ekki til er hægt að setja þær saman. En við megum ekki láta þar við sitja. Við þurfum líka að glíma við það sem gerir samfélagið okkar að því sem kalla má samfélag óttans. Og ég hef áhyggjur af orðræðunni sem ýkir stundum, sem lyftir fram óttanum, sem nærist á ljótleikanum og áhyggjunum.
Í vikunni mátti meðal annars lesa í dagblöðunum:
„Möguleiki talinn á heimsfaraldri.“„Of seint að hindra svínaflensuna.“
Þegar leið á vikuna var dregið aðeins úr:
„Ekki endilega mannskæður“.
Og undir lok vikunnar mátti lesa í einu blaðinu:
„Flensan mun koma“ og svo stóð með smærra letri fyrir neðan „en ekki eins og drepsótt.“
Ef horft er til fyrirsagnanna þá dró úr „faraldrinum“ eftir því sem við fengum meiri og áreiðanlegri upplýsingar. Og þegar getgátur viku fyrir þekkingu minnkaði ógnin og þar með óttinn.
En hvernig leið okkur? Hvaða fyrirsögn hafði mest áhrif á þig? Sú mildasta? Flensan er ekki eins og drepsótt. Eða kannski sú sem gekk lengst? Það er of seint að hindra svínaflensuna.
Ég vil ekki gera lítið úr svínaflensunni. Alls ekki. Hún er raunveruleg ógn og víst er að við höfum áhyggjur og þurfum að vera á varðbergi. Og líklega er að það er betra að vera aðeins of varkár þegar kemur að þessum efnum. Ég vil heldur ekki gera lítið úr umfjöllun fjölmiðlanna. Þeir reyna að sinna sínu hlutverki.
En ég velti þessu nú samt fyrir mér.
Og tek þetta sem dæmi um það hvernig umfjöllun getur þróast.
Um leið finnst mér hér vera kröftug áminning um mikilvægi þess að þekkja vel staðreyndir. Að við tökum ábyrgð á því sjálf. Og þetta er áminning um mikilvægi þess að við séum gagnrýnin á umfjöllun í samfélaginu almennt, þar með talið í fjölmiðlum.
Ég hef nefnilega af því áhyggjur að umræða – og ekki bara umræða í fjölmiðlum heldur í samfélaginu almennt – um efni sem þessi og um önnur samfélagsmein geti við ákveðnar aðstæður orðið að því sem kalla mætti orðræðu óttans. Og að hún geti jafnvel farið að viðhalda sjálfri sér.
Og ég er sannast sagna ekki viss um að það sé æskilegt.
Ég er eiginlega viss um að það er óæskilegt!
Afleiðingar hræðslunnar sem óhjákvæmilega grípur um sig þegar dregin er upp ýkt mynd af einhverju sem ógnar eða er talið ógna eru ekki góðar. Hvort sem um er að ræða farsóttir, efnahagshrun, ofbeldi eða eitthvað annað:
Óöryggi. Vantraust. Aukin fjarlægð milli fólks. Fordómar. Og vanlíðan.
Viljum við að samfélagið okkar einkennist af þessu?
* * *
Í bókinni Æðruleysi - kjarkur - vit sem kom út á dögunum er að finna örsögu sem fjallar um afa og barnabarn og tvo úlfa. Hana má skoða sem tilraun til að orða hugmyndina um tvenns konar samfélag – samfélag ótta og samfélag vonar. Sagan er svona:
Afinn var að spjalla við barnabarnið: Það eru tveir úlfar að takast á innra með þér, óttinn og trúin, vonin og kærleikurinn. Óttinn er reiður, bitur og tortrygginn. Trúin, vonin og kærleikurinn er mildur, hugrakkur og örlátur. Hvor vinnur? spurði barnið. Sá sem þú fóðrar, svaraði afi.
Hvor úlfurinn er fóðraður í samfélaginu okkar? Hvorn úlfinn fóðrar umræðan í fjölmiðlum? Á netinu? Hvorn úlfinn fóðrum við í eigin lífi?
* * *
„Hjarta yðar skelfist ekki. Trúið á Guð og trúið á mig,“ segir Jesús í guðspjalli dagsins.
Hér höfum við hvatningu og eins konar stefnuskrá, sem við getum horft til. Hvatningu um að láta óttann ekki ná undirtökunum. Að láta hvorki óttann né orðræðu óttans móta líf okkar og samfélagið okkar. Heldur setja trúna og vonina og kærleikann í öndvegi og leggja okkar af mörkum til að samfélagið okkar sé grundvallað á samstöðu og heilindum og umhyggju.
Ábyrgðin er okkar.
Kæri söfnuður.
Ég er hræddur ... en ég óttast ekki. Því þegar allt kemur til alls er ekki ástæða til að láta óttann vegna flensufaraldranna og eldgosanna og efnahagshrunananna ná tökum á okkur og ráða í lífi okkar. Við undirbúum okkur undir þau. Skynsamlega. Gerum áætlanir. Mætum því sem að höndum ber.
Ég er hræddur ... en ég óttast ekki.
Við höfum áhyggjur af óheilindum og af grimmd í kringum okkur. En við látum það heldur ekki ná tökum á okkur og ráða í lífi okkar. Við leyfum óttanum ekki að móta okkur og þannig leyfum við óttanum ekki að móta samfélagið.
Þess í stað horfum við til hans sem sagðist vera vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Til hans sem kallar okkur til ábyrgðar á okkur sjálfum og á náungaum. Til þess að segja sannleikann um lífið. Til að berjast gegn tilgangsleysi og vonleysi, gegn lygi og óheilindum. Til hans sem kallar okkur til þjónustu í kærleika.
Það er áskorun dagsins.
Við skulum fylgja honum.
Og saman skulum við fóðra úlf trúar, vonar og kærleika.
Það er hvatning dagsins í dag.