Ó, Jesúbarn, þú kemur nú í nótt, og nálægð þína ég í hjarta finn. Þú kemur enn, þú kemur undra hljótt, í kotin jafnt og hallir fer þú inn.
Þú kemur enn til þjáðra, í heimi hér með huggun kærleiks þíns og æðsta von. Í gluggaleysið geisla inn þú ber, því guðdómsljóminn skín um mannsins son
Sem ljós og hlýja’ í hreysi dimmt og kalt þitt himneskt orð burt máir skugga’ og synd. Þín heilög návist helgar mannlegt allt, - í hverju barni sé ég þína mynd. (Sb. 1945 - J. J. Smári)
Þekkirðu einhverja nótt á árinu, eða á liðnum árum eða ævi þinni allri, sem hefur jafn sterk áhrif á þig og jólanóttin? Hún hefur sterk ítök í okkur vegna þess að hún snertir streng í hjartanu sem einungis himininn getur hrært, sem andi Guðs einn fær snortið. Jólanóttin og sú saga sem að baki henni býr er svo undursamleg að hún breytir tilverunni, gefur okkur nýja sýn á veruleikann, gefur nýja von, opnar augun fyrir lífinu hér á jörðu og heimkynnum okkar á himnum. Jólin tengja saman himinn og jörð, tengja þetta líf hér á jörðu sem svo oft er sem þyrnum stráð braut, leið þjáningar, harms og sorgar, tengir það við æðri heimkynni í himni Guðs. Jólasagan er ekki saga sem hefst með orðunum, „einu sinni var“ eins og ævintýra er háttur. Hún á sér uppruna í atburði sem gerðist í tíma og rúmi, í Betlehem í Júdeu, þegar Ágústínus var keisari í Róm og Kýrenesu var landstjóri á Sýrlandi. Samt er hún sem helgisögn er ber öll einkenni skáldskapar, svo undurfagur leyndardómur, sannleikur og þversögn í senn.
Börn eiga flest ekki í neinum vandræðum með að skilja jólasöguna. Og svo er ímyndunarafl þeirra lítt beislað og óþvingað. Þau komu svo hundruðum skipti hingað á aðventunni. Þau yngstu með nokkrum öðrum svip en þau eldri. Mörg þeirra horfðu á mig í skrúðanum og spurðu: Ertu presturinn? Og ég svaraði: Já! Eitt þeirra spurði: Ertu Guð? Og annað: Ertu kóngurinn? En við þeim spurningum báðum varð ég að segja: Nei! En ég er þó bróðir kóngsins, eins og við eru reyndar öll, systkin hans, sem er „lávarður heims“ og var lagður í hrjúfa jötu hin fyrstu jól, jötu sem var sama efnis og krossinn á Golgata. Jól og páskar geyma mikilvægustu fréttir allra tíma, mikilvægustu sögur veraldarsögunnar allrar. Undursamlegar sögur sem tengjast sögu okkar sjálfra. Við erum hluti hinnar miklu sögu Guðs og manna. Kristin trú byggir á sögu og frásögnum.
Til er texti sem ber yfirskriftina: Trúarjátningu sagnamannsins. Þar segir (The Sotrytellers’s Creed eftir Robert Fulghum):
Ég trúi því að skáldskapurinn skáki þekkingunni, að mýtan sé magnaðri en sagan, að draumar séu dýpri en staðreyndir, að vonin vinni sigur á reynslunni, að hláturinn sé heilun við sorginni, og ég trúi því að ástin sé öflugri en dauðinn.
Hér er slegið á strengi fyrirbrigða sem eru næstum óáþreifanleg, huglæg, andleg. Skáldskapur, helgisögn, draumur, von, hlátur, ást. Varla verður það í askana látið, kynni einhver að álykta. En þessi óefnislegu fyrirbrigði skipta þó öllu til viðurværis heilbrigðri sál. Og líkama líka! Því hvernig reiðir okkur af í hversdagslegum verkum daganna, í brauðstriti og basli, ef þetta vantar. Hvað verður til að mynda um okkur án vonarinnar, sem gefur sýn til hins andlega heims, til handanverunnar, til himinsins? Þrá mannsins eftir hinni horfnu Paradís, beinist fram á við, til framtíðar og upp til himinsins. Það sem einu sinn var og er horfið er til í víðáttum vonarinnar og innst inni í heilbrigðu hjarta þeirra sem trúa, vona og elska.
Og þess vegna erum við hér af því að hjartað er heilt og lítt laskað af heimsins villum og veirum, helgidómur hjartans sem stöðugt verður erfiðara að verja fyrir árásum illsku og hégóma heimsins, þar sem ofgnóttin ætlar allt að kæfa og yfirborðsmennskan ber sér á brjóst og telur sig vita allt.
Þá gerir Guð, öllum heimsins hégóma og ætluðum gáfum og yfirburðum, kinnroða með því að birtast í smæð og auðmýkt, í bjargarleysi barns, í himintæru sakleysi, sem er svo máttugt að hið voldugusta á veraldarvísu verður að gjalti þar sem það speglast í augum jólabarnsins, sem hafa alheiminn sjálfan og eilífðina alla bak sjáöldrum sínum.
Þetta undur tjáir Lúkas guðspjallamaður með frásögninni af fæðingu Frelsarans. Sama undur tjáir Jóhannes postuli með þremur orðum er hann segir: Orðið varð hold. Jólin boða að Guð gerðist maður, að barnið í jötunni er frumglæðir ljóssins, eins og Sveinbjörn Egilsson segir svo snilldarlega, frumglæðir. Bjargarlaust barnið í jötunni, er sjálfur skapari alheimsins, sá er tendraði hið fyrsta ljós. Hann er nú orðinn Ljós heimins.
Og þetta Ljós sem blikað hefur í augum barnanna sem fylltu kirkjur landsins aftur og aftur á aðventunni má nú helst ekki nefna á nafn í skólum landsins, ef „öfgatrúleysistrúin“ sem fyrrum forseti Alþingis nefndi svo, nær yfirhöndinni í þjóðfélaginu. Nei, það mun aldrei verða. Myrkrið megnar aldrei að kæfa hið sanna ljós. Sigur Ljóssins yfir myrkri heimsins, sigur Ljóssins, sem tendrað var í jötunni á aðfangadagskvöld og reynt var að deyða á krossi hinn langa frjádag, Ljóssins sem lýsir enn, Ljóssins sem sigrað hefur heiminn og illsku hans, sigur þess er kunngjörður í undri jóla og páska.
Mikil umræða hefur skapast í þjóðfélaginu um kristin grunngildi, kristið siðgæði og þátt kristinnar trúar í menningu okkar. Þar hafa sumir hátt og fara mikinn. En um leið hefur það gleðilega gerst að upp úr sverði menningar okkar rís fjölradda kór karla og kvenna sem styðja varðveislu hins kristna arfs. Mikill meirihluti þjóðarinnar vill að hér verði árfram þjóðfélag sem mótað er af kristnum sið. Enda þótt þessi sami meirihluti slíti ekki þröskuldum kirkna eða sætisáklæðum með tíðum heimsóknum, býr hinn kristni arfur og siðaboðskapur, í hjörtum þeirra.
Hvaðan kemur siðferði okkar?
Siðferðið síast líklega inn um iljar okkar af þeirri jörð og umhverfi sem við ferðumst um á lífsleiðinni. Og á steinlögðum strætum hins vestræna heims eru víst flestir steinanna af því bjargi sem Kristur hvatti okkur til að byggja líf okkar á. Þeir bara eru þarna og anda frá sér góðum gildum og fögrum. Steinarnir eru auðvitað „lifandi steinar“ eins og Pétur postuli orðaði það, fólkið, samferðarfólkið, sem mótar okkur á heimilum, í skólum og hvar sem við leggjum okkar leið. Við erum mótuð af kristnum sið, af hinni undurfögru jólasögu sem þessi nótt er helguð, nóttin sem Ljósið bjarta lýsir upp, Ljósið sem breytti heiminum, Ljósið sem kallar okkur til fylgdar við sig á sigurför gegn myrkri, böli og þjáningu. Guð blessi okkur öll í kvöld, blessi ástvini okkar nær og fjær, blessi minningar um þau sem horfin eru og voru okkur ljós og líf með kærleiksríku lífi sínu og vitnisburði. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól í Jesú nafni.
Mig huldi dimm og döpur nótt og dauðans broddur nísti, en þú mig fannst, og þýtt og hljótt af þínum degi lýsti. Ó, sól míns lífs, ég lofa þig, sem lífgar, frelsar, blessar mig með guðdómsgeislum þínum. (Sigurbjörn Einarsson, Bænabók KSbj. s. 158)
Gleðileg jól!
Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.