Margar bækur hafa verið ritaðar um hvernig eigi að ná árangri. Ein nýleg metsölubók af þeirri ætt er eftir Adam nokkurn Grant, bandarískan háskólaprófessor í sálfræði. Bók hans, „Að gefa og taka“, „Give and Take“ (http://www.giveandtake.com/) hefur t. d. komist efst á metsölu- og vinsældarlista hjá New York Times, Wall Street Journal og Amazon. Bókin kollvarpar fyrri hugmyndum um hvernig sé best að ná árangri og koma sér áfram. Lykilorðin eru ekki ástríða, mikil vinna, hæfileikar eða heppni. Prófessor Grant heldur því fram að árangur okkar ákvarðist fyrst og fremst af því hvernig við komum fram við annað fólk. Prófessorinn setur fólk í þrjá flokka. Í þeim fyrsta eru þau sem reyna að fá eins mikið og hægt er frá öðrum. Í öðrum eru þau sem reyna að taka og gefa á víxl en í þeim þriðja þau sem gefa og miðla til annarra án þess að vilja fá nokkuð í staðinn. Í stuttu máli er niðurstaða prófessorsins sú að þeim vegni best í lífinu sem gefa. Gjafarar geta reyndar átt á hættu að brenna upp en ef þeir eru meðvitaðir um þá ógn og kunna leiðir til að forðast kulnun munu þeir ná árangri. Þau sem lifa fyrir að gefa og hjálpa ná lengst og þeim gengur best. Mjög ólíklega er aðeins ein skýring á bankahruninu og efnahagskreppunni en margir hafa haldið því fram að græðgi mannsins eigi stóran þátt í þeim hremmingum. Sá sem er gráðugur hefur hugann fyrst og fremst við það að ná eins miklu til sín og mögulegt er. Græðgi okkar tíma er svo botnlaus að gróði helstu gróðapunganna er ekki talinn í milljónum heldur milljörðum og auðæfin sem safnast á fárra manna hendur eru svo gríðarleg, að engin von er til þess að þeim ríkustu takist að eyða öllum peningunum sem þeir eiga, jafnvel þótt þeir leggi sig alla fram í hverskonar sóun. „Lofið gæsku gjafarans,“ syngur lóan í einu kvæða listaskáldsins góða. Guð er gjafari. Hann kemur ekki til okkar með stefnur á lofti og kröfur. Guð gefur. Hann miðlar, byggir upp, reisir upp, sýknar, fyrirgefur og elskar. Tákn kristninnar, krossinn, er ekki tákn refsingar, hefndar eða reiði, heldur tákn fórnar, tákn þess Guðs sem gefur og gefur af sér og gefur sig. Við höldum stundum að við galdurinn við þetta allt saman sé að ná og taka. Vakna og krefjast. En við erum sköpuð til að vera gjafarar. Sá sem lifir gefandi og skapandi lífi er að lifa eins og Guð meinti hann. Gæfan er í gjöfinni. Guð er í gjöfinni.