The good place

The good place

Allt er fallegt, gott og fullkomið þar til Eleanor kemur inn í heiminn fyrir mistök. Hún er nefnilega ekkert sérstaklega góð. Hún hafði engan metnað á meðan hún lifði annan en að hafa það sem þægilegast, þurfa að gera sem minnst og var alveg sama þó það væri bæði á kostnað annars fólks og henni var nákvæmlega sama um umhverfið. Hún laug. Hún stal. Hún svindlaði og hún var almennt frekar siðferðislega veiklundð manneskja.
fullname - andlitsmynd Guðrún Karls Helgudóttir
23. október 2016
Flokkar

The good place Ímyndið ykkur hinn fullkomna heim. Þetta er heimur þar sem allt fólk er gott því þangað komast aðeins þau allra bestu. Þau sem hafa helgað líf sitt því að gera öðrum gott og að bæta heiminn. Þennan heim er að finna í sjónvarpsþáttum sem heita “The good place” eða “Góði staðurinn”. Þetta er staðurinn sem góða fólkið fer á þegar það deyr en það er búið að útbúa hina fullkomnu reikniformúlu þar sem allt það góða sem það gerði í lífinu og allt það vonda er tekið saman og fundið út hvaða fólk var best. Þetta fólk er svo gott að það er rétt svo að móðir Theresa komist þarna inn.

Þarna er alltaf gott veður, maturinn fullkominn þ.e. uppáhaldsmatur hvers og eins. Allir íbúarnir búa á drauma heimilinum sínum og hver og einn fær að búa með sínum fullkomna sálufélaga. Þetta gæti ekki verið betra.

Allt er fallegt, gott og fullkomið þar til Eleanor kemur inn í heiminn fyrir mistök. Hún er nefnilega ekkert sérstaklega góð. Hún hafði engan metnað á meðan hún lifði annan en að hafa það sem þægilegast, þurfa að gera sem minnst og var alveg sama þó það væri bæði á kostnað annars fólks og henni var nákvæmlega sama um umhverfið. Hún laug. Hún stal. Hún svindlaði og hún var almennt frekar siðferðislega veiklundð manneskja. Og sálufélaginn hennar er siðfræðiprófessor sem aldrei hefur getað annað en sagt satt. Henni tekst að sjálfsögðu að fá hann til að lofa að segja engum frá því að hún eigi ekki heima þarna og hann fer að kenna henni hvernig hún geti orðið betri manneskja.

Smám saman fara að koma sprungur í þennan fullkomna heim þar sem fólk er ekki einu sinni fært um að blóta því það er svo gott. Og allt er það vegna þess að ein ófullkomin manneskja er komin í heiminn.

Þetta er reyndar klassískt þema í bókum, kvikmyndum og sjónvarpsþáttum, að skapa mynd af hinum fullkomna heimi sem síðan gengur ekki upp þar sem einhver fer ekki eftir leikreglunum.

Fullkominn heimur? Nú eru sex dagar í alþingiskosningar og komið að því að við nýtum okkar lýðræðislegu réttindi til þess að kjósa fólk til að stýra landinu okkar. Og það er ekki alltaf auðvelt að velja. Kannski vonumst við öll svolítið eftir svona fullkomnum heimi eins og í “The good place” eftir hverjar kosningar. En ég er nokkuð viss um að þau sem gefa kost á sér til þess að setjast á Alþingi langi til að gera heiminn betri en hann er. Þess vegna hljóta þau að vera í stjórnmálum. Vandinn er bara sá að við erum ekki öll sammála um hvernig hinn fullkomni heimur á að vera og hvað þá um leiðirnar þangað.

Það er sjálfsagt skoðun einhverra að kirkjan eigi ekki að skipta sér af stjórnmálum en ég tel að kirkja sem ekki lætur sig varða réttlæti og líðan þegna þessa lands, sé ekki að sinna hlutverki sínu. Jesús leit ekki undan þegar hann sá óréttlæti eiga sér stað og hann hrósaði þeim sem gerðu vel. Þetta sama hlutverk hlýtur kristin kirkja því að hafa í því samfélagi sem hún er hluti af. Í lýðræðisríki hlýtur pólitík alltaf að snúast um það hvernig fyrirkomulag við viljum hafa á hlutunum í landinu okkar þannig að við öll höfum möguleika á að búa við mannsæmandi kjör og njótum sömu réttinda og höfum sömu skyldur. Fólk er síðan oft ekki sammála um leiðirnar að þessu markmiði en kirkja hlýtur alltaf að standa með þeim sem sem eru minni máttar. Þeim sem verða undir og hlúa að rétti þeirra sem eru ein á báti, geta ekki varið sig sjálf og gleymast jafnvel. Það er hlutverk kirkjunnar að hjálpa til við að gera samfélagið okkar og heiminn betri.

