[audio:http://db.tt/9z7FAJJS]
Amma Álfgríms í sögu Halldórs Laxnes um Brekkukotsfólkið miðlaði þeirri eftirtektarverðu speki, að auðæfi séu það, sem aðrir geta ekki náð frá manni. Hvað er ekki hægt að taka frá manni? Það eru hin óefnislegu vermæti, það sem við erum innan í okkur, það sem er andlegt og persónulegt. Við getum misst bílana okkar, hlutina okkar og húsin. Við getum líka misst tennur, hár og nýra. Við getum tapað vinnunni og ástvinir okkar eru slitnir úr örmum okkar. En hvað er það, sem ekki verður tekið frá okkur? Það er það sem er innsta inni. Er ömmuspekin rétt? Miðlar amma í Brekkukoti visku, sem við megum hlusta á?
Hvað er mikilvægast? Íhugunarefni dagsins er af ömmutaginu. Það er saga í Lúkasarguðspjalli. Jesús var meistari í að setja saman sögur og sagði þær í ákveðnum tilgangi. Hann vildi opna huga fólks, fá tilheyrendur til að hlusta. Aðferð Jesú í sögugerðinni var gjarnan að setja upp svo miklar andstæður að þær sprengdu hið venjulega, reyndu þanþol venjuhugsunar og kröfðust þess að fólk bryti heilann og fyrir nýjar hugsanir. Og sagan dagsins er um tvo menn – annar var auðugur og hinn fátækur.
Hinn ríki bjó við allsnægtir og fötin, sem hann klæddist, voru merkjavara þess tíma. Efnið var úr úrvalsbómull af Nílarbökkum og litarefnið var líklega unnið úr krabbadýrum, sem sé topptíska tímans. Karlinn var því ríkur. Fyrir dyrum hans var svo Lasarus, fátækur þurfamaður. Reyndar er hann eini maðurinn, sem ber nafn, í sögum þeim sem guðspjallamaðurinn Lúkas hefur eftir Jesú. Og nafnið merkir “Guð er hjálp mín.” Nafnið var því ekki út í hött. Þó hann hefði verið lukkugrannur í lífinu var hann lukkumaður í hinu eilífa lífi.
Sá ríki sinnti ekkert hinum fátæka og gegndi því ekki ábyrgð sinni. Það gerðu hins vegar hundarnir, sem sleiktu sár hins ólánssama Lasarusar. Svo kom dauðinn að óvörum. Báðir létust. Lasarus féll í eilífðarfaðm Abrahams, sem merkir að honum farnaðist vel, fékk góða heimkomu í ríki himinsins. Hinn ríki var ólánssamur og leið kvalir handan grafar. Í sögunni eru þessir menn eins og í sama hverfi í eilífðinni. Það er ekki það langt á milli þeirra, að hinn ríki sér til Lasarusar, sér hve vel er fyrir honum séð og að hann nýtur sælu. Og ríki maðurinn biður um, að Lasarus færi honum vökva til að slökkva brunasviðann og lina þjáningu. En honum er bent á, að enginn samgangur sé milli og enginn möguleiki á bót. Þá biður hann um, að bræður hans verði varaðir við. En hrokagikkir láta ekki af villu sinni þó þeir sjái upprisinn mann. Og ábending Jesú um, að menn breyti ekki skoðun sinni þó uppvakningur komi til þeirra er áhugaverð, vísir til vitundar hans um eigið hlutverk. Og þessi endir er mikilvægur túlkunarlykill sögunnar þó margir taki ekki eftir honum. Þó lifið lifi lúti menn þó dauða. Inntak Um aldir hafa menn skilið þessa dramatísku Lasarusarsögu nokkuð bókstaflega og búið til kenningar um himin og helvíti. En það er ekki aðalatriði í sögum Jesú, sem alltaf á að lesa á dýptina en ekki bókstaflega. Þær eru sagðar vegna inntaks og áhersluatriða. Líkingasögur – sem oft eru nefndar dæmisögur - eru ekki fréttaskot úr borgarlífinu, ekki um atburði, heldur um hamingju, ábyrgð, elskusemi, tilgang og hin dýpri rök. Sögurnar eru dæmi til skilnings. Og hvað er það þá, sem Jesús vill segja okkur?
