Kynjamál eru viðkvæm í kirkjulegu samhengi og halda áfram að valda usla innan kirkna og milli kirkjudeilda. Í upphafi samkirkjulegrar bænaviku í lok janúar, birtist frétt um óvenjulega prestsvígslu í Westminster í London. Þá vígðust þrír biskupar í ensku kirkjunni sem kaþólskir prestar.
Staðföst andstaða kaþólsku kirkjunnar gegn því að konur vígist til prestsþjónustu veldur því að andstæðingar prestsvígslu kvenna í ensku biskupakirkjunni finna þar öruggt skjól nú þegar enska kirkjan hefur ákveðið að skipa fyrstu konurnar sem biskupa. Straumur presta frá ensku kirkjunni hefur legið til kaþólsku kirkjunnar frá því að prestsvígsla kvenna var leyfð árið 1992. Róm hefur tekið þessum prestum fagnandi, jafnvel þótt þeir séu kvæntir.
Prestsvígslan í Westminster markaði ennfremur formlega stofnun kaþólskrar reglu sem mun starfa á Englandi og heitir því fallega nafni Ordinariate of Our Lady of Walsingham. Þessi regla mun halda utan um starfsemi kaþólska presta á Englandi, sem munu þó ekki lúta rómverskum kirkjurétti þar sem þeir eru kvæntir og notast við kirkjubækur og helgisiði anglikönsku kirkjunnar. Walsinghamfrúin verður því skjól fyrir þá anglikönsku presta og biskupa sem geta ekki hugsað sér að þjóna í kirkju þar sem konur fá að vígjast til prests og biskups.
Þróun mála hjá trúsystkinum okkar í ensku kirkjunni ætti að vera okkur áminning um að ryðja sýnilegum og ósýnilegum hindrunum þess að kirkjan njóti gjafa karla sem kvenna, úr vegi. Látum það vera verkefni kirkjunnar á þessari föstu.