Opnunarmynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík ár er bandaríska myndin Cyrus. Í henni er sögð saga John og Molly. John er einhleypur, skildi við Jamie fyrir sjö árum. Hann sækir samt enn stuðning til hennar. En Jamie er að gifta sig og hún vill fyrir alla muni koma sínum fyrrverandi maka út aftur. Molly er einstæð móðir sem býr með syni sínum Cyrus. Hann er tuttugu og eins árs gamall mömmustrákur.
Cyrus er tragí-kómísk ástarsaga um samband John og Molly. Þau hittast í partýi, falla fyrir hvort öðru og allt gengur vel, en svo hittir John Cyrus. Hann er fullorðinn, en samt barn, og tekur heilmikið rými í lífi Mollyar. Svo mikið að það er spurning hvort pláss er fyrir annan karlmann. Að formi til er þetta dæmigerð rómantísk gamanmynd: Strákur hittir stelpu. Með þeim takast ástir. Upp kemur vandamál. Þau fara í sundur. Vandamálið er leyst af því að þau eru svooo hrifin af hvort öðru. Þau ná aftur saman. Happy ending.
Þetta er yfirborðið. Undir niðri er Cyrus beitt ádeila á markaleysi og meðvirkni í samskiptum fullorðinna og barna. Þetta gildir jafnt um samband John við Jamie og samband Molly við Cyrus.
Emmin tvö – markaleysið og meðvirknin – hafa nefnilega einkennt tengsl persónanna í myndinni um langan tíma. Fyrrverandi makarnir John og Jamie eru ennþá tilfinningalega háð hvort öðru og það hindrar þau bæði í að lifa lífinu. Þótt Jamie vilji af góðum hug styðja John, skapar markaleysið í samskiptunum þeirra álag á nýja sambandið hennar Jamie.
Molly og Cyrus hafa lifað ein og óáreitt alveg síðan Cyrus fæddist. Nú er hann uppvaxinn en kann svo vel við litla konungsríkið sitt þar sem mamma Molly er drottningin að hann er ekki að fara breyta neinu þar. Fyrr en John kemur til sögunnar.
Kvikmyndin er rólegheita saga – en þó eru stór skref stigin í henni. Markaleysis- og meðvirknishringirnir sem persónurnar eru fastar í, eru rofnir og það er forsendan fyrir því að allir geta haldið áfram og byggt nýja hluti. Breytingar geta verið sársaukafullar en óhjákvæmilegar.
Myndin er svona happy ending saga því framtíðin virðist blasa björt við John og Molly þegar myndinni lýkur.
Það var góð skemmtun að horfa á Cyrus í Þjóðleikhúsinu. Margt í henni vekur til umhugsunar og varpar ljósi á persónuleg tengsl og mynstur í þeim. Öll þurfum við að kljást við M&M í mismunandi magni í eigin lífi. Listir og menning – líka bíó – hjálpa okkur að skilja og skynja það upp á nýtt.