Á maður alltaf að borga skuldir sínar? Ef allt er með felldu og rétt er staðið að lánveitingu svörum við því afdráttarlaust játandi. En það er ekki alltaf raunin. Síðasta áratug hefur athygli heimsins beinst að svokölluðum ólögmætum skuldum þjóðríkja.
Slíkar skuldir geta verið ólögmætar af ýmsum ástæðum. Ein er sú að lánveitandi hafi ekki gengið úr skugga um að lánþegi gæti greitt skuldina. Önnur lýtur að því hver stofnaði var til skuldarinnar. Fyrir nokkrum árum var úrskurðað að milljarða dala skuldir Íraks og Nígeríu skyldu felldar niður vegna þess að til þeirra var stofnað af stjórnvöldum sem ekki voru lýðræðislega kjörin. Samt gátu þessar þjóðir staðið undir greiðslum.
Í áttunda bindi skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis segir: „Borgarar í lýðræðisríki bera ábyrgð á réttilega kjörnum stjórnvöldum. Meginforsenda þess að borgararnir geti axlað þessa ábyrgð vel er að þeir búi við góð skilyrði til upplýstrar skoðanamyndunar.“ Í skýrslunni kemur einnig fram að alvarlegir misbrestir eru á þessu hérlendis (bls. 241). Þar er jafnframt harðlega gagnrýnt að á ákveðnu tímabili hafi veik stjórnvöld falið fjármálakerfinu og bönkunum of mikið vald, leyft of mikil umsvif og sýnt of lítið aðhald.
Kannski má ganga svo langt að segja að á Íslandi hafi ríkt auðræði í stað lýðræðis. Að lýðræðislega kjörnir fulltrúar hafi ekki verið við stjórnvölinn.
Ef allt væri með felldu ættum við að axla fulla ábyrgð á því sem réttilega kjörin stjórnvöld hafa kallað yfir okkur. En skuldsetningu íslensku þjóðarinnar vegna efnahagshrunsins má að hluta rekja til þess auðræðis sem ríkti hér eftir einkavæðingu og útrás. Það var ekki allt með felldu. Við getum ekki horft fram hjá því á leið okkar frá reiði til sáttar.