Himnaríki Það vill svo til að sagan sem við heyrðum áðan, guðspjallið sem er prédikunarefni þessa sunnudags, fjallar einmitt um góða staðinn eða hinn fullkomna heim.

Þar segir Jesús að himnaríki sé líkt og konungur sem sem gefur þjóni sínum upp skuld sem samsvarar 150.000 árslaunum. Það segir sig sjálft að þjónninn getur ekki borgað skuldina. Aldrei nokkurn tíma. Þegar kemur að skuldadögum fellur þjónninn á hné og biður um miskunn. Konungurinn sér aumur á honum og gefur honum upp skuldina. Konungurinn fyrirgefur mikið og þjónninn fær mikið fyrirgefið.

En svo hættir heimurinn að vera fullkominn þegar sami þjónn og fékk þessa miklu skuld uppgefna fer út og hittir félaga sinn og samþjón sem skuldar honum sem samsvarar 100 dagsverkum. Þetta er mikil skuld en þó ekkert í líkingu við það sem hinn þjónninn fékk uppgefið. Þessi maður biður líka um miskunn með því að falla til fóta samþjóns síns alveg eins og hinn hafði gert, en hann sleppur ekki. Þjónninn sem hafði fengið niðurfellingu á 150.000 árslaunum vildi ekki leyfa samþjóni sínum, sem skuldaði 100 dagsverk að njóta jafn góðra kjara og hann hafði sjálfur fengið hjá konungnum heldur lét hann varpa félaga sínum fangelsi þar sem hann gat ekki borgað.

Að deila kjörum Þarna dregur Jesús upp mynd af tveimur mönnum sem báðir eru þjónar en annar er ekki tilbúinn að deila kjörum sínum með hinum. Annar er búinn að fá mikið fyrirgefið, miklar skuldir niðurfelldar en hann er ekki tilbúinn til að gera það sama við samþjón sinn. Hann á að borga í topp og fara í fangelsi í ofanálag. Annar á að fylgja reglunum en ekki hinn.

Getur verið að þarna sé Jesús að lýsa ákveðnu mynstri sem við þekkjum öll að einhverju leyti? Þessari tilfinningu fyrir því að við þurfum ekki öll að fylgja sömu reglum. Að sum okkar þurfi að borga í topp en ekki önnur?

Það er ekki hægt að segja að annar hafi bjargað sér en ekki hinn því þeir lögðust báðir í duftið og báðust fyrirgefningar. Annar var bara heppnari með lánadrottinn en hinn. Kannski hafði hann líka betri sambönd. Þessi mynd sem Jesús dregur upp af þessum tveimur mönnum, eða þremur með konunginum gerist ekki í lýðræðisríki eins við erum svo lánsöm að búa í.

Eða hvað? Er þetta eitthvað betra hér? Deilum við sömu kjörum og höfum við sömu tækifæri eða er betra að hafa sambönd?

Sagan um samskipti konungins og þjónanna tveggja endaði ekki vel fyrir forréttinda þjóninn sem fékk allar skuldirnar niðurfelldar. Því þegar konungurinn heyrði að hann hefði ekki sýnt félaga sínum sömu miskunn, og hann hafði sjálfur þegið, varð hann reiður og lét handtaka hann og afhenti böðlinum uns hann hafði greitt alla skuldina. Ég veit reyndar ekki hvernig í ósköpunum hann fór að því en hann slapp ekki þegar upp var staðið og kannski má því segja að réttlætið hafi sigrað að lokum.

Þessi mynd sem Jesús dregur upp af himnaríki, hinum góða stað, er ekki mynd af fullkomnum heimi. Þessi heimur sem hann lýsir er býsna ófullkominn og nokkuð raunverulegur. Þetta er heimur sem við könnumst við.

