Vinur minn kom í gættina fyrir nokkrum dögum, brosti kannkvís og tilkynnti að hann vildi gefa okkur hjónum bók sem hann hefði skrifað. Ég tók við ljómandi fallegu riti og gladdist því maðurinn er með best skrifandi mönnum. Ég gladdist að hann hefði samið nýja bók. Hann tók fram að bókin væri ekki seld á almennum markaði enda væri hún gefin út í aðeins hundrað tölusettum eintökum. Í ljósi þess að ég væri einn af útvöldum þakkaði ég enn og aftur fyrir bók nr. 50.
Prestinum þótti tiltillinn áhugaverður - Á allra sálna messu. Ég hreiðraði um mig í lestrarstólnum og fór að lesa. Í formála skýrði höfundurinn að hann hefði notað tímamótaviðburð í lífi sínu til að staldra við og hugsa um fólkið sem hefði skipt hann miklu máli í lífinu. Þetta er fólk bernsku hans, vinir, velgerðarmenn, ættingjar sem höfðu litið við honum og svo aðrir sem voru svo eftirminnileg að þau mörkuðu spor í sálina. Þetta var sem sé safn minninga um karla og konur sem höfundi þótti vænt um, fólk sem var látið en naut elsku þessa vel skrifandi vinar. Á allra sálna messu fyllti mig gleði. Bókin er þrungin virðingu og húmor gagnvart fólki, sem sumt var þó margbrotið og erfitt. Í henni er lotning sem gerði mér gott og magnaði eigið þakklæti. Líf okkar hefur orðið vegna annarra. Við stöndum í þökk og líf okkar er betra þegar við getum þakkað það sem við höfum notið. Á allra heilagra messu megum við hugsa um sálir þeirra sem eru farin inn í himinin, þakka gjafir þeirra og messa í lotningu til Guðs og í þökk og bæn. Allra heilagra messa beinir hugum til himins og til þeirra sem hafa farið yfir þröskuld tímans.
Líf á himni - líf í heimi Guðspjallstextinn er – undarlegt nokk - ekki um eilífa lífið heldur um lífið hér og nú. Við lifum í tíma og hverju nýju núi en við megum og eigum að lifa - og vera líka í ljósi eilífðar.
Jesús sagði: Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? … Þér eruð ljós heimsins. Salt og ljós – boðskapur á allra heilagra messu. Textinn er úr frægustu ræðu heimsins, Fjallræðunni í Matteusarguðspjalli, strax á eftir hinum frægu sæluboðum. Hvað gerir maður þegar saltið dofnar? Það er nú reynsla okkar að salt dofnar ekki svo spurningin vaknar: Við hvað er átt? Á Dauðahafssvæðinu var og er mikið af salti. Í ofurhitanum gufar vatn upp og eftir sitja alls konar efni í bland við saltið, m.a. natrón, sem við notum til bökunar. Natrón blandaðist saltinu og saltið varð bragð- og magnlítið. En Jesús vissi að saltdeyfa var vond fyrir matargerðina. Þér eruð salt - er því ræða, sem varðar hvort fólk er dofið eða kraftmikið.
Hvað er málið? Jesús bætir við: Þér eruð ljós - og minnir á að ljós á að nota til lýsingar. Borg eða bær uppi á fjalli sést vel, minnir hann líka á og vísar þar með í heimsmál þeirrar tíðar, sem eru áþekk samtíðinni. Hvar miðja heimsins er skapar aðalviðfangsefni heimsmála hverrar tíðar. Svo var einnig á tímum Jesú. Þjóðernissinnarnir í Gyðingalandi voru vissir um að fjallið Zíon og þar með Jerúsalem væri miðjan - þaðan ætti ljósið að berast. Rómverjarnir vissu um mátt Rómar og Cicero talaði um þá stórborg og heimsmiðju sem ljós þjóðanna.
Orðfæri Jesú er því alveg í samræmi við talsmáta tímans og hann talar því inní pólítík samtíðarinnar, en snýr uppá og talar beint og skýrt. Það eru ekki fjöll eða borgir sem eru í miðjunni heldur eitthvað annað. Við eigum að lýsa til að heimurinn sjái, að lærisveinar Jesú lifa með krafti og fólk snúi sér að því að vegsama Guð. Það er Guð, sem er miðjan, en ekki menn, borgir eða mannaverk.
Þar með er tilgangur ræðunnar ljós - stefnan, sem Jesús markar Guðsríkinu. Fyrirtæki, félög og stofnanir semja og samþykkja stefnu fyrir starf sitt á hverri tíð. Jesús markar hér stefnu fyrir lærisveina sína, kirkju sína. Tilgangur lífs manna er að lifa vel, hafa alls staðar áhrif til góðs og að mannlíf tengist Guði. Kristnir menn eru borgarar tíma en líka eilífðar.