Sagan er ekki um, að ríkir séu vondir og fátækir góðir. Jesús var enginn einfaldur klisjukarl. Hann prédikaði ekki gegn kapitalinu eins og kreddubundinn, marxískur kommúnisti, hann hafði ekkert á móti auði heldur misnotkun hans. Hann var ekki á móti því, að menn nytu gæða lífsins. Hann var sjálfur úthrópaður sem lífsnautnamaður og að hann legði lag sitt við þau lífsglöðu. En Jesús var ósáttur við ef menn yrðu þrælar einhvers. Í því ljósi dró hann upp andstæður af andlegu frelsi og þrældómi við efnisleg gæði. Auður væri tæki til að bæta lífið en ekki markmið. Jesús spurði fólk alltaf og skipulega að því hvað það setti í forgang, hver væru markmiðin og aðalgildin. “Því hvar sem fjársjóður þinn er, þar mun og hjarta þitt vera” segir hann (Matt. 6.21). Við hvað hefur þú fest þitt ráð, elsku og umhugsun? Ertu frjáls eða þræll? Ertu á hamingjuvegi eða fangaslóð?
Erindi við okkur Á saga dagsins erindi við okkur? Erum við of upptekin af hlutum og eignum? Ruglumst við ekki stundum í ríminu og gleymum, að hlutir eru ekki tilgangur lífs heldur tæki til að lifa vel? Höfum við gleymt því, að hýbýli okkar og hús eru til fyrir ástríki og glaðar fjölskyldur? Fipumst við ekki stundum í þeirri visku, að fjármunir eru til að gera gott? Munum við alltaf vel, að ef við notum ekki fjármuni og eignir til góðs verðum við þrælar þeirra, en ekki húsbændur?
Sagan um ríka manninn varðar lífsstefnu okkar. Hefur þú tíma fyrir það, sem máli skiptir, fólkið í kringum þig, fyrir hlátur og samtöl? Hefur þú tíma fyrir að næra þinn innri mann? Hefur þú tíma og getu til að gera það, sem gerir þig hamingjusama og hamingjusaman? Það er gömul speki líka, að hin sönnu auðævi eru ekki að „eiga mikið, heldur fremur að þurfa lítið.“ Peningaafstaða Gabriel Garcia Marquez er eftirtektarverð: „Ég er ekki ríkur. Ég er fátækur maður sem á peninga - en það er ekki sama.“
Jesús sagði sögur til að opna og lagfæra fólk. Hann samdi glæsilegar sögur til að lækna sjón, bæta heyrn, hreinsa hjörtu og bæta virkni heilans í fólki. Saga dagsins spyr um hvað sé mikilvægast, af hverju og til hvers. Staldraðu við í sætinu þínu: Hvað er þér mikilvægast? Hvað skiptir þig mestu máli?
Ekki hvað var þér mikilvægast eða verður mikilvægast – heldur hvað er mikilvægast í lífi þínu núna og ávallt og ævinlega. Það er það sem Jesús vildi að við íhugðum.
Ítrustu aðstæður reyna á og fólk kemst ekki hjá að bregðast við. Fangar í dauðabúðum nasista voru sviptir öllu nema möguleikanum til að stjórna sínum innri manni. Það eina, sem þau áttu eftir var hið andlega. Kúgarar geta náð öllu af fólki og niðurlægt en geta þó ekki stjórnað innra lífi fólks, nema fólk sé brotið eða lamað hið innra. Það hefur Viktor Frankl, sem var fangi í útrýmingabúðum nasista túlkað vel í bók sinni Leitin að tilgangi lífsins. Innri auðæfi eru okkar dýrmæti, sem erfiðast er að stela, það sem mestu skiptir.
Hver er þinn auður? Er hann hið innra? Hefur þú ræktað þinn innri mann, sambandið við þau sem mestu máli skipta, sambandið við höfund lífsins sem stöðugt nærir þig og úthellir lífinu inn í þig og raunar allt hið ytra einnig?
