„Hláturinn lengir lífið,“ því hefur löngum verið haldið fram og eflaust með réttu enda þótt vandasamt sé að rannsaka það og sanna svo að óyggjandi sé. Efnahagslægð og þrengingar gefa ekki tilefni til hláturs frekar en annað dapurlegt í tilverunni. Mikilvægt er þó að geta létt sér upp úr drunganum þegar færi gefast til. Vorið er á næsta leiti með hækkandi sól og vonandi fylgja því betri horfur í efnahags – og samfélagsmálum frá því sem verið hefur um skeið. Gáski og hlátur fjörga og létta brúnir líkt og fuglasöngur gerir hvenær sem heyrist og boðar von að vetri og komanda vor. Farfuglarnir eru snemma á ferð og trúa sem betur fer enn á landið og miðin.
Vel saminn og leikinn gamanleikur í efsta gír, farsanum, er með sínum hætti dýrmætur gleðigjafi og uppörvun, sem léttir sinni og glæðir von og trú á það að vert sé og jafnvel gaman að lifa. Fars(a)uppskriftin gefur lystuga útkomu, ef krydd og hluti efnisfanga eru tekin úr þekktum aðstæðum og umhverfi líðandi stunda. ,,Nei ráðherra” er slíkur farsi og fjörlega færður upp á stóra sviði Borgarleikhússins enda gert ráð fyrir mikilli aðsókn. Enski gamanleikjahöfundurinn Ray Cooney samdi hann fyrir meira en tveimur áratugum og smellin ensk sjónvarpsþáttaröð, sem margir minnast með hlátur í huga, bar áþekkt nafn. Afburðagóð staðfæring og heimfærsla Gísla Rúnars Jónssonar á efni og inntaki farsans inn í kjör og aðstæður íslensks samfélags valda því að hann gengur í endurnýjun lífdaga líkt og gömul flík sem góð saumakona eða fingralipur skraddari hefur gert upp og endurnýjað listilega. Samtöl og brandarar bera vönduðu ívafi og handbragði Gísla Rúnars vitni enda þótt uppistaðan sé höfundarins. Fjörleg tónlist Baggalúts og einkum uppistöðulagið, ,,Ónáðið ekki” smellpassar við efni og yfirbragð farsans.
Leiksviðið sýnir glæsilega svítu á Hótel Borg. Þaðan sést í gegnum volduga glugga yfir á Dómkirkjuna og Alþingishúsið. Sviðið teygir sig líkt og þangað, þar sem aðal sjónleikur íslensks samfélags er settur á svið dag frá degi. Örvar Gauti Scheving (Guðjón Davíð Karlsson) er þar einn aðalleikaranna sem ráðherra Samfylkingarinnar í ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur. Kvöldfundur, ef ekki beinlínis eldhúsdagsumræður, fer fram á háæruverðugu Alþingi. Örvar Gauti er á mælendaskránni, en ekki fyrr en líður á kvöldið. Hann hefur komið sér vel fyrir á Borginni og getur fylgst í útvarpi og sjónvarpi með því sem fram fer á þinginu.
Örvar hefur þó öðrum hnöppum að hneppa eða fremur að losa, því að hann ætlar að nota tímann vel, ekki til að klára ræðuna eins og hann segir í símann við Rannveigu eiginkonu sína og hvetur hana jafnframt til að kúra með hinum spennandi Arnaldi, (Indriðasyni) heldur til að gamna sér við Geirþrúði, Gógó, einkaritara Sigmundar Davíðs,formanns Framsóknarflokksins. Ráðherrann telur eflaust að athæfi þeirra hjóna sé mjög sambærilegt.
Gógó er girnileg á korsilettinu og Örvar er uppörvaður að taka af sér bindið og hneppa frá sér skyrtunni, þegar þau uppgötva sér til skelfingar, að lík af karlmanni (Þröstur Leó Gunnarsson) er í gluggakistunni, ekkert lífsmark er að minnsta kosti sýnilegt með honum. Þau Gógó gugna á því að tilkynna þessi ósköp enda dauðhrædd um að með því kæmist upp um þau, sem annars hefðu ekkert þurft að óttast. Örvar örvæntir þó ekki og grípur til þess ráðs að kalla á aðstoðar-og trúnaðarmann sinn Guðfinn Maack (Hilmar Guðjónsson) til að hann taki að sér nauðsynlega snúninga og reddingar. Guðfinnur er mömmustrákur og meinilla við að þurfa að fara frá mömmu sinni heilsulítilli en hlýðir samt. Í Guðfinni finnur Örvar þann bjargvætt (guð) sem leysir hann frá vanda og þrautum, en hefur þó sitthvað sér til ágætis annað svo sem fram kemur þegar ættarnafnið Maack snýst upp í Smokk. Líkið þarf að fjarlæga og fyrsta ráðið er að koma því fyrir í rúmgóðum fataskáp svítunnar og hentugast reynist að hengja það upp á snaga. Líkið slengist til og frá, er þeir félagarnir burðast með það.
