Í gær fjömennti fólk af öllu höfuðborgarsvæðinu í miðborgina til þess að gleðjast yfir ástinni og ítreka þá almennu afstöðu að við skulum ekki skamma hvert annað fyrir það að elska og þrá. Það var gott. Ég gæti samt trúað því að við myndum flest skrifa undir þá staðhæfingu að við lifum á tímum mikils virðingarleysis fyrir almannahag ekki síst þegar horft er út fyrir landssteina. Síðustu vikur hefur heimsbyggðin orðið vitni að ójöfnum leik fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem palestínskur almenningur líður ofsóknir, skelfingu og dauða vegna viðbragða Ísraelsmanna við skæruhernaði sem virðist í hæpnu samræmi við tilefnið og þau sem fyrst og síðast líða er friðsamur almenningur. Nýlega var farþegavél skotin niður yfir Úkraínu og á þriðja hundrað almennir borgarar létu lífið. Síðustu daga hafa vígamenn í írak hrakið fólk á flótta og hótað lífi þúsunda sem stórveldin velja þó að reyna að hjálpa öfugt við það viðmót sem Palestínumenn fá. Og svo eftir nokkra daga eða vikur verða þessi málefni horfinu af sjónarsviðinu en önnur og nýrri ranglætismál tekin við.
Þeir tímar eru löngu liðnir að stríð séu háð á vígvöllum. Stríð eru háð ofan úr háloftum yfir íbúðabyggðir, skólalóðir og sjúkrahús og markmið þeirra er að rífa niður innviði samfélaga, ræna fólk sem flestu af því sem prýðir mannlífið. Þannig er það.
Á þessum ca. sjötíu árum sem liðið hafa frá lokum síðari heimstyrjaldar hefur hergagnaframleiðslan verið margföld borið saman við það sem mannkyn leggur til almennrar lýðheilsu eða menntunar. Og ef horft er til smærri aðila þá mun ofríkisiðnaðurinn vera einkar arðbær. Nýlega var frá því greint á Rúv að skæruhernaður sé víða orðinn að viðskiptakonsepti og skæruliðahópar munu reknir eins og hver önnur fyrirtæki sem taka að sér arðbær verkefni á sviði mannrána og hótana þar sem unnt er að knýja fram lausnargjald og mútur. Kona sem ég ræddi við nýlega og stundar rannsóknir á mansali í Bandaríkjunum tjáði mér að nú gefi eiturlyf ekki jafnan gróða í samanburði við mansalið, - Þú selur eiturskammtinn bara einu sinni, sagði hún, en þrælinn má margselja jafn vel sama daginn.
Já, þótt sitthvað í almennum viðhorfum okkar kunni að vera í átt til meiri víðsýni þá lítur ekki út fyrir að virðingarleysið fyrir lífi fólks öryggi þess og frelsi sé neitt að réna í veröldinni. Textar dagsins minna okkur á að virðingarleysið fyrir almannahag er ekki nýtt af nálinni og gagnið sem við höfum af því að lesa þessa texta er m.a. það að þar má finna innsæi í mannlegt eðli sem kemur okkur beint að efninu, kynnir okkur kjarna máls. Var það ekki Halldór Laxness sem sagði að það væri háttur Íslendingsins að þagna þegar komið væri að kjarna máls? - Okkur hættir til að trúa því að stríð séu óhjákvæmileg, að fólk muni alltaf hafa andstæða hagsmuni sem ekki verði útkljáðir nema með átökum. Við erum nefnilega svo vön því að horfa á smjörklípurnar, á yfirskin átakanna, í stað þess að sjá inntakið. Samvitund okkar er með einhvers konar áunna störu sem hefur varað býsna lengi og kemur fram í því að við mænum á allt sem er stórt, hraðskreitt og orkufrekt. Og þegar við stöndum frammi fyrir einhverju sem er stórt í sniðum þá hættir okkur til að falla í stafi og byrja að trúa á óhjákvæmileikann. Sé það bara nógu stórt, nógu hraðfleygt, nógu orkufrekt, sama hvað það heitir, þá finnst okkur að það muni eiga rétt á sér með tilvísun til einhvers óræðs óhjákvæmileika. Það verður virkjað á hálendinu, samsteypurnar munu eignast heiminn, stríð verða háð o.s.frv. af því að þetta er allt saman svo þungt og umfangsmikið, skriðþunginn er svo magnaður og orkufrekjan.
