Af hverju vildu Íslendingar Vídalínspostillu en ekki Gíslapostillu?

Af hverju vildu Íslendingar Vídalínspostillu en ekki Gíslapostillu?

Segja má að Gísla­post­illa hafi gleymst í kjöl­far þess að post­illa Jóns Vídalíns kom út. Spyrja má hvers vegna sú varð raun­in.
fullname - andlitsmynd Skúli Sigurður Ólafsson
14. september 2020

Um þessar mundir minnumst við þriggja alda ártíðar Skálholtsbiskupsins Jóns Þorkelssonar Vídalín (1666-1720). Þekktastur er hann fyrir postilluna sem við hann er kennd en hún var fyrst gefin út í tvennu lagi á árunum 1718 og 20.  Ritið hefur, eins og aðrar postillur, að geyma predikanir fyrir helgidaga kirkjuársins og voru ætlaðað til húslestrar þegar fólk átti ekki heiman gengt í messu. Vídalínspostilla hefur komið út alls fimmtán sinnum, nú síðast árið 1995 og voru vinsældir verksins ljósar allt frá fyrstu útgáfunni.

 

Samanburður við Gíslapostillu

 

Það var fjarri því sjálfgefið að verk af þessum toga nytu slíkrar hylli. Önnur sambærileg rit höfðu ekki fallið í kramið og er nærtækt að nefna postillu Gísla biskups Þorlákssonar (1631-1684) sem kom út í nokkrum hlutum um miðja 17. öld. Segja má að Gíslapostilla hafi gleymst í kjölfar þess að postilla Jóns Vídalíns kom út. Spyrja má hvers vegna sú varð raunin. Í fljótu bragði ætti svarið við því að liggja í augum uppi. Texti Vídalínspostillu þykir vera mergjaður, efnistökin bera með sér yfirgripsmikla þekkingu, bæði á kristindómi og klassískum fræðum og höfundi liggur mikið á hjarta.

 

Fleira býr þó að baki hinum ólíku viðtökum og ber þar að horfa til þeirrar guðfræði sem höfundar boðuðu. Nálgun þeirra er ólík þótt bækurnar tilheyri sama flokki. Það má öðru fremur skýra í ljósi þess að hvor þeirra tilheyrði sinni stefnu í guðfræði. Gísli var fulltrúi rétttrúnaðarins þar sem sú hugsun var ríkjandi að kristin trú sé ákveðið kerfi kennisetninga sem þegnar í tilteknu konungsríki hljóti að aðhyllast. Fyrir Gísla vakti því að útskýra þessar kenningar. Hann vildi því fræða lesendur/áheyrendur um þau atriði sem trúin samanstendur af samkvæmt þeirri kenningu. Þetta fól ekki í sér þörf fyrir sannfæringarkraft enda var ætlunin ekki að breyta neinu í hegðun fólks.

 

Sjálfur var Jón Vídalín mótaður af nýjum straumum í guðfræði. Þegar hann nam við Kaupmannahafnarháskóla um aldamótin 1700 kynntist hann hugmyndum heittrúnaðarins (píetisma) sem voru þá að ryðja sér til rúms. Sú mynd sem Jón hafði af samfélaginu var afar ólík þeirri sem birtist í Gíslapostillu og dregur hún dám téðra hugmynda. Í hans huga var fólk upp til hópa í guðlaust og aðeins lítill hópur gat talið sig til kristinna manna. Það voru þeir sem hafa endurfæðst og lifðu hvern dag í baráttu við tortímandi öfl hins illa sem vill leiða þá af réttri braut. Predikanir Gísla eru passívar og miða að því að viðhalda óbreyttu ástandi og festa fólk í sessi sem kristna þegna konungs. Erindi Jóns er á hinn bóginn það að breyta samfélaginu og koma á nýju ástandi í huga og hjarta þeirra sem á hlýða.

 

Dæmi um ólíka útleggingu

 

Taka má dæmi úr þessum ritum sem endurspegla þennan greinarmun:

 

Á fyrsta sunnudegi í aðventu lýsir guðspjallið því þegar Kristur kemur inn í borgina helgu og sá atburður hefur verið túlkaður sem innreið hans í kirkjuna. Gísli leggur út af honum með þessum hætti:

 

„Þar næst kemur þessi vor konungur til vor í þeim heilögu sacramentis. Fyrst skírnarinnar í hvörri vér fyrir hans náð og Heilagan anda kraft verðum endurfæddir og sverjum honum sem rétt er þegnar sínum kongi trú og hollustu.“

 

Sjá má hvernig Gísli leitast við að tengja stöðu kristins manns við sakramentin og tekur samlíkingu af hollustu þegna við konung þegar hann ræðir stöðu manna gagnvart Guði. Þarna má segja að hann leiti í smiðju Lúthers sem lagði mikið upp úr, skírn og altarisgöngu og jafnframt hollustunni við réttlát yfirvöld. Tónninn hjá Jóni er afar frábrugðinn:‘

 

„En gæt að því, kristinn maður að þessi konungur dýrðarinnar ríður hvörn dag inn til sinnar borgar, sem er kristileg kirkja og svo sem hann er einn andlegur konungur svo er og hans ríki andlegt því að vopn herfarar vorrar eru ekki líkamleg segir Paulus kraftur Guðs til að niðurbrjóta girðingarnar.“

 

Hér má greina hvernig höfundur varar fólk við og vill útrýma þeim skilningi að kristin trú feli í sér í stöðugleika. Að sálinni stafa margvíslegar hættur og hann líkir innreið Krists við prófraun. Öryggið og kyrrstaðan eru ekki til staðar. 

