Hinn þekkti heimur telur margar trilljónir stjarna og ljósið er mörg þúsund ár að berast og fer þó ekki hægt. Sé þessi heimur endanlegur geta verið mörg trilljón slíkra heima þar fyrir utan í það óendanlega því að EKKERT er vitaskuld ekki til eða hvernig ætti það að vera?
Þar fyrir utan geta verið til óteljandi heimar á öðrum bylgjusviðum oní okkar heimi sem sagt. Forseti hins konunglega breska vísindafélags komst í fréttirnar á árinu þegar hann hélt því fram að við áttuðum okkur svipað lítið á heiminum og fiskur í fiskbúri í stofunni hjá okkur áttaði sig á gangvirki samfélags og veraldar. Getu mannsheilans til að átta sig á veröldinni væru sem sagt mikil takmörk sett.
Þessar vísindalegu staðreyndir þ.e. a.s. stærð alheimsins, sem áuk þessa hefur tímavídd sem er okkur óskiljanleg útrýma ekki Guði. Mér finnst þær ekki gera lítið úr honum. Þvert á móti kalla þessar staðreyndir ekkert síður á svör um tilgang, þær sýna enn betur en fyrr mikilleik sköpunarinnar, ótrúlega vídd hennar og mikilfenglegheit, víddir heimingeimsins eru óendalegar og það sem þar er að finna er svo óendalega miklu óskiljanlegra en það sem áður var vitað og þá sérstaklega á ritunartíma biblíunnar þegar skilningur manna var mjög frumstæður á okkar vísu enda ekki einu sinni til fjarsýnisgleraugu hvað þá stjörnukíkir. Það segir því sig sjálft að við skiljum Biblíuna ekki sem fræðslurit um eðli heimsins heldur sem samansafn ljóða, munnmæla, siða, speki auk frásagna af Jesú Kristi og skilningi manna á guðlegu eðli sem birtist m.a. í upprisufrásögum og þeirri fullvissu höfunda að í honum hafi Guð vitjað mannsins.
Og það er æfing í æðruleysi að ímynda sér smæð sína í þessum óendaleika tíma og rúms. Að fá að opna augun mót þessu, verða hluti af þessu öllu saman ætti bæði að gefa manni áður óþekkta smæðavitund og um leið stærðarvitund en jafnframt fylla mann þakklæti yfir tilverunni. Maður á að undrast yfir því að geta skilið það sem maður skilur en átta sig á því að heimurinn hefur ekki enn opnast upp og þau augu sem gen okkar bera eftir tvö hundruð ár munu líta heiminn allt öðrum augum en við og jafnvel undrast fávisku okkar forveranna. Þá verður gaman eins og alltaf og munum það verðum við á stjákli, okkar gen, við í nýjum persónuleikum afkomendanna sem vita kannski meira en við núna hvernig þetta er allt saman en augljóst og einfalt er það ekki en þó auðvelt og einfalt eins og allt mikilfenglegt þegar það er runnið upp fyrir manni.
En okkar hlutverk er að lifa. Við erum til vegna þess að við þróuðum með okkur hæfileikann til að lifa. Eignuðumst fætur til að ferðast um á hendur til þess að verja okkur og afla fæðu og þróuðum líka með okkur stóran heila og það sem er dýrmætast af öllu samúðina sem er blandin ábyrgðartilfinningu. Fyrst gagnvart blóðskyldum, svo gagnvart nágrönnum, öðrum þorpsbúum og svo í vaxandi mæli gagnvart öllum mönnum og dýrum en þó dvínandi með fjarlægð og hvað dýrin snertir því meir dvínandi því minna sem þau líktust okkur.
