Skoðanakönnunin

Skoðanakönnunin

Hefurðu lent í úrtaki nýlega? Tekurðu þátt í skoðanakönunum? Nú er í tísku að spyrja fólk spurninga. Skoðanakannanir eru gerðar með reglubundnum hætti nú fyrir kosningar og þegar þessari messu lýkur verður gerð skoðanakönnum á meðal ykkar.

Hefurðu lent í úrtaki nýlega? Tekurðu þátt í skoðanakönunum?

Nú er í tísku að spyrja fólk spurninga. Skoðanakannanir eru gerðar með reglubundnum hætti nú fyrir kosningar og þegar þessari messu lýkur verður gerð skoðanakönnum á meðal ykkar.

Hún snýst reyndar ekki um pólitík heldur afstöðuna til almenns kirkjusöngs og fleiri atriða sem varða messuna. Nína Björk Vilhelmsdóttir, djáknanemi gerir könnunina vegna náms síns í HÍ undir leiðsögn dr. Péturs Péturssonar sem afhendir spurningarblöðin við kirkjudyr að messu lokinni. Ég hvet ykkur til þátttöku.

Mikilvægar spurningar

En í dag verður önnu skoðanakönnun í gangi, mikivægasta könnun allra tíma. Í guðspjalli dagsins er greint frá skoðanakönnun. Og þessi sama könnun sem gerð var í Palestínu fyrir tvö þúsund árum er enn í vinnslu. Og nú hefur þú lent í úrtaki.

Pétur í úrtaki Enda þótt páskarnir væru afstaðnir var hugur Péturs enn bundinn í dymbilviku. Hann var enn staddur föstudagsins-langa-megin við krossinn. Draumur hans var búinn og vonir brostnar, draumurinn sem hófst í bátnum forðum daga þegar Jesús kallaði hann til fylgdar við sig. Nú voru dagarnir hans góðu og viðburðarríku að baki og best fyrir hann að snúa sér aftur að því sem hann kunni best. Hann var farinn aftur um borð og byrjaður að veiða eins og forðum. Já, þetta var allt liðið eins og ótrúlegt ævintýri, en svo gerðist undrið aftur. Pétri er sagt að maðurinn á ströndinni sé Drottinn. Og hann kastar sér til sunds og öslar í land. Og vit menn: Þar stendur Jesús Kristur upprisinn og býður þeim til veislu, grillveislu á ströndinni. Og allt varð sem fyrr. Veislur, gleði, samræður, lífsspeki, draumar og væntingar um betri framtíð, nýtt líf og nýja tíma með algjörlega nýjum viðmiðum. En fyrst þarf uppgjörið að fara fram. Þrisvar spyr Jesús Pétur hvort hann elski sig. Og í hvert sinn svarar Pétur og játast hinum upprisna. Þreföld svikin eru gerð upp með þrefaldri játningu við spurningum hans sem elskar alla menn, allt líf og elskaði heiminn svo takmarkalaust að hann lét lifið fyrir hann. Og þessi guðspjallstexti um spurningarnar þrjár er lesinn við útför páfa sem líta á sig sem arftaka Péturs. Textinn var lesinn yfir Jóhannesi Páli II sem jarðsunginn var 8. apríl 2005.

Elskar þú mig? Í söngleiknum, Fiðlaranum á þakinu, fýsir Tevje að vita hvort Golda elski hann.

Tevje: „Golda, ég hef ákveðið að gefa Perchik leyfi til að trúlofast dóttur okkar, henni Hodel.“

Golda: „Hvað ertu að segja maður!? Hann er fátækur! Hann á ekki neitt, ekki túskylding með gati!“

Tevje: „Hann er góður maður, Golda. Mér líkar vel við hann. Og það sem meira máli skiptir, Hodel er hrifin af honum. Hodel elskar hann. Og hvað getum við þá gert? Tímarnir eru breyttir . . . þetta er nýr heimur. Ást. Golda . . . Elskarðu mig?“

Golda: „Geri ég hvað?“

Tevje: „Elskarðu mig?“

Golda: „Elska ég þig? Dætur okkar eru að giftast og allt í uppnámi í bænum. Þú ert æstur og útkeyrður. Farðu inn og leggðu þig. Kannski er þetta meltingunni að kenna.“

Tevje: „Golda, ég var að spyrja þig . . . Elskarðu mig?“

Golda: „Þú ert bjáni.“

Tevje: „Ég veit það . . . en elskarðu mig?“

Golda: „Elska ég þig? Í tuttuguogfimm ár hef ég þvegið af þér larfana, eldað ofan í þig, þrifið húsið þitt, alið þér börn, mjólkað kúna. Eftir tuttuguogfimm ár! Til hvers að tala um ást einmitt núna?“

Tevje: „Golda, þegar ég sá þig í fyrsta sinn á brúðkaupsdaginn var ég hræddur.“

Golda: „Og ég var feimin.“

Tevje: „Ég var á allur á taugum.“

Golda: „Ég líka.“

Tevje: „En mamma og pabbi sögðu að við mundum læra að elska hvort annað. Og nú spyr ég þig, Golda, elskarðu mig?“

Golda: „Ég er konan þín.“

Tevje: „Ég veit það . . . En elskarðu mig?“

Golda: „Elska ég hann? Í tuttuguogfimm ár hef ég búið með honum, barist við hann, soltið með honum. Í tuttuguogfimm ár hefur rúmið mitt verið hans. Ef þetta er ekki ást, hvað er þetta þá?“

Tevje: „Þú elskar mig þá?“

Golda: „Ætli það ekki.“

Bæði: „Kannski skiptir það engu máli en samt sem áður – eftir tuttuguogfimm ár – er gott að vita það!“

Tevje var í mun að vita um og fá að heyra að Golda elskaði hann. Við erum sama eðlis, sama eðlis og Guð í þeim efnum. Hann vill heyra það.

