Þegar þér sjáið viðurstyggð eyðingarinnar, sem Daníel spámaður talar um, standa á helgum stað - lesandinn athugi það - þá flýi þeir, sem í Júdeu eru, til fjalla. Sá sem er uppi á þaki, fari ekki ofan að sækja neitt í hús sitt. Og sá sem er á akri, skal ekki hverfa aftur að taka yfirhöfn sína. Vei þeim sem þungaðar eru eða börn hafa á brjósti á þeim dögum. Biðjið, að flótti yðar verði ekki um vetur eða á hvíldardegi. Þá verður sú mikla þrenging, sem engin hefur þvílík verið frá upphafi heims allt til þessa og mun aldrei verða. Ef dagar þessir hefðu ekki verið styttir, kæmist enginn maður af. En vegna hinna útvöldu munu þeir dagar styttir verða.Ef einhver segir þá við yður: Hér er Kristur eða þar, þá trúið því ekki. Því að fram munu koma falskristar og falsspámenn, og þeir munu gjöra stór tákn og undur til að leiða afvega jafnvel hina útvöldu, ef orðið gæti. Sjá, ég hef sagt yður það fyrir.
Ef þeir segja við yður: Sjá, hann er í óbyggðum, þá farið ekki þangað. Ef þeir segja: Sjá, hann er í leynum, þá trúið því ekki. Eins og elding sem leiftrar frá austri til vesturs, svo mun verða koma Mannssonarins. Þar munu ernirnir safnast, sem hræið er. Mt. 24:15-28
* * *
Gleðilega hátíð, kæri söfnuður og til hamingju með daginn, hálfrar aldar afmæli Háteigssafnaðar. Guð blessi allt það sem Háteigskirkja stendur fyrir í lífi okkar, minningum. Guð launi og blessi það sem hér er unnið og starfað, hann blessi þau sem lögðu grundvöllinn að kirkjustarfi hér í nýstofnaðri sókn, og börðust fyrir því að kirkjan yrði reist hér og unnu að því að byggja söfnuð með guðsþjónustu, barnastarfi, uppfræðslu ungmenna, bænalífi og helgri iðkun og tónlistalífi. Guð blessi sérhvern þann sem lagt hefur hönd og huga að verki í þjónustu kirkju og safnaðar fyrr og síðar. Guð blessi ykkur sem nú haldið uppi helgri þjónustu hér. Guð vaki yfir Háteigskirkju og varðveiti sérhvern þann sem hér starfar, hingað kemur og héðan fer.
Barátta frumherjanna virðist æði fjarlæg nú þegar við erum hér innan veggja þessa veglega helgidóms. Þegar séra Jón Þorvarðarson tók hér við og hóf uppbyggingu safnaðar hér í ört vaxandi nýbyggðahverfi. Um árabil átti söfnuðurinn ekki þak yfir höfuðið. Safnast var til guðsþjónustu í hátíðasal Sjómannaskólans. Þar kom fólk saman um orðið og bænina og lyfti upp sýninni um öflugt kirkjustarf hér í hverfinu. Konurnar í Kvenfélagi Háteigskirkju lögðu svo sannarlega mikið að mörkum af trúfesti og fórnfýsi til byggingar og prýði helgidómsins og uppbyggingar félagslífs og safnaðarstarfs. Loks reis Háteigskirkja, glæsilegri og íburðarmeiri en aðrar kirkjur á landinu. Fyrst í hrjóstrugu holti, nú umvafin gróðri og mótuðu umhverfi svo af ber. Það er vissulega mynd þess sem kristin kirkja stendur fyrir. Kristin kirkja er ræktun, mótun, sköpun og endurlausn, af því hún er verkfæri skaparans, lausnarans, heilags anda, sem vill vekja líf og ávöxt úr grýttri jörð. Kristinn helgidómur er tákn trúar, vonar og kærleika, sem lífið vekur og eflir og nærir, verndar. Háteigskirkja teygir fjóra turna til himins og ber keim af framandi heimum. Reyndar á sérhver kristinn helgidómur að minna á annan heim, annað líf, annars konar veruleika, þá fögru veröld þar sem Drottinn hefur gert alla hluti nýja. Kirkjunni er ætlað að helga þennan heim himni Guðs og vera vegarljós og vonartákn í villugjörnum heimi.
