Boðskapur Kvennaþings Lúterska Heimssambandsins.

Boðskapur Kvennaþings Lúterska Heimssambandsins.

Boðskapur Kvennaþingsins var samþykktur af Heimsþinginu á fyrsta degi þingsins

Frelsi undan kynbundnu ofbeldi og full þátttaka kvenna í kirkju og samfélagi voru aðaláskoranir Kvennaþings LWF sem fram fór í Windhoek í Namibíu áður en sjálft Heimsþingið var haldið.

Skilaboð Kvennaþingsins til Heimsþingsins voru eftirfarandi:

“Við fögnum því að vegna skírnarinnar erum við frelsaðar fyrir Guðs náð” og þar með var vitnað beint í yfirskrift þingsins, Liberated by God´s Grace. Í boðskapnum kom fram að nauðsynlegt er að leggja áherslu á jafnrétti kynjanna (Gender Justice) og voru kirkjur LWF hvattar til að takast á við erfið mál af hvaða toga sem er, einnig þau sem mjög skiptar skoðanir eru um. Sérstaklega voru til tekin ákveðnar biblíutúlkanir, sem tengjast valdi.

Þá var vitnað til eins af þremur undirtitlum þingsins: Human beings-not for sale, eða Manneskjur eru ekki til sölu. Fulltrúar á Heimsþinginu voru hvattir til að setja kynjajafnrétti á dagskrá í kirkjunum, eins og ræða um viðkvæm mál eins og t.d. erfðalög, barnabrúðkaup, umskurn kvenna, kynbundin morð, nauðgun og heimanmundi.

Kvennaþingið fagnaði Jafnréttisstefnu LWF (Gender Justice Policy) sem sett var á laggirnar eftir 11. Heimsþingið í Stuttgart árið 2010 og samþykkt var af stjórn sambandsins árið 2013. Jafnréttisstefnan hefur nú verið þýdd á 22 tungumál og voru kirkjurnar hvattar til að láta þýða hana á öll helstu tungumál kirknanna.

Konur í leiðtogastörfum. Þar sem fimm síðustu Heimsþing hafa hvatt til þess að konur taki að sér leiðtogastörf í kirkjunum, þá hvetur Kvennaþingið kirkjur LWF til að tryggja það að konur taki fullan þátt í yfirstjórn kirknanna. “Við viljum sjá leiðtoga í samfélagi kirknanna af báðum kynjum” sögðu konurnar í boðskap sínum. Þær kölluðu eftir því að konur hefðu frelsi til að vinna að kerfisbreytingum sem gætu orðið til þess að konur tækju fullan þátt í leiðtogahlutverkum kirknanna.

Nú er staðan sú að 82% kirkna LWF vígja konur til prestsstarfa. Kvennaþingið fagnaði því, og hrósaði þeim konum og körlum sem hafa unnið hörðum höndum að því að ná þessu marki. En betur má ef duga skal. Hvatt var til samtals og samvinnu milli þeirra kirkna sem vígja ekki konur og þeirra sem nýlega hafa tekið ákvörðun um að vígja konur. LWF var hvatt til að hafa frumkvæði að þessu samtali og skapa vettvang fyrir samræðurnar.

Gegn kynbundnu ofbeldi.

Hið alvarlega vandamál sem kynbundið ofbeldi er var rætt í þaula á Kvennaþinginu, bæði eins og það birtist í samfélaginu og innan kirknanna. Kirkjan á að vera öruggur staður og því voru allar kirkjur hvattar til að taka þetta vandamál til gaumgæfrar skoðunar og setja sér siðareglur. Boðskapur Kvennaþingsins var samþykktur af Heimsþinginu á fyrsta degi þingsins.

Hér má lesa boðskapinn í heild sinni:

https://www.lwfassembly.org/en/news/press-releases/freedom-violence-and-full-participation