Hugir okkar og bænir eru með fólkinu Haití „Guð, þú sem gafst mér lífið. Hvers vegna þjáumst við? ” Þetta eru orð sálms sem fólkið söng á St.Pierre torgi í Port-au-Prince eftir jarðskjálftann sem lagði borgina í rúst. Haiti er fjarlægt land en neyðaróp og söngur íbúanna hefur náð eyrum okkar og snortið okkur öll.
Við búum líka í landi sem náttúruöflin hafa iðulega leikið grátt. Gott er að vita af Íslendingum við björgunarstörf á Haití og að þjóðin hefur brugðist vel við hjálparbeiðnum hjálparstofnana. Ljóst er að mikið verk er að vinna, tugþúsundir látnir, hundruð þúsunda særðir, og stór hluti íbúa þessa örsnauða og hrjáða lands hefur misst heimili og ástvini og líða skelfilegar þjáningar. Eyðileggingin er ótrúleg, neyðin ólýsanleg, skelfingin meiri en orð fá lýst. Hugur okkar og bænir eru með íbúum Haiti. Gleymum þeim ekki!
Sagt var frá því að fólkið hafi safnast saman og sungið sálma. Einatt er það svo. Andspænis ofurefli náttúruaflanna og ólýsanlegum hörmungum hamfaranna lagði fólkið sig á vald því afli sem æðst er í bæn og söng.
Þar á meðal í sálmi þar sem eru þessar hendingar: „Guð, þú sem gafst mér lífið. Hvers vegna þjáumst við? ” Þær raunaspurningar sem hörmungarnar lyfta fram fá einungis svör í gráti og söng og viðbrögðum umhyggjunnar, kærleikans. Því mitt í hörmungunum, harmi og sorg er Guð. Hinn krossfesti og upprisni líður með þeim sem þjást, áhrif líknar og vonar, umhyggju og kærleika vitnar um upprisusigur hans.
Viðbrögð þín við neyðinni eru þáttur í sögu hans sem er að verki í okkar fallna, hrunda heimi, til að lækna og frelsa. Guð blessi og huggi alla sem harma, hann styðji þau sem hjálpa og styðja, leiði og blessi þig.