Ég á mér dýrmætar minningar um þær tilraunir sem hér voru forðum gerðar í helgisiðum fyrir tilstilli séra Arngríms Jónssoar, og sem opnuðu nýjar víddir í tilbeiðslu og trúarlífi. Hér var vagga hinnar liturgísku endurreisnar, sem dró fram fjársjóði tilbeiðsluhefðarinnar og gerði máltíð Drottins að ómissandi þætti guðsþjónustunnar. Tíðagjörð var flutt á virkum dögum þar sem bænir Davíðssálmanna urðu lifandi orð, lifandi veruleiki sem tók utan um lífið allt, gleði og sorg, vonir og vonbrigði, líf og hel. Hér eignaðist maður ungur margar dýrmætar stundir og uppbyggilegar, og það vil ég þakka á þessari stundu.
* * *
Stundum er sagt að kirkjan sé ekki í takt við tímann. Það er ef til vill ekki svo alvarleg ásökun, því kirkjunni ber að koma okkur í takt við eilífðina. Iðkun hennar og athöfn er ætlað að hefja hjörtu okkar upp til himins. Að því leyti talar kirkjan annað tungumál en heimurinn. Hvað er heimsins háttur, heimsins mál? Hvað tjáir annríkið og ærustan, stressið sem er yfir og allt um kring, hégómagirndin, ófullnægjan og auðævaoflætið? Hvað tjáir ofbeldisdýrkunin og vaxandi harka og hrottaskapur? Er það ekki mál óttans og firringarinnar? Hvað er þetta annað en flótti manns frá sjálfum sér og eilífri ákvörðun sinni? Helgidómurinn á jörðu á að leiða sál og líf fram fyrir eilífðina, þann veruleika þar sem Guð er og ríkir. Kirkjan er vonartákn og leiðarmerki, af því að hún bendir til himins og vitnar um það sem eilíft er og aldrei máist, sál manns og þau verðmæti sem mölur og ryð fá ei grandað.
Fyrir fjörutíu árum eða svo - þegar rætt var um að endurreisa kirkju á Mosfelli í Mosfellsdal þá var eitt sóknarbarnanna, Nóbelsskáldið á Gljúfrasteini, spurt að því hvernig því litist á að kirkja risi á Mosfelli. "Bara vel," svaraði skáldið, "en þarf hún nokkuð að vera hol að innan?"!
Háteigskirkja er fagur helgidómur og bregður sterkum svip sínum yfir umhverfið. En ekki aðeins sem leiðarmerki og tákn! Kirkjan er hol að innan, reist utan um fólk, og iðkun. Kirkjan er vonartákn og leiðarmerki einmitt vegna þeirrar iðkunar sem hér fer fram innan veggja, þar sem bæn er beðin og orðið boðað og brauðið brotið. Kirkjan er vonartákn og leiðarmerki á meðan hún safnar fólki um orð og iðkun sem miðlar trú á lífið og lífi í trú, trú sem starfar í kærleika. Altari kirkjunnar er í austri, er við horfum til þess þá horfum við til sólarupprásarinnar, í átt til þess er sólnanna sól rís og rýmir burt öllu myrkri, þegar nýr dagur rís yfir jörð, Kristur Drottinn kemur og vilji hans verður og ummyndar allt í ljósi sínu, líkn og náð.
