Enginn getur þjónað tveimur herrum. Annaðhvort hatar hann annan og elskar hinn eða þýðist annan og afrækir hinn. Þér getið ekki þjónað Guði og mammón.Því segi ég yður: Verið ekki áhyggjufullir um líf yðar, hvað þér eigið að eta eða drekka, né heldur um líkama yðar, hverju þér eigið að klæðast. Er lífið ekki meira en fæðan og líkaminn meira en klæðin? Lítið til fugla himinsins. Hvorki sá þeir né uppskera né safna í hlöður og faðir yðar himneskur fæðir þá. Eruð þér ekki miklu fremri þeim? Og hver yðar getur með áhyggjum aukið einni spönn við aldur sinn?
Og hví eruð þér áhyggjufullir um klæði? Hyggið að liljum vallarins, hversu þær vaxa. Hvorki vinna þær né spinna. En ég segi yður: Jafnvel Salómon í allri sinni dýrð var ekki svo búinn sem ein þeirra. Fyrst Guð skrýðir svo gras vallarins, sem í dag stendur, en á morgun verður í ofn kastað, skyldi hann þá ekki miklu fremur klæða yður, þér trúlitlir!
Segið því ekki áhyggjufullir: Hvað eigum vér að eta? Hvað eigum vér að drekka? Hverju eigum vér að klæðast? Allt þetta stunda heiðingjarnir, og yðar himneski faðir veit, að þér þarfnist alls þessa. En leitið fyrst ríkis hans og réttlætis, þá mun allt þetta veitast yður að auki. Hafið því ekki áhyggjur af morgundeginum. Morgundagurinn mun hafa sínar áhyggjur. Hverjum degi nægir sín þjáning. Matt.6.24-34
Í huga mínum hljómar lag og texti sem mig minnir að tónlistamaður að nafni Bobby Mcfarell söng um árið. “Don’t worrie be happy” það er hægt að útleggja textann þannig -“hafðu engar áhyggjur þetta reddast” ég man að mér fannst textinn smell passa í þjóðarhuga þá eins og nú sem púsl sem vantaði til uppfyllingar heildstæðrar myndar sem við erum stöðugt að leitast við að finna og setja saman. Þessi mynd hefur tekið breytingum í áranna rás eins og gengur. Það fellur aldrei á hana ef eitthvað er þá hafa litir hennar skerpst þegar horft er frá bændasamfélagi fyrstu áratuga síðustu aldar og til neyslusamfélags nútímans þar sem helftin af ungmennum og jafnvel þeirra sem fullorðnir eru hafa ekki hugmynd um hverjir stólpar samfélagsins eru og á hverju þeir standa og það sem meira er hverjir lögðu grunninn að þvi sem við höfum í dag.
Við stöndum okkur að því að standa á gati okkar eigin hugmynda um samfélagið og á hverju það byggist til þess að geta talist til að vera samfélag. Haki og skófla síðustu aldar hefur vikið fyrir Armani jakkafötum og bindi í stíl eða ekki og vísitölu hagnaði, Down “tjóns” vísitölunnar eins og einhver spekingurinn hrasaði svo illilega um tungu sér þegar hann var að lýsa falli hennar einhverju sinni og hvaða áhrif það hefði á þjóðarbúið. Orð mín má ekki skilja svo að ég sé einhver rómantíker sem horfi í bláma fjarlægðar til þess sem var og þá hafi allt verið betra sem það var alls ekki. Þjóðfélagið hefur risið úr örbirgð til þess að vera ein af efnuðustu þjóðum veraldar. Örbirgð og fátækt eldur sjaldnast annað af sér en fordóma og vankunnáttu. Okkar samfélag í nútímanum er öflugt á mörgum sviðum hins veraldlega eins og hvað varðar heilsugæslu, skóla og menntunarmál almennt, atvinnu. Veraldleg fátækt hefur að mestu verið útrýmt í þeim mæli sem hann var en andleg fátækt hefur haldið sínu og kannski meira en áður – Ásjóna þess veraldlega er björt og er það gott. Þeir þættir þurfa að vera í lagi þannig að við megum finna til öryggis.
