Tími ljóss og skugga
Jólin snúast um ljósið sem færir heiminum birtu og yl í svartasta skammdeginu. Við sjáum í guðspjöllunum hvernig Betlehemsstjarnan lýsti upp nóttina og vísaði vitringunum veginn til Jesúbarnsins í jötunni.
Í sænsku verðlaunakvikmyndinni Verkamannabústaðirnir – Svinalängorna, eftir Pernillu August, erum við minnt á hvernig ljósið og skuggarnir geta fylgst að.
Myndin hefst á aðventu, á Lúsíudeginum, þegar dæturnar tvær koma ljósum prýddar í svefnherbergi foreldranna sem þykjast vera sofandi. Lúsíuhátíðin minnir á að aðventan og jólin eru tími ljóssins.
Ljósið skín líka á það ljóta í heiminum ogg varpar skugga. Við erum minnt á það í Svinalängorna. Aðalsöguhetjan Leena rifjar upp bernskujólin sín. Það er ekki falleg mynd. Ekkert jólabað og engir jólapakkar því pabbi eyddi öllum peningunum í vín.
Jólatréð sem féll hálfskreytt um koll þegar foreldrarnir slógust í stað þess að skreyta það. Villt partý, drykkja og hávaði. Yfirgangur og ofbeldi. Pabbi sem öskrar á mömmu og slær hana svo. Á meðan fela börnin sig. Þannig eru bernskujólin hennar Leenu og þeim vill hún helst gleyma.
Tími sannleika og nærveru
Ástin í raun - Love Actually er ein vinsælasta jólamynd síðari ára. Sambönd fólks eru viðfangsefni myndarinnar og bakgrunnur hennar eru jólin.
Eftir því sem sögunum vindur fram kemur grunnafstaða persónanna til jólanna í ljós – og það er augljóst að jólin sjálf hafa áhrif á gang mála.
Jólin í Love Actually snúast um tvennt: að segja það sem manni býr í brjósti – segja sannleikann – og að vera hjá þeim sem maður elskar. Þetta tvennt knýr myndina áfram, vegna þess að það eru jól. Þegar við förum að segja það sem okkur í brjósti býr, horfumst í augu við tilfinningar, brotna erfið og gömul samskiptamynstur upp og nýir hlutir fá rými í lífinu.
Að viðurkenna hvernig manni líður og segja frá því getur valdið manni sjálfum og öðrum erfiðleikum, eins og sumar persónurnar reyna. En jólin eru tími sannleikans og það er þess virði að mæta hindrunum til að uppfylla köllun jólastundarinnar.
Tími öryggis og hlýju
Í jólaguðspjallinu mætum við þrá okkar fyrir öryggi, skjól og hlýju. Í fjárhúsinu sem Jesúbarnið kom í heiminn brýst ljósið fram úr myrkviðum næturinnar.Jatan er tákn um næringu og umhyggju sem við þurfum til að lifa af og síðast en ekki síst er nýfædda barnið tákn um líf og upphaf, hreinleika og ást.
Þessar frummyndir af ljósinu og jötunni hitta okkur í hjartastað og taka form í minningum okkar og reynslu. Það hvernig við höldum jólin tjáir þetta að einhverju leyti. Þörfin fyrir öryggi og næringu kemur fram í áherslunni á þægindi og góðgerðir sem einkennir hátíðahaldið. Köllunin til að sýna kærleika og veita umhyggju sýnir sig í því að við viljum gefa gjafir og gera öðrum gott.
Verum ljósfólk
Kristin trú er trú lífsins alls, trú heildarinnar. Hún nær bæði til dimmunnar í lífinu og til birtunnar. Áskorunin okkar er að dvelja aldrei í myrkrinu eða við það, heldur stíga þaðan yfir í ljósið. Kveikja ljós þar sem myrkur er. Á þann minna jólin okkur. Þau minna okkur á að horfast í augu við myrkrið og kveikja ljós. Þau minna á ljósþörfina í okkar lífi og annarra. Þau kalla okkur til að vera ljósfólk, sem kveikir ljós í eigin lífi og annarra.
Guð gefi þér gleðileg jól.