Starfsmenn hótelsins mega ekki átta sig á því hvað gerst hefur. Mikið laumuspil upphefst við það að móttökustjórinn vinalegi (Bergur Þór Ingólfsson) og þjónninn lipri en peningagráðugi (Sigurður Sigurjónsson) og þernan pólska (Jóhanna Vigdís Arnardóttir) banka upp á og koma inn í svítuna til þjónustu reiðubúin en oftast á óhentugum augnablikum og misskilja aðstæður. Gógó neyðist til að fela sig í skápnum hjá líkinu og síðan aðrir líka. Panta þarf hjólastól fyrir það, spariklæðnað og hatt, svo að hægt sé með góðu móti að trilla því út úr hótelinu og koma því í burtu helst á afvikin stað í Rimahverfi.
Mikið óðagot og læti fylgja þeim ráðagjörðum. Fyrst hitnar þó í kolunum, þegar Atli Geir Hauksson eiginmaður Gógóar kemur á vettvang, öskuillur út í eljara sinn, sem sver af sér allar sakir þrátt fyrir að Atli hafi fengið traustar upplýsingar frá útsendara sínum er njósnað hefur um framhjáhaldið. Örvar bendir úrræðagóður sem fyrr á Guðfinn, kvennaflagarann mikla, sem hafi leigt herbergið á móti fyrir sig og Gógó ástkonu sína. Svalirnar sem ná á milli herbergja eru mikið notaðar til að komast fljótt og vel á milli þeirra enda þótt lyftanlegi glugginn á svítunni eigi það til að falla þegar síst skyldi með slæmum afleiðingum.
Þegar eiginkonan Rannveig og sjúkraliðinn Hlédís, sem hefur eftir bestu getu sinnt móður Guðfinns, birtast einnig í svítunni verður sjónarspilið algjör hringekja, er stöðugt eykur hraðann. Guðfinnur þarf nú auk líkflutningsins að sinna þeim. Og það óvænta gerist, að hann sem verið hefur ragur og uppburðarlítill til kvenna eflist að getu og sýnir sig að því að standa vel undir nafni sem sannur kvennaljómi. Þegar það máttarundur gerist einnig að líkið tekur að lifna við þótt minnið virðist tapað, verða úrræðin að vera enn þá skjótari. Atla Geir er sagt að sá í hjólastólnum sé íþróttaálfurinn sjálfur, Magnús Scheving, bróðir Örvars. Guðfinnur er gerður að lækni hans og kemst þá undan flagarahlutverkinu í bili að minnsta kosti. Fleiri viðlíka viðburðir verða áður en úr flækjunni leystist í þann mund sem forsætisráðherrann birtist skyndilega til að ná í ráðherrann sinn.
Farsinn gengur svo hratt og vel fyrir sig, er misskilningurinn verður stöðugt meiri og lygavefurinn flóknari, að alls ekki er hægt að hemja hláturinn og stöðva hann meðan á sýningunni stendur jafnvel þótt reynt sé að hafa gagnrýna fjarlægð á ósköpin og sýna sjálfstjórn.
