Hvað kemur upp í huga þinn þegar hugtakið trú ber á góma?

Hvað kemur upp í huga þinn þegar hugtakið trú ber á góma?

Þannig eru trú og tilgangur samofin í mínum huga. Trú mín er þannig í grundvallar atriðum sannfæring mín um það að það sé tilgangur með lífinu og tilverunni.

Jer. 1:4-10

1Pét. 2:4-10

Lk. 5:1-11

 

Biðjum:

 

Góði Guð.

Vert þú mér allt í öllu,

mín æðsta speki og ráð,

og lát um lífs míns daga,

mig lifa´af hreinni náð. Amen.

 

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Krists. Amen.

 

Tilgangur

 

Í mínum huga snýst trúin fyrst og fremst um það að það sé tilgangur með tilverunni. Tilgangur með lífinu. Tilgangur með lífi þínu og mínu.

 

Þannig eru trú og tilgangur samofin í mínum huga. Trú mín er þannig í grundvallar atriðum sannfæring mín um það að það sé tilgangur með lífinu og tilverunni.

 

Hvað kemur upp í huga þinn þegar hugtakið trú ber á góma? Trú á að lífið haldi áfram að lífi loknu? Að það sé líf eftir dauðann? Eða er það eitthvað allt annað sem kemur upp í huga þinn?

 

Spurningin; ertu trúuð eða trúaður? Ef þú færð þá spurningu, hverju svarar þú þá?

 

Kannski væri best að svara, hvað áttu við með spurningunni? Hvað áttu við með hugtakinu trú?

 

Hugtakið trú hefur þannig í sér fólgnar margsvíslegar skýrskotanir og krefst kannski þess að við orðum það skýrt hvað við eigum við.

 

Áður en þú fæddist

 

Rit og textar Biblíunnar fást við þessi viðfangsefni, trú og tilgang, lífið og verkefni þess. Þar má finna reynslu kynslóðanna af lífsglímunni. Sú reynsla á erindi við okkur í dag, á erindi við manninn á öllum tímum. Því af reynslu annarra getum við lært, lærdómur annarra getur skipt okkur máli er við finnum úrlausn á okkar daglegu verkefnum.

 

Í þessum 2700 ára gamla texta í spádómsbók Jeremía sem lesinn var hér áðan segir spámaðurinn:

 

Orð Drottins kom til mín: Áður en ég mótaði þig í móðurlífi, valdi ég þig.

 

Er það þannig að slíkur hugur hafi verið að baki fæðingu Jeremía? Þ.e.a.s. að Drottinn hafið valið spámanninn til ákveðinna verka áður en hann mótaði hann í móðurlífi.

 

Er það þannig að slík hugsun sé að baki lífi allra manna og alls heimsins? Og þar með lífi þínu og mínu?

 

Ég er sannfærður um að slíkur hugur býr að baki tilverunni og lífinu öllu.

 

En hvað heldur þú?

 

Hverju trúir þú í þeim efnum?

 

Vald er fólgið í orðum

 

Orð og trú eru í mínum huga jafn samofin, trú og tilgangi. Spámaðurinn heldur áfram í textanum og segir fyrir munn Drottins:

 

(...)Hér með legg ég orð mín þér í munn (...) vald yfir þjóðum og ríkjum, til að uppræta og rífa niður, til að eyða og umturna, til að byggja upp og gróðursetja.

 

Í orðum er fólgin máttur. Í orðum er fólgið vald. Með orðum sköpum við okkur samhengi, með orðum er hægt að byggja upp og með orðum er hægt að rífa niður.

Slíku valdi fylgir því einnig ábyrgð, þ.e.a.s. að nýta tjáningarfrelsið til góðs fyrir okkur og samfélagið.

Enda er tjáningarfrelsið grundvallar mannréttindi í Vestrænum ríkjum. Það að fá að tjá sig, segja hug sinn.

Sorgin

Orð eru einnig mikilvæg þegar sorg eða áföll hafa dunið yfir. Að finna tilfinningunum farveg til annarrar manneskju sem maður treystir, í orðum, og að sjálfsögðu annarri tjáningu, tárum og öðru atferli, hjálpar á veginum til aukinnar og bættrar heilsu.

