Lúther, María og bræðurnir

Lúther, María og bræðurnir

Marteinn Lúther talaði mál sem heyrendur hans skildu. Hann lagði sig fram um að tala þannig. Reyndar gerði hann það svo mjög að hann fór stundum óþarflega nálægt því orðafari sem talað er af götustrákum. En um leið var hann trúverðugri fyrir vikið.
fullname - andlitsmynd Kristján Valur Ingólfsson
16. apríl 2006
Flokkar

Fyrsta dag vikunnar kemur María Magdalena til grafarinnar svo snemma, að enn var myrkur, og sér steininn tekinn frá gröfinni. Hún hleypur því og kemur til Símonar Péturs og hins lærisveinsins, sem Jesús elskaði, og segir við þá: Þeir hafa tekið Drottin úr gröfinni, og vér vitum ekki, hvar þeir hafa lagt hann. Pétur fór þá út og hinn lærisveinninn, og þeir komu til grafarinnar. En María stóð úti fyrir gröfinni og grét. Grátandi laut hún inn í gröfina og sá tvo engla í hvítum klæðum sitja þar sem líkami Jesú hafði legið, annan til höfða og hinn til fóta. Þeir segja við hana: Kona, hví grætur þú? Hún svaraði: Þeir hafa tekið brott Drottin minn, og ég veit ekki, hvar þeir hafa lagt hann. Að svo mæltu snýr hún sér við og sér Jesú standa þar. En hún vissi ekki, að það var Jesús. Jesús segir við hana: Kona, hví grætur þú? Að hverjum leitar þú? Hún hélt, að hann væri grasgarðsvörðurinn, og sagði við hann: Herra, ef þú hefur borið hann burt, þá segðu mér, hvar þú hefur lagt hann, svo að ég geti sótt hann. Jesús segir við hana: María! Hún snýr sér að honum og segir á hebresku: Rabbúní! Rabbúní þýðir meistari. Jesús segir við hana: Snertu mig ekki! Ég er ekki enn stiginn upp til föður míns. En farðu til bræðra minna og seg þeim: Ég stíg upp til föður míns og föður yðar, til Guðs míns og Guðs yðar. María Magdalena kemur og boðar lærisveinunum: Ég hef séð Drottin. Og hún flutti þeim það, sem hann hafði sagt henni.
Náð sé með yður og friður, frá Guði Föður og Drottni Jesú Kristi.

Gleðilega páska. Gleðilega upprisuhátíð Drottins.

Kæri árrisuli söfnuður á Þingvöllum.

Þessar samræður, samtal Maríu við engilinn og síðan við Jesú sjálfan voru hugleiðingarefni Marteins Lúther á páskamorgni þegar hann hafði þjónað söfnuði sínum í tuttugu ár.*

Hugleiðingar hans höfðu sumpart sérstakan blæ vegna þess að hann átti allt eins von á að honum entist ekki aldur til að predika oftar á páskum. Enginn veit sína ævina fyrr en öll er segir máltækið. Líka þess vegna er gott að mega grípa til hugleiðinga hans. Það er sannarlega vel við hæfi að hann fái tækifæri til að predika hér á Þingvöllum svona snemma morguns, því að predikun hans er æfinlega fersk og hressandi eins og gola morgunsins. En lítil líkindi eru þó á því að hafi snjóað yfir Lúther á páskum eins og yfir okkur sem hér fyllum kirkjuna!

Marteinn Lúther talaði mál sem heyrendur hans skildu. Hann lagði sig fram um að tala þannig. Reyndar gerði hann það svo mjög að hann fór stundum óþarflega nálægt því orðafari sem talað er af götustrákum. En um leið var hann trúverðugri fyrir vikið.

Mærðarmolla og innantómt hjal á predikunarstóli var honum ekki aðeins framandi, heldur hreint eitur í beinum. Það var vegna þess að boðskapur heilagrar ritningar mótaði ekki aðeins viðhorf hans, heldur hafði gegnsýrt hann, eins og þegar súrdeigið er fullkomlega tilbúið fyrir baksturinn.

Predikanir Lúthers eru ekki aðgengilegar á íslensku, því miður, ekki einu sinni lengri tilvitnanir í þær, en koma má og þarf sumu af því sem hann hefur sagt til skila samt, af því að þær hafa sama erindi nú og þegar þær voru fluttar.

Sú páskapredikun sem hér er ætlunin að vitna til, er full af gleði yfir því sem gerst hefur af því að það snertir okkur beinlínis.

Það fyrsta sem Lúther bendir á í predikun sinni er hversu vingjarnlega og kunnuglega englarnir taka á móti konunum við gröfina. Það er eins og þeir séu hálfgert að stríða þeim, segir hann.

Þið eruð nú meiri kjánarnir að vera að gráta það sem er gleðilegt. Þannig tala þeir við þær eins og þeir séu gamlir leikfélagar þeirra allt frá bernsku, eða að þær væru strax komnar til þeirra inn í himininn. Og það er nú einmitt mergurinn málsins. Englarnir hafa þann boðskap að flytja okkur að við skulum venja okkur við þá hugsun að við sætum nú þegar í himnaríki og hittum þar fyrir bræður og systur og gætum átt þau að leikfélögum sem við hefðum alist upp mneð. Þannig skulum við venja okkur við tilhugsunina um upprisuna. Hún er ekki bara eitthvað sem bíður okkar heldur er hún þegar orðin í raun og veru því að höfuð kirkjunnar, Kristur sjálfur , er nú þegar stiginn upp, hann er orðinn herra yfir dauðanum og hefur sigrað dauðann. Hann hefur sjálfur sigrað dauðann fyrir okkur. Þess vegna ræða englarnir svona kumpánlega við konurnar og stríða Maríu, eins og þeir vildu segja: Elsku María, ert þú ekki félagi okkar á himnum, - það er fullkomnlega ástæðulaust að skæla. Það er ekki bara það að þú hefur alls ekki týnt meistara þínum heldur mátt þú gleðjast með okkur að eilífu því að hann er upprisinn.

Og svona er trúin, segir Lúther. Margir syngja um upprisuna og halda að þeir skilji hana, en hinn lifandi Drottinn Jesús ræður ekki för, heldur hinn gamli Adam. Og hafi Adam forgang þá ræður dauðinn og syndin enn ferðinni og þá er ekki neitt pláss fyrir Jesú Krist.

Sá sem trúir eins og englarnir og tekur tíðindin um upprisuna jafn alvarlega og þeir, að Jesús er hér mitt á meðal okkar en ekki nafn á spjöldum sögunnar, eða geymdur meðal hinna dauðu, hann yrði jafn glaður á þessum morgni og englarnir. Og ef við gleðjumst ekki eins og þeir þá er það til marks um það að trú okkar er veik.

En það eru ekki aðeins englarnir sem ræða við konurnar þennan morgun. Jesús kemur sjálfur til þeirra og sendir orð til lærisveinanna. Hann segir: Farið og segið bræðrum mínum. Lúther var svo nútímalegur í hugsun fyrir nærri fimm öldum, að hann sagði:

Að sjálfsögðu ber okkur að lesa hér bæði bræður og systur, þótt hér sé aðallega talað til lærisveinanna ellefu.

Og svo segir hann:

Kristur hafði áður talað um þá sem vini sína en nú þegar hann er upprisinn eru þau og við meira en vinir, hann er okkur bróðir. Gleðjist nú hver sem betur kann yfir því að Jesús er ekki risinn upp frá dauðum til þess að vera dómari okkar, heldur er hann sem fyrr var vinur okkar, orðinn bróðir og að hann sem áður elskaði okkur, elskar okkur nú enn meir en fyrr og segir: Sá sem hlýðir á yður hlýðir á mig, hver sem snertir yður snertir mig. Þannig talar hann til kristinna manna til þess að þeir séu styrkir í trúnni. Maríu kallar hann systur og lærisveinana bræður og við fylgjum þeim, við breyskar manneskjur og syndarar sem svíkjumst undan merkjum eins og Pétur. Því að himnaríki er þegar komið, upprisa Jesú Krists hefur átt sér stað - höfuðið er þegar komið gegnum dauðann og í trúnni á sálin þegar heima þar, aðeins líkaminn er enn bundinn við hið forgengilega líf. Allir kristnir menn eru upprisnir meir en til hálfs, því að Kristur og sálin með honum er þegar komin til himna, pokinn er eftir sem sálin er geymd í. Það er líkaminn. Líkaminn mun auðvitað líka rísa upp. Sálin er kjarninn er líkaminn hismið og það fylgir á eftir. Þess vegna skulum við fastlega trúa því að við séum upprisin með Kristi og verðum flutt með honum til himna af því að hann er bróðir okkar og við systur hans og bræður.

Við skulum því ekki aðeins gleðjast yfir því að þau sem fóru á undan okkur heim, eru hjá honum heldur að við sjálf skulum einnig vera með honum, upprisin frá dauðum.

Við. Söfnuður hans. Líkami hans á jörðu.

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi, er og verður um aldir alda. Amen.

* Predikun Luthers er í Weimarútgáfu verka hans: WA 41, 51-55.