Ef bróðir þinn syndgar gegn þér , skaltu fara og tala um fyrir honum, og sé það ykkar einna í milli. Láti hann sér segjast, hefur þú unnið bróður þinn. En láti hann sér ekki segjast, skaltu taka með þér einn eða tvo, að hvert orð sé staðfest með framburði tveggja eða þriggja vitna. Ef hann skeytir þeim ekki, þá seg það söfnuðinum, og skeyti hann ekki söfnuðinum heldur, þá sé hann þér sem heiðingi eða tollheimtumaður.Sannlega segi ég yður: Hvað sem þér bindið á jörðu, mun bundið á himni, og hvað sem þér leysið á jörðu, mun leyst á himni.
Enn segi ég yður: Hverja þá bæn, sem tveir yðar verða einhuga um á jörðu, mun faðir minn á himnum veita þeim. Því að hvar sem tveir eða þrír eru saman komnir í mínu nafni, þar er ég mitt á meðal þeirra. Matt.18.15-20
Í upphafi þetta blað autt - óskrifað blað. Það var alfarið í minum huga hvað að endingu rataði á þessa síðu/síður. Ég hafði frjálsar hendur með það, í samfylgd þeirra orða og boðskapar sem lesin voru úr Matteusarguðspjallinu. Þetta er farið að hljóma kunnuglega. Eins og upphafsorð Biblíunnar. “Í upphafi skapaði Guð...” og við vitum framhaldið. Eða kannski vitum við það ekki því við sjáum ekki fyrir endan á því. Við ættum ekki hafa áhyggjur af því! Ég geri ráð fyrir að Guð hafi haft hugmynd um hvað yrði, þannig að ég og þú – við þurfum ekki að missa úr hvíld vegna þess. Það koma þær stundir sem eiga til að flögra að mér og setjast að í huga í lengri eða styttri tíma, að Guð hafi ekki séð allt fyrir þegar hann ákvað að afsala sér sköpun sinni og leggja hana alfarið í hendurnar á manninum. Þvílíkt traust! Í traustinu hvílist frjálsi vilji mannsins. Hver og einn verður að meta það út frá sjálfri/sjálfum sér hvort við manneskjurnar höfum yfir höfuð staðið undir þeim væntingum og því trausti sem okkur er sýnt. Foreldri finnur sig í þessum aðstæðum gagnvart afkvæmi sínu – sýna umburðalyndi veita öryggi og sýna ábyrgð gagnvart því.
11
Við erum ekki gömul þegar gerðar eru kröfur til okkar að sýna ábyrgð. Væntingar aukast til einhvers og okkur er treyst til einhvers meira af foreldri okkar. Þessar væntingar eru oft óljósar. Stundum fer traustið fram úr því sem barnið er tilbúið eða hefur þroska til að takast á hendur eitt og sér, þar kemur inn ábyrgð foreldris. Samtími okkar hefur verið kallaður ýmsum nöfnum. “Tími tækifæra,” “Tími framfara,” “ Tími frelsis,” “Tími til ekki neins...” Með öðrum orðum - við lifum á tímum þar sem tækifærin eru mörg og margvísleg sem aftur gerir lífið flóknara með það í huga hvaða stefnu skyldi taka. Hér áður fyrr var lífið einfaldara hvað allt varðar. Einfaldara að mörgu leyti í harðneskjulegri tilveru örbirgðar og tækifærin til að breyta ekki mörg. Tilboðsmarkaður lífsins auglýsir sig hvar og hvenær sem er hvort heldur við viljum vita af því eða ekki. Við fæðumst til lífsins og stöndum fljótlega frammi fyrir svignandi hlaðborði væntinga okkar og annarra.
Hvers er ábyrgðin?
Alsnægtir nútíðar og ekki sé talað um væntingar framtíðar eru svo fjölbreyttar að erfitt er að gera upp hug sinn og halda sig við einn “rétt” smakka verður á fleiri en einum og þegar “best” lætur að fá sýnishorn af þeim öllum. Þá fyrst er hægt að svara hvað maður ætlar að verða þegar maður er orðin stór. Síðan er hægt að velta fyrir sér hvenær er einstaklingur orðin stór. Ríkisvaldið talar um börn séu börn til 18 ára aldurs. Fram að þeim tíma í lífinu er barnið eða ætti barnið að vera undir forsjá foreldris og eða forráðamanna.
