Í guðspjalli dagsins erum við á framandlegu slóðum. Himnaríki er af öðrum heimi. Hefur einhver reynslu af því að dvelja á þeim stað eða í því ástandi? Mögulega leitum við þess. Meðvitað og ómeðvitað setjum við okkur háleita mælikvarða um líðan og fyrirkomulag sem getur talist algott. Á því eru ýmsar hliðar. Stundum leiðir þessi leit fólk í ógöngur. Alsæla krefst fórna, svo jafnvel situr manneskjan eftir í rústum tilveru sinnar eftir að hafa kostað öllu til, fyrir gleðina og ríkidæmi hamingjunnar.
Talað um himnaríki
Í guðspjalli dagsins er talað um himnaríki. Þetta er ein af þessum dæmisögum sem Jesús segir, þar sem hann leyfir okkur þó ekki að nálgast fyrirbærið, nema í líkingum. Hér, eins og endranær kynnumst við líka sjálfri andstæðunni. Það er eins og annað geti ekki án hins verið. Og yfir hvíli ísköld áminning um að dagar okkar eru ekki ótakmarkaðir. Ákvörðun skiptir máli, ekkert gerist af sjálfu sér. Sögurnar enda ekki allar vel. ,,Líkt er um himnaríki" – svona hefst frásögnin, en í lokin lesum við um böðla og skuld sem ekki varð goldin nema með óskaplegum þjáningum.
Sagan á sér aðdraganda. Það að hlýða á eina dæmisögu rifna úr öllu samhengi sínu í lestri guðsþjónustu gefur takmarkaða sýn á boðskap hennar og inntak. Þetta er hluti af stærra samtali, sem hefst í raun á því að Pétur, sá er spyr í þessu tilviki, stendur fyrir svörum. Jesús innir lærisveinana eftir því hvern þeir segi hann vera. Svörin eru af ýmsum toga en það er Pétur sem á kollgátuna, ,,Þú ert Messías, sonur hins lifanda Guðs” segir hann. Jesús segir hann þá í framhaldi vera klettinn sem kirkjan muni byggja á. Pétur er leiðtoginn.
Fyrirgefningar
Það er því maður sem hefur tekið á sig stórt hlutverk sem spyr í þessari dæmisögu. Spyrjandinn finnur það í beinum sínum að hann á eftir að axla þá ábyrgð að leiða hópinn einn daginn, og því kemur þessi spurning sem hlýtur að skipta sköpum í samfélagi breyskra manna – já, hvað á ég að fyrirgefa oft, þeim sem brýtur gegn mér?
Spurningin er sígild og hún birtist í einni mynd af annarri, allt eftir því hverjar aðstæðurnar eru hverju sinni. Hversu oft brjótum við Íslendingar kollinn um einmitt sömu hluti? Ég viðurkenni að ég botna ekkert í því hversu mjög sumir geta borist á, sem virðast hafa sólundað ótrúlegum sjóðum, ekki einu sinni, heldur ítrekað. Ég hef litla þolinmæði gagnvart slíku. Í hinu gamla Ísrael voru spurningar af þessum toga af sama meiði sprottnar. Þetta var átakasamfélag, þar kenndi ýmissa grasa í mannlífinu en hugmyndin um hið algóða var engu að síður sterk og markmið hinnar útvöldu þjóðar voru háleit. Sagt er að rabbínar hafi velt vöngum yfir því hvort fyrirgefa mætti fyrir sömu afbrot jafnvel tvisvar – í einhverjum tilvikum þrisvar.
En hér erum við á öðrum stað. Að fyrirgefa sjö sinnum er einhvern veginn svo langt fyrir utan allt það samhengi. Sjö er heilög tala, algild stærð, fullkomin fyrirgefning sem nær út fyrir allt. En Jesús veldur vafalaust vonbrigðum í svari sínu: Ekki sjö heldur sjötíu og sjö.
Þarna kallast hann á við fyrri orð sín, þegar hann gerir nánast ómannlegar kröfur til fylgjenda sinna. Hann bendir réttilega á að heiðingjar elski sína náunustu og það geti ekki talist lofsvert í sjálfu sér, að endurgreiða það sem við höfum fengið lánað. En svo segir hann við fylgismenn sína – elskaðu óvini þína. Ef einhver neyðir þig með sér eina mílu, gakktu þá með honum aðra til. Láttu af hendi það sem þú munt aldrei fá til baka. Þarna má segja eins og enskumælandi – Sky is the limit. Það eru engin takmörk á þeim kröfum sem Guð gerir til okkar ef við viljum teljst verðug að fylla flokk hans. Ekki gjalda bara líku líkt – þú skalt frekar bjóða hinn vangann. Jesús setur fram yfirgengilegar kröfur. Og það gerir hann að sama skapi núna. Fyrirgefningin er slík að á henni eru nánast engar hömlur. Hér er engin lína dregin í sandinn – eins og var í raun í tilviki Péturs. Hvergi var komið að því að einhver sagði – ja nú er mælirinn fullur. Mælirinn er samkvæmt þessu ótæmandi.
