“Er ekki meira? Eru ekki fleiri pakkar?” spyrja börnin, þegar þau eru búin að rífa upp þann síðasta? Þau vilja framhald. Við erum búin að njóta alls þess, sem aðfangadagur ber í skauti sér, samfélag fjölskyldunnar, góðan mat, vaða pappírshrúgurnar og þar, sem börnin eru, búin að upplifa hávaðasama gleði. Það er hollt og gott að kyrra huga eftir gleðskapinn. Kirkjuganga á jólanótt kemur næst á eftir að vera með hirðunum á völlunum til forna!
Þið þekkið framhaldið
Aftansöngur jóla í íslenskri kirkju var hafinn. Presturinn hafði gleymt að gá að hvort Biblían væri á altarinu. Svo var komið að lestri jólaguðspjallsins. Prestur ætlaði að seilast í Ritninguna og fletta upp í guðspjalli Lúkasar. En engin Biblía var við hendi! Hvað átti presturinn að gera? Hann gæti hlaupið fram í skrúðhús eða skrifstofu til að ná í Ritninguna. Nei, hann ákvað að fara stystu leið, treysta minni sínu og mæla fram jólaguðspjallið bókar- eða Biblíulaust. Síðan byrjaði hann á: “En það bar til um þessar mundir...” og síðan kom hin stórpólitíska umgjörð fæðingarfrásögunnar um stjórnvaldsákvörðun keisarans, að manntal skyldi gert og allir skyldu skráðir.
Flutningurinn gekk ágætlega hjá klerki, guðspjallið hljómaði, kvíslaðist um kirkjuskipið og leið inn í hlustir fólksins. Jólakenndin, helgi jólanna, byrjaði að fylla vitund fólks og móta tilfinningar safnaðarins. En þá varð allt í einu stopp. Minni prestsins brast, presturinn endurtók setninguna“...vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi... af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.”
Það var sem framhaldið hefði horfið. Andartaksþögn, eins og til að auka hina dramatísku spennu. Þá kom þessi ótrúlega viðbót eða niðurstaða, sem svo sannarlega er ekki í Biblíunni. Presturinn sagði ákveðið: “Þið þekkið framhaldið!” Svo hélt aftansöngur jóla áfram og framhaldið hvert var það? Hver þekkti það? Hvað er framhald á hálfnuðu jólaguðspjalli?
Bernskujól – jólaarfur hins fullorðna
Hvað skapar jólin? Hvað skiptir okkur mestu máli varðandi hátíðahaldið? Þegar við upplifum jól, sem eru öðru vísi en venjulega, erum ekki heima eða okkur er kippt úr fari eða spori getum við betur greint hin dýpri sannindi. Ég hef upplifað jól fjarri ástvinum og heimaranni. Jólin komu, en þau voru tilfinningalega hjárænuleg. Ég gerði mér þá betur grein fyrir hvað væri mikilvægast við jólahaldið.
Bernskujólin stýra hvernig við viljum upplifa jól og hvaða vonir við bindum við hátíða. Það er íhugunar virði, að sex eða sjö fyrstu jól ævinnar móta jólalíðan og jólastemmingu allra jóla eftir það. Það, sem við hrifumst af og það sem gladdi, steypist saman í tilfinninga- og væntingaknippi, sem við viljum gjarnan fá að upplifa. Úr fyrstu jólunum erum við að moða allt lífið.
Við erum kannski ekki bundin af matseðli bernskunnar, en einhvers staðar er nú mömmumaturinn, sem kryddar matarvon hins fullorðna. Og með öfugum formerkjum getur kvíði eða skelfing bernskujóla skotið skuggakrumlum sínum yfir öll ævijólin, þótt ekkert tilefni sé annað en að jólin nálgast og ganga í garð. Það skiptir því líka máli, að tryggja börnum góð jól, því þaðan í frá er líðan fyrir lífið. Það skiptir máli, að veita fólki jólagleði því þaðan verður framhaldið spunnið. Bernskumótun - þið þekkið framhaldið.
Heilagleikinn
Fæðingarsagan er merkileg og allir geta fundið eitthvað fyrir sig. Þetta er frumsaga, sem vísar á og túlkar líf manna, þrá fólks á öllum öldum, leit að lífsfyllingu, friði, sátt náttúru og mannheims og greiðum samskiptum himins og jarðar.
