Postularnir sögðu við Drottin: „Auk oss trú!“En Drottinn sagði: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.
Hafi einhver yðar þjón, er plægir eða hirðir fénað, segir hann þá við hann þegar hann kemur inn af akri: Kom þegar og set þig til borðs? Segir hann ekki fremur við hann: Bú þú mér kvöldverð, tak þig til og þjóna mér meðan ég et og drekk, síðan getur þú etið og drukkið. Og er hann þakklátur þjóni sínum fyrir að gera það sem boðið var? Eins skuluð þér segja, þá er þér hafið gert allt sem yður var boðið: Ónýtir þjónar erum vér. Vér höfum gert það eitt sem oss bar að gera.“ Lúk 17.5-10
Hvernig skilgreinum við trú? Skilgreiningar eru afmarkaðar í orð og orð skiljum við á mismunandi vegu. Í guðspjalli dagsins og í textunum sem á undan því fara og eftir, textunum sem ramma það inn, ræðir Jesús Kristur um trú við lærisveina sína, og hann segir við þá: „Hafið gát á sjálfum yður. Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann sér að sér þá fyrirgef honum. Og þótt hann misgeri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: Ég iðrast, þá skalt þú fyrirgefa honum.“
Þetta þóttu lærisveinum mjög hörð skilyrði, nánast ómanneskjuleg, og er þá vert að hafa í huga að talan sjö hafði táknrænu merkinguna „óendanlega oft“ í þeirra huga. Það er ekki að undra að þeir hafi efast um að þeir gætu staðið undir þessu, að þeir hafi efast um trú sína og fyllst vanmætti og þeir biðja hann í vanmætti sínum: „Auk oss trú.“
Þessar hugsanir, þessar vangaveltur, þessi bæn lærisveinanna, borin fram af veikum mætti, skírskotar sterklega til ástandsins í íslensku samfélagi í dag – hvaða bæn gæti átt betur við á þeim tímum sem nú eru, tímum vanmáttar og upplausnar í samfélaginu, en orðin einföldu: „Auk oss trú.“
Sumir verða trúaðir vegna einhverrar sterkrar reynslu sem þeir öðlast í lífinu – við höfum öll heyrt slíkar sögur og trú eins áhrifamesta leiðtoga kristninnar, Páls postula, er sprottin af þeim meiði. En trú flestra er þó líklegast sprottin af sama meiði og trú Tímóteusar, sem var lærisveinn og samverkamaður Páls postula, en til hans skrifar Páll postuli tvö bréf sem varðveitt eru í Nýja testamentinu. Í þeim kemur skýrt fram að trú Tímóteusar er fyrst og fremst sprottin úr uppeldi hans – hún var komin frá móður hans og ömmu. Um trú Tímóteusar segir Páll í síðara bréfi sínu til hans: „(Trú þín) bjó fyrst í henni Lóis, ömmu þinni, og í henni Evnike, móður þinni, og ég er sannfærður um að hún býr líka í þér.“
Og trú er samfélagslegt afl, hún er sprottin úr uppeldinu og menningunni. Hún er þess vegna einkennileg sú hugmynd að börn eigi að ala upp í trúarlegu tómarúmi svo að þau sjálf geti öðlast sína eigin trú. Engum kemur til hugar að ala börn upp í menningarlegu tómarúmi svo að þau geti sjálf valið hvaða menningu þau vilja tileinka sér þegar þau eru komin til vits og ára, við sjáum það í hendi okkar að slíkt er fásinna. Það er mikill misskilningur á hugtakinu fjölmenningu að ekki megi ræða um trú við börn – í landi þar sem um langstærsti hluti barna tilheyrir kristnum söfnuðum er fráleitt að halda því fram að ekki megi tala um Jesú Krist í skólum landsins. Sú fjölmenningarhyggja sem mjög hefur verið í tísku á undangengnum árum, og tengist afstæðishyggju sem sett hefur svip sinn á samfélagið á mörgum öðrum sviðum, er sprottin af þeim misskilningi að trú sé eingöngu einkamál hvers og eins, og tilhneigingin hefur verið sú að gera lítið úr trú meiri hlutans og telja hana valdníðslu af einhverju tagi gagnvart þeim sem eru annarrar trúar. En í raun er virðing okkar fyrir eigin trú grundvöllur að virðingu okkar fyrir trú annarra.
„Trú er ekki sprottin innan úr hverjum og einum – hún er afleiðing af uppeldi og gildismati í samfélaginu.“ Þessa skilgreiningu las ég nú nýverið í breskri blaðagrein og greinarhöfundur bætti við: „Og á undanförnum árum hefur peningahyggjan verið það gildismat sem helst hefur verið haldið á lofti.“ – Þessi orð eiga vissulega við um íslenskt samfélag eins og svo mörg önnur vestræn samfélög sem mörg hver glíma nú við afleiðingar þess að það gildismat er komið í þrot. Það reyndist ekki það góða afl sem margir töldu – þeir sem mesta trú höfðu á því afli töluðu jafnvel um að það væri ekkert til sem héti samfélag, það væri bara til markaður, allt skyldi mælt á þeim gildiskvarða.