Ýkjustíll
Og þá kemur sagan um himnaríki og þrautir skuldarans. Hún er sögð í sama ýkjustíl. Talenta var fimmtánföld árslaun verkamanns og þetta voru tíu þúsund talentur! Skuldir óreiðumannsins (afsakið orðalagið) voru eðlisólíkar þeim sem hann átti inni hjá þjóni sínum. Fyrirgefningin var ofboðsleg, yfirgengileg, í engu samræmi við það sem venjulega getur talist. En svo breyttist allt og sá sem skuldaði, hlaut sjálfur hin verstu örlög því hann var ekki tilbúinn að fyrirgefa sjálfur, þótt upphæðin væri brotabrot af þeirri sem hann sjálfur skuldaði.
Er þessi saga lýsing á því hvernig við byggjum upp samfélög dauðlegra og breyskra manna? Að einhverju leyti, já.
Sagan er þó fyrst og fremst kafli í lengri frásögn sem á sinn hápunkt í þeim atburði sem kristnir menn kalla hina einu algjöru fórn, þegar Kristur gaf líf sitt til að syndugir menn mættu lifa. Sagan er nokkurs konar spádómur um það, sem Jóhannes guðspjallamaður dregur saman í fáum orðum og kallað er litla Biblían. Því að svo elskaði Guð heiminn að hann gaf einkason sinn til að hver sem á hann trúir glatist ekki heldur hafi eilíft líf. Þetta eru talenturnar sem afskrifaðar eru og við beygjum okkur í auðmýkt fyrir þeirri gjöf.
Eftir stendur að líf okkar er jafnvægislist. Ekki endilega á milli himins og heljar, heldur er mannlegt samfélag hárfín tengsl þar sem ekkert má fara úr skorðum. Fyrirgefningin, sem verður að rauðum þræði í lýsingunni á himnaríki er jú einhver sterkasti mælikvarðinn á mannkosti okkar og gæði. Kristur boðar ekki fyrirgefningu í þeim anda sem kenna má við meðvirkni. „Ef bróðir þinn syngdar gegn þér – far þá og tala um fyrir honum.” Þessi orð koma fyrir í sama kafla guðspjallsins. Og ef engin játning er borin fram, ef ekki er löngun til sátta, þá eiga menn ekki lengur samleið.
Gerendur og þolendur
Fyrirgefning rýfur vítahring ofbeldis sem myndast þegar fólk telur sig knúið að gjalda líku líkt, veita makleg málagjöld, standa á rétti sínum. Sá sem fyrirgefur öðlast meiri reisn og mennska hans er sannari en á við um þann sem erfir og bíður færis að skaða þann sem hann á eitthvað sökótt við. Það að fyrirgefa er í senn prófsteinn á það góða sem í okkur býr og viðurkenning á því að því að öll erum við á einhvern hátt ófullkomin. Við tökum rangar ákvarðanir, bregðumst ekki rétt við, sýnum af okkur hegðun sem við ættum ekki að gera. Það að fyrirgefa er að líta í eigin barm og setja sig í spor þess sem ranglætinu beitti.
Það er einhver mesta listgrein sem við getum lært í lífinu. Þegar okkur tekst að fyrirgefa annarri manneskju fáum við svo sterka svörun frá líkama okkar að við getum jafnvel líkt því við himnaríkissælu. Fargi er af okkur létt. Við getum tekið liðinn atburð og hann stjórnar okkur ekki lengur. Við verðum í raun leiðtogar í þeirri atburðarrás sem að öllu óbreyttu hefði einkennst af meiri og meiri þjáningum og rofi. Sá sem fyrirgefur færir sig úr hlutverki þolandans og verður gerandinn sem færir aðstæður til betri vegar.
En fyrirgefning er jafnvægislist. Hún er ekki uppgjör við aðra manneskju sem unnið hefur á hlut okkar, án þess að því fylgi sættir. Það er ekki fyrirgefning. Það er ekki heldur fyrirgefning þegar við beygjum okkur undir óréttlætið án þess að því fylgi sátt. Það á ekki að umbera óréttlæti. Áður en fyrirgefning á sér stað þarf að fara fram einhvers konar uppgjör, játningar þarf að yrða, samtal að fara fram og frelsandi lausn þarf að veita undan oki beiskju og haturs. Kristur er afdráttarlaus hvað varðar þá þætti alla.
En eins og títt er um slíka iðju og alla dýra list eru hún fjarri því að vera yfirborðskennd og einföld. Það liggur í eðli fyrirgefningarinnar að hún stendur í kjarna mannsálarinnar. Stundum er ekki kostur á samtali og þá þarf að slík samræða að eiga sér stað í samviskunni.
Það er ekkert ódýrt við það að rétta slíka sáttarhönd. Það er ekki til nein hálfgildings fyrirgefning, ekkert næstum því. Það liggur í orðann hljóðan. Hún er gjöf, frá þeim sem á til þess sem ekki á. Gjöf sem léttir af sekt, endurheimtir tengsl og vináttu. Fyrirgefning gerir til okkar kröfur, kallar á sjálfsrýni og endurmat. Og það á líka við um þann sem þiggur. Himnaríki er af öðrum heimi, en mælikvarðinn á hið góða og göfuga fylgir okkur í gegn þennan heim og varðar leið okkar á þeim ævidögum sem okkur eru úthlutaðir.