Í upphafi

Fyrstu setningar Biblíunnar hljóða svo:

Í upphafi skapaði Guð himin og jörð. Jörðin var þá auð og tóm. Myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum.
Þá sagði Guð: „Verði ljós.“
Og það varð ljós.

Í þessu gamla ljóði eru það orð Guðs, þ.e.a.s. með orði skapar Guð heiminn, ljósið, og allt sem í heiminum er. Og í gegnum hin fjölmörgu rit Biblíunnar er það Orðið, sem okkur er bent á að skipti gríðarlegu máli.

En arche en logos, eru fyrstu orðin í frumtexta Jóhannesarguðspjalls á grísku, sem útleggjast í íslensku þýðingunni: Í upphafi var orðið.

Biblían miðlar þeirri trú og kannski staðreynd að gríðarlegur máttur og vald er fólgið í orðum.

Og með þeirri gæfu að fá að tala, fá að tjá sig, er manninum veitt hlutdeild í þessum leyndardómi og hlutdeild í því valdi og þá þeirri ábyrgð sem felst í að tala og tjá sig.

Já sé já, og nei sé nei

Og þá er það sannleikurinn. Jesús segir að sannleikurinn muni gera okkur frjáls.

Ég tel að það sé rétt.

Hvað heldur þú?

Við þekkjum það, hvað það er gott að hvíla í sannleikanum, þegar við erum heiðarleg, komum hreint fram. Við þekkjum það kannski einnig hvað það er óþægilegt að hafa ekki allt upp á borðinu, standa í einhverjum feluleikjum, vera ekki heiðarlegur, koma ekki hreint fram, vita betur.

Við þekkjum sjálfsagt öll slík dæmi úr okkar eigin lífi, stór eða lítil.

Stundum getur verið erfitt að segja sannleikann, finnst ykkur það ekki?

En Jesús sagði einmitt viðmælendum sínum og hvatti þá til að láta já-in sín þýða já, og nei-in sín þýða nei.

Við þekkjum hvað sannleikurinn getur rifið og rústað. Sannleikurinn getur gert það að verkum að við þurfum að umturna lífi okkar, byrja upp á nýtt.

Sannleikurinn er samt sagna bestur, en stundum er talað um hvíta lygi, þið þekkið það einnig. Hvíta lygin þýðir að stundum má satt kyrrt liggja, þ.e.a.s. stundum finnur maður svo til undan sannleikanum að óþarfi er að núa manni honum um nasir, það skiptir kannski ekki alltaf máli að halda honum á lofti, eins og mótmælaspjaldi á Austurvelli.

Andlegar fórnir og lifandi steinar

Skrif Jeremía spámanns eru frá 2700 fyrir Krist. Rúmlega 700 árum síðar ritaði Pétur postuli bréf til safnaðanna í litlu Asíu, sem lesið var úr hér áðan. Hann minnir söfnuðina á stöðu þeirra sem kristinna manna, talar um þá sem útvalda kynslóð og samfélag konunga og presta og hvetur þá til að feta í fótspor Krists. Hann talar um andlegar fórnir og að einstaklingarnir í kirkjunni eigi að byggja kirkjuna sem lifandi steinar.

Hann varpar fram þessari sterku myndlíkingu að kirkjan er ekki steinsteypta húsið, heldur byggist kirkjan upp á því fólki sem í henni er, þ.e.a.s. kristið fólk á öllum tímum er sem lifandi steinar í hinni lifandi, starfandi kirkju í heiminum.

Sú hvatning á einnig við í dag fyrir okkur.

Að vera sem lifandi steinar í samfélaginu.

Þetta er hvatning til kærleiksþjónustu, þjónustu við náungann og Guð. Þjónustu á þeim nótum að enginn skal finna sig utan samfélagsins.

Ákall Öryrkjabandalagsins sem eitt sinn var þeirra slagorð: Ekkert um okkur án okkar! er einmitt í þessum anda. Þar var hvatt til þess að ekki ætti að samþykkja lög, setja reglur um aðbúnað, þjónustu, stuðning, eða hvað annað fyrir þann samfélagshóp, nema rödd þeirra fengi að heyrast og vera leiðandi í þeirri vinnu og þeirri niðurstöðu sem ákveðin yrði.

