Góða fólkið

Góða fólkið

Með blóðbragð í munni kom ég másandi inn á malarvöllinn við Vogaskóla og kom þar áuga á unglingsdreng sem allir í hverfinu voru hræddir við. Hann var stór, rauðhærður með skegghýung og skarð í vör og alltaf einn og það stóð af honum einhver ógn.
fullname - andlitsmynd Bjarni Karlsson
04. nóvember 2012
Flokkar

Þegar við slógumst strákarnir í Varmárskóla í Mosfellsbæ giltu skýrar reglur. Þetta var í kring um 1970 og ég man að það var lítið skot þar sem augu kennaranna náðu ekki og þangað var farið til að útkljá mál. „Gefstu upp?“ Hrópaði sá sem hafði hinn undir. „Gefstu upp?“ Og þegar hvæst var jáyrði milli samanbitinna tanna var niðurstaða fengin og átökum lokið í bili. Ég man að haft var á orði að það væru bara ræflar sem spörkuðu í liggjandi mann. Þegar fjölskylduhagir breyttust og ég hóf skólagöngu í Reykjavík var þetta eitt af því sem janframt breyttist. Það hefur örugglega verið í ágústmánuði sumarið ’72 skólinn var ekki byrjaður en mamma hafði gefið mér fótbolta og fótboltaskó í afmælisgjöf og ég var úti eitthvað að bauka með boltann klæddur í nýja takkaskó, hafði aldrei gengið á svona skótaui fyrr og var enn ekki búinn að komast að hinu sanna að knattspyrna væri ekki mitt svið í lífinu. Og sem ég er úti að skondrast með ilmandi leðurbolta í brakandi flottum takkaskóm kemur hópur af stærri strákum. „Er rauðskalli brennivínsson með fótbolta?” Þessu var ég vanur. Allir sem voru rauðhærðir gengu undir þessu nafni, og það beit ekki á mig. Ég horfði bara á þá og drippaði boltanum, þar til einn þeirra sparkaði knettinum frá mér í fangið á félaga sínum. Þetta var nýr bolti og ég hafði aldrei eignast slíkan grip fyrr. Það var ekki einu sinni búið að merkja hann og ég ætlað ekki að missa hann svo ég brá snöggt við, sló til drengsins sem hélt á boltanum, hrifsaði hann til mín og hljóp af stað á nýju skónum. Ég man að seinna þennan vetur lét Þórný Þórarinsdóttir okkar góði kennari bekkinn læra ljóðið Skúlaskeið í bláa ljóðasafninu „Þeir eltu hann á átt hófahreinum … “ og þá sá ég alltaf fyrir mér þennan atburð. Eltingaleikurinn var æsilegur og barst útá Sólheimagötuna og niður á Skeiðarvoginn. Með blóðbragð í munni kom ég másandi inn á malarvöllinn við Vogaskóla og kom þar áuga á unglingsdreng sem allir í hverfinu voru hræddir við. Hann var stór, rauðhærður með skegghýung og skarð í vör og alltaf einn og það stóð af honum einhver ógn. Ég sá aftan á hann þar sem hann var einn að sparka bolta í mark og tók nú stefnuna þangað. Pilturinn snéri sér við og horfði rannsakandi á hópinn sem nálgaðist. “Hjálpaðu mér, þeir ætla að berja mig af því ég er rauðhærður!” hrópaði ég. Ég veit ekki hver var meira hissa, ég eða villingarnir þegar hamskipti urðu á unga manninum og þeir áttu fótum fjör að launa hlaupand í allar áttir inní húsagarða og sund undan þessum rauða vígahnetti. – „Aumingi” var sagt við mig daginn eftir. „Lést viðrinið passa þig.” „Hann er ekkert viðrini, hann er frændi minn.” Laug ég “Ég get náð í hann hvenær sem er.” og þar með hafði vígstaða mín í nýja hverfinu skánað. Ekki veit ég hvað um bjargvætt minn varð en oft hef ég rennt til hans þakkarhug í gegnum tíðina.Það er allra heilagra messa í dag. Dagurinn þegar við minnumst velgjörðarmanna okkar. Dagur minninga, dagur þakklætis og líka saknaðar. Ég gæti trúað að björgunarsveitarfólkið okkar komi upp í huga margra eftir allt sem gengið hefur á síðustu daga.

Minningar hafa það eðli að þær leita á hugann. Þær koma upp að manni á gönguferðum, þær birtast manni óvænt þegar maður rekst á kunningja úti í búð, hvísla í eyra manns við uppvaskið og læða sér inn í draumana á nóttu. Minningar eru eins og vinir, þær leita á og láta mann ekki í friði. Þess vegna er það með minningarnar eins og vinina, maður verður að kunna að velja sér hvort tveggja.

Já, hefur þú hugsað út í það? Maður þarf að velja sér minningar. Allraheilagra messa er dagurinn þegar við veljum okkur minningar. Við förum yfir lífshlaup okkar með tilliti til þeirra sem á undan fóru og erfiðað hafa í okkar þágu. Við hugsum til velgjörðarmanna okkar, ekki bara þeirra sem hafa bjargað okkur úr háska, heldur ekki síður þeirra sem gáfu okkur krafta sína og líf, hlúðu að okkur og lögðu okkur gott til. Og við hugsum til píslarvotta allra alda, þeirra sem gáfu lífið fyrir ást sína og trú.