 

Svipuð mynd birtist í frásögninni af því þegar Jesús stillir storminn. Frá fornu fari hefur báturinn í sögunni verið túlkaður sem kirkjan. Um leið má fjalla um skilin á milli kirkju og heims. Báturinn er aðgreindur frá öldunum og áhöfn hans er hólpin andstætt þeim sem tilheyra heiminum. Hér má því enn greina ólíka afstöðu milli þessara tveggja höfunda. Í Gíslapostillu er þessi mynd dregin upp:

 

„Hér er stýrimaðurinn sem leiðir úr hættu og hvörjum vanda. Það er Drottinn vor Jesús Christus. Hér eru róðramennirnir sem eru trúlyndir, góðir og guðhræddir Guðs orðs þénarar hvörjir kenna eiga veg og götu Drottins til eilífs lífs. En flutningsmennirnir eður pílagrímarnir sem á þessu herrans skipi sigla vilja eru rétttrúuð Guðs börn.“

 

Hér er allt í föstum skorðum. Prestarnir róa bátnum en rétttrúuð Guðs börnin sitja um borð á sinni pílagrímsför. Skírnin gefur þeim sess innan kirkjunnar sem felur í sér að réttlætingin er ákveðin gjöf. Aftur er hann tryggur guðfræði Lúthers sem kenndi að náðin ein réttlætti manninn. Lítið er fjallað um þær kröfur sem gerðar eru til þeirra sem manna bátinn.

 

Þegar kemur að útleggingu þessa texta í Vídalínspostillu er myndin gerólík:

 

„Mitt á meðal þessarar hrekkvísu kynslóðar verður hinn litli hópur Christí að búa og mæta aðskiljanlegum árásum og hneykslunum svo að í villu mætti leiðast ef ske kynni, jafnvel útvaldir.“

 

Að þessu sinni eru dregin skil á milli hinnar sönnu kirkju og þeirrar stofnunar þar sem hann gegndi embætti biskups. Heimurinn var með hans orðum fallinn og fordæmdur. „Kynslóðin er hrekkvís”, sem merkir í raun að fólk gengur almennt ekki á Guðs vegum, jafnvel þótt það sé skírt til kristinnar trúar. Jón vísar í þekkt stef innan heittrúnaðarins sem er hugmyndin um hina ósýnilegu kirkju er starfar innan hinnar sýnilegu. Þá verður þessi fámenni hópur fyrir endurteknum árásum og freistingum sem reyna á staðfestu hans og úthald. Allt miðar að því að því að draga fram sem skörpust skil á milli hinna útvöldu og þeirra sem ekki eru hólpnir. Andstætt þeirri friðsælu mynd sem Gísli dregur upp af kirkjunni er kirkjusýn Jóns full af átökum og helgast það um leið af þeirri díalektísku heimsmynd sem guðfræði hans byggir á. Þrátt fyrir að í guðspjallstextanum sé óttaleysið útgangspunkturinn miðar ávarp Vídalíns að viðvörunarorðum til kristinna manna.  

 

Að kenna eða hræra

 

Ef markmið predikarans er að breyta áheyrandanum, fá hann til að haga lífi sínu með öðrum hætti og gefa sig allan að þeirri köllun sem hann á að fylgja, verður krafan um mælsku og trúverðugleika mun meiri. Það sést vel á því hvernig Jón Vídalín byggir upp textann. Bæði vísar hann óspart í heimildir frá klassískum tíma sem hefur leitt til þess að fólk bar mikið traust til þekkingar hans og kunnáttu. Trúverðuleiki höfundar (eþos) verður því mjög sterkur en hann ryður brautina fyrir hinn stranga boðskap. Að sama skapi höfðar hann óspart til tilfinninga áheyrenda (paþos), skapar samstöðu gagnvart hinum illa þokkuðu en höfðar vísar  óspart til þess sem fólkið óttast. Valkosturinn verður að lifa því lífi sem hann telur sæmandi og eru kröfurnar í þeim efnum miklu mun meiri en fram koma í predikunum Gísla.

 

Þessar bækur féllu í ólíkan jarðveg. Viðbrögðin drógu dám af því hvort höfundur hugði að uppfræðslu fólksins í baðstofunni og vildi kynna fyrir því játningar þeirrar kirkjudeildar sem það var hluti af, eða hvort predikarinn gerði sitt til að hræra í tilfinningum og kalla áheyrendur til trúarlegs afturhvarfs. Með því beitti Jón Vídalín mælskubrögðum í ríkum mæli. Hann skeytti ennfremur engu um stigveldi samfélagsins. Sú mynd sem hann dró upp af kristinni manneskju hafði ekkert með stöðu hennar í samfélaginu að gera. Hún byggði á innri sannfæringu og brennandi trúarhita. Þetta féll í kramið hjá Íslendingum.