* * *
Í Guðmundarsögu góða segir að "eigi séu í öðrum löndum að jafnmiklum mannfjölda fleiri heilagir menn en á Íslandi, og halda bænir þeirra landinu uppi, en ella myndi fyrirfarast landið." Þetta finnst okkur kímilegt og barnalegt. Við þykjumst vita hvað heldur uppi landinu og lífi þess. Auðvitað er það fiskurinn og fjármagnið, verslun og viðskipti, tæknin og þekkingin, og neyslan. Auðvitað. Eða hvað? Skyldi vera að annað komi til? Auðsæld okkar er ekkert sjálfsögð, manndómur og menning er ekki sjálfsögð. Skyldi vera að hún sé ekki aðeins af rótum efnahagslegra og pólitiskra yfirburða, heldur eigi sér andlegar rætur? Getur verið að þau gildi sem við teljum mest og dýrmætust í okkar samfélagi séu einmitt runnin af rótum þess sem kirkjan stendur fyrir, iðkar og nærir með orðum sínum og athöfnum og uppeldi, kynslóð eftir kynslóð? Ég er ekki í vafa um það. Ég er ekki í vafa um það að veigurinn í lífi þjóðar sé fólginn í áhrifum bænar og trúar og helgunar. Bænin við vöggu barnsins þar sem orðinu helga er sáð í huga og hjarta saklausrar barnssálar, lotningin, virðingin fyrir því helga og háa, þar sem það eignast veganesti Faðir vors og vörn krossins, það er besta forvörnin og leiðsögnin í lífinu. Og það fólk sem gefur af sér trú, von og kærleika það auðgar lífið verðmætum sem aldrei mælast á neinni vísitölu né verðbréfaþingi en skipta sköpum um hag og heill lands og lýðs.
Það getur gerst, Guð forði því, en það gæti gerst að þessi veglegi helgidómur og aðrar kirkjur í landi hér verði aðeins minnismerki um veröld sem var, um bænir sem eru hljóðnaðar, um anda sem eitt sinn hreif hjörtun, um menningu sem eitt sinn var, en ei meir. Guð forði því! Og við skulum spyrja okkur sjálf og samfélagið: Hvað ef? Hvað ef helgimálið hljóðnar, hvað ef uppeldi trúarinnar er ekki lengur til staðar, hvað ef klukknahljómurinn þagnar og kirkjudyrnar lokast, hvaða afleiðingar hefur það fyrir menninguna, lífið? Spurt er stundum: Hvort er mikilvægara iðkun helgidómsins eða heimilanna, hvort er meira virði hátíðin eða hversdagurinn, bænin í hljóði eða samfélagið? Það má eins spyrja: Hvort er mikilvægara að anda að sér eða frá? Bænin í einrúmi og bænin í samfélaginu verða að haldast í hendur. Munum eftir því að bænin sem Jesús kennir, Faðir vor, hún er í fleirtölu. Það á enginn sína trú fyrir sig. Hún er alltaf í samhengi kærleikans, umhyggjunnar og mótar siðinn, siðgæði, menningu, samfélag.
Það var eitt sinn sem oftar verið að ræða helgisiði og hver væri mikilvægasti liður guðsþjónustunnar. Sýndist sitt hverjum. Það er prédikunin, sagði einn. Nei, það er altarisgangan, sagði annan. Þeim þriðja fannst blessunarorðin mikilvægast alls, þar sem Drottinn leggur blessun sína yfir líf og sál og hjarta hvers og eins. En þá sagði einhver: Mikilvægasti liður messunnar er þegar hún er á enda og fólkið fer út. Mikilvægasti liður hinnar almennu guðsþjónustu er þegar fólk Guðs, endurnært af orði hans og sakramentum og með blessun hans í hjarta og sál, gengur út um kirkjudyrnar og út í heiminn til að vera kirkjan þar, þjóna Guði þar, vitna um Krist, lofa hann, biðja á vettvangi hversdagsins í elsku til Guðs og umhyggju um náungann. Að vera náunga sínum Kristur, vitnisburður um að Guð er góður og lífið er dásamlegt, þrátt fyrir allt. Til þess er helgidómurinn, helgidagurinn, til þess er messan, Þess vegna þurfum við helgidaga og helga staði og helgidóma og helga iðkun. Til að Kristur komist að til þess að helga heiminn okkar himni sínum og til þess að við lærum að þekkja hann aftur í æðaslögum hjartans og í umhverfi okkar og atvikum dagsins og í hinum minnsta bróður. Við þurfum helgidaga og helga staði og helga iðkun til að við getum betur staðist og tekist á við önn og átök hversdagsins, kröfur tímans og byrðar lífsins sem vottar Krists og verkfæri í veröldinni, og mætt um síðir augliti hans er hann við leiðarlok leiðir okkur inn í himinninn sinn.
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda.
Karl Sigurbjörnsson er biskup Íslands. Þessi prédikun var flutt í Háteigskirkju, 17. nóvember 2002 á 50 ára afmæli Háteigssóknar.