Ég heyrði eitt sinn vitnisburð ungs manns sem átt hafði erfiða æsku, hafði ratað um refilstigu eiturlyfjaheimsins og síðar öðlast bata mað hjálp SÁÁ, AA samtakanna og reynslusporanna tólf. Hann lýsti því mjög myndrænt hvernig æskan blasti við honum í minningunni líkt og gróðurlaus urð. Hvergi hafði verið skjól, hvorki á heimili né í skóla og í vinahópi hafði hann ekki heldur notið öryggis. Upp úr urð minninganna teygði sig þó eitt blóm. Kennarinn sem hann hafið haft í barnaskóla hafði ekki látið sér á sama standa. Og þegar lægðirnar á bernskuheimilinu höfðu orðið dýpstar og hann komið svangur í skólan átti þessi kennari það til að bjóða honum heim með sér eftir skóla og gefa honum mat að borða. “Þegar ég byrjaði að ná bata átti ég engar fyrirmyndir til að styðjast við nema þennan eina grunnskólakennara.” sagði ungi maðurinn. „og ég valdi að einblína á hann.” Maður velur minningar.

Hugsaðu núna um þitt líf. Farðu í huganum alla leið aftur fyrir þitt eigið líf og spurðu; hver voru þau sem gáfu mér þær aðstæður sem ég fékk? Og hvar í þeim hópi eru góðu manneskjurnar, góða fólkið í lífinu mínu? Þau sem fórnuðu sér fyrir mig. Var einhver í uppvexti þínum sem reyndist þér vel? Einhver sem ekki lét sér á sama standa heldur rétti hlut þinn þegar á þig var hallað. Hefur einhver á lífsleið þinni orðið þér fyrirmynd með því að vera hreinlyndur og heilsteyptur? Einhver sem flutti frið inn í tilveru þína þegar allt var á rúi og stúi?

Og má ég svo spyrja þig að einu? Þetta fólk, – góðu persónurnar sem birtast á sálarskjánum þegar þú horfir yfir farinn veg og ert að velja þér minningar – eru þetta allt saman viðurkenndir snillingar og gáfumenni? Eða getur verið að einhver sé stór og mikilvægur í lífi þínu sem var af öðrum álitinn lítilfjörlegur? Getur verið að góð og sterk manneskja í þínu lífi hafi sjálf þekkt sorgir og erfiðleika eða lifað við auðmýkingu?

Og núna á meðan þú horfir á góða fólkið þitt í huganum ætla ég að lesa fyrir þig sæluboð Jesú og sjáðu hvort eitthvað passar:

„Sælir eru fátækir í anda því að þeirra er himnaríki. 4Sælir eru syrgjendur því að þeir munu huggaðir verða. 5Sælir eru hógværir því að þeir munu jörðina erfa. 6Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu því að þeir munu saddir verða. 7Sælir eru miskunnsamir því að þeim mun miskunnað verða. 8Sælir eru hjartahreinir því að þeir munu Guð sjá. 9Sælir eru friðflytjendur því að þeir munu Guðs börn kallaðir verða. 10Sælir eru þeir sem ofsóttir eru fyrir réttlætis sakir því að þeirra er himnaríki.

Þarf nokkuð að segja? Blasir þetta ekki bara við?

Annað langar mig líka að tala um á þessum sérstaka degi sem e.t.v. liggur ekki í augum uppi. Maður velur sér ekki bara minningar eftir á heldur líka fyrir fram. Það er hluti af heilbrigðu sálarlífi að velja sér fyrir fram minningar, að eiga framtíðarsýn sem maður svo fellir reynslu sína að. Allra heilagra messa fjallar líka um það atriði.

Ég á góðar og litríkar minningar úr sveitinni fyrir austan fjall, m.a. frá Lambastöðum í Flóa og Kálfholti í Ásahreppi þar sem ég dvaldi hjá góðu fólki og kynntist sveitastörfum sem unglingur. Þannig háttar til séð frá báðum þessum bæjum og raunar hvarvetna sem sér yfir Flóann að Ingólfsfjallið ber við sjónarrönd í vestri. Ég man hvernig ég horfði stundum á þessum unglingssumrum með heimþrá í hjarta yfir að Ingólfsfjalli og hugsaði, þarna bak við þetta fjall er heima. Alltaf er ég þakklátur honum Tryggva á Lambastöðum og Jónasi í Kálfholti sem hvor á sinn máta kenndu mér borgardrengnum svo margt og reyndust mér svo vel og allt þeirra fólk. En ég var borgardrengur í sálinni og hefði seint orðið góður bóndi og hreint alveg vonlaus hestamaður. Ég vissi með sjálfum mér að mitt raunverulega líf og mín örlög gátu ekki orðið í sveitinni, þau voru hinu megin við Ingólfsfjallið. Minningin þar um bjó með mér fyrir fram.

Mig grunar að trúin á hið eilífa líf sé ögn í ætt við þessa reynslu. Trúin á hið eilífa er fyrir fram minning. Við lifum í þessum heimi, erum hér og nú, en hjarta okkar er bundið fyrir fram minningu, bundið vitneskjunni um hið rétta líf sem við eigum heima. Við sjón hjartans blasir Ingólfsfjall og veldur því að ekkert sem hér gerist á jörðinni er endanlegt. Ef þú átt augu til að sjá fjallið þá er öll veröldin í raun bara á leiðinni framhjá þér og hér er engrar niðurstöðu að vænta. Föðurland þitt er ríki Guðs og þegar heimurinn dæmir þig þá veistu að engir dómar sem falla hér á jörð eru endanlegir. Því stendur þú uppréttur í öllum aðstæðum og þarft ekki að horfa niður á neinn eða upp til nokkurs manns heldur stendur þú frjáls undir dómi Guðs. Og þegar sorgin þjakar þig þá horfir þú yfir að Ingólfsfjalli og finnur hvernig tregi hjartans rennur saman við heimvon anda þíns.

Amen. Lofgjörðin og dýrðin, viskan og þakkargjörðin, heiðurinn og mátturinn og krafturinn sé Guði okkar um aldir alda. Amen. (Op. 7.12)