Í dag þarf að minna á að börn fái að lifa við öryggi og í skjóli fullorðinna. Í dag er talað um að leyfa börnunum að vera börn - “Verndum bernskuna” er slagorð dagsins. Vissulega er full þörf á því í nútíð og framtíð. Það er heldur ekki tilviljun að þessi hugsun hefur ratað upp á borð tilverunnar í dag, það er ekki eins og hún hafi fæðst í gær fullburða heldur hefur verið aðrdragandi að þessu þangað til að ekki var undan því vikist í samfélagi öryggisleysis. Hver er sá sem ber ábyrgðina á uppeldi barnsins og ungmennisins.
Staðreyndin er sú að í dag koma fleiri en einn og fleiri en tveir að uppeldi barna, enda ekki vanþörf á í flóknu samfélagi nútímans. Báðir foreldrar ekki bara mömmunni heldur og pabbanum er gert kleyft að umgangast barnið sitt, koma að uppeldi þess fyrstu mánuði lífs þess. Þegar fram í sækir koma fleiri aðilar að uppeldi þess eins og leik og sunnudagaskólakennarar, grunnskólakennar og þannig mætti halda áfram. En þar með erum við ekki laus allra mála.
Ábyrgð að heiman-ábyrgðin heima
Fyrst og fremst verður að gæta að því sem að heiman kemur. Hvernig er barnið “nestað” að heiman, til að takast á við veröldina. Skilaboðin verða að vera skýr. Mín tilfinning er sú að það sé vöntun á því hvar við setjum mörkin við uppeldi barna okkar. Enn aftur er þar að finna birtingamynd öryggisleysisins. Lausir endar eru í reiðileysi alltof víða og engin virðist treysta sér að taka þá upp þegar það snýr að börnum og ungmennum okkar og velferð þeirra.
Það er ekki auðvelt að vera foreldri í dag – það er ekki auðvelt að vera ungmenni í dag í samfélagi sem er gegnsýrt af samkeppni einstaklingins er meginlífsgildið. Hvað um þann eða þá sem meðvitað neita að taka þátt í því að níða skóginn af náunganum sjálfum sér til ábata. Er sá eða sú neytt til að afsala sér réttinum til að lifa því lífi sem hann/hún hefur kosið sér. Mér er allveg sama hvað hver segir – við erum ekki að standa okkur í þessum málum því okkar er ábyrgðin. Það erum við sem erum að ala upp börnin í dag sem höfum skapað þetta andrúmsloft ekki börnin okkar. Þau taka því sem að þeim er rétt og ekkert annað. Það er á okkar ábyrgð hverskonar samfélag við viljum bjóða börnum okkar uppá. Lögmál markaðarins hefur lekið inn í efstu sem neðstu lög mannlegs samfélag en samfélagshugsjón Jesú Krists liggur óbætt hjá garði. Ég veit ekki í hversu langan tíma orðið eða orðasambandið umburðarlyndi hefur lifað í málinu okkar. Það sem það stendur fyrir er ævagamalt og væntanlega lifað með manneskjunni frá upphafi. Umburðarlyndi er gott orð og á víða við og heima í mannlegu samfélagi að sama skapi verður að gæta þess að það nái ekki yfir öll svið mannlífsins.