Í þessu himnaríki er fyrirgefningin krafa. Konungurinn fyrirgefur mikið en hann ætlast líka til að þjónninn deili þessari fyrirgefningu áfram og geti einnig fyrirgefið stórt. Þegar það síðan ekki gerist þá er þessum sem ekki gat fyrirgefið refsað og hann látinn taka afleiðingum gjörða sinn. Himnaríki er þarna ekki heimur meðvirkninnar þar sem allt er fyrirgefið og engin(n) þarf að taka ábyrgð.

Í þessu himnaríki, á góða staðnum, sem Jesús lýsir er okkur fyrirgefið ef við iðrumst en við eigum líka að taka ábyrgð og fyrirgefa þeim sem leita eftir fyrirgefningu. Við eigum að deila kjörum, fylgja sömu leikreglum fá sömu tækifæri. Lífsgæði okkar eiga ekki að snúast um að hafa nógu góð sambönd heldur um að vera þokkalega almennilega manneskjur, réttsýnar og taka ábyrgð á gjörðum okkar. En það eru líka lífsgæði að eiga kærleika til þess að geta fyrirgefið mistök og þá sérstaklega þegar iðrun hefur átt sér stað.

Við sem búum á Íslandi getum haft áhrif og kosið okkur fólk til þess að stjórna landinu okkar þannig að kjör okkar verði réttlát, að við sitjum öll við sama borð og fylgjum sömu leikreglum. Á Íslandi í dag á engin manneskja að þurfa að búa við fátækt. Við eigum öll að geta haft aðgang að góðri heilbrigðisþjónustu. Hér eiga allar manneskjur að hafa ráð á öruggu húsakjóli. Og á Íslandi á stjórnmálafólk að fylgja sömu leikreglum og annað fólk í landinu, að öðrum kosti verður það ekki trúverðugt og við hættum að treysta þeim. Þá skapast vantraust og vanlíðan.

The good place Í þáttunum “The good place” koma sprungurnar fljótt í ljós en þá fyrst verður góði heimurinn áhugaverður. Þá fyrst verður hann að spennandi sögu. En ég held líka að góði heimurinn í þessum þáttum og í flestum skáldskap lýsi einmitt þeim raunveruleika sem við búum við.

Við viljum góðan og fullkominn heim.

Hin kristna trú snýst m.a. um að búa til betri heim. Hún gengur út að við leitumst við að vera betri í dag en í gær og hún gengur út að að til sé einhver æðri tilgangur en bara við sjálf. Að lífið hafi dýpri og stærri merkingu en aðeins þann raunveruleika sem við þekkjum nú.

Við viljum góðan og fullkominn heim þrátt fyrir að við vitum að sá heimur er ekki til enda verðum við aldrei sammála um hvernig sá heimur er. Og ef okkur tekst að skapa þennan heim þá kemur alltaf einhver og brýtur reglurnar rétt þegar við erum búin að semja þær. Þannig er það og þannig verður það, því við erum ekki fullkomin.

Það þýðir þó ekki að við eigum ekki að reyna. Að við eigum að gera okkar besta og þannig reyna ávallt að skapa aðeins betri heim fyrir okkur öll. Þó svo að einhver brjóti leikreglurnar. Þó svo að einhver bendi okkur á sprungurnar. Ef engar sprungur væru þá hættum við kannski að reyna okkar besta.

Ég vona og bið að hvernig sem þessar kosningar fara þá veljist fólk til alþingisstarfa sem ekki aðeins mun stjórna með höfðinu heldur einnig með hjartanu, fólk sem er heiðarlegt og vinnur þannig að verk þeirra þoli dagsbirtu. Ég vona og bið að þeim sem taka við þeirri ábyrgð að stjórna landinu okkar, beri gæfa til að viðurkenna mistök sín (því þau munu verða nokkur, annað er ekki mannlegt) og hafi kjark til þess að biðjast fyrirgefningar þegar það á við. Og að lokum vona ég og bið að þeim sem nú munu setjast á alþingi takist að koma samfélaginu hér í þannig horf að allir þegnar þessa lands fylgi sömu leikreglum og fái sömu tækifæri til þess að lifa verðugu lífi í þessu, þó vel stæða landi, þar sem friður ríkir og við búum við lýðræði. Að þau reyni ásamt okkur öllum að búa til aðeins betri heim. Amen.