Hrekkjavaka Á enskunni var talað um holy eve eða heilagt kvöld, sem síðan breyttist í halloween og hrekkjavöku í ýmsum enskumælandi löndum. Upprunalega var þetta aðfangakvöld allra sálna messu. Undir bandarískum áhrifum bregða krakkarnir yfir sig skikkjum, ganga um eins og safna nammi undir slagorðinu trick or treat – happ eða hrylling. Svo hafa góðir foreldrar auðvitað frætt þau um sálir, að líf er eftir þetta líf og um samhengi alls er.
Jesús sagði ekki að við ættum að ganga um og safna nammi, heldur væri hlutverk okkar að verða krydd veraldar og selta fyrir heiminn. Hann sagði ekki að við ættum setja ljósið okkar inn í grasker, heldur leyfa því að lýsa öðrum. Við erum eða megum vera ljósasól á fjalli og í góðu sambandi við orkubú veraldar.
Dagur látinna og dagur lífs Allra heilagra messa er merkilegur dagur, sem við notum til að minnast látinna, bera þau fram fyrir Guð í bæn, minnast alls sem gert hefur verið.
Hvernig þakkar þú og minnist þú? Bók vinar míns Á allra sálna messu hvetur til skapandi minningar um ástvini. Og leyfum minningum að hafa eflandi og styrkjandi áhrif á okkur og hvernig við lifum og tengjust öðrum. Við höfum áhrif, við mótum nýja kynslóð og skilum af okkur til framtíðar. Hver viljum við að verði ávöxtur lífs okkar?
Og notaðu stund í messunni í þessu hliði himinsins til að hugsa um hvað og hver hafði mest áhrif á þig til að gerði þig að þeirri mannsekju sem þú ert? Var það móðir þín eða faðir, afi eða amma? Hvert þeirra sem býr í himninum varð þér til hjálpar? Var eitthvert þeirra kunnáttusamur kúnstner sem efldi þig? Hver varð þér vitringur? Var eitthvert þeirra sem kenndi þér að spenna greipar og tala við Guð eins og vin? Var eitthvert þeirra sem varð þér hlýr faðmur, skjól og hálsakot sem þú áttir víst í flóknum heimi? Var einhver sem bjargaði þér í aðkrepptum aðstæðum eða hjálpaði þér þegar þú þarfnaðist þess? Dragðu upp í huganum myndir og leyfðu þér að þakka fyrir þau.
Og svo að þínu lífi nú. Dagur látinna er dagur lífs. Hver er lífsstefna þín? Yfir okkur er vakað með elskusemi sem veitir ljósi yfir tíma og birtu himins um eilífð. Trúir þú því? Á allra heilagra messu máttu þakka en líka stæla trú í núinu til að sál þín skýrist og helgi Jesú metti.
Amen.
Neskirkja, 3. Nóvember, 2013, allra heilagra messa.
Lexía: 5Mós 33.1-3 Þannig blessaði guðsmaðurinn Móse Ísraelsmenn áður en hann dó: Drottinn kom frá Sínaí, hann lýsti þeim frá Seír, ljómaði frá Paranfjöllum. Hann steig fram úr flokki þúsunda heilagra, á hægri hönd honum brann eldur lögmálsins. Þú sem elskar þjóðirnar, allir þeirra heilögu eru í hendi þinni. Þeir hafa fallið þér til fóta, rísa á fætur er þú skipar.
Pistill: Opb 7.13-17 Einn af öldungunum tók þá til máls og sagði við mig: „Hverjir eru þessir menn sem skrýddir eru hvítum skikkjum og hvaðan eru þeir komnir?“ Og ég sagði við hann: „Herra minn, þú veist það.“ Hann sagði við mig: „Þetta eru þeir sem komnir eru úr þrengingunni miklu og hafa hvítþvegið skikkjur sínar í blóði lambsins. Þess vegna eru þeir frammi fyrir hásæti Guðs og þjóna honum dag og nótt í musteri hans og sá sem í hásætinu situr mun búa hjá þeim. Þá mun hvorki hungra né þyrsta framar og eigi mun heldur sól brenna þá né nokkur breyskja vinna þeim mein. Því að lambið, sem er fyrir miðju hásætinu, mun vera hirðir þeirra og leiða þá til vatnslinda lífsins. Og Guð mun þerra hvert tár af augum þeirra.“
Guðspjall: Matt 5.13-16 Þér eruð salt jarðar. Ef saltið dofnar, með hverju á að selta það? Það er þá til einskis nýtt, menn fleygja því og troða undir fótum. Þér eruð ljós heimsins. Borg, sem á fjalli stendur, fær ekki dulist. Ekki kveikja menn heldur ljós og setja undir mæliker heldur á ljósastiku og þá lýsir það öllum í húsinu. Þannig lýsi ljós yðar meðal mannanna að þeir sjái góð verk yðar og vegsami föður yðar sem er á himnum.