Love Group og útrásin

Love Group og útrásin

Því hefur verið haldið fram að upphaf nútíma stjórnmála, pólitíkur og mannréttindabaráttu, megi rekja til þess er Gyðingum (hebreum), sem voru þrælar í Egyptalandi forðum var sagt að kúgun þeirra væri ekki samkvæmt eðli tilverunnar, heldur ættu þeir val. Og Guð birti Móse lögmál og gerði lýðum ljóst að allt ætti í raun að lúta hinu æðsta lögmáli en ekki duttlungum dauðlegra manna.
fullname - andlitsmynd Örn Bárður Jónsson
16. apríl 2006
Flokkar

Það er búið að opna, það er búið að opna! hrópaði ungi presturinn í djúpa firðinum á Vestfjörðum í páskadagsmessunni. Það er búið að opna! Og allir skildu þessa líkingu sem þekktu innilokun á snjóþungum vetrum þegar allar samgöngur á landi lágu niðri svo vikum skipti. Það er búið að opna! Leiðin er rudd, Kristur er upprisinn, Kristur er sannarlega upprisinn! Gleðilega páska!

Sannleikur í formi refhvarfa

Föstudagurinn langi, þessi dimmi dagur, dökkra lita og myrkra stefja er liðinn, föstudagur, fredag, Freitag, frjádagur, dagur frelsis sem sálmaskáldið kallaði „lausnardaginn langa.“ Aldrei hefur það verið betur auglýst og kröftugar að Guð snýr böli í blessun, aldrei hefur mannkyn orðið vitni af öðru eins undri og þegar Guðs sonur gekk á hólm við dauðans dimmu öfl og hafði sigur, ekki með háværu vopnaglamri og fossandi blóði andstæðingsins, heldur drjúpandi dreyra úr eigin æðum, með hljóðlátu andvarpi, sem stunu lambs sem leitt er til slátrunar – Agnus Dei. Upphefð í lægingu, upphafning í auðmýkt, himinsæla í harmi og sorg – endurlausn allrar skepnu. Guð að verki í miklum andstæðum, í mótsagnarkenndri einingu, þverstæðukenndri samkennd. Orð í mótsögn eins og ferkantaður hringur, oxymoron, refhvörf. Margt í trúnni virkar einmitt þannig. Guð kemur stöðugt á óvart, fer aðrar leiðir en við menn getum yfirleitt gert okkur í hugarlund.

Samsteyp elskunnar

Með upprisu Krists hafa hin stóru stef tilverunnar, sem guðfræðin kallar sköpun, fall og endurlausn, gengið upp. Guð hefur sest að völdum, kærleikur hans náð yfirhöndinni:

„Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir, glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“

Hver er Guð? Hvernig er Guð? Menn hafa um aldir rýnt í rúnir guðseðlisins og komist að margvíslegum niðurstöðum. En svo kemur Guð sjálfur í Jesú Kristi og segir okkur það berum orðum, í þremur orðum: „Guð er kærleikur.“ Innsta eðli Guðs er elska. Veröldin á rætur í þeirri elsku sem ríkir innan guðdómsins. Kristinn þrenningarlærdómur er undursamleg túlkun á veruleika Guðs. Guð er þríeinn, faðir, sonur og heilagur andi. Innan guðdómsins ríkir kærleikur og þar er kærleikurinn samur við sig, hann er aðeins til sem AFL, afl á milli persóna, kraftur sem streymir, hugsun sem raungerist, gjörð sem tekur á sig mynd, er framkvæmd. Guð er kærleikssamband þriggja persóna. Guð er þríeinn í kærleika, samlag kærleika. Guð í kærleika sínum fyrsta samsteypa sögunnar sem að hætti fyrirtækjatísku samtímans mætti kalla Love Group. En allt hjá Guði er með öðrum hætti en í heimi viðskipta. Kærleikur hans, hinn skilyrðislausi kærleikur, sem á grísku heitir agape, er magnað fyrirbrigði. Eðli þess kærleika er að gefa og því gengur hagkerfi kærleikans þvert á gangverk allra hagkerfa heimsins því hagkerfi kærleikans þrífst og græðir á tá og fingri þegar það gefur og gefur og gefur. Ef þú vilt njóta elsku, skaltu elska og elskan verður þín. Vaxtatekjurnar aukast við það að ausa út, útgjöldin stækka höfuðstólinn. Eintómar mótsagnir og þverstæður. Þannig er hið kristna fagnaðarerindi á margan hátt. Hagkerfi kærleikans er undursamlegt verk og við erum öll hluthafar í þessu töfrandi fyrirtæki himinsins sem er ekki aðeins alþjóðlegt, international heldur samsteypa alheimsins - Love Group Universal.