Eitt sviðið er uppeldi barna okkar og unglinga. Eitt sviðið er umburðarlyndi gagnvart áfengisneyslu unglinga. Unglingadrykkja er staðreynd og hefur verið svo um árabil hér á landi og skapað sér stöðu umburðalyndis í huga fullorðina. Neysla eiturlyfja er staðreynd og önnur staðreynd er sú að notkun þeirra færist neðar og neðar í aldri. Umburðalyndi gagnvart því hefur enn ekki ratað í huga fólks. Þú kirkjugestur góður þú sem heima situr - hugsar væntanlega með þér - Hvernig væri það hægt? Þá er hægt að spyrja á móti – hvernig var hægt að þróa umburðarlyndi gagnvart unglingadrykkju - drykkju barna? Hvernig er hægt að þróa umburðalyndi gagnvart því að mörg börn og ungmenni fá ekki nægja umhyggju vegna þess að við erum á kafi í neyslu og markaðsþjóðfélaginu. Við erum á kafi í því að missa ekki af einhverju sem við vitum ekki hvað er. Vegna þess að við vitum ekki hvað það er viljum við ekki horfast í augu við þá staðreynd sem blasir við okkur hér á landi - að ábyrgðin er okkar fullorðnu að horfast í augu við staðreyndir að við sleppum of fljótt höndum – ábyrgð á börnum okkar. Vara er í ábyrgð einhvern ákveðin tíma – eftir þann tíma er varan á okkar ábyrgð. Barn er á okkar ábyrgð til 18 ára aldurs – en staðreyndin er auðvitað sú að þótt ábyrgðin á þeim renni út eru þau alltaf hluti af okkur. Þeim er ekki svo auðveldlega skipt út. Barn sem er 12, 13, 14 ára gamalt er einfaldlega ekki tilbúið að takast á við flókna veröld fullorðinnar manneskju. Það er einföld staðreynd sem mörgum finnst erfitt að skilja. Þann skilning getum við ekki lagt í hendur ungmenna. Það eina sem við getum lagt í hendur þeirra er það að við veitum þeim öryggi, umburðalyndi til að vaxa og þroskast og erum ábyrg í þeim efnum – umburðalyndið á ekki að ná lengra en það.
Uppspretta
Hvar er uppspretta umburðalyndis, öryggis og ábyrgðar? Fyrst og fremst er það heimilið - síðan kemur skólinn og allt hitt. Frumkvæðið verður að eiga sér heimilisfang sem er heimilið. Rót félagslegra vandamála eru oftar en ekki að finna inni á heimili ungmennisins. Félagslegar aðstæður eru misjafnar heima fyrir sem oftar en ekki leiðir af sér vangetu einstaklings eða einstaklinga til að takast á við hið daglega líf.
Auðvitað er ekki hægt að koma á algjörum jöfnuði. Leita verða leiða til að lækka þröskulda til þess að svo megi verða. Ég veit að ég er farin að hljóma eins og stjórnmálamaður rétt fyrir kosningar. Ég er viss um að því verði hægt að koma á ef viljinn sé fyrir hendi að öll grunnskólabörn geti sótt íþróttir, tónlistar og annað uppbyggjandi tómstundastarf í í næsta nágrenni við heimilið í tengslum við skólagöngu þeirra. Það gerist að mestu í dag með þátttöku fagaðila sem eru góðir að sinna þessum málum. Það sem kemur í veg fyrir að öll grunnskólabörn geti notið þessa starfa er það að fjárhagslegt bolmagn fjölskyldunnar er ekki fyrir hendi. Í mínum huga er þetta aðeins spurning um forgangsröðun samfélagsins.
Staðreyndin er sú að það er því miður fjöldinn allur af börnum sem fara á mis við íþróttir, tónlistanám vegna þess að þau koma frá efnalitlum heimilum og það að finna fyrir því að þau verði aldrei í landsliðsklassa. Þau fara á mis við félagsþroska að takast á við krefjandi verkefni ein og eða í hóp. Upplifa sár töp og ljúfa sigra og allt þar á milli.
Orka og nýting
Það er mikið talað um orkuöflun og orkunýtingu og þá er horft til þess að virkja hitt eða þetta fallvatnið með tilheyrandi kostnaði og jarðraski. Hvernig væri að fara að virkja mannauðinn-hvernig væri að fara að virkja þá orku sem ungmenni þessa lands hafa óbeislaða innra með sér. Leyfa henni – leyfa öllum óháð félagslegum aðstæðum – óháð bolmagni heimila til að stunda tómstundir sem byggja upp einstaklingin og býr hann undir að taka þátt í samfélagi sem með hverju árinu sem líður er flóknara og margþættara?
Það er vel gert með íþróttirnar og tónlistina þótt í mínum huga mætti koma betur inn þeirri hugsun í þeim geira mannlífsins og tómstunda að markmiðið er ekki að framleiða afburða íþróttafólk eða tónlistafólk heldur miklu frekar “afburða” einstaklinga sem hafa að baki reynslu sem nýtist i samfélaginu þar sem umburðalyndi, sigrar og ósigrar eru hluti af daglegri reynslu. Þá reynslu verða ungmennin að fá að reyna í skjóli fullorðina vel menntaðra einstaklinga. Það gera þau sem fá að reyna þessa þætti tómstundastarfs sem að framan hefur verið nefnt og svo auðvitað það sem kirkjan býður uppá í gegnum sóknargjöldin.
