Guðlaug Alexandra Esmeralda var skírð áðan. Hún er fædd inn góðan faðm og fær blessun og góðar óskir. Ungbörnin eru heillandi og það er heillandi að horfa í djúpa draumalind augnanna og reyna að sjá í þeim framtíðina. Hvað viltu verða, hvernig viltu lifa, hvernig muntu lifa. Hverjar verða þínar ferðir í lífinu?
Afstaðan til hins trúarlega Þessa dagana er haldin bókmenntahátíð. Þeir viðburðir eru mikið þakkarefni. Bestu höfundar heimsins hafa lagt leið sína til okkar til að taka þátt í veislu andans. Ég minnist þess að fyrir nokkrum árum hlustaði ég og hreifst af þeim merka hugsuði Yann Martell. Í viðtölum í fjölmiðlum og umræðum hljómaði skýr boðskapur hans: “Við ættum að láta af neikvæðni í garð trúarinnar og temja okkur frekar jákvæða nálgun. Alltof margir nútímamenn hafa hæðst að hinu trúarlega, tamið sér kaldhæðni gagnvart trúarbrögðum og misst þar með sjónar á því sem trú og trúariðkun veita.”
Ég las svo bók Martell um strákinn Pí, sem var rifinn upp úr indversku umhverfi sínu, varð síðan skipreka á Kyrrahafi og lenti – ótrúlegt nokk - í bát með hýenu, sebrahesti, órangút og tígrisdýri. Sagan af Pí er ótrúleg saga, gríðarlega vel sögð og skrifuð, marglaga, áhrifarík saga sem sækir á hugann, ekki síst fyrir að hún er um trú, trúariðkun og trúarfjölbreytni í samtíma okkar. Pí var alinn upp í trúleysi en þráði Guð, heillaðist af Guði og kærleika Guðs. Pí leitaði í musteri hindúa og lærði tilbeiðslu. Svo fór hann víðar, lærði af múslimum einnig og var að lokum skírður í kristinni kirkju. Hann sagði ekki skilið við það sem hann lærði meðal múslima eða hindúa þó hann tæki kristni, hann rækti sem sé þrenns konar átrúnað. Það eitt reyndist prestum þessara trúarbragða erfitt að skilja. Þeir uppgötvuðu þetta samtímis og frásögnin af því er afar fyndin. Sagan af Pí gengur upp. Það er gott þegar maður les merkilegan prósa sem skilar íhugun og jafnvel lífsvisku. Það er djúp, mannvinsamleg og eiginlega heimsvinsamleg jákvæðni í bókinni um Pí og varðar hvernig menn geta leyft opnun og elsku að stýra lífinu fremur en neikvæðni og notkunarafstöðu. Martell minnir okkur á að við megum opna sálarglugga okkar. Veruleikinn er ekki einfalt kerfi og í samræmi við einhverja heimasoðna lógík. Trúarlíf er flókið og Guð er enn flóknari veruleiki. Átrúnaður í sögu og samtíð er fjölbreytilegur og síbreytilegur lífvefnaður.
Viltu verða heill? Pí litli var yfirgefinn á Kyrrahafinu. Það er stór laug. En hann varð fyrir kraftaverki. Guðspjallið í dag fjallar um kraftaverk á laugarbarmi! Jóhannes guðspjallamaður er nákvæmur í greinargerðinni. Hann segir frá staðsetningu heilsulindarinnar í Betesda, húsaskipan og aðstæðum, rétt eins og hann væri að lýsa leið og aðbúnaði í Bláa Lóninu eða Heilsuhælinu í Hveragerði. Til þessa líknarhúss og líknarlindar sótti stór hópur fólks. Samkvæmt alþýðusögninni kraumaði í keri, þegar engill hrærði í vatninu. Fólk vildi trúa að sá eða sú, sem fyrst færi ofan í eftir engilhræruna, yrði heill eða heil. Á laugarbakkanum var sjúkur maður. Jóhannes segir svo fallega: „Jesús sá hann.“ Og Jesús kom til hans og bar upp hina sérkennilegu spurningu: „Viltu verða heill?“ Maðurinn varð hvumsa við og hefði auðvitað getað svarað í axarskaft. En Jesús vissi að hann var langlegusjúklingur og afskrifaður. Svarið var einfalt: „Jú auðvitað vil ég verða heilbrigður. Ég hef verið sjúkur í öll þessi ár, mannsævi, 38 ár.“ Svo minnir hann Jesú á að enginn lækning finnist, enginn sé til að velta honum í laugina þegar lækningar sé von.