Lífið er digital
Að finna til öryggis ætti að vera skilgetið afkvæmi þessa að við skulum sannfæra okkur um að við skulum standa svo framalega á flestum veraldlegum sviðum mannlegs lífs í samanburði þjóða. En það er ekki svo og eflaust hefur það aldrei verið fullkomlega og mun ekki verða fullkomlega svo að hægt er að finna til öryggis. Þrátt fyrir allt okkar brölt í gegnum tíðina að berjast úr fátækt til ríkisdæmis er eins og eitthvað vantar og við leitum í dyrum og dyngjum af þessu einhverju sem við kunnum ekki að nefna eða þorum því ekki vegna þess að við kunnum að óttast það sem við verðum áskynja. Við viljum ekki leggja frá okkur “byrgðum” þeim sem við höfum hlaðið á okkur vegna ótta við að tapa því sem við höfum sem aftur leiðir til þess þrátt fyrir veraldlegan auð hefur ekki skilað því sem við héldum að það gerði. Samfélag nútímans er hlaðið kaunum öryggisleysis, vansældar og krepptum hnefa eignaréttarins fram yfir náungann og þarfir hans og er ég þá ekki með neitt svartsýnishjal – staðreyndirnar tala sínu máli. Einmanaleiki, fíkniefnanotkun, misnotkun hverskonar sem sífellt leitar niður á við í aldri, vonleysi og uppgjöf er bróðir og systir alls hins besta eins og möguleiki til menntunar, möguleiki til þess að leyfa draumum sínum að rætast sem áður fengu ekki svigrúm til vegna fátæktar í samfélagi okkar. Allt þetta sem var – er til í dag en í annari mynd sem fæst helst ekki framkölluð í huga. Þessi önnur mynd er fátækt hugans íklædd sérsniðnum fötum helstu hönnuða þessa heims.
Lífið í dag er safn “digital” mynda þar sem ekkert er auðveldara en að eyða ef myndin passar ekki inn í þann veruleika sem við viljum helst lifa í og sjá fyrir okkur og aðeins það framköllum við á pappir drauma okkar. Við sjáum og heyrum af háum hýsum lúxusíbúða svo hátt uppi að ekki þarf að horfa á þá sem neðar eru og lifa á degi hverjum við það að horfa inn á nágrannann. Heldur er það hafið og blámi fjalla sem þeim er skammtað sem lifa prakturlega vellystingum og er það gott. Hver vill ekki hafa hafið og skipin fyrir augum sem “móð” ösla sjóinn með nýjasta nýtt frá heiminum handan fjallanna svo að við sem lifum á mörkum þess byggilega mættum verða ánægð-ánægðari í dag en í gær og þar er engin endir á og hvað þá upphaf sem engin ómakar sig við að gæta að hver var.
Eitt að segja annað að standa í
Allt þetta sem nefnt var hér að framan ætti auðveldlega halda fyrir utan veruleika okkar því sem í daglegu tali nefnist áhyggjur lífsins-við höfum allt og meira til. Eða eins og segir meðal annars frá í guðspjalli dagsins “verið ekki áhyggjufullir um líf yðar…” þá kann einhver að segja að það er eitt að segja og annað að standa í. Vissulega er hægt að taka undir það í svo mörgu sem við mætum í daglegum “digital” veruleika okkar er ekki hægt að afmá allt það slæma sem mætir okkur hvort heldur við komum okkur sjálfum í þær aðstæður eða að utanaðkomandi kraftur skellur á vitund og veruleika og beyglar og skekur tilveruna svo mjög að fall blasir við. Staðreyndirnar hrópa á okkur úr öllum áttum að það er erfitt að fara sofa að kveldi og vakna til nýs dags veruleikans vegna þess að við kvíðum því sem koma skal. Við kvíðum því sem mætir okkur í veraldlegum skilningi því að við lifum í veraldlegum veruleika sem sem hefur lítið þol og hvað þá skilning á margbreytilegum aðstæðum okkar.
Samhliða veruleiki
“Þetta reddast” syndrómið sem hefur gengið í gegnum ótrúlegustu raunir í gegnum tíðina og einkennir okkur flest ef ekki öll er eitthvað sem vert er að gefa gaum ekki síst ef við speglum það viðhorf við textann sem lesinn var hér áðan frá altarinu.
