Ofsögum sagt
Mikið hefur gengið á og margt sagt sem betur hefði verið kyrrt látið síðustu daga í fjölmiðlum. Þetta minnir á að við búum í veröld sem er svo tengd og miðluð að stundum gæta blaðamenn ekki að nærveru sálar í æsingi við að miðla upplýsingum sem enginn kærir sig um en sumir telja sig útvalda að veita. Það er oft erfitt að greina á milli frétta og raunveruleika, sannleika og aðdróttana Síðan er frelsinu stöðugt flaggað en frelsi og ábyrgð eru hugtök sem tengjast hvert öðru, ábyrgð gerir ráð fyrir frelsi og frelsi verður aðeins raunverulegt þar sem ábyrgð er.
Að lokum er hætt að skynja mennskuna, sjá manneskjuna, þá hverfur aðgátin líka og sannleikurinn sem átti að gera alla frjálsa gerir okkur bara hrædd af því að þeir sem þar fara höndum um hann eru að ráfa um á villigötum og hlífa engum. Rétt eins og að gengið sé burt frá mennskunni inn í heim þar sem svipirnir einir ganga um, horfast í augu tala og heyra en svo einkennilega sem það er þá hlustar enginn, sér enginn og svo hverfur líka réttlætiskenndin, samkenndin og sársaukaskynið er verðfellt. Einkanlega sársauki þeirra sem verða skotspónn fjölmiðla.
Fréttir af fólki
Við búum í veröld þar sem fólk er ekki alltaf metið sem manneskjur heldur viðfangsefni, umtalsefni, aðhlátursefni, fréttaefni og þar með viðfangsefni fjölmiðla. Þegar þú ert orðinn slíkt viðfangsefni þá sér enginn tár þín né önnur viðbrögð. Skyndileg verður einhver við æsta leit að fréttum að horfa framan í stálgráan veruleikann og sjá að orðin sem kastað var á blað í áfergju, frelsi, sannleika og réttlætiskennd höfðu áhrif sem aldrei verða aftur tekin. Hvers er ábyrgðin þá? Fórnarkostnaður sannleika sumra fjölmiðla er orðinn svo hár að hroki, sannleiksást og yfirburðaviska blaðamannsins verður háðugleg og siðferðiskenndin sem svo oft er flaggað sýnist ömurleg.
Að setja sig í spor annarra
Kristin siðfræði sem mótar huga okkar flestra, dregur okkur að uppsprettu náungakærleikans og hinnar gullnu reglu,
“Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra..” Matt. 7:12
Okkur er uppálagt að setja okkur í spor annarra því það er ein af frumforsendum kærleikans. Jafnvel þurfum við einhvern daginn að njóta þess að aðrir þekki og virði grundvallareglur kristins siðgæðis og treysta á að aðrir þekki náungakærleika og umburðarlyndi, gullnu regluna. Því svo einkennilega sem það hljómar í fílabeinsturni blaðamannsins sem er alltaf að segja “sannleikann”, að þegar þannig er komið þá þýðir lítið að segja sannleikann, ekki einu sinni frétt af sannleikanum heldur kynnist þú angistinni og óttanum því þú situr hinu megin við borðið og ert orðinn að frétt einhvers annars.