Magnús Geir Þórðarson hinn frumlegi og framsækni leikhússtjóri Borgarleikhúsins er öruggur og fagmannlegur leikstjóri þessa fjöruga farsa. Hann hefur gott vald á áhöfn sinni og stýrir hraða og atburðarás af mikilli nákvæmni og taktvísi enda með reynda landsliðsmenn í gamanleik eða tilvonandi í hverju rúmi. Örvar Geir þeysist um sviðið eins og flinkasti dansari og örvar til dáða. Guðfinnur eflist við hverja raun og er mjög skýrmæltur, líka þegar mest gengur á. Líkið sýnir afburðafimi og er mjög kostulegt og Atli Geir karlmennskan uppmáluð í fyrirgangi sínum þar til kjarkleysið opinberast. Móttökustjórinn, þjónninn og þernan eru auðsveip og þjónustulipur með sínum ákveðnu sérkennum og einnig ráðagóð. Viðhaldið, eiginkonan og sjúkraliðinn eru aðlaðandi og liprar í snúningum og allar reynast tilkippilegar sé rétt að þeim farið. Meira að segja glugginn kemst vel frá sínum hlut. Farsinn er ýkt og öfgafullt leikform, og þótt ótrúlegt virðist á hann margt sameiginlegt með harmleiknum enda stutt öfganna á milli. Í harmleikjum Shakespeares setja fíflin upp farsakenndan látbragðsleik og gera dár að því sem gerist eða stendur til. Með því eina móti sem unnt er í þrúgandi aðstæðum, hnitmiðuðu glensinu, vara þau við vafasömum áformum og gjörðum. Fjöllista- og kabarettsýningar á valdatíma Hitlers í Þýskalandi einkenndust af gagnrýnu glensi og farsafjöri og voru ljós í heljarmyrkri.
Efnisþættir farsa og harmleiks eru oft áþekkir en er einfaldlega snúið á hvolf í mismunandi framsetningu. Framhjáhald, svik og lygar eru fyndin í farsa en oft mikil sorgarefni bæði í harmleikjum og veruleikanum. Frakkur stjórnmálamaður hvað þá ráðherra, sem hefur marga þræði í hendi sér og hagnýtir þá sér til hagsbóta og gamans, líka ritara helstu andstæðinganna, hentar vel í farsa. Eftir efnahagshrun blasir þó við á raunveruleikasviðinu að ósvífni og fífldirfska, sukk og svínarí fjármála- og viðskiptamanna, en líka ráðherra og ráðamanna eru allt annað en fyndin, þegar aðrir þurfa að gjalda fyrir og greiða reikninginn.
Röng viðbrögð við knýjandi aðstæðum, neyð og vanda með því að leyna þeim og fela, vegna þess að hætt er við að upp komist um sviksemi og blekkingar, geta sýnt sig í svítum og hótelherbergjum en einnig í bönkum og fjármálastofnunum og eins á Alþingi svo sem ljóslega hefur komið fram síðustu misserin. Með ágætum er hægt að setja saman eða endursemja bæði harmleiki og farsa sem skírskota til slíks hátternis og viðburða. Séu þeir vel settir á svið slá þeir í gegn og henta vel til þess að birta aðfinnsluvert háttalag í því ljósi að hægt sé að afbera það og skopast jafnvel að því og ná áttum eftir áföll og orra/örvahríð.
Dauður maður í gluggakistu í hótelherbergi er ekkert gamanmál í alvörunni en er það í farsa og nýtist vel til að koma hringekjunni í gang. Fatlaður maður í hjólastól hvað þá dauður er ekki aðhlátursefni í alvörunni en getur verið það á leiksviði, þegar kunnugt er að verið er að sprella.
Ekki er fyndið, verði fatlaður maður fyrir ökutæki hvað þá valtara, en það er mjög fyndið og spaugilegt í kveðlingi Megasar ,,Fatlafól”, því að hann fer svo gjörsamlega yfir viðmiðunarmörk og strik, að það er sem hann sé kominn í allt aðra vídd í frásögninni en blákaldur veruleikinn býður upp á:
,,Fatlafól, fatlafól/flakkandi um á tíu gíra spítthjólastól/ og varð að klessu –ojbara.... “ -kominn svo langt reyndar, að fatlaðir syngja iðulega þennan söng sér til uppörvunar og skemmtunar.
Góður og vel leikinn farsi getur veitt líkn og sálubót með því skapa fjarlægð frá veruleikanum margbrotna og oft tregafulla og sára. Hann gefur jafnframt sýn yfir viðburðasviðið í spéspegli og kost á því að hlæja að misfellum og brestum og hreinsa sinni af íþyngjandi áhrifum þeirra og létta huga. Farsinn ,,Nei ráðherra” í Borgarleikhúsinu nær þessu miði og flugi og er því vonar- og vorboði að sínu leyti líkt og vængjablak og glaðvær farfuglasöngur og bætir því lífið og jafnvel lengir það.
Stjörnugjöf ****
Gunnþór Þ. Ingason