Stendurðu frammi fyrir vandræðum eða erfiðri ákvörðun skaltu lesa fjallræðuna. Hún er ekki mjög löng en afar innihaldsrík. Hún er í 5., 6. og 7. kafla Matteusarguðspjalls. Þetta er ræða sem við ættum alltaf að vera að lesa aftur og aftur því hún hefur í alvörunni ráð við svo mörgu af því sem við erum að glíma við.
Þegar við stöndum frammi fyrir erfiðum siðferðisvanda eða glímu í mannlegum samskiptum, þá klingja orðin úr fjallræðunni: Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður það skuluð þér og þeim gera.
Þar eru líka orðin um að við eigum að vera salt og ljós í samfélaginu okkar.
Í fjallræðunni predikar Jesús um sáttargjörð. Skyldum við einhvern tíma þurfa á þeim orðum að halda? Og hann segir jafnvel þarna einhvers staðar að við eigum að elska óvini okkar. Svo kennir hann okkur að biðja, kennir okkur meira að segja faðir vorið í fjallræðunni.
Það líður ekki svo dagur að fjölmiðlarnir blási ekki yfir okkur fréttaefni um að ástand mála hér á landi sé mjög slæmt og fari versnandi. Það er búið að fara versnandi í allan vetur og það á enn eftir að versna þó stjórnmálamennirnir okkar taki nú að vísu mjög misjafnlega djúpt í árarnar.
Slíkur flaumur af áhyggjuaustri yfir þjóðina gerir meira ógagn en öll kreppa, því áhyggjutalið fer illa með sálina í fólki og drepur niður sjálfsbjargarviðleitni og þrek til að berjast við skuldir heimilisins og eigið líf. Staðan í dag er sem sagt sú að við erum áhyggjufull þjóð. Og þá kemur að gamla ráðinu mínu: Skyldi fjallræðan segja eitthvað um áhyggjur?
Já, svo sannarlega.
Hún segir að við eigum ekki að vera áhyggjufull um líf okkar, hvað við eigum að eta eða drekka eða um líkama okkar hverju við eigum að klæðast.
Og svo segir Jesús: Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður, en faðir ykkar himneskur fæðir þá. Og af hverju eruð þið áhyggjufull um klæðnað? Hyggið að liljum vallarins hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna, en ég segi ykkur: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, skyldi hann þá ekki fremur klæða ykkur?
Verið því ekki áhyggjufull, segir Jesús í þessari mögnuðu ræðu. Það hjálpar okkur ekki neitt. Leitum fyrst hans ríkis og réttlætis og þá getum við horft björtum augum fram veginn, alveg sama hvort gengi krónunnar fellur eða stígur.