Sem gjörð, sem gjöf

Kærleikurinn er ekki til nema þegar hann er gefinn, þegar af honum er veitt. Hann er eins og mannabrauðið af himnum í eyðimörkinni forðum. Enginn gat hamstrað manna en allir fengu nóg til þarfa dagsins. Það er ekki hægt að liggja eins og ormur á gulli kærleikans, gullið er aðeins til þegar það er gefið, það verður til í lófa þess sem um vanga strýkur, í hjarta þess sem hugbót veitir og helgar sig þjónustu við lífið.

Og verkefnin blasa við okkur sem þegið höfum þessa miklu gjöf himinsins sem í kærleikanum er fólgin. Við erum kölluð til að hafa áhrif á þennan heim, láta til okkar taka í málefnum þjóðfélagsins, bæta hag einstaklinga og hópa, styðja þau sem standa höllum fæti.

Pólitíkin fæðist

Í ríki faraós í Egyptalandi forðum daga var allt í föstum skorðum og endurspeglaði skipulag sem lengi hafði verið við lýði: þrískipt vald presta, hermanna og bænda. Því hefur verið haldið fram að upphaf nútíma stjórnmála, pólitíkur og mannréttindabaráttu, megi rekja til þess er Gyðingum (hebreum), sem voru þrælar í Egyptalandi forðum var sagt að kúgun þeirra væri ekki samkvæmt eðli tilverunnar, heldur ættu þeir val. Og Guð birti Móse lögmál og gerði lýðum ljóst að allt ætti í raun að lúta hinu æðsta lögmáli en ekki duttlungum dauðlegra manna. Vald harðstjóranna varð að lúta valdi Guðs sem er kærleikur í innsta eðli og starfar á grundvelli réttlætis. Og leiðin var rudd. Móse leiddi þjóðina út úr þrælahúsinu. Exódus, brottför, útganga. Það er búið að opna, útrásin hófst!

Samsteypa kærleikans – Love Group – hóf útrás sína reyndar enn fyrr, í árdaga þegar heimurinn varð til, þegar Guð skapaði himinn og jörð og sagði síðan í hátignarfleirtölu eins og skráð er á fyrstu síðum helgrar bókar:

„Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum, sem skríða á jörðinni.“

Hér talar þríeinn Guð + faðir, sonur og heilagur andi. Þrenningin öll.

Fyrsta alþjóðahreyfingin

Útrás Guðs hófst með sköpun heimsins. Hann valdi sér lýð, fólk, þjóð til þess að vera „ljós til opinberunar heiðingjum“ (Lk ). Hann valdi sér Ísrael til þess að boða heiðingjunum, þjóðunum lausn. En í rás sögunnar varð þessi þjóð sjálfhverf og í baráttu sinni við aðrar þjóðir leit hún á endanum aðeins á eigin hag en ekki annarra. En útrásina mátti ekki stöðva. Guð sendi Son sinn sem keypti sér nýjan eignarlýð, nýja þjóð, nýjan Ísrael, með dýrmætu blóði sínu úthelltu á krossi. Nýr Exódus hófst. Og kristin kirkja varð til, magnaðasta hreyfing veraldar og fyrsta alþjóðlega hreyfing sögunnar. Kirkjan er fyrsta hreyfing sem stefnt er til alls heimsins, til allrar sköpunar, hún er fyrsta alþjóðavæðing sögunnar sem hefur það að markmiði að bæta heiminn, alþjóðavæðing kærleikans. Kóngar og keisarar höfðu fyrir daga kirkjunnar hafið útrás til að auka vald sitt og kúgun annarra. Það er önnur saga. Kirkjan er fyrsta alþjóðavæðing sögunnar. Kirkjan braut sér farveg út úr Ísrael til þess að ávarpa alla menn á öllum stöðum og um allan heim með orði kærleikans:

„Og Jesús gekk til þeirra, talaði við þá og sagði: Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gjörið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður, sonar og heilags anda, og kennið þeim að halda allt það, sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar.“ (Mt 28.18-20)

Orð um útrás. Orð sem við eigum að taka til okkar og framkvæma.

Páll postuli skildi útrásina betur en flestir aðrir og hann orðar þessa sömu hugsun á sinn hátt þegar hann segir:

„Þér eruð allir Guðs börn fyrir trúna á Krist Jesú. Allir þér, sem eruð skírðir til samfélags við Krist, þér hafið íklæðst Kristi. Hér er enginn Gyðingur né grískur, þræll né frjáls maður, karl né kona. Þér eruð allir eitt í Kristi Jesú. En ef þér tilheyrið Kristi, þá eruð þér niðjar Abrahams, erfingjar eftir fyrirheitinu.“ (Gal 3.26-29)

Okkur er þörf á að heyra þessi orð í samtímanum sem vill draga fólk í dilka, flokka menn í æskileg og óæskilega. Við erum eitt mannkyn sem Guðs elskar og hefur fórnað öllu til að leysa úr viðjum syndar og dauða. Allt mannkyn þarf að heyra þann boðskap að það sé búið að opna.

Stærsta auglýsingin, mesta fréttin

Sköpun, fall og endurlausn. Hin miklu stef hjálpræðissögu Guðs, stóru skrefin í útrás guðdómsins. Björgunaráætlun Guðs hefur gengið upp. Hann hefur fundið okkur týnd í snjónum, fjarri allri hjálp, tækjalaus og án staðsetningartækja, eins og villta vélsleðamenn.

Guð hefur gert allt sem í hans valdi stendur til að leiða þennan heim aftur á brautina sem í upphafi var mörkuð, hamingjuleiðina sem lýst er með orði kærleikans, vörðuð verkum hans sem kom og sagði: „Ég er vegurinn, sannleikurinn og lífið.“

Útrás Guðs hefur náð til hjarta þíns. Hann kallar mig og þig, okkur öll, til þátttöku í hinni miklu útrás kærleikans. Við erum öll hluthafar í Samsteypa elskunnar, samarfar Krists í auði himinsins, þar sem hlutabréfaeignin vex og eykst við það að gefa.

Við höfum þegið hina stærstu gjöf. Ókeypis! Allt fyrir einn. Öllu sem hindrar manninn í að ná marki sínu er rutt úr vegi, leiðin er greið í Kristi sem gefur okkur arf í himni sínum. Guð kærleikans hefur sigrað allar auglýsingakeppnir veraldar: Föstudagurinn langi auglýsir að böl og þjáning fær nýja merkingu og inntak í þjáningu hans sem leið á krossi. Magnaðasta auglýsing allra tíma!

Og mesta frétt allra tíma er enn flutt, hin sígildasta frétt allra frétta: Kristur er upprisinn!

Í offramboði auglýsinga samtímans og straumþungu fréttaflóði skiptir þetta tvennt öllu: lausnardagurinn langi og upprisudagurinn, krossdauði og upprisa, þjáning og líf, dauði og endurfæðing.

Allt fyrir einn. Þetta tilboð varð okkar í heilagri skírn og það er endurnýjað með reglubundnum hætti.

Kristur er upprisinn! Kristur er sannarlega upprisinn! Hann er okkar og við erum hans, hluthafar í veldi kærleikans. Til hamingju með lífið, eilífa lífið! Það er búið að opna!

Gleðilega páskahátíð!