Mannréttindi

Okkar kristna trú fagnar einstaklingnum, fagnar hverjum og einum, þér og mér. Það er líkt og í hverri sál sé heimurinn allur fólginn, þ.e.a.s. hvert líf er óendanlega mikils virði og dýrmætt. Manngildið í Vestrænum samfélögum byggir á þessari kristnu sýn. Hún er ekki bara gripinn úr lausu lofti, heldur hefur hin kristna trú verið sem uppistöðulón, Vestrænna gilda, sem ratað hafa inn í mannréttindayfirlýsingar Vesturlanda.

Það er sú trú og sýn sem Biblían boðar og stendur fyrir, að hver og ein manneskja sé dýrmæt í augum Guðs.

Það er samt merkilegt hvað kirkjunni mistekst oft að vera trú þeim grundvelli sínum. Í þeim efnum þarf maður auðvitað ekki annað en að líta í eigin barm. En einnig sér maður að kirkjan hefur verið mjög upptekin af því í gegnum aldirnar að hafa miklar skoðanir og jafnvel fordóma á ýmsum þjóðfélagsmálum sem Jesús fjallaði aldrei um, eins og um vígslu kvenna, hjónaband samkynhneigðra, og þannig mætti áfram telja. Í þeim efnum þurfum við enn á ný að standa okkur, skerpa okkur, í því að tryggja mannréttindi allra.

Legg þú á djúpið

Í guðspjalli dagsins hvetur Jesús Símon Pétur til að leggja á djúpið.

Það er líkt og við göngum inn í dæmisögu þegar við heyrum þessa frásögu. Þarna voru þeir fiskimennirnir búnir að erfiða alla nóttina til ónýtis. Ekkert fengið.

Jesús segir við Símon Pétur: Legg þú á djúpið og leggið net ykkar til fiskjar.

Bátarnir fylltust. Þeir urðu hræddir. Orð Jesú urðu til þess að þeir lögðu bátunum, yfirgáfu allt og fylgdu honum.

Hvernig skilur þú þessa frásögu, dæmisögu?

Það sem kemur í minn huga er að þegar við leggjum á djúpið, í eiginlegri og óeiginlegri merkingu þess orðs, þá erum við að leitast eftir því að fylgja sannleikanum. Þegar við leggjum á það djúp að opna hjarta okkar fyrir annarri manneskju með sannleikann að leiðarljósi, þá verður heimurinn betri, kraftaverkin gerast.

Trúin er Guðs gjöf

 

Trúin er ekki eitthvað sem við höfum öðlast í eigin mætti, vegna okkar eigin gjörða eða visku. Trúin er Guðs gjöf sem við fáum tækifæri til að rækta. Ávextir trúarinnar birtast síðan í framgöngu okkar í lífinu, í samfélaginu hvert við annað.

 

Í raun og veru eru verkefni okkar hér í heimi einföld, en þau eru fólgin í því er við mætum hvert öðru í gleði og alvöru og tökum þátt í lífinu hvert með öðru. Þar miðlum við öll bæði visku og blessun, því einnig við eigum að vera hvert öðru og samferðarfólki okkar til gæfu. En einmitt þar er það Guðs kærleikur sem mætir okkur, þegar við vöknum á hverjum morgni og við blasa nýir möguleikar og ný tækifæri til að verða öðrum til gagns, þótt það sé jafnvel ýmislegt í okkar eigin lífi sem er erfitt og sárt.  

Kirkjan vettvangur til að glæða og rækta trúna

 

Kirkjan og helgihald kirkjunnar, jafnvel svona heimilislegt helgihald með syngjandi sveiflu, getur verið vettvangur til að glæða og rækta trúna. Megi vettvangurinn hér vera þér til slíkrar uppbyggingar.

 

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

 

Takið postullegri kveðju: Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé og veri með yður öllum. Amen.


Hugleiðing flutt í kvöldmessu í Bústaðakirkju 17. júlí 2022