Hugleiðing á jólanótt í Langholtskirkju.
..Í allri veröld ljósið skein. Það er nú heimsins þrautarmein að þekkja það ei sem bæri. Sb72.v.1Ljósið í jötunni. Jesúbarnið. Frelsari heimsins. Hann kom sem fátækt barn. Hefði hann ekki notið meiri virðingar í heiminum ef hann hefði komið fram sem fullmótaður fullorðinn maður eins og sagt er um Jóhannes: Maður kom fram sendur af Guði, hann hét Jóhannes. Hann er ekki aðeins barn Guðs eins og við öll sem hann hefur gefið lífið. Hann er sonur Guðs. Hinn eini. Og er sjálfur Guð um leið og hann er maður. Og frammi fyrir jötu Jesú Krists erum við öll börn. Stór og smá. Hver sem við erum, og hvað sem við gerum.
Í frásögn guðspjallanna krjúpa frammi fyrir jötunni hirðar og vitringar. Fulltrúar fátæktar og auðæva, fulltrúar hinnar hörðu lífsbaráttu og þægilegs lífs, fulltrúar einfaldrar lífsafstöðu og djúprar speki. Þeir krjúpa saman. Þeir krjúpa fyrir barninu og sýna móðurinni lotningu. Og Jósef stendur hjá og er glaður og hissa og fullur af ábyrgðartilfinngu og öryggi þess sem treystir. Fulltrúi okkar. Og svo eru aðrir þátttakendur í í jólafrásögninni: Asninn, ferðafélagi fjölskyldunnar, uxinn í fjósinu og kindurnar og hundarnir á völlunum. Meira að segja landslagið og stjörnurnar. Allt til að minna á að hann er frelsari heimsins. Ekki bara mannanna.
Og hinn stórkostlega atburð sem engin orð ná yfir má þó orða eins einfaldlega og þetta:
Þú Guð sem fæðir fugla smá fyrir oss munt einnig sjá.
Hirðarnir hlupu út til að segja frá. Vitringarnir siluðust heim á úlföldunum sínum og sögðu aðallega ekki frá, að minnsta kosti ekki þeim sem þeir höfðu lofað það, Heródesi hinum hættulega.
Hirðarnir hlupu til að segja að spádómurinn um hinn þráða leiðtoga Ísraels hefði ræst. Vitringarnir nutu þess að hafa orðið vitni að mesta atburði mannkynssögunnar.
Sum okkar hlaupa með boðskapinn, jafnvel út um víða veröld og bera honum þannig vitni. Sum okkar fara hvergi en miðla honum með lífi sínu og trú.
Það eru þrjár áherslur í jólaboðskapnum. Hann kom sem barn í jötu. Hann dvelur með börnum sínum. Hann kemur aftur um síðir.
Við gleðjumst yfir undri jólanna. Aldrei var Guð nálægari börnum sínum en þegar Jesúbarnið lá í jötu sinni. Satt er það. En hann hefur aldrei hætt að vera jafnnálægt börnum sínum eins og þá vegna þess að Jesús hefur aldrei farið aftur Hann fullkomnaði erindi sitt á jörðu, kenndi, læknaði, kveikti trú og veitti fyrirmynd, gaf allt sem hann átti í sínu mannlega holdi og síðast sitt eigið líf í dauðann. Hann glímdi hina hinstu baráttu lífs og dauða fyrir öll sín börn og vann. Hann ríkir síðan á himni og jörðu og er aldrei fjær en sem nemur nafninu : Jesús. Í hverju er frelsið fólgið? Að falla fram eins og hirðar og vitringar og tilbiðja hann, í einfaldleika og auðmýkt, og finna að hann tekur burtu allt sem þjakar, áhyggjur og ótta, og gefur frið og sátt og kjark í staðinn.
Það er heimsins þrautarmein að þekkja það ei sem bæri.