Í þeirri stöðu sem nú er uppi hefur skapast ákveðið tómarúm, það var ekki bara fjármálakerfið sem hrundi, gildismat samfélagsins beið hnekki. Vonbrigðin eru almenn og reiðin er skiljanleg því að afleiðingarnar hafa hörmuleg áhrif á líf fjölda fólks. Reiðin hefur fengið útrás á undanförnum dögum í harkalegum mótmælum sem beinst hafa að valdstjórn landsins og þó að flestir hafi viljað mótmæla friðsamlega hafa þau farið úr böndunum og orðið ofbeldisfull.
Það er vissulega skiljanleg afstaða hjá almenningi að einhver axli ábyrgð, þó ekki sé nema á táknrænan hátt, á því sem úrskeiðis hefur farið. „Ef enginn sýnir merki um iðrun,“ sagði einn mótmælenda í útvarpsviðtali í vikunni, „er ekkert hægt að fyrirgefa.“ Og það er mjög kristileg hugsun sem endurspeglast vel í orðum Krists er hann segir: „Ef bróðir þinn syndgar, þá ávíta hann, og ef hann sér að sér þá fyrirgef honum. Og þótt hann misgeri við þig sjö sinnum á dag og snúi sjö sinnum aftur til þín og segi: Ég iðrast, þá skalt þú fyrirgefa honum.“
Að sama skapi reynir þá á almenning í landinu, þegar einhver slíkur farvegur skapast, að geta fyrirgefið, að geta byggt upp traust og sátt á ný án þess að rífa samfélagið niður. Það er ljóst að á tímum sem þessum eiga ýmis öfgaöfl greiðan aðgang að fólki, öfl sem miða að niðurrifi samfélagsins, upplausn og eyðileggingu. Slíkt kemur engum til góða, slíkt bitnar jafnharkalega á öllum. Hatur og hefnd eiga ekki að vísa veginn í þeirri uppbyggingu sem fram undan er – en ákveðið uppgjör þarf að eiga sér stað og uppstokkun á gildum og viðmiðum, og regluverki. Síðast en ekki síst þarf að efla lýðræðislega hugsun og lýðræðislegt aðhald – því að eins og ágætur maður benti á í blaðagrein fyrir stuttu þá er lýðræði ekki bara form heldur líka hugsun. Við höfum sofnað á verðinum í því góðæri sem ríkt hefur og gleymt að rækta með okkur lýðræðislegt aðhald og samfélagslega ábyrgð.
Það reynir ekki einungis á samfélagslega ábyrgð okkar gagnvart lýðræðinu í landinu – það reynir líka á samfélagslega ábyrgð okkar hvert gagnvart öðru. Ljóst er að heimilin þurfa mörg hver að glíma við mikinn vanda, atvinnumissi, lækkun launa, skuldasöfnun – sumir hafa verið fyrirhyggjulausir og einfaldlega stofnað sér í of miklar skuldir sem þeir geta ekki staðið undir á samdráttartímum þó að ekkert annað bjáti á. En hverjar svo sem aðstæðurnar eru er það skylda okkar allra að standa vörð hvert um annað, rétta fram hjálparhönd ef við mögulega getum og vera tilbúin til þess að gefa frekar en þiggja ef við erum þess umkomin. Það er á ábyrgð okkar allra að ekki skapist upplausn í fjölskyldum og sérstaklega þarf að huga að hag og líðan barna. Það er gott að hafa það í huga í því sambandi að réttlæti í kristinni trú er ekki mælt í krónum eða aurum heldur kærleika.
„Auk oss trú“, þannig báðu lærisveinar Krists fyrir tvö þúsund árum þegar þeir fundu til vanmáttar síns og þannig biðjum við á þeim tímum sem nú eru í íslensku samfélagi þegar stór og mikil verkefni bíða okkar, verkefni sem svo hæglega geta vaxið okkur í augum. Jesús Kristur svaraði lærisveinum sínum: „Ef þér hefðuð trú eins og mustarðskorn gætuð þér sagt við mórberjatré þetta: Ríf þig upp með rótum og fest rætur í sjónum, og það mundi hlýða yður.“ – Hann er ekki með þessum orðum að gera lítið úr trú þeirra, eins og virst gæti. Hann svarar þeim á þennan hátt til þess að hvetja þá, hvetja þá til þess að beina sjónum að því sem mestu varðar. Hann spyr: Hvernig nýtið þið trú ykkar? Hverju breytir hún? Þessara spurninga spyr hann hvert og eitt okkar, og þetta eru spurningar sem íslensk þjóð þarf að spyrja sjálfa sig á þeim tímum sem nú fara í hönd. Með kærleika kristindómsins að leiðarljósi, og umhyggjuna hvert fyrir öðru, stöndum við sterkar en ella í þeim fjöldamörgu erfiðu viðfangsefnum sem bíða.