Jesús fer ekki krókaleiðir, heldur kemur manninum á fætur og býður honum að fara með fletið. Krafturinn kom snöggt, hugurinn ringlaðist og blessuðum manninum var ómögulegt að gera heilbrigðis - og helgidaga-lögreglu Gyðinga grein fyrir hver hafði unnið læknisverkið á honum. Þeir hittust svo síðar, Jesús og hinn nýlæknaði, og þá minnti Jesús hann á að syndga ekki framar. Kraftaverkasögur Hvað eigum við nú að segja um svona sögu? Margir fara hjá sér og skammast sín fyrir kraftaverkafrásögur. Þessi afstaða er vel skiljanleg því málfar Biblíunnar er forvísindalegt og erindið handanvísindalegt! Sem endranær er tilgangur kraftaverkasögu ekki að fá okkur til að velta vöngum yfir hinu fræðilega „hvernig“ heldur lífsskilyrðum fólks, hinu andlega „vegna þess,“ og “til þess að.“ Jesús spurði: „Viltu verða heill?“ Svarið sem hann fékk var „Já, en“ og svo komu skýringarnar. Jesús spurði vinarspurningarinnar: „Að hverju ertu að leita?“ og „Ertu að leita heilsunnar á rétum stað?“ Það er þetta „já en” sem einkennir svar okkar gagnvart hinni einföldu spurningu Jesú. Við leitum að lífslyklum á röngum stað. Ef við erum gjaldþrota, höfum komist í hann krappann i einkalífinu eða lent í áfalli er alveg ljóst, að til að ekkert annað en horfast í augu við vandann dugar til að geta haldið lífsleiðinni áfram. Þegar allt er hrunið er leið alltof margra að reyna að kaupa sér lausn, reyna einhverjar einfaldar flóttaleiðir eða töfrakúnstir. Þetta er fávíslega galdraleiðin sem tefur og hindrar lausn.
Trú töfranna Viltu verða heill? Maðurinn horfði á hræringu vatnsins og vildi fleygja sér útí þegar rétta stundin kæmi og engillinn færi um. Þetta er trú töfranna. Þegar stór áföll verða í lífi fólks er leitað til vísinda. Þegar lækningar bregðast er leitað til kuklaranna. Þegar þeir duga ekki er leitað til miðla og þegar þeirra geta þverr er leitað til trúarinnar. Hvað er trúin í því sambandi? Ekkert annað en galdra- eða töfratrú, trú á að Guð sé einhvers konar hinsta björgunarlið, þegar annað hefur brugðist, ýtrasta hálmstráið! Guð, skapari, lausnari og andi heimsins sem hálmstrá! Hvaða trú er það annað en töfratrú?
Guðspjall dagsins lyftir upp spurningunni: Hvað er að vera heilbrigður eða heil? Er veraldarsýn þín í samræmi við sýn Guðs? Ertu að leita að lyklum á röngum stað? Ertu kanski heilsulaus á laugarbarminum og bíður?
Rækt trúarinnar Við tökum ekki trúna nægilega alvarlega, sagði Yann Martell. Þegar ég var nýbúinn að lesa söguna um Pí var ég að messa. Þá kom Martell í messu hann kom fram kirkjugólfið í altarisgöngunni, rétti fram hendur sínar til að meðtaka líkama Krists og meðtók blóð Krists. Hann hafði gert sér grein fyrir að yfirborðsraunsæji, yfirborðsvísindamennska, einhæf túlkun gengur ekki til að lífið virki. Hann var tilbúin að taka á móti undrinu, elskunni og lífinu.
Jesús sá manninn með hugann fastan við ranga aðferð og lausnarleið. Jesús kom til hans og gaf honum lífið. Kraftaverkið er ekki í lauginni, ekki á Kyrrahafinu, ekki í skottulæknunum, ekki lyftumönnum við laugarbarm. Mesta undrið er að Guð sér þig þegar þú ert vanheil eða veikur. Guð kemur til þín á þinn laugarbarm þar sem þú liggur ráðþrota og magnlaus og segir þér: „Rístu á fætur, hér hefur þú ekkert að gera, lífið bíður, lífið er komið. Guð getur allt, líka læknað þín mein. Guð er lífskrafturinn mikli og vinnur verkið í þér. Lausnin er fundin og bætir líf, vinnu, sálina í þér, sjúkdóma og líf þessa heims og annars.
Amen
Prédikun í Neskirkju 13. september 2009, 14. sd. eftir þrenningarhátíð. B-textaröð.
Lexía: Slm 103.1-6 Davíðssálmur. Lofa þú Drottin, sála mín, og allt sem í mér er, hans heilaga nafn; lofa þú Drottin, sála mín, og gleym eigi neinum velgjörðum hans. Hann fyrirgefur allar misgjörðir þínar, læknar öll þín mein, leysir líf þitt frá gröfinni, krýnir þig náð og miskunn. Hann mettar þig gæðum, þú yngist upp sem örninn. Drottinn fremur réttlæti og veitir rétt öllum kúguðum.Pistill: Gal 2.20 Sjálfur lifi ég ekki framar heldur lifir Kristur í mér. Lífinu, sem ég lifi nú hér á jörð, lifi ég í trúnni á Guðs son sem elskaði mig og lagði sjálfan sig í sölurnar fyrir mig.
Guðspjall: Jóh 5.1-15 Þessu næst var ein af hátíðum Gyðinga og Jesús fór upp til Jerúsalem. Við Sauðahliðið í Jerúsalem er laug sem kallast á hebresku Betesda. Þar eru fimm súlnagöng. Í þeim lá fjöldi sjúkra manna, blindra, haltra og lamaðra [sem biðu hræringar vatnsins. En engill Drottins fór öðru hverju niður í laugina og hrærði vatnið. Sá sem fyrstur fór ofan í eftir hræring vatnsins varð heill hvaða sjúkdómur sem þjáði hann.] Þarna var maður nokkur sem hafði verið sjúkur í þrjátíu og átta ár. Jesús sá hann þar sem hann lá og vissi að hann hafði lengi verið sjúkur. Hann segir við manninn: „Viltu verða heill?“ Hinn sjúki svaraði honum: „Herra, ég hef engan til að láta mig í laugina þegar vatnið hrærist og meðan ég er á leiðinni fer annar ofan í á undan mér.“ Jesús segir við hann: „Statt upp, tak rekkju þína og gakk!“ Jafnskjótt varð maðurinn heill, tók rekkju sína og gekk. En þessi dagur var hvíldardagur og menn sögðu við hinn læknaða: „Í dag er hvíldardagur. Þú mátt ekki bera rekkjuna.“ Hann svaraði þeim: „Sá sem læknaði mig sagði við mig: Tak rekkju þína og gakk!“ Þeir spurðu hann: „Hver er sá maður sem sagði þér: Tak hana og gakk?“ En læknaði maðurinn vissi ekki hver hann var því að Jesús hafði leynst brott enda var þröng á staðnum. Nokkru síðar hitti Jesús hann í helgidóminum og sagði við hann: „Nú ert þú orðinn heill. Syndga ekki framar svo að eigi hendi þig annað verra.“ Maðurinn fór og sagði ráðamönnum Gyðinga að Jesús væri sá sem læknaði hann.