Fermingarbörn vorsins 2015
Lífið í landinu gengur sinn gang, það líður á sumarið, skólarnir hefjast í vikunni. Ný árstíð og önn með nýjum verkefnum. Það á líka við um kirkju og söfnuði í landinu. Fermingarbörn næsta vors eru að koma til fræðslu. Við bjóðum ykkur hjartanlega velkomin með fjölskyldum ykkar. Þið eruð fyrsti fermingarárgangur ungmenna sem fæddur er á þessari öld og árþúsundi, árið 2001. Framundan eru dagar fræðslu um kristna trú og kirkju. Þið voruð skírð til þess samfélags sem kirkjan er - og þið hafið ákveðið að fermast næsta vor ef allt fer að óskum. Fermingin er þjóðfélagsviðburður í okkar landi, viðburður sem sameinar fjölskyldu- og vinasamfélag vítt um land. Kannski stærsti viðburðurinn fyrir utan jólin. Megum við eiga ánægjulegan tíma framundan.
Barn var skírt hér í messunni áðan. Öll óskum við fjölskyldu Örnu Maríu til hamingju. Arna María fermist svo sennilega vorið 2028 hvort sem það verður hér eða annars staðar. Þá finnst ykkur, foreldrunum, tíminn hafa verið undra fljótur að líða. Ég reikna með að þannig sé ykkur farið núna, foreldrar fermingarbarnanna 2015. Það er svo stutt síðan þau voru hvítklædd við skírnina sína.
Þessa sumarmánuði hefur lífið í okkar landi verið stillt og gott um flest. Margir ferðast um landið, fjöldi ferðamanna heimsækir þessa paradís norðursins sem sumir kalla Ísland. Þeir eiga margir hverjir varla nógu sterk orð til að lýsa því hvað hér sé allt friðsælt og öruggt og hvað við, innfæddir, séum elskulegt og gott fólk. Alltaf er nú samt við eitthvað að glíma – og ekki skortir okkur deiluefni ef út í það er farið. En þrátt fyrir ýfingar ýmsar gengur nú lífið sinn gang hér hjá okkur.
Átök í útlöndum
Fréttir utan úr heimi eru öllu alvarlegri. Átök og ófriður með hryllilegri grimmd á sér víða stað. Heimurinn hefur ekki lagt að baki þá forneskju að maður höggvi mann og annan. Á allmörgum stöðum er rétturinn til lífs einskis virtur. Í fjórum, fimm, heimshlutum eru alvarleg og hörmuleg átök. Hagsmunir rekast á en hitt er því miður fremur áberandi að hugsjónir og trú fólks er af mörgum og ólíkum toga. Stórfelldust er skelfingin í Vestur-Asíu. Þar er verið er með markvissum hætti að útrýma kristnu fólki og söfnuðum. Og það er nú gert í orðsins fyllstu merkingu. Lýsingar af grimmdinni, siðleysinu og villimennskunni er svo skelfilegt að orð ná ekki að lýsa því. Myndskeið ofbeldismannanna sjálfra, hermanna Islamska ríkisins, þar sem þeir hælast um af fjöldamorðum á þúsundum, tugþúsundum og bráðum hundruðum þúsunda fólks, er allt með eindæmum á okkar tímum – og það veldur manni ógleði og ólgandi tilfinningum. Það er sárt til að hugsa hvað drápsæðið getur gengið langt.
Við horfum á þetta, fylgjumst með, héðan, norðan við öll stríð – og getum fátt. Við erum afar lítil í hnattrænu samhengi, rödd okkar á alþjóðavettvangi bæði lítil og lágvær. Svo áhrifalaus erum við að Rússum finnst ekki taka því að setja á okkur viðskiptabann. Vissulega hefur smæð okkar þjóðar einnig sína góðu kosti. Við getum t.a.m. unnið að því í sátt og friði að fegra lífið í landinu. Við getum ræktað garðinn okkar, okkur sjálf. Við getum lifað virðingarverðu lífi, haldið og styrkt þau lífsgildi, sem einkenna okkur sem þjóð.
Kristin trú í lifandi samfélagi
Kristin trú okkar og menning á þar sannarlega mikinn hlut og margt fram að færa í lifandi samfélagi. Og það hefur hún alltaf gert. Kannski látum við það um of liggja í þagnargildi og látum ekki þennan þátt lífs okkar sem þjóðar njóta sannmælis. Dr. Kristján Eldjárn, forseti gerði það m.a. að umtalsefni í erindi sem hann flutti árið 1982, í Tjarnarkirkju í Svarfaðardal. Hann hafði þá látið af embætti forseta tveim árum fyrr og flutti þarna erindi um kirkjur í Svarfaðardal. Hann segir svo:
„Ég hef stundum fengið að heyra það á minni ævi, að ég sé ekki mikill kirkjunnar maður og fannst sumum það nokkur ljóður á ráði mínu að ég færi ekki mikið með guðsorð í ræðum meðan ég var forseti. Satt mun það vera, og víst get ég ekki hrósað mér af því að ég sé kirkjurækinn maður í venjulegum skilningi þess orðs. En ég vona að það sé ekki hræsni þegar ég segi að það er trú og sannfæring okkar allra, að við Íslendingar, hvort sem við erum veikari eða sterkari í trúnni, ættum að lofa forsjónina fyrir það að við skulum tilheyra hinum kristna hluta mannkynsins í þessum ekki allt of góða heimi, að við búum við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju. Þetta eru dásamleg forréttindi, sem aðeins nokkur hluti jarðarbúa nýtur. Þetta held ég að hver íslenskur maður ætti að gera sér ljóst og íhuga í alvöru.“
Þessi orð hins ástsæla gengna forseta okkar ættum við að íhuga í fullri alvöru.
Bænarorðin á öldum ljósvakans
Og þá því fremur þegar það fréttist að Ríkisútvarpið, þjóðarmiðillinn, brjóstvörn menningar og gróandi mannlífs í landinu, ætli að hressa upp á dagskrá sína með því að leggja niður fáein bænarorð kvölds og morgna. Skýringar útvarpsmanna á því hvernig útvarpið muni batna við brottfall bænalesturs skil ég ekki. Þjóðfélag okkar batnar ekki með minni áhrifum kristinnar trúar. Þjóðin verður ekki víðsýnni, þroskaðri, umburðarlyndari, réttlátari eða miskunnsamari við það. Ekkert batnar við það að sagan um Miskunnsama Samverjann, Fjallræða Jesú Krists, Gullna reglan, Faðirvorið fái sjaldnar að heyrast í almannaútvarpinu, að kvöldbæn barnanna heyrist ekki „Láttu nú ljósið þitt, loga við rúmið mitt...“ eða morgunbænin „Nú er ég klæddur og kominn á ról.“
Það er óskandi að andstæðingum kirkjunnar, fólki sem tamt er að tala um mannréttindi, lýðræði og frjálslyndi, fari nú að skiljast það að íslenska þjóðin hefur þjóðkirkju og vill fá að hafa hana áfram í friði. Ég hygg að allir njóti góðs af því og að allir ættu að geta tekið undir með fyrrum forseta sínum hvort sem þeir eru „veikari eða sterkari í trúnni“ að það eru „forréttindi að búa við hugsunarhátt, þjóðlíf og menningu sem um aldir hefur mótast af kristinni trú og kristinni kirkju.“
„Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri yður það skuluð þér og þeim gjöra.“
Amen.