Hvernig er með ömmuspekina í Brekkukoti? Ertu sammála því, að auðæfin séu það sem aðrir ná ekki af manni? Og hvað er það þá, sem skiptir þig mestu máli? Jesús hefur ekki aðeins vitsmunalegt svar í huga heldur tengsl, andlegan sjóð sem gerir lífið ríkulegt, hefur góð áhrif á grunnlíðan þína, tengsl við aðra en er líka brú inn í líf eilífðar. Og hvað er það? Trú, sem starfar, leitar út til fólks, leitar að gera gott, hið andlega ríkidæmi sem er frá Guð og til Guðs.
Amen.
Prédikun í Neskirkju 10. júní, 2012, 1. sunnudagur eftir þrenningarhátíð. A-textaröð.
Lexían er skráð í 5 Mósebók Ef einhver bræðra þinna er fátækur í einni af borgum þínum í landinu sem Drottinn, Guð þinn, gefur þér skaltu ekki loka hendi þinni fyrir fátækum bróður þínum með harðýðgi heldur skalt þú ljúka upp hendi þinni fyrir honum. Þú skalt lána honum það sem hann skortir. Þú skalt gefa honum fúslega en ekki með ólund því að fyrir það mun Drottinn, Guð þinn, blessa öll þín verk og hvað sem þú tekur þér fyrir hendur. Því að aldrei mun fátækra vant verða í landinu og þess vegna geri ég þér þetta að skyldu: Ljúktu upp hendi þinni fyrir meðbræðrum þínum, fátækum og þurfandi í landi þínu.
Pistillinn er úr fyrsta Jóhannesarbréfi Við þekkjum kærleikann, sem Guð hefur á okkur, og trúum á hann. Guð er kærleikur og sá sem er stöðugur í kærleikanum er stöðugur í Guði og Guð er stöðugur í honum. Fáum við elskað hvert annað og lifað eins og Kristur lifði hér á jörð, verðum við full djörfungar á degi dómsins. Ótti er ekki í elskunni. Fullkomin elska rekur út óttann. Því að óttinn býst við hegningu en sá sem óttast er ekki fullkominn í elskunni. Við elskum því að Guð elskaði okkur að fyrra bragði. Ef einhver segir: „Ég elska Guð,“ en hatar trúsystkin sín er sá lygari. Því að sá sem elskar ekki bróður sinn eða systur, sem hann hefur séð, getur ekki elskað Guð sem hann hefur ekki séð. Og þetta boðorð höfum við frá honum, að sá sem elskar Guð á einnig að elska bróður sinn og systur.
Guðspjall: Lúk 16.19-31 Jesús sagði þeim þessa dæmisögu: „Einu sinni var maður nokkur ríkur er klæddist purpura og dýru líni og lifði hvern dag í dýrlegum fagnaði. En fátækur maður, hlaðinn kaunum, lá fyrir dyrum hans og hét sá Lasarus. Feginn vildi hann seðja sig á því er féll af borði ríka mannsins og jafnvel hundar komu og sleiktu kaun hans. En nú gerðist það að fátæki maðurinn dó og báru hann englar í faðm Abrahams. Ríki maðurinn dó líka og var grafinn.
Og í helju, þar sem hann var í kvölum, hóf hann upp augu sín og sá Abraham í fjarska og Lasarus við brjóst hans. Þá kallaði hann: Faðir Abraham, miskunna þú mér og send Lasarus að hann dýfi fingurgómi sínum í vatn og kæli tungu mína því að ég kvelst í þessum loga.
Abraham sagði: Minnstu þess, barn, að þú hlaust þín gæði meðan þú lifðir og Lasarus böl á sama hátt. Nú er hann hér huggaður en þú kvelst. Auk alls þessa er mikið djúp staðfest milli vor og yðar svo að þeir er héðan vildu fara yfir til yðar geti það ekki og eigi verði heldur komist þaðan yfir til vor. En hann sagði: Þá bið ég þig, faðir, að þú sendir hann í hús föður míns, en ég á fimm bræður, til þess að vara þá við svo þeir komi ekki líka í þennan kvalastað. En Abraham segir: Þeir hafa Móse og spámennina, hlýði þeir þeim. Hinn svaraði: Nei, faðir Abraham, en ef einhver kæmi til þeirra frá hinum dauðu mundu þeir taka sinnaskiptum. En Abraham sagði við hann: Ef þeir hlýða ekki Móse og spámönnunum láta þeir ekki heldur sannfærast þótt einhver rísi upp frá dauðum.“