Og það er einmitt þetta sem við drögum út úr sögunni um Jesúbarnið. Við skynjum svo vel elskuna sem þau bera til barnsins síns, kærkleika nágrannanna í mynd hirðanna og gæsku og göfulyndi fjarstaddra í mynd vitringanna en líka ógnina sem stafar frá kulda heimsins í garð ókunnugra, aðkomumanna, þeirra sem hvergi eiga höfði að halla og við skynjum ógnina sem stafar frá valdinu í mynd Heródesar konungs, þessu valdi sem treður á tilfinningum, öllu sem heilagt er og er alltaf á vappi í heiminum jafnt í stríði stórvelda sem ofbeldi á strætum og innan veggja heimila.
Kærleikurinn er tilfinning sem við flest þekkjum úr okkar eigin brjósti og þá ekki síst sú mynd hennar sem birtist í tilfinningunni sem við berum til barna og flest hafa reynslu af nýfæddum börnum og þeim mikla farvegi ástar og kærleika sem þau gefa farveg. Og sá sem þarna lá í vöggu hann gerði kærleikann að aðalviðfangsefni sínu, kærleika milli manna og kærleikann til lífsins og alls sem lifir, kærleikans til Guðs. Guðs sem er ást í munni skáldsins ástkæra Stefáns frá Hvítadal: Guð er eilíf ást/engum hjarta er hætt.(Aðfangadagskvöld 1912)
Svo sannarlega þurfum við á kærleikanum að halda og ástinni. Við finnum það best hvað ofbeldið, yfirgangurinn, ofríkið, tillitsleysið, eigingirnin ræður miklu í veröldinni þvert ofan í drauma fólks um veröld víða. Fólks af öllum þjóðernum, af öllum stigum, játandi allskyns trúarbrögð. Enda kennir reynslan að meistarinn frá Nazaret hafði rétt fyrir sér er hann boðaði frelsi frá illsku og ofbeldi í mynd kærleika og umburðarlyndis. Þegar samúðin í brjósti okkar fær að njóta sín líður öllum best. Þegar við gefum af okkur, hjálpum öðrum. Þess vegna líður okkur svo vel á jólunum vegna þess að þá eru þessar kenndir viðurkenndar og sjálfsagðar, þá ræður gleðin ríkjum, stundum hin fölskvalausa gleði, stundum hin angurværa gleði, jafnvel hin leynda gleði hvernig má annað vera: margir eru að gleðja okkur og við höfum með gjöfum okkar og viðmóti vonandi glatt aðra. Í nafni Jesú Krists, oft en líka í nafni alls þess góða í veröldinni sem við viljum rækta með okkur og sjá í öðrum.
Guð er eilíf ást engu hjarta er hætt. Ríkir eilíf ást sérhvert böl skal bætt
var huggun og gleðióp skáldsins frá Hvítadal sem varð ekki gamall og sá aðeins hluta drauma sinna rætast, en hann sló hinn eina rétta tón. Í gleði sinni, von og fullvissu fann hann hamingjuna og gaf okkur af auði sínum. Þökk sé honum og öllum góðum körlum og konum sem hafa verið með okkur og eru með okkur á þessari fallegu jörð á þessu dýrmæta augnabliki þar sem smæð okkar er óendanleg en í smæð okkar erum við óendanlega stór, þýðingamikil og merkileg sköpuð í Guðs mynd, sem sagt mynd kærleikans, með hæfileikann til að sýna öðrum umhyggju, með innbyggð getu til að elska.
Gleðilega hátíð kæru kirkjugestir. Undirbúningurinn er að baki og hátíðin sjálf er framundan, hátíðarmaturinn bíður á borðinu, gjafirnar auka spenning hinna ungu og þakka ykkur fyrir að koma til kirkju. Með kirkjuklukkunum eru jólin hringd inn, og með þessum dásamlega hátíðarsöng Bjarna Þorsteinssonar og þessum frábæru jólasálmum sem við eigum. Það er svo sannarlega hægt að taka undir með skáldinu frá Hvítadal: Kirkjan ómar öll/boðar ljós og líf..og sá er einmitt boðskapur jólanna...ljós og líf.