Hvernig tjáum við ást okkar á annarri manneskju? Hvernig tjáum við væntumþykju til samferðafólks okkar? Hvernig og hvar birtist ást okkar til Guðs? Hvenær og hvar spyr Guð þig um elskuna til sín?

Þrjár spurningar - þá - nú - ætíð

Guð spurði þig fyrstu spurningarinnar við skírnina og þá svöruðu foreldrar þínir fyrir þig og sögðu: Ég trúi á Guð föðu, son og heilagan anda. Þau fóru með Postullega trúarjátningu og lofuðu að ala þig upp í kristinni trú.

Guð spurði þig annarrar spurningarinnar í fermingunni: Viltu leitast við af fremsta megni að hafa Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns? Og þú sagðir: Já. Og presturinn flutti þér fyrirheit úr heilögu orði og sagði: Vertu trú/r allt til dauða og Guð mun gefa þér lífsins kórónu. Og nú veist þú einn og Guð þinn um efndirnar.

Og svo mun Guð spyrja þriðju spurningarinnar, hinnar hinstu, þegar þú kveður þetta líf: Elskar þú mig?

Hvernig verða svör okkar við þessum þremur spurningum? Og eru þetta einu skiptin sem Guð ónáðar okkur með spurningum um elskuna?

Nei, hann spyr í raun við hverja ákvörðun sem við tökum í lífinu, í daglegu lífi. Hann spyr í hvert sinn sem við stöndum frammi fyrir siðferðilegri ákvörðun; í hvert sinn sem fátæk manneskja verður á vegi okkar; í hvert sinn sem sjúkur þjáist; í hvert sinn sem við tökum afstöðu til náungans; í hvert sinn sem við veljum vöru í verslun; í hvert sinn er við ræsum bílinn sem mengar; í hvert sinn sem við kjósum um náttúruvernd eða nýtingu; í hvert sinn er við kjósum í kosningum til Alþingis eða sveitastjórna. Allt lífið snýst um það hvort við elskum Guð eða ekki og veljum það sem eflir lífið í veröld Guðs. Og í þeim efnum erum við því miður öll breysk og brotleg, eins og Pétur, sem var þó fyrirmynd bæði páfa og pöpuls. Leiðtogi kirkjunnar var gallagripur, fljótfær og hvatvís, maður sem hafði uppi stór orð, en stóðst ekki efndirnar, marklaus maður sem varhugavert var að teysta. En Jesú valdi hann. Djúp elska hans sá í gegnum hann og sýknaði hann, löngu áður en Pétur hafi afneitað Drottni og enn löngu fyrr en hann fékk tækifæri til að játast honum á ný. Guð lítur okkur þessum sömu augum elsku og sýknu. Í mannlegu samfélagi er nauðsynlegt að fella dóma og til sektar eða sýknu. Réttarríkið krefst þess. En í ríki Guðs er miskunnin að verki, eilíf elska sem sér í gegnum allt mannlegt líf og skilur allt til hlítar. Guð veit allt. Hann horfir til okkar alsjáandi augum, veit allt, þekkir allt, man allt. Samt elskar hann okkur og gefur okkur enn tækifæri til að tjá hug okkar til sín og svara skoðanakönnun hins daglega lífs. Elskarðu mig, spurði Tevje. Elskarðu mig, spyr hinn fátæki, þjáði, deyjandi. Elskarðu mig, spyr Guð lífs og heims þegar við tökum ákvarðanir sem varða lífið og heiminn. Og í allri slíkri spurn er Guð að spyrja: Elskarðu mig? Pétur svaraði í þrígang og hann stóð við þau svör. Í orðum Jesú til hans koma fram vísanir til dauða Péturs sem að lokum breiddi út hendur sínar á krossins tré eins og Frelsarinn en var hins vegar krossfestur á hvolfi. Listamaðurinn stórkostlegi, Caravaggio, túlkar krossfestingu Péturs á sinn magnaða hátt og má finna mynd hans í listaverkabókum. En hvað sem því líður þá var Pétur trúr allt til dauða. Sú köllun snýr nú að okkur í hvert sinn sem Drottinn spyr mig og þig: Elskar þú mig?

Að svara rétt! Guð gefi að við öll og heimsbyggðin beri gæfu til að svara þessari mikilvægustu skoðanakönnun allra tíma með þessum orðum: Já, þú veist að ég elska þig. Ef þetta svar veður ofan á verður gott að lifa í heimi Guðs, heimi elsku, réttlætis og friðar. „Því svo elskaði Guð heiminn, að hann gaf son sinn eingetinn, til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf.“ (Jóh 3.16)

Dýrð sé Guði, föður og syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er enn og verður um aldir aldar. Amen.