Við finnum okkur oftar en ekki vera í áhyggjum upp undir háls og stundum seitlar yfir, en við náum andanum og öslum tilveruna áfram án þess að lita við og ekki með neinni teljandi eftirsjá. Það er eins og eitthvað og þetta eitthvað getur allt eins verið Guð sem talar til okkar í þeim veruleika sem við lifum í og öslum um, sem knýr okkur áfram samhliða raunveru þeirri sem hvert og eitt okkar fæst við á degi hverjum.
Við lifum í samhliða veruleika og spurningin er að hvorum höllum við okkur meira. Þeim veruleika að komast af fjárhagslega og veraldlega og eða þeim veruleika sem stendur honum við hlið- hinum andlega. Við erum sett upp við vegg með það að komast af daglega með daglegar þarfir okkar og mikill tími fer í hið veraldlega amstur og síðan er hægt að spyrja sig hvort allur sá tími sé þess virði. Þar sem þessir tveir veruleikar geta ekki án hvors annars verið hlýtur reyndin að vera sú að þeir styðja við hvorn annan og til þess að geta stutt við hvorn annan þurfum við að gæta að því í eigin ranni að rækta þessa tvo veruleika og halda hvorugum meira á lofti á kostnað hins. Reyndin er reyndar sú að veruleiki hins daglega brauðstrits er það sem við höllum okkur að og vanrækjum oftar en ekki hina hliðina á veruleikanum. Með öðurm orðum það hallast á – Down “tjóns” vísitalan lætur heyra í sér og við fyllumst áhyggjum, vonleysi og einhverju öðru en þvi að lifa lífinu til fullnustu þrátt fyrir að við höfum öll tæki til þess.
Fullnusta lífs?
Fullnusta lífs er ekki og getur ekki verið sú hlið veruleikans sem kallast veraldlegur auður ef auðurinn er það eina sem manneskjan horfir á. Ég meina er það ekki fullreynt. Þeir eru margir sem hafa fetað þá braut og þeir eru margir sem feta þá braut í dag og munu gera á morgun í von um að finna eitthvað annað og meira en það sem aðrir hafa fundið sem þá leið hafa farið og grípa í tómt vegna þess að þeir hafa ekki gætt að þeim veruleika sem er samhliða þeim sem þeir lifa í.
Hvað er þetta annað sem talað er um? Þetta annað er hamingja og sátt við sig og sína. Mér er fullkunnugt um að þetta er einföldun staðreynda og frasalegt að tala svona og jafnvel óábyrgt því að auðvitað getur það verið svo að auður verði manneskju til blessunar eins og fátækt er sögð manneskju til bölvunar lífs. Veröldin og raunvera lífs er ekki svarthvít. Það er ekkert sem segir að svo sé. Það er ekki lögmálsbundið að svo sé. Það er hægt að vera vel efnaður og lifa í sátt við Guð og náungann eins og það er hægt í fátækt. “Fátækt sem og auður getur gert fólk andverft trúnni á Guð með ólíkum hætti. Annars vegar í gegnum vonleysi og angist og hinsvegar í gegnum hroka og sjálfsupphafningu.”
Ágústínus kirkjufaðir sagði sem átti við þá og á við í dag að “Guð er sífellt að reyna að gefa okkur góða hluti en við erum alltaf með báðar hendur fullar svo við getum ekki tekið á móti.” Það mætti halda að þessi orð hafi verið sögð í nútíma en svo er alls ekki heldur fyrir hundruðum ára síðan.
Við erum nefnilega flest með báðar hendur fullar og sleppum ekki hendinni af, vegna ótta við að missa það sem við höfum. Það er mannlegt að óttast það sem við þekkjum ekki og vitum ekki hvað ber með sér. Guð vill gefa og það er okkar að taka á móti og hafa ekki áhyggjur af því hvernig við tökum á móti. Eins og einhver ágætur hugsuður sagði -“Hví að hafa áhyggjur þegar þú getur treyst. Áhyggjur eru eins og ruggustóll, þær halda þér uppteknum en koma þér ekkert áfram.”