Í dag er haldinn hátíðlegur um víða veröld alþjóðlegur baráttudagur kvenna, eins og gert hefur verið í rúma öld. Mikið hefur áunnist í réttindamálum kvenna frá upphafi 20. aldar. Hér á landi hefur mikið breyst hvað varðar aðkomu kvenna að menntun og opinberum störfum, sem ekki síst má rekja til laganna sem tóku gildi árið 1911 og gáfu konum sama rétt og karlar höfðu til menntunar og próftöku, jafnan aðgang að styrkjum og heimild til að gegna opinberum embættum. Það var langur aðdragandi að þessum nýju lögum og margir sem lögðu lóð á vogarskálina til þess að þau yrðu að veruleika.
Kirkjunnar þjónar voru á meðal þeirra sem töluðu fyrir bættum réttindum kvenna um aldamótin 1900. Einn þeirra var sr. Ólafur Ólafsson prestur í Fríkirkjunni í Reykjavík sem árið 1891 hélt opinberan fyrirlestur í Reykjavík um stöðu kvenna sem síðar var gefinn út undir fyrirsögninni „Olnbogabarnið.“ Í fyrirlestrinum lýsti Ólafur þeirri skoðun sinni að stúlkubörn jafnt og fullorðnar konur hefðu stöðu olnbogabarns í íslensku samfélagi, sem væri alls ekki boðleg konum, hvorki sem samfélagsþegnum né börnum Guðs. Þessi sami prestur sat síðar á Alþingi og átti þátt í að flytja fyrsta frumvarpið um aukin réttindi kvenna sem naut ekki stuðnings meirihluta Alþingismanna.
Það eru enn fjölmargar ástæður fyrir því að halda alþjóðlegan baráttudag kvenna. Þó að staða íslenskra kvenna hafi batnað mjög mikið á síðustu hundrað árum, þá er víða pottur brotinn. Við erum líka hluti af stærri heild og alþjóðlegur baráttudagur kvenna minnir okkur einmitt á þá staðreynd að konur um víða veröld búa við kjör sem hvorki eru mannsæmandi kjör né í samræmi við það kjarnaatriði kristinnar trúar að konur eins og karlar séu börn Guðs, skapaðar í mynd Guðs. Það er því ábyrgð okkar allra sem játum kristna trú að beita okkur fyrir bættum kjörum kvenna og gegn ofbeldi og kúgun kvenna, nær og fjær.