Ástæða þess að Jesús var tekinn af lífi var sú að hann bar ekki virðingu fyrir stærð, hraða og orkueyðslu heldur átti fólk virðingu hans. Þessar fölu, hægfara verur með stóru höfuðin sem tala og tala og nefna sig homo sapiens. Þessi auðsæranlega, forvitna og sístritandi tegund sem hefur dreift sér um hnöttinn og samið sig að ólíkustu aðstæðum allt frá söndum Sahara yfir á ísbreiður norðurheimskautsins, (svo vitnað sé óbeint í Sigurð Nordal) til hennar horfði Jesús frá Nasaret og leit á hverja persónu sem musteri, - ‘Guðsríki er innra með ykkur’, sagði hann. Já, Jesús leyfði sér þá firn að bera virðingu fyrir lífi og hagsmunum venjulegs fólks. Fyrir það var hann drepinn.
Varist falsspámenn, sagði hann, eins og við heyrðum í guðspjallinu áðan. Varist falsspámenn. Þeir koma til ykkar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Á tímum Jesú var þetta dauðasök rétt eins og það er í dag. Sá sem kemst að kjarna máls stendur í vegi fyrir framþróuninni. Sá sem sér aðalatriði skilur ekki leikinn, sér ekki tækifæri dagsins, er þvergirðingur á vegi hins óhjákvæmilega og er sakaður um að vera á móti rafmagninu eins og nú er í tísku að segja. Síkt fólk skilur ekki óhjákvæmileika framfara og þróunar. Þannig er það alltaf. Edward Snowden má óttast um líf sitt. Það vita allir. Í dag vitum við að Íraksstríðið sem við vorum gerð aðilar að og kostaði meira en hundarðþúsund mannslíf var háð á lognum forsendum. Er það ekki öllum ljóst? Í dag vitum við að fólk í ábyrgðarstöðum blekkti þjóðina hér um árið þegar bankarnir voru sama sem gefnir nokkrum mönnum og efnahagsbólan fór að þróast með öllum þeim afleiðingum sem það hafði fyrir almenning. Við vitum þetta, er það ekki? Varist falsspámenn. Segir Jesús, og orð hans eru jafn gild núna og á þeim degi sem þau féllu af vörum hans. Varist falsspámenn. Þeir koma til ykkar í sauðaklæðum en innra eru þeir gráðugir vargar. Ekkert hefur breyst.
Jú, það er að vísu sitthvað sem hefur breyst. Við höfum t.d. fengið aukna þekkingu og virkari fjölmiðlun. Og hin síðari ár höfum við fengið aðgengi að upplýsingum í gegn um alnetið. Við vitum t.d. af hlýnun jarðar. Við vitum að núna er sú þróun orðin af okkar völdum að lífríkið kveinkar sér, jöklar bráðna, haf hækkar, landrými minnkar, veður færast í aukana, uppskerubrestur verður tíðari með hungursneyð í ýmsum löndum og líkur á alls kyns spennu og átökum vex. Við vitum það. En við unum því samt ágætlega þegar allskyns framtíðarspámenn ganga fram og lýsa því hvernig Ísland geti fært sér breytingarnar í nyt, hvernig við getum hagnast á stöðunni þegar fari að skorta mat, vatn, orku og landrými. Hvernig við getum nýtt okkur breytingar á skipaleiðum í ljósi þess að íshettan yfir norðuskautinu bráðni!