Guðspjallssagan er eins og lykill, sem opnar skrána að heilögu rými, sem við þorum stundum að kíkja inn í á jólum. Við njótum jóla, gleðjumst yfir dýrmætum og veislunum. En ég held, að dýpst risti í okkur þráin að fá að nálgast eitthvað stórkostlegt, upplifa undur lífsins. Og það getum við nefnt hið heilaga.
Hvaða hugmyndir sem við höfum um Guð og trúarefni eigum við samt öll hið innra löngun til veruleika, sem bernska og sakleysi jóla og boðskapar þeirrar tíðar ber til okkar. Jólatákn sakleysis, friðar, bernsku og ljóss vísa til dýpta, speki og gilda, sem okkur og veröld er nauðsyn til lífs. Við nemum þau eða finnum til þeirra, þegar við leyfum okkur að vera börn hið innra, störum saklaus í ljósin, horfum með hrifningu í augu ungbarnanna, vitjum drauma okkar, sem við höfum lært að kæfa, þjappa niður með raunsæi, eða látið umhverfi þrengja okkur til að pakka inn. Jólin eru tími gjafa, en stærsta gjöfin sem við getum öðlast og opnað er lífsundrið, að tilveran er ekki leiksoppur myrkra afla og tilvera til endanlegs dauða, heldur þvert á móti að nóttin er rofin barnsgráti Guðsbarnsins, sem er ljóssveinn og merkingarvaki allrar veraldar. Þú mátt taka upp pakkann og munt uppgötva að alla tíð var það, sem persónudjúp þitt þráði. Hvað er þér heilagt, hver er dýpsta gleði þín? Þekkirðu það framhald?
Framhaldið
Jólaguðspjallið endar í söng, sem er endurtekinn í öllum messum, sungin í kirkjulegum kórverkum og dýrðarsöngvum, sem börnin læra, fullorðnir kunna ýmislegt í og kannast við. Við sungum þennan söng áðan: Gloria in exelsis Deo:
“Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.”
Það er gott framhald guðspjallsins. Söngurinn var ekki aðeins fyrir engla og ætlaður hirðum. Hann er söngur veraldar og himins. Það er söngur eilífðar, sem er sungin á jólunum. Söngur fyrir mig og þig.
Jólanóttin er framundan. Hvað verður framhald þitt í lífinu, hvernig var bernska, jólin þín hingað til? Nú er þitt að túlka framhald guðspjallsins. Guð kemur, kemur alla leið, inn í þitt líf. Guð vill stöðugt fæðast að nýju í þér, brosa við þér og vaxa í þér.
Út í Melabúð var um daginn verið að ræða um jólin. Einn viðskiptavinurinn sagði stundarhátt svo til heyrðist: “Ja, ég er nú ekkert jólabarn.” Þetta var sagt eins og með eftirsjá. En hvað merkir að vera jólabarn? Það er að opna sál og líf, leyfa helginni að hríslast hið innra og leyfa unaðssöngnum að hljóma.
“Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu...”
Það er helgisöngur jóla. Það er framhald guðspjallsins, framhald jóla, framhald lífsins.
Amen.
Flutt í Neskirkju á jólanótt 2006.
Lexía Mika 5.1-3
Og þú, Betlehem Efrata, þótt þú sért einna minnst af héraðsborgunum í Júda, þá skal þó frá þér koma sá, er vera skal drottnari í Ísrael, og ætterni hans vera frá umliðinni öld, frá fortíðar dögum. Fyrir því mun Guð yfirgefa þá til þess tíma, er sú hefir fætt, er fæða skal, en þá munu leifar ættbræðra hans hverfa aftur til Ísraelsmanna.
Pistill Tít.2.11-14
Því að náð Guðs hefur opinberast til sáluhjálpar öllum mönnum.Hún kennir oss að afneita óguðleik og veraldlegum girndum og lifa hóglátlega, réttvíslega og guðrækilega í heimi þessum,í eftirvæntingu vorrar sælu vonar, að hinn mikli Guð og frelsari vor Jesús Kristur opinberist í dýrð sinni.Hann gaf sjálfan sig fyrir oss, til þess að hann leysti oss frá öllu ranglæti og hreinsaði sjálfum sér til handa eignarlýð, kostgæfinn til góðra verka.
Guðspjall Lk.2.1-14
En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina. Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi. Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar. Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs, að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð. En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi. En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar. Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir, en engillinn sagði við þá: Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum: Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs. Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu. Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:
Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.