Postularnir sögðu við Drottinn: Auk oss trú! En Drottinn sagði: Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður. Lúk 17.5-7
Auk oss trú, sögðu postular Jesú. Auk oss trú! Hvað er trú? Höfundur Hebreabréfsins (11.1-3) skilgreinir trúna sem fullvissu, sannfæringu. Það má líka segja að trú sé traust á Guði, tryggð við Guð, að fela líf sitt handleiðslu Guðs. Kristin trú er ekki flókið fyrirbæri reglugerða og skilgreininga. Hún snýst um grundvallartraust til höfundar lífsins, einfaldlega að treysta því að Guð muni vel fyrir sjá, hvað sem á dynur. Af því trausti sprettur löngunin til góðra verka, til að verða að gagni í veröldinni. Auktu mér traust, frelsari minn góður!
Áminning og uppörvun
Ég festi þig mér um alla framtíð, Ég festi þig mér í réttlæti, réttvísi, kærleika og miskunnsemi, Ég festi þig mér í tryggð, Og þú munt þekkja Drottin.
Boðskapur Hósea spámanns (sem starfaði í Norðurríkinu, Ísrael, rétt fyrir fall þess á 8. öld f. Kr.) er að stærstum hluta ströng áminning til þjóðar, sem hefur vikið af hinum rétta vegi, en líka uppörvunarorð og fyrirheit um bjarta framtíð. Í versunum á undan þeim sem lesin voru hér áðan birtist harmur Guðs yfir ástandi þjóðarinnar (Hós 2.10-11):
En hún skilur ekki að það var ég sem gaf henni korn, vín og olíu og jós yfir hana silfri og gulli sem notar var í Baalsmyndir. Þess vegna tek ég korn mitt aftur þegar tími þess kemur og vín mitt þegar tími þess kemur, ull mína og hör sem hún hafði til að skýla nekt sinni.
Þjóð sem gleymir að þakka Guði þegar vel gengur getur orðið hált á velgengnissvellinu eins og dæmin sanna. Og sagan sýnir einnig að afleiðingar rangra ákvarðanna fámenns hóps koma iðulega niður á fjöldanum. Þetta sjáum við líklega hvað skýrast í stríðsátökum, sem hinn almenni borgari vill yfirleitt sem minnst af vita, en tekur úr fyrir í sínu daglega lífi.
Búsáhaldabyltingin og bænastundir Síðast liðin vika hefur verið mjög viðburðarík hérlendis. Mótmæli gegn ríkjandi ástandi í þjóðfélaginu eru hávær, búsáhaldabyltingin hefur hljómað hér um miðborg Reykjavíkur dögum saman. Og við Mývatn tók fólk sig saman um síðustu helgi og kastaði skóm í gullkálf til að andmæla græðgi og ranglæti á táknrænan hátt með dæmi Ísraelsmanna og hjáguðadýrkunar þeirra fyrir augum. Stríðsátökum hefur einnig verið mótmælt og á alþjóðlegri, samkirkjulegri bænaviku var beðið sérstaklega fyrir Kóreu, að þjáningu fólksins sem býr við skiptingu lands síns í Norður og Suður, verði aflétt.
Biskupinn okkar, herra Karl Sigurbjörnsson, hefur hvatt til að sérstaklega verði beðið fyrir íslensku þjóðinni í dag, á síðasta degi áttadaga bænaviku fyrir einingu kristninnar. Það munum við gera á eftir þegar messuþjónarnir og stúlkur úr fermingarbarnahópnum okkar hér í Hallgrímskirkju flytja sínar bænir. Og við skulum öll halda áfram að biðja í dag og næstu daga, biðja Guð um að hrekja á brott það dimma ský efnahagsvandans sem yfir grúfir, biðja um lausn inn í málefni þjóðar okkar, einkum til handa þeim sem eru atvinnulaus eða áhyggjufull vegna skulda, biðja um að við mættum sem þjóð draga lærdóm af þessu ástandi, biðja um visku og dómgreind fyrir ráðamenn þjóðarinnar á hverri tíð, biðja um heilsu og styrk fyrir ráðherrana tvo í veikindum þeirra.
Krafa um réttlæti Krafa fólksins sem mótmælir á götum úti er krafa um réttlæti. Við prestarnir og biskupinn höfum verið ásökuð um að tala fyrir sátt, sem mörgum finnst ótímabær. Nú er það svo að margir prestar, með biskupinn í broddi fylkingar, hafa á umliðnum árum varað við aukinni græðgi í þjóðfélaginu, vakið athygli á kjörum þeirra sem minnst mega sín og minnt á mikilvægi góðs siðferðis í hvívetna. Gagnrýnin er því óverðskulduð að öðru leyti en því að við prestarnir, eins og flestir aðrir almennir borgarar, höfum auðvitað notið góðs af auknu vöruúrvali og að einhverju leyti bættum kaupmætti almennt, sem innistæða reyndist þó því miður ekki fyrir, sé litið á fjárhag þjóðarinnar í heild.