Nei, kjarni máls er ekki möguleikinn á olíuhreinsunarstöðvum á Vestfjörðum með hækkandi atvinnustigi fyrir vestan eða arðbærir vatnsflutningar til suðlægari landa. Kjarni máls er sá að lífríki jarðar er í neyð af manna völdum. Kjarni máls er sá að náttúran engist og reynir að varpa af sér tegundinni homo sapiens af því að þessi tegund skilur ekki samhengi og er föst í sjálfshyggju. Kjarni máls er sá að auður og völd hafa aldrei safnast á færri hendur en nú og misskipting milli ríkra og fátækra magnast og við, vestrænn almenningur, unum þessu ágætlega á meðan við getum greitt af bílalánunum okkar. Textar Biblíunnar fjalla um aðalatriði, hjálpa okkur að skilja kjarna máls og sýna okkur að þótt vandamálin virðist ný þá eru orsakir þeirra löngu þekktar. Pistill dagsins úr Rómverjabréfinu fjallar um sjálfshyggjuna: „Þannig erum við, systkin, í skuld, ekki við eigin hyggju að við skyldum lúta henni því að ef þið gerið það munuð þið deyja. En ef þið látið anda Guðs deyða gjörðir sjálfshyggjunnar munuð þið lifa.”
Það er nefnilega það.
Og svo fer Páll að hjálpa lesendum sínum að koma auga á samhengi sitt, að fólk sjái að annað fólk er þarna líka rétt eins og það sjálft. Hann notar líkinguna af systkinahópi í einni fjölskyldu: „Allir sem leiðast af anda Guðs eru Guðs börn.” segir hann. „Þið hafið ekki fengið anda sem hneppir í þrældóm og leiðir aftur til hræðslu. Þið hafið fengið þann anda sem gerir mann að barni Guðs. Í þeim anda áköllum við: „Abba, faðir.“ Sjálfur andinn vitnar með anda okkar að við erum Guðs börn. En ef við erum börn erum við líka erfingjar og það erfingjar Guðs en samarfar Krists...” (Róm 8.12-17)
Þrældómur og hræðsla eru þá samkvæmt Páli einkenni sjálfshyggjunnar en vitundin um það að tilheyra öðrum, vera skuldbundin samferðarmönnum sínum og deila kjörum með öðrum má vera einkenni þeirra sem leiðast af anda Guðs með því að fólk byrjar að sjá sig í samhengi hvert við annað og við umhverfi sitt.
Einu sinni héldum við að ástarþrá samkynhneigðra væri skammarefni, en okkur tókst að opna augun fyrir víðara samhengi og núna samfagnar þjóðin því árlega af því að hún skynjar frelsi og aukið öryggi við breytinguna. Guðs orð vill sýna okkur að við erum ekki fyrsta heims eða þriðja heims, við erum ekki múslímar eða kristin, gay eða straight. Við erum fyrst og síðast fólk á samleið, systkini sem nærast af sama borði, anda að sér sama loftinu og deila að lokum sömu örlögum, sama arfi.
Já arfur okkar í þessum heimi er sameiginlegur öllum mönnum, örlög allra eru samtvinnuð og það er hluti af kristinni heimsmynd og mannskilningi að sjá það og skilgreina sig á samleið með öllu sem lifir. Það sem hins vegar gefur okkur grundvöll til að standa á sem trúað fólk og ljær okkur hugarhreysti og óttaleysi andspænis stærðinni, hraðanum og orkufrekjunni er sá veruleiki að við sjáum út fyrir þennan heim. Föðurland okkar er á himni og þaðan væntum við frelsarans Jesú og erum samarfar hans eins og Páll postuli orðar það. Veistu ekki að ég hef vald? spurði Pílatus í forundran þegar bandinginn Jesús stóð frammi fyrir honum. Veistu ekki að ég hef vald? og frammi fyrir honum stóð sá sem hefur allt vald á himni og jörðu. Í huga veraldarinnar er spurningin eðlileg en í eyrum hins trúaða er hún aumkunarverð því hann veit að veraldarvaldið er sýndarvald. Þegar spámennirnir tala skulum við því ekki hlusta á loforðin þeirra og við skulum ekki falla í stafi andspænis stærð verkefnanna þeirra, hraðanum sem þau bjóða upp á og orkunni sem þau heimta, við skulum fara að ráði lausnarans og rannsaka ávextina. Af ávöxtunum skuluð þið þekkja þá, sagði hann.
Textar: Jer 23.16-18, 20-21, Róm 8.12-17, Matt 7.15-23