Það sem við megum líka gera miklu meira af er að horfa á einstaklingin og hvar hann stendur. Hvar liggja áhugamál hans/hennar og veita þann stuðning sem við getum veitt. Hlusta á barnið og ungmennið. Því miður er alltof mikið brottfall ungmenna um og uppúr 15 – 16 ára aldri hvað varað tómstundir hvort heldur það eru íþróttirnar, tónlistanámið og eða kirkjustarfið.
Andardráttur drauma
Fjölbreytnin þarf að eiga sér andrými. Ef einhverntíma á lífsleiðinni þurfa ungmenni á þessum aldri virkan stuðning og að ekki sé talað um foreldra þeirra. Það er ekki hægt að líta undan og láta sem ekkert sé að í samfélaginu. Því það er mikið að þegar við getum ekki staldrað við og hlustað á ungmenni okkar. Við þurfum að vera óhrædd að virkja og vekja með einstaklingum þrá og vissu að hvert og eitt okkar erum gædd hæfileikum sem eiga að fá að njóta sín. Það gerist best með því að hlusta. Hlusta á andardrátt og drauma ungmenna þessa lands. Ekki eins og við vildum að þeir draumar væru heldur eins og hann er í raun. Raunin er sú – það er mín reynsla að þau vilja hlusta og þau vilja að þeim sé treyst – það vilja þau að gerist innan ramma öryggis og umburðalyndis.
Það var ógleymanleg reynsla sem við prestarnir í Árbæjarsöfnuði urðum fyrir í Skálholti á fermingarnámskeiði haustið 2004. Einn liður námskeiðsins var sá að þau fengu eitt í einu að dveljast stutta stund í kirkjunni og gera það sem þau vildu. Þau trúðu því ekki að þeim var treyst fyrir því að vera ein í kirkjunni. Þau vildu meina að við prestarnir værum einhverstaðar á bak við og eða myndavél fylgdist með þeim. Þetta var með öðrum orðum einfaldlega of lygilegt að það gæti verið satt. Okkur er alls ókunnugt um hvernig þau nýttu mínúturnar þarna inni. Til að gefa smá hugmynd um það sagði einn drengurinn við vini sína þegar hann kom úr kirkjunni og við heyrðum. “Ég byrjaði á því að breika... og svo lagðist ég á hnén og bað.” Í raun lögðum við prestarnir í hendur þessara ungmenna auða síðu og þau máttu gera það við hana sem hugurinn bauð þeim. Þau stóðust öll það traust. Það traust varð ekki til þarna á staðnum – þau komu með það að heiman.
Halda vöku sinni
Það sem að okkur snýr sem berum ábyrgð á velferð barnsins/umgmennisins og velferð okkar hvers annars er einungis það að barnið/ungmennið fái “blað” og blýant/penna tæki og tól í hendur. Með öðrum orðum að við sköpum aðstæður og tækifæri sem að ungmenninn okkar geta búið sér til rými til að vinna úr. Það er í okkar höndum samfélagsins. Það er okkar að reiða okkur á menningu umhyggjunar en ekki kaldranalegs lífvana efnishyggju og markaðslögmála sem eiga sitt heimili en ekki í hjarta einstaklingsins og samskipta hans við náungan. Til að svo megi verða verðum við að hafa svigrúm og tíma að hugsa okkar eigin gang. Til þess að það gerist þurfa ungmenni þessa lands, þurfum við á kærleiksríku rými að halda – frelsi en setjum mörk sem við sem foreldri getum ein gefið og skrifað undir-látum ekki einhverja aðra sem er nákvæmlega sama um ungmenni okkar gera það fyrir okkur. Við þurfum á því að halda að gæta hvers annars eins og Guð gætir okkar enn í dag. Því hvar værum við ef hans gætir ekki við í lífi okkar. Það er okkar að halda vöku okkar. Við vitum ekki hvernig hún verður framtíðin. Hún er óskrifað blað, sem betur fer segi ég því það opnar á frelsi og von til þess að bæta betur og lagfæra sem kann að hafa farið afvega í lífinu. Framtíðin lofar ætíð góðu ef við trúum á hana. Þá trú getur aðeins Guð almáttugur blásið lífi í og við njótum ylsins frá henni. Það er ekki spurningin um að vera mestur í augum heimsins-heldur sem bestur í augum þeirra sem á þig treysta.