Einu sinni húsvitjaði ég hjá sóknarbarni þar sem á eldhúsborðinu lá miði með tilkynningu um messu í kirkjunni næsta sunnudag. Sóknarbarnið lyfti miðanum á loft og sagði: „Ef svona tilkynning hættir að berast til mín, þá skaltu sjá þína sæng útbreidda“. „En skiptir það þig nokkru máli, þú kemur hvort sem er aldrei í messu“, svaraði ég. „Ég vil að messað sé reglulega í minni kirkju, þar sé staðið fyrir sæmilegri menningu, allt sé tilbúið þegar ég þarf á að halda og beðið sé fyrir mér og mínu fólki í kirkjunni“. Ég mat mikils hreinskilni sóknarbarns míns sem hafði í raun lagt drjúgt að mörkum til kirkjunnar um langa tíð í margs konar verkum.
Er það svona sem við komum fram í dagsins önn? Erum hlutlaus til hliðar í mannlífinu, afskiptalaus og viljum vera í friði, en njóta góðs af öllu og helst fyrirhafnarlítið? Er það svona sem pólitíkin birtist okkur? Nóg að vita af stjórnmálafólkinu í vinnunni og getum treyst að sjái vel fyrir þörfum okkar.
Við höfum það býsna gott, búum við þægindi og munað, sem engum gat til hugar komið að væri mögulegt fyrir einum mannsaldri síðan. Ég jarðsöng aldraða konu í sumar sem hafði sagt mér að minnisstæðasta lífsháttabylting hennar hafi verið, þegar hún fékk fyrstu vaðstígvélin 9 ára gömul. Það er svo stutt síðan að fólkið hafði tæpast til hnífs og skeiðar við aðstæður sem nútíminn skynjar ekki. Fátækt hefur margslungna merkingu. Ég er ekki viss um að örsnauð alþýðukonan af veraldargæðum, sem kom tíu börnum á legg og kunni sálmabókina utanbókar, stóran hluta af guðspjöllunum líka og þekkti til helstu bókmenntaverka, hafi viljað láta kalla sig fátæka. En nú eru þau kölluð rík sem skulda mest í bankanum og skiptir engu þó þau hafi aldrei heyrt minnst á Heilræðavísur sr. Hallgríms.
Stjórnmálin taka mið af því. Flokkarnir eru að breytast úr hugsjónahreyfingum í bandalög frambjóðenda í baráttu um atvinnu á Alþingi. Í huga kemur saga af Ronald Reagan, fyrrum forseta Bandaríkjanna, sem ásamt samstarfsfólki var að undirbúa kosningabaráttu og leitaði logandi ljósi að kosningamáli sem gæti heillað kjósendur. Einhverjum datt þá í hug að upplagt væri að berjast gegn glæpum og vaxandi skálmöld í landinu. En eftir nánari skoðun, þá gat það ekki gengið, af því að í ljós kom að glæpamenn voru svo stór hluti kjósenda og líklegir fylgjendur Ronalds Reagan.
Hvað skiptir máli? Viljum fagurt mannlíf og göfuga menningu. En undir glæstu yfirborði veraldarhyggjunnar stríða margir við vonleysi, finna lífi sínum hvorki tilgang né stað. Það er ekki í tísku að upphefja æðruleysi, hógværð eða auðmýkt. Efnisleg sældin er sígjörn, en andleg líðan nærist í skjóil samferðafólks. Það finnum við í aðstæðum þar sem vald fjárins dugar ekki, heldur samhugur, stuðningur, faðmlag, vinátta. Er sá garður í rækt, þegar nauðsynlega þarf í hann að leita? Er messað í kirkjunni þinni?