Ég hef á undanförnum vikum hugsað mikið um hugtakið réttlæti og einkum í tengslum við hvernig megi ná sátt og einingu í þjóðfélaginu og leggja grunn að góðu siðferði í hvívetna sem hlýtur að vera markmiðið. Kenningar Carol Gilligan, prófessors í siðfræði, hafa komið upp í hugann, en hún hefur bent á mikilvægi umhyggjunnar við hlið réttlætisins þegar kemur að siðrænni hugsun. Í tímamótabók sinni In a Different Voice (1982) skilgreinir Gilligan þrjú siðferðisstig (stundum líka það fjórða, samþætt stig, þar sem enginn munur er lengur á því hvernig kynin hugsa).
Umhyggjusiðfræði For-hefðbundið (preconventional) siðferði er notað um sjálfhverfa hegðun, þar sem manneskjan er upptekin af því sem kemur henni sjálfri til góða, fyrst og fremst. Slík eiginhagsmunasemi er börnum eðlileg en ætti að þroskast til ríkari samkenndar og ábyrgðar á hag heildarinnar, einkum þó innan eigin samfélags eða hóps. Það er kallað hefðbundið siðgæði (conventional) eða hóphverfu stig. Á síð-hefðbundnu stigi siðferðis (postconventional) þróast háleitari hugsjónir um frið og lausn undan ofbeldi, öllum lifandi verum til handa. Þar er heimurinn allur viðfangsefni umhyggjunnar, ekki bara eigin vinahópur, fjölskylda eða þjóð.
Það sem Carol Gilligan er þó þekktust fyrir er að sýna fram á að konur og karlar hafa tilhneigingu til ólíkrar siðferðislegrar hugsunar. Hún segir að karlmenn leggi meiri áherslu á réttlætið, konur á umhyggjuna, að sjálfstæði og reglur séu körlum mikilvægari en konum, sem aftur setji sambönd og samskipti í fyrsta sæti.
Mér varð hugsað til Gilligan um liðna helgi þegar fram kom sú skoðun í fjölmiðlum – að loknu jafnréttisþingi (haldið 16. jan.) – íslenskt viðskipta- og stjórnmálalíf eigi vannýtta auðlind, þ.e.a.s. konur sem séu síður áhættusæknar en karlar (Gylfi Magnússon dósent í hagfræði við HÍ á mbl.is 18.1.09).
Endurnýjun siðferðislegra gilda Hvernig sem því er varið hlýtur krafan um endurnýjun siðferðislegra gilda í stjórnmálum og viðskiptalífi að vera hávær þegar byggja á upp nýja framtíð á Íslandi. Þar eru þau tvö gildi sem nefnd voru hér að framan bestur grunnur, réttlæti og umhyggja hönd í hönd, hjá konum og körlum á öllum aldri, ungmennum og börnum. Þetta eru gildin sem kristin trú hvílir á og rætur hennar eru hjá spámönnum Ísraels, svo sem Hósea sem nefnir réttlæti og réttvísi í sömu andrá og kærleika og miskunnsemi. Hvorugt getur án hins verið. Réttlætið getur breyst í svipu hefndar og hörku ef miskunnsemin fær ekki brugðið mildi sinni um brynju þess. Og kærleikurinn getur orðið markalaus og þar með marklaus ef hann fylgir ekki leið réttvísinnar.
Þetta þekkjum við best úr uppeldi barna okkar og unglinga. Rannsóknir hafa sýnt (t.a.m. dr. Sigrún Aðalbjarnardóttir: Áhættuhegðun og seigla ungs fólks, langtímarannsókn, hófst 1994) að bestu uppeldisaðstæðurnar eru hæfileg blanda af skýrum reglum og umhyggju. Réttlætið og kærleikurinn fær ekki án hvors annars verið.
En hún skilur ekki að það var ég sem gaf henni korn, vín og olíu og jós yfir hana silfri og gulli sem notar var í Baalsmyndir,
segir Drottinn. Við Íslendingar höfum gleymt að þakka Guði, gleymt skapara okkar í oflæti velgengninnar. Hvatning dagsins í dag er að við endurnýjum traust okkar á Guði, að við trúum því að hann sé til og að hann umbuni þeim er leita hans, eins og segir í pistli dagsins (Heb 11.6).
Úr bréfi biskups Að lokum vil ég leyfa mér að vitna í bréf biskups til presta:
Hafi grundvallartraust beðið hnekki í íslensku samfélagi, eins og oft er sagt, þá er það alvarlegt og brýnt að allt gott fólk taki höndum saman um að endurreisa það. Ekkert samfélag stenst án trausts. En það er ekki blint traust, það er traust sem byggir á trú, sem er glöggskyggn á hið góða og fús til að greiða því veg. Trú sem starfar í auðmýkt og kærleika.Við höfum verið svo lánsöm Íslendingar, við höfum hrósað okkur af öruggu samfélagi, samhug og samstöðu, þar sem menn geta treyst náunganum og grunnstoðum samfélagsins. Guð gefi að svo verði áfram í okkar góða landi. Leggjum okkar hlut að mörkum þess. Og biðjum fyrir heill landsins. Biðjum um styrk, þrek og visku þeim sem við köllum til að veita málum okkar forystu.
Biðjum fyrir forsætisráðherra í veikindum hans, að Guð lækni hann. Biðjum eins fyrir utanríkisráðherra um skjótan bata.
Og minnumst þeirra fjölmörgu sem erum kvíðin og áhyggjufull, reið og sorgmædd. Biðjum um æðruleysi, vit og kjark til að takast á við voða og vanda allan sem að steðjar.
Áköllum Guð og biðjum: Auk oss trú!