Menn lyginnar

Menn lyginnar

Falsspámenn eru menn lyginnar. Orðið var hjá Guði, en lygin var ekki hjá Guði.

Fyrir nokkrum árum var upplýsingafulltrúa íslensks fyrirtækis sagt upp rétt áður en það var gjaldþrota. Af hverju? Vegna þess að hann vildi ekki ljúga um hag fyrirtækisins og því varð hann að taka pokann sinn. Manninum var sagt upp vegna þess að hann vildi segja satt! Hann var enginn Gosi.

Lygin laumast Í dag er komið að lyginni! Lyginni í samfélaginu, pólitíkinni, einkalífi og einnig trú. Alla liðna viku hefur presturinn hugsað um lygina! Á sama tíma hef ég heyrt margar sögur og sumar þeirra eru aðeins hálfur sannleikur. Ég hef talað um lygina við syni mína og puðað við að innræta þeim hvað er rétt og hvað rangt eins og við foreldrar reynum að gera. Á föstudaginn heyrði ég í búningsklefa sundlaugar sögu sem var 80% lygi. Ég þekki málavexti sögunnar og gat upplýst áhyggjufullan sögumann um að málið væri með allt öðru móti en hann hélt. En af hverju tala um lygina í kirkjunni? Jú, vegna þess að íhugunarefni texta dagsins beinir sjónum að falsspámönnum – og þeir eru menn lyginnar - Gosar. Lygin er alls staðar, hún laumar sér í samtöl og samskipti, spinnur vefi sína og flækir fólki, stofnunum og heilu þjóðunum í fjötra. Viljum við það?

Furstinn Ég hef oft furðað mig á klókindum fólks, hversu útsjónarsamt það er við að pota sér áfram, sjá atburði fyrir, flétta leikfléttur, gogga sig áfram og ná sínu fram með undirferli. Lygin er systir undirferlisins og blandar sér alltaf í laumugang lævísinnar og valdabaráttunnar. Machiavelli ráðlagði mönnum í því slæga riti Furstanum að beita aldrei valdi ef hægt væri að ná sama markmiði með svikum. Hann taldi að menn væru eigingjarnir, fégráðugir og grimmir. Mörg eru sammála og temja sér slægð og undirferli til að reyna að tryggja eigin hag og stöðu. Mörg telja það stjórnkænsku að segja aðeins hálfsannleik ef allur sannleikurinn er óþægilegur. Dæmin eru mörg úr gamalli og nýrri pólítík. Ef þörf er á þá beri að ljúga og hægt að réttlæta lygina með því að tilgangurinn helgi meðalið. Og ef tilgangurinn er einstaklingnum þarfur og hagkvæmur er hægt að nota margt og marga sem tæki í þágu markmiðsins. Það er þessi skelfilega mannsýn, þjóðfélagssýn og gervisiðfræði, sem hefur komið einstaklingum, hópum og þjóðum í mikil vandkvæði, magnað spillingu og valdið óréttlæti, hryllingi og stríðum. Við höfum síðustu áratugi eiginlega lifað Machiavellískan tíma en ættum að læra að bregðast við eigingjörnu fólki og gera upp við lygina. Grunnreglur, megindyggðir, eru nauðsyn heilbrigðs samfélags. Gott og farsælt mannlíf verður ekki byggt á lygi. Við eigum að láta af hálfsannleika, berjast gegn slægum mönnum og loddurum. Og við ættum að gjalda varhug við öllum sölumönnum glansveraldar, hvort sem þeir ætla að selja okkur vöru, pólitíska stefnu eða trú.

Tilraun sannleikann Heimsbyggðin hefur síðustu hundrað ár lifað einkennilegan tíma tilraunar með að teygja sannleika. Gerðar hafa verið hryllilegar tilraunir með eðli mannsins, eðli stjórnmála, eðli hins sanna, góða, fagra og gagnlega. Styrjaldir síðustu aldar voru hluti gjaldsins sem greiða varð fyrir mistök og rangan mannskilning. Ein síðasta tilraunin hefur varðað eðli hins sanna. Post-modernísk afstaða, sem litað hefur margt í menningu vesturlanda síðustu ár, hefur kennt að sannleikurinn væri brotkenndur og afstæður. Ekki væri til neitt sem væri algilt og því væru forsendur skilnings og lífs fremur að leita í einstaklingum og upplifunum þeirra en því sem væri handan tímans og sammannlegt. Þessi afstaða hefur síðan komið fram í neysluhyggju og sjálfshyggju, hve fólk er upptekið af eigin þörfum, upplifunum og algildi eigin langana. Í þessari brotkenndu afstöðu til veraldar, sjálfs og sannleika hefur orðið hliðrun í veruleikaafstöðu fólks miðað við það sem áður var kennt. Það eitt hefur orðið mikilvægt sem “mér” þóknast. Sannleikurinn, dyggðir og gildi hafa því mátt liggja í þagnargildi og verið hunsuð. Þetta má greina í þöggun í pólitík, í menningarmálum og bisniss.

Sannleikans megin Carlo Collodi bjó til barnasöguna um Gosa. Nefið á honum lengdist þegar hann sagði ósatt. Börnin skilja vel að maður ummyndast þegar logið er. Þegar lygin kemst inn ummyndar hún menn. Erum við gjörn til lygi? Tökum við þátt í henni, vafasömum söguburði, slefum við með í rökkursögum, sem ekki þola ljós sannleikans? Ertu Gosi?

Í upphafi var orðið og orðið var hjá Guði, segir í fyrsta versi Jóhannesarguðspjalls. Þetta er jafnan lesið á jólum í kirkjum landsins, boðskapurinn um birtuna og lífið sem kemur inn í heiminn og til góðs. Þar segir ekki að lygin hafi verið hjá Guði, heldur orðið. Og orð Guðs er samkvæmt hugsun Biblíunnar lind, uppspretta, allrar ræðu heims, allra orða manna. En það er okkar að nota þessa lind lífsins til góðs og bera ávexti í lífinu. Orð Guðs vökvar líf heimsins, leggur visku í brjóst manna og orð elskunnar á varir. Í trú kristins manns er fólgið að reyna að nema hið guðlega í veröldinni og iðka sannleika í orði og verki. Hvernig vill Guð að við tölum? Hvernig vill Guð að við ræðum um náunga okkar og við hegðum okkur í veröldinni?

Hið jákvæða og rétta Það er lærdómsríkt að skoða hvernig Jesús brást við fólki og lífsmálum. Hann faldi aldrei sannleikann, dró aldrei undan og sagði satt. Því var hann elskaður af þeim sem þekktu hann sem sannleikurinn sjálfur. Í samskiptum við fólk hafði Jesús alltaf gagnsemi fólks í huga, fegurð þess, frelsi og reisn. Erindi Jesú var ekki að banna heldur opna. Erindi Jesú var ekki að benda á hið neikvæða, heldur beindi hann alltaf sjónum að hinu mikilvæga, því sem er forsenda, ástæða, samhengi og markmið lífsins og Guðs. Og Jesús minnir á að sum þeirra sem þykjast vera hans vinir, boðberar og málsvarar eru svikarar. Spyrjið um gæði og árangur er ráð Jesú.

Verslunin Silli og Valdi notaði slagorðið úr fjallræðunni og texta dagsins: Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá. Og Jesús var ekki að tala um epli, appelsínur, krækiber og bláber – heldur um tengslin við Guð, ástina til Guðs, kærleika til manna og trúmennsku til gilda. Þar greinir á milli þeirra sem segja satt og lygaranna. Falsspámenn eru öll þau sem smækka sannleikann og brengla veröldina. Og þegar dýpst er skoðað búa falsspámenn í okkur öllum.

Traust krefst sannleika Hvernig líður þér með þeim sem segja satt? Líður þér ekki betur, ertu ekki öruggari og heilli þegar þú ert innan um fólk sem þú þekkir að segir satt? Skapast ekki traust þegar þú veist að allt er heilt og þú ert ekki leiksoppur eða fólk reynir að nota þig? Getur traust lifað þar sem lygin dafnar? Nei, aðeins þar sem sannleikurinn ríkir, heilindin. Gosa nei takk. Af ávöxtunum skuluð þér þekkja þá – þekkja mig og þig.

Amen

Neskirkja 10. ágúst, 2014

Textaröð: A

Lexía: Jer 23.16-18, 20-21 Svo segir Drottinn hersveitanna: Hlustið ekki á orð spámannanna. Þeir flytja yður boðskap en þeir blekkja yður, þeir flytja uppspunnar sýnir og ekki af vörum Drottins. Þeir segja sífellt við þá sem fyrirlíta orð Drottins: „Þér hljótið heill.“ Og við hvern sem fylgir þverúð eigin hugar segja þeir: „Engin ógæfa kemur yfir yður.“ En hver hefur staðið í ráði Drottins, séð hann og heyrt orð hans? Hver hefur hlýtt á orð hans og boðað það?

Reiði Drottins slotar ekki fyrr en hann hefur framkvæmt og fullkomnað fyrirætlanir hjarta síns. Síðar meir munuð þér skilja það. Ég sendi ekki þessa spámenn, samt hlaupa þeir, ég talaði ekki til þeirra, samt spá þeir.

Pistill: Róm 8.12-17 Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa. Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn. Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists því að við líðum með honum til þess að við verðum einnig vegsamleg með honum.

Guðspjall: Matt 7.15-23 Varist falsspámenn. Þeir koma til yðar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Af ávöxtum þeirra skuluð þér þekkja þá. Hvort lesa menn vínber af þyrnum eða fíkjur af þistlum? Þannig ber sérhvert gott tré góða ávöxtu en slæmt tré vonda. Gott tré getur ekki borið vonda ávöxtu, ekki heldur slæmt tré góða ávöxtu. Hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og því í eld kastað. Af ávöxtum þeirra skuluð þér því þekkja þá. Ekki mun hver sá sem segir við mig: Drottinn, Drottinn, ganga inn í himnaríki heldur sá einn er gerir vilja föður míns sem er á himnum. Margir munu segja við mig á þeim degi: Drottinn, Drottinn, höfum vér ekki í þínu nafni flutt orð Guðs, rekið út illa anda og gert mörg kraftaverk? Þá mun ég votta þetta: Aldrei þekkti ég